föstudagur, 7. febrúar 2014

Það gengur rosalega vel hjá mér. Svo vel að ég er farin að hafa smávegis áhyggjur. Ég byrjaði bara að æfa, vakna fyrir fimm, lyfti og hjóla. Ekkert mál. Eins og ekkert hafi í skorist. Ég bý til matarplan, vigta og mæli í það, geri tilbúið á kvöldin og borða svo tilsett yfir daginn. Eins og ekkert hafi í skorist. Ég fór í smá flækju um helgina en það var kannski líka bara eðlilegt. Ég fór til Birmingham að hitta Ástu og ég hugsa að það sé litið óvanalegt við að maður fái sér aðeins út af plani viðsvoleiðis tilefni.

Eins og ekkert hafi í skorist. Eins og þetta ár þar sem ég reyndi við sykurleysi, kolvetnaleysi, hreyfingarleysi og tilraunir til að borða af innsæji hafi bara aldrei gerst. Árið sem ég þyngdist um tuttugu kíló.

Það eina sem eftir situr er þetta að langa til að vera sáttari við sjálfa mig. (Fyrir utan spikið auðvitað) Það er svo flókið og erfitt að útskýra hvað ég á við þegar ég segi sátt við sjálfa mig. Ég er ekkert að berjast við neitt niðurrif. Mér finnst ég voðalega fín. En á meðan að mér er svona illt í hnjánum verð ég að viðurkenna að ég er aðeins pirruð út í sjálfa mig. Ég vildi að ég gæti bara verið hraust og feit og sátt. Svona eins og þessi til dæmis. Hún er æðisleg. En ég get það ekki. Ekki á meðan að mér er illt. Ég er þessvegna að reyna að koma inn nýju markmiði hjá mér. Gleyma bara gömlu töfratölunni, buxnastærðinni eða hvað það nú var sem ég er alltaf að eltast við. Sársaukaleysi er núna það sem ég miða við.

Tvö afvelta

Engin ummæli: