laugardagur, 22. september 2012

Lúkas er í matarboði í hádeginu og ég og Dave aftur á leið á völlinn. Dave spyr mig hvort ég vilji ekki koma með honum og bætir svo við; "my treat". Já, hann kann svo sannarlega að "treat a lady!" Ég ákvað að prófa aðra einfalda Hugh F-W uppskrift, svona af því að það er laugardagur og við á leið á völlinn og ein heima. Mér fannst þurfa að setja smá kúltúr á borðið svona til að vega upp á móti skrílslátunum (í mér) á fótbolta vellinum.

Tagliatelle aglio e olio og smá salat.

Mér fannst eins og að ég þyrfti eitthvað meira en bara pastað, og bjó til salat úr afgöngum sem reyndist svo vera grískt salat þannig að ég borðaði það í forrétt. Ég var þessvegna orðin pakksödd þegar kom að pastanu og gat bara borðað smávegis af því. En maður lærir sína lexíu, næst man ég bara að hætta að vera svona gráðug.

Magn er gefið upp per manneskju

70-100 g pasta
1 hvítlauksgeiri
2 mtsk góð ólívuolía
salt og pipar

Sjóða pasta skv leiðbeiningum þar til al dente. Sneiða hvítlaukinn í þunnar sneiðar og ita olíuna við vægan hita. Setja hvítlaukinn út í olíuna og rétt gylla í 30 sekúndur eða svo. Renna vatninu af pastanu og setja svo hvítlauksolíuna út í pastað og blanda vel þannig að allt verði þakið í gullinni olíunni. Salta og pipra vel með nýmuldum svörtum pipar. Það má svo setja smávegis parmesan eða gruyer eða annan harðan ost út á og kannski smá ferska steinselju. Svarti piparinn er algjört möst og má ekki sleppa.


Engin ummæli: