sunnudagur, 6. maí 2012

Ég hljóp 7 km í gærmorgun. Ekki í frásögur færandi en hlaupið varð til þess að ég sá hluta af vandamálinu sem ég stend frammi fyrir akkúrat núna. Ég hljóp þessa 7 km á réttum 50 mínútum. Snemma morguns og enn var örlítið morgunkul í lofti en hlýnaði skart á meðan ég hljóp enda glampandi sólskin. Ég var í stuttbuxum en frekar þykkri flíspeysu að ofan. Þegar ég kom á áfangastað í Wrexham var ég aðeins sveitt en ekki andstutt og leið bara vel. Tók meira að segja síðustu hundrað metrana á spretti. Og átti enn bensín í tanknum.

Ég rölti um og fékk mér kaffibolla og las morgunblaðið á Café Nero á meðan ég beið eftir að Marks og Sparks opnaði. Og þar sem ég sat og sötraði lattebollann varð mér hugsað þrjú ár aftur í tímann. Og ég man ekki betur en að ég hafi þá lagt heilmikið á mig til að ná árangrinu sem ég er svo stolt af. Ég byrjaði að hreyfa mig. Og í hvert sinn sem ég gerði eitthvað þá lét ég það skipta máli. Ég svitnaði, ég var eins og plóma á litinn í framan, ég svitnaði, ég varð andstutt. Og í hvert sinn sem ég fann að ég svitnaði minna, eða varð bara eins og humar eða náði andanum þá jók ég ákefðina næst. Á sama tíma og ég kom hreyfingunni þannig fyrir í lífinu að það var jafn sjálfsagt að fara út að hlaupa og að bursta tennurnar þá passaði ég líka stanslaust að vera með sjálfa mig fyrir utan þægindasvæðið, ég var stanslaust að þröngva sjálfri mér út í smávegis óþægindi.

Sama var með mataræðið. Þó svo að ég hafi fundið allskonar hollan, ljúffengan mat til að borða, þó ég hafi fundið gífurlega ánægju við að hanna uppskriftir og stússast í matargerð á ókunnugum heilsusamlegum hráefnum, þá var ég líka stanslaust með sjálfa mig fyrir utan þægindasvæðið. Ég minnkaði skammtana mína um helming. Og það tók á að borða helmingi minna en ég var vön. Ég hætti að borða sælgæti, kökur og kruðerí að mestu leyti til. Og það var erfitt. Ég man eftir að hafa stikað um, kreppt hnefana og stundum þurfti ég að halda fast í eitthvert húsgagn til að ég myndi ekki standa upp og hlaupa út í Co-Op til að kaupa snickers. Ég þurfti að taka á því.

Ég á 20 kíló eftir í kjörþyngd. Ég er allavega 5 kílóum yfir þyngdinni sem leyfir mér að hreyfa mig óhindrað. Ég skil þessvegna ekki alveg hversvegna ég hélt að ég væri komin á það stig að geta leyft sjálfri mér að fá mér croissant í morgunmat. Þetta var það sem ég fattaði þegar ég hljóp. Ég var ekkert að reyna á mig. Þetta var bara næs og þægilegt. Og algerlega tilgangslaust til að ná tilgangum sem er að geta hlaupið hraðar. Og það sama gildir um mataræðið. Það er næs og þægilegt. Ég borða það sem mig langar í, ég borða stundum allt of mikið, mikið af tíma mínum fer enn í að halda mig innan réttra hitaeiningamarka. Ég eyði löngum stundum í að útskýra fyrir sjálfri mér að "svona borðar venjulegt fólk, það fær sér það sem því langar í þegar það er svangt." Þetta allt saman er fine and dandy. Þegar ég er ORÐIN 71 kíló. Þetta er ekki fine and dandy á meðan ég er enn svona langt frá markmiði. Ég er ekki venjulegt fólk. Mér gæti ekki verið meira sama um hvað við rembumst við að kalla þetta lífstíl. Að lokum þá er alltaf nauðsynlegt að vera að miklu leyti fyrir utan þægindasvæðið, maður þarf að verða sveittur og rauður í framan og sum kvöld, sum kvöld þarf maður að vera smá svangur og í fýlu af því að maður ætlar ekki að borða neitt fokkings snickers. Það er sjálfsagt að reyna að gera þetta eins skemmtilegt og mögulegt er. Að sjálfsögðu. Lífstíll eða megrun þetta eru samt breytingar. Og breytingar þýða líka oftast smávegis átök. Og ég hef ekki verið að taka á því núna í rúmt ár.

Mig langar til að segja eitthvað epískt eins og "og nú skal tekið á því!" eða "nú skal dansinn hefja!" eða "hífa!!". En ég þori því ekki. Ég er hætt að treysta sjálfri mér. Ég ætla samt að gefa mér sjéns. Og krosslegg fingur um leið og ég hnykla linann sjálfsstjórnarvöðvann. Geri ráð fyrir harðsperrum á morgun.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eftir að hafa fylgst með þér og þínum lífstílsbreytingum, sjá hvað þú hefur afrekað marga sigra, haldið áfram í stað þess að gefast upp (sem alltof mörg okkar gera) þá er bara ekki leyfilegt að segja þetta :
"...Og breytingar þýða líka oftast smávegis átök. Og ég hef ekki verið að taka á því núna í rúmt ár."

Ég skil þó hvað þú ert að fara en mundu að horfa á sigrana. Það að hlaupin virðast áreynsluminni þýðir ekki að þú hafir ekki tekið á því sl. ár. Það er frekar að þú hefur náð því að geta hlaupið lengra eða hraðar útaf dugnaði sl. ár!

Vildi bara gefa þér smá svona klapp á bakið því mér finnst þú ótrúlega dugleg! Áfram svo ;)

Kveðja, Sigurrós

murta sagði...

Þakka þér fyrir Sigurrós. Ég held bara að ég hafi klappað mér of mikið á bakið fyrir alla sigrana og ég sé núna að lifa á fornri frægð. Ég get ekki endalaust sagt að ég hafi lést um 40 kíló og horft svo bara máttleysislega á þau koma aftur. Og það er það sem er að gerast núna. Ég, eins og þú segir, gefst nefnilega ekki upp. Og það er það sem ég er stoltust af :)

Nafnlaus sagði...

Já, mátt vera það og ég er alveg fullviss um að þú náir markmiðinu þínu :)
En vissulega krefst aðhalds út til enda :)
Ég er sjálf með markmið og ætla mér einn daginn að ná því, langt í land en þetta kemur allt með kalda vatninu ;)

Kv.Sigurrós

Nafnlaus sagði...

Mikið ertu skynsöm. Nú vil ég sjá þessi 5 kíló í burtu! Þú gast það einu sinni, (mörgum sinnum reyndar) og þú getur það aftur! Koma svo kona :)

Baráttukveðjur
Hólmfríður (dyggur lesandi)