laugardagur, 10. mars 2012

Það voru ýmsar hugsanirnar sem þutu í gegnum hausinn þegar ég las grein Brynhildar á Vísi um í gær. Ég hef alltaf haft mínar skoðanir á fordómum gagnvart feitum sem eru alveg hreint sláandi. Feitt fólk fær síður vinnu, fær verr borgað og þarf að greiða meira fyrir líf- og sjúkdómatryggingar fyrir utan að fá háðsglósur og leiðindi svona almennt frá samfélaginu. Og allt þetta er alveg forkastanlegt.

Nú hef ég sveiflast um í skoðunum mínum á þessu öllu saman. Að sjálfsögðu þykir mér ömurlegt til þess að hugsa að fólki sé mismunað á þeim forsendum einum að það séu fitubollur. Og ekkert þótti mér leiðinlegra en að heyra ljóta hluti sagða um útlit mitt þegar ég var feit. Enn verra var þegar mér var sagt að ég væri svo sæt og frábær, en ég gæti verið svo mikið frábærari ef ég myndi léttast aðeins. Allt þetta gerði mig forherta í því að hata mjótt fólk og vilja berjast fyrir rétti mínum til að vera feit óáreitt. En á sama tíma langaði mig ekkert meira en að vera mjó.

En málið er hvað sem öllum mannréttindum líður þá er óhollt að vera of feitur. Ég þarf ekki að telja upp hjartasjúkdóma, sykursýki, öndunarsjúkdóma, liðaveiki, krabbamein, svefnörðugleika og almenna likamlegan sársauka. Það sem ég hef svo líka fundið út meðörlitlum rannsóknum er sláandi. Krabbamein t.d greinist síður í offeitu fólki vegna þess að læknar og hjúkrunarfólk eiga erfiðara með að gera skoðanir á feitu fólki. Fitan felur kvillan betur. Ef hann svo finnst er mun erfiðara að gera skurðaðgerðir á feitum, bæði vegna aðgengis og fylgikvilla. Að auki er algengt að offeitir fá of lágan lyfjaskammt. Þetta er svo fyrir utan að offita er algeng ástæða fyrir rangri greiningu.

Læknar eru síður tilbúinir til að leyfa of feitum konum að fá aðgang að frjósemismeðferðum vegna þess að þær ganga verr á offeitum. Líffæraflutningar eru meira að segja haldið frá offeitum vegna þess að vandamál eftir aðgerðir eru mun meiri og flóknari en á grönnum sjúklingum.

Sjálf var ég mest leið á hvað mér var alltaf illt allstaðar. Ég var svakalega heilsuhraust, svona eins og Brynhildur, með lágt kólesteról, fínan blóðþrýsting og allt í fínu lagi. En mér var illt allstaðar. Þá er ég sérstaklega að hugsa um hnén. Ég var ekki þrítug og gat ekki labbað. Fyrir utan að vera með núin og nudduð læri þá var ég líka sveitt og másandi og átti erfitt með að halda í við fólk á göngu. Þetta var ömurlegt. Og ef ég reyni að setja mig í spor Brynhildar sem segist vera þrjátíu kílóum of þung, og hugsa tilbaka um fimmtán þá var ég enn með verki hér og þar þá. Sérstaklega í hnjám.

Kannski er ég bara svona ómerkileg manneskja. Ég gat nefnilega ekki annað en hugsað með öfund hvað hún ætti rosalega gott. Hún er í svo fínni vinnu og þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum. Kannski ef ég fengi vinnu sem ég hef áhuga á og hætti að vera andvaka allar nætur af áhyggjum af því hvernig í ósköpunum ég eigi að borga næsta reikning myndi ég komast á þetta stig sem ég þrái svo heitt; að vera sátt við mig eins og ég er. Mér þykir svakalega leiðinlegt ef þetta er málið, að ég setji verðmiða á sjálfa mig. Að fyrst ég sé blönk þurfi ég að bæta mér það upp með að vera mjó.Ég hélt nefnilega alltaf hingað til að ég hafi verið stolt af öllu sem ég hef gert í lífinu. Ég hef greinilega ekki gert nóg fyrst mér finnst leiðinlegt að eiga svona lítinn pening.  Hitt er svo að hluti af mér, feiti hlutinn, hreinlega trúir Brynhildi ekki. Feiti hlutinn af mér segir hana ljúga. Að það sé EKKERT sem er í lagi við að vera þrjátíu kílóum of þung og mér er skítsama hversu heilsuhraust hún segist vera. En það er bara langþjáð fitubollan í mér sem hugsar svona ljótar hugsanir. Að mestu leyti öfunda ég hana bara að vera komin á stað í heilanum þar sem hún er í alvörunni sátt við að vera feit. Það er staðurinn sem ég vil vera á.

En ég er líka örlítið uggandi yfir greininni. Ég held nefnilega að fullt af fólki (í þessum skrifuðu orðum hafa 3313 manns "líkað" greinin) lesi greinina og hugsi með sér að það sé bara fínt að vera feitur. Að það séu lágmarks mannréttindi að fá að troða sig út af súkkulaði, hammara og kók. Að það sé bara vont fólk sem heimtar að við séum öll eins, að við séum öll mjó. Að þessi endalausa umræða um spik og fitu og spelt og agave og blóðsykur og fartlek sé orðin svo leiðinleg. Og ég get ekki að því gert að að hugsa að þessu leyti sé greinin óábyrg. Því þó Brynhildur kenni sér einskis mein er ekki alveg jafnvíst að allt hitt feita fólkið sé jafn heilsuhraust. Og að það lesi svo grein sem segir að það sé í lagi að vera of feitur. Og það heldur svo áfram að éta McJónas og Snickers.

Ég dáist að Brynhildi. Mér finnst æðislegt að hún sé svona hamingjusöm. Að hún hafi fundið sinn verðleika án þess að þurfa að miða hann við kílóafjölda. Það er engin spurning um að það er allt of mikið af (kven)fólki sem setur samasem merki á milli þess að vera mjór og að vera hamingjusamur. Og mér finnst greinin frábær með mannréttindi í huga. En ég verð líka að segja að þegar ég segi frá minni eigin reynslu þá er ég hamingjusamari núna en þegar ég var þrjátíu kílóum þyngri. Samt var ég í betri vinnu þá og hafði engar áhyggjur af peningum. Ég efaðist líka aldrei um eigin verðleika, hversu feit sem ég var. Mér var bara alltaf illt allstaðar. Þannig að mér finnst bara að það hefði átt að fylgja með greininni svona viðvörun sem segir að engu að síður þá sé það ekki hollt svona almennt að vera of feitur.


5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

mmm... sem næstum fyrrverandi feitabolla sjálf (er búin að léttast um 30 kg og á 5 eftir í kjörþyng - en er samt enn feit í hausnum ;/ ) þá get ég ekki annað en hugsað að hún sé hreinlega að ljúga, að sjálfri sér og þá öðrum í leiðinni - því hún sé búin að gefast upp á að reyna að grenna sig.

Eða hvað?

kv. Þórdís

Nafnlaus sagði...

Sæl Svava.

Ég er mikill aðdáandi síðunnar þinnar og finnst þú frábær fyrirmynd. Ég er ein af þeim sem er 30kg of feit (eða jafnvel meira!) og ég lækaði greinina hennar Brynhildar.
Ég geri mér samt alveg grein fyrir því að það er ekkert hollt að vera of feitur og það kemur að því að heilsunni eigi eftir að hraka vegna þess að ég er að leggja rosalega mikið á líkamann minn.
Ég lækaði ekki greinina vegna þess að núna sé loksins einhver búin að setja það á prent að það sé í lagi að vera feitur og ég geti bara hlammað mér í sófann með köku í annari og kók í hinni. ALLS EKKI!

Frekar fannst mér greinin hvetjandi til þess að gera eitthvað í mínum málum. Finna mér hreyfingu sem MIG langar að stunda, sem bætir kannski heilsuna en er ekki endilega eitthver kúr eða átak.

Mér hefur ekki gengið vel að létta mig, kannski vegna þess að ég hef alltaf ætlað mér allt of mikið til þess að byrja með.

En fyrst og fremst fannst mér boðskapur Brynhildar vera að við ættum að vera ánægð með okkur, fá okkur bita og njóta þess í staðinn fyrir að vera alltaf með samviskubit.

Núna ætla ég að einbeita mér fyrst og fremst að því að vera hamingjusöm -og ein af betri leiðum til þess að vera hamingjusamur er að vera heilbrigður, fá reglulega endorfín og vítamínkikk, sama hvaða stærð maður er í.

(Fyrir utan hvað það er gaman að lesa bara EINA svona grein á móti öllum þúsundum greina sem segja að maður eigi að vera svona eða hinsegin, borða þetta en alls ekki hitt, þetta er rétta æfingin en hin er ömurleg ect.)

Aðdáendakveðja, Anna

murta sagði...

Jamm Þórdís, ég er kannski hrokafull, en þetta var það fyrsta sem mér datt í hug.

Elsku Anna, takk fyrir að líta við og gangi þér vel að finna það sem virkar fyrir þig :)En ég las bara út úr greininni að það sé bara tvennt í boði; að borða megrunarsjeik, vera óhamingjusamur og mjór, eða sætta sig við að vera feitur og fallegur vera hamingjusöm. Sætta sig við. Hmm... ég vil ekki sætta mig við neitt sko. Það er nefnilega til millivegur þarna á, það er hægt að borða aðeins minna, hreyfa sig aðeins meira, og vera hamingjusamur á meðan.

En það er alveg rétt hjá þér að það er allt of mikið hype í fjölmiðlum um hvað maður á og á ekki að gera. Endalaust alveg hreint.

Inga Lilý sagði...

Ég las einmitt greinina með sömu efasemdargleraugum og þú. Þegar ég var 30 kg of þung, þá var ég enn móð að hlaupa yfir götu til að ná grænu ljósi, ekkert of dugleg að leika með krökkunum mínum og allt var áreynsla. Mér leið ekki vel í eigin kroppi og óskaði þess að líta betur út. Samt var ég öll góð að innan (blóðþr, blóðfita, blóðsykur osfrv).

Ég hefði aldrei getað verið sátt í þeirri þyngd. Núna þegar ég er ca 5-6 kg of þung þá er ég að endurskoða takmarkið og hvort ég eigi bara að sætta mig við þessa þyngd því þetta virðist vera eitthvað sem skrokkurinn er sáttur við og heldur í með öllum lífs og sálarkröftum. En ég er ekki 30 kg of þung lengur (og heldur ekki 43 kg of þung) og ég ætla mér aldrei að verða það aftur.

Verð bara að segja að ég á erfitt með að trúa þessu en vissulega er fínt að fá grein öðru hvoru sem fjallar ekki um að borða lítið,hreyfa sig og steypa alla í sama mótið (ef ég heyri enn einu sinni að maður nái engum árangri nema að lyfta þungt þá bilast ég)

Nafnlaus sagði...

Held ég verði að vera 100% sammála einkaþjálfanum mínum þarna. Eða eins og hann segir :
"Ég hreinlega kaupi ekki hugmyndina "vera sátt í eigin líkama" og svo getur viðkomandi hugsanlega ekki dregið barnið sitt á snjóþotu. Fyrir mér passar það hreinlega ekki. Hvort viðkomandi sé 60-70 eða 90 kg kvennmaður skiptir ekki höfuðmáli. Spyrjum frekar *er viðkomandi sífellt með verki t.d. í liðamótum eða vöðvabólgu? *Á viðkomandi erfitt með að sinna daglegum störfum? * er viðkomandi með of háan blóðþrýsting, sykursýki 2 eða annan lífstílssjúkdóm? *er heilsufarið að útiloka viðkomandi félagslega (skammast sín t.d).

Þetta eru hlutir sem eiga að vera í lagi. Fólk á ekki að verkja allan daginn, það á ekki að vera andstutt að labba upp stiga, það á ekki að lenda í erfiðleikum með einfalda hluti í daglegu lífi og það á að geta umgengist annað fólk og liðið vel."

(Getið kíkt á bætingaráð bergs á facebook til að skoða þetta betur).

Ég veit sjálf að mér líður ekki vel í eigin skinni. En ég dáist að fólki sem er sátt við sig og sitt, sama hvaða kílóatalan segir. Hvort það er svo sjálfsblekking hjá viðkomandi eður ei tel ég það ekki vera mitt að dæma það =)

kv. Ásta
http://barattan.wordpress.com