miðvikudagur, 14. mars 2012

Þvílík og önnur eins hamingja. Ég pakkaði hlaupagallanum í morgun af því að ég hafði hug á að fara aftur Wrexham-Rhos leiðina. En þegar vinnu var lokið og ég komin í gallann bara gat ég ekki hugsað mér að fara í strætó og bíða eftir að hlaupa. Sólin glampaði á síkinu, fólk tifaði um allstaðar og borgin öll víbraði af vori og lífi. Ég ákvað á stundinni að hlaupa í gegnum Chester og sjá svo bara til hversu langt ég kæmist. Og mikið rosalega var þetta skemmtilegt. Alveg ný leið, allt nýtt að sjá, smá útúrdúr og ég komst alla leið að hringtorginu þar sem maður velur um Manchester, Chester eða Wrexham. Greip strætó þar og sat svo skælbrosandi og rennandi sveitt í gegnum Rossett og Gresford og hálfa leiðina til Rhos þar sem ég ákvað að hlaupa síðasta kílómetrann heim til að ná síðustu geislum sólarinnar. Allt stress dagsins lekur úr manni. Það jafnast bara nánast ekkert á við gott hlaup. Kannski er það merkilegra fyrir mig að geta gert svonalagað en fólk sem alltaf hefur getað notað líkama sinn til svona hreystiverka. Ég er alltaf jafn hoppandi glöð þegar ég geri eitthvað sem kemur mér á óvart. Mér varð hugsað út frá því um hugmyndafræðina sem heitir Healthy at Every Size og Fat Acceptance. Hér er hugmyndin sú að maður hætti að hatast við sjálfan sig og líkama sinn, hætti þessum jó jó megrunarkúrum, hætti þessi endalausa niðurrifi og umfaðmi sjálfan sig og líkamann eins og hann er. Í HEAS er ekki verið að tala um að "gefast upp" heldur er hugmyndin frekar að maður heiðri líkama sinn með líkamsrækt sem manni finnst skemmtileg og borði mat sem nærir og gefur vellíðan. Fat Acceptance virðist vera meira að því lútandi að sættast við að maður sé feitur og byrja að elska líkama sinn í sínu feita formi. Mér finnst í öllum þeim greinum sem ég hef lesið um þetta að skilaboðin séu að þau okkar sem erum að reyna að verða heilbrigðari og jafnvel grennast séum að því vegna þess að við hötumst við likama okkar. Ég hata ekki líkama minn - það virðast vera skilaboðin frá HAES fólki, að það að vilja grennast þýði að ég sé óhamingjusöm af því að ég hata sjálfa mig og að ég þurfi að læra að elska líkama minn með öllum sínum bugðum og sveigjum og hrukkum og krukkum. En ég elska likama minn. Hann er lifandi sönnun hversu ótrúlegur mannslíkaminn er. Ég gat misboðið honum árum saman og hann er samt núna sterkur og fallegur. Ég er rosalega sæt. Ég elska sjálfa mig og líkama minn.

En það þýðir ekki að ég sjái ekki að ég geti gert betur. Að vilja verða hraustari og fljótari að hlaupa er ekki talið vera merki um óhamingju og sjálfshatur hjá íþróttamanni. Af hverju þarf það að þýða að ég sé haldin sjálfshatri?

Engin ummæli: