sunnudagur, 10. febrúar 2013

Dyggir blogglesendur eru eflaust farnir að velta fyrir sér hvort ég sé enn þunn. Og þeir hafa að vissu leyti rétt fyrir sér, ég eyddi síðust viku í óskaplegt þunnildi. Fór í vinnuna, kom heim, horfði á sjónvarp, svaf og þess á milli las ég fjórar skáldsögur. Eyddi hinsvegar engum tíma í að velta fyrir mér spiki. Lét það bara alveg vera. Hugsaði ekki um það einu sinni. Og þegar ég steig á vigtina í morgun var ég búin að þyngjast um eitt og hálft kíló. Sem er sérstaklega skemmtileg áminning um að ég er ekki enn hæf til að taka augun af markmiðinu. Ég þarf að vera með allavega 90% heilans fókusuð á spik ef ég ætla að bara viðhalda núverandi þyngd, hvað þá að léttast. Góð áminning.

Breskar á kökufati, sú íslenska fremst á diski. 

Þegar ég flutti til Wales fyrir rétt tæpum 10 árum síðan var ég haldin gífurlegum ranghugmyndum um Ísland. Og sérstaklega þá um ýmislegt sem ég hélt að væri íslenskt. Sagan af Nínu og Geira til dæmis. Það er bara alls ekki íslenskt lag heldur Ammrískt. Og vatnsdeigsbollur. Þær heita profiteroles hér og eru bara enn eitt kruðeríið. Ég veit reyndar ekki hversvegna í ósköpunum ég hélt að bollur væru íslenskar, þegar ég hugsaði um það þá eru þær einmitt sérlega óíslenskar en svona er þetta bara. Maður er svo lítill heimsborgari. Ég ákvað í ár að nota gömlu uppskriftina mína en prófa líka að nota uppskrift frá Mary Berry af Great British Bake off frægð.  Sjá hvort það væri munur. Efnin þau sömu, hveiti, vatn og smjör ásamt eggjum en bretinn notar líka salt og sykur, en íslenska uppskriftin segir örlítið lyftiduft. Og hlutföllin öll önnur. Breska uppskriftin mun blautari og erfiðari að móta en kemur fallegri út úr ofninum. En þar er yfirburðir þeirra bresku uppurnir. Að öllu öðru leyti er íslenska uppskriftin betri. Meira bragð, betri áferð, meiri fylling. Allt. Þannig að ég ætla að halda áfram að kalla bolludag íslenskan og bollurnar eins íslenskar og hrossabjúgu.

Ég fæ ekki saltkjöt í ár frekar en þau síðustu tíu. Ég get búið til baunasúpu og geri það vanalega. Og á þriðjudag er hér Shrove Tuesday þegar bretar nota upp sín egg og hveiti í undirbúing fyrir páskaföstuna í pönnukökur. Sem var annað sjokk. Bretar gera nefnilega örþunnar "íslenskar" pönnukökur. Og þeir gera það án þess að nota pönnukökupönnu. Þeir bjóða reyndar upp á þær með sykri og sítrónusafa sem ég get ekki vanist. Ég efast reyndar um að ég bjóði Bretunum mínum upp á pönnukökur í ár, bollurnar eru nóg. Og svo er ég að spá í að taka á mig yfirskin trúaranda og nota páskaföstuna til að koma einbeitningu aftur að. Það eru nefnilega ekki bara tvö kíló í boði núna heldur þrjú og hálft. Og það er bara ekki jafn flott slagorð.

2 ummæli:

Hanna sagði...

3,5 verdur pís of keik, sem er einmitt alveg alislenskt ordatiltæki - eda svona her um bil ;)
Risaknus a tig
H

murta sagði...

Það held ég nú! smúss