þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Ég elskaði að vera þessi manneskja. Þessi manneskja sem vaknar klukkan tíu mínútur í fimm á morgnana til að lyfta eða hlaupa. Þessi manneskja sem gerði nesti fyrir vikuna og fann upp hollar uppskriftir. Þessi manneskja sem var hraust og sterk og í stuði. Ég elskaði að vera þessi manneskja.

Ég var minnt á hvað ég var ánægð með að vera sú manneskja í síðustu viku þegar ég vaknaði rúmlega fjögur til að æfa. Það var erfitt að vakna en það var eitthvað inni í mér, einhver gömul tilfinning sem ég mundi eftir sem sagði mér hversu gott mér finnst í alvörunni að vakna snemma og æfa. Hversu mikil vellíðan fylgir því að borða vel og afþakka kexið.

Mér finnst ekki eins og þetta sé alveg sjálfgefið í þetta sinnið. Það er eitthvað júskað við mig núna, ég er ekki alveg jafn bjarteyg og jákvæð og ég var áður. En ég er líka smá saman að sogast inn í velgengnishringrásina. Það er þegar maður gerir eitthvað eitt rétt og gott og það leiðir af sér fleiri betri ákvarðanir og gjörðir sem svo leiða af sér fleiri og fleiri. Svona eins og þegar maður vaknar snemma og æfir og fær sér þá góðan morgunmat af því að maður er búin að æfa og vill ekki skemma það og svo fær maður sér göngutúr til að viðhalda velgengninni og svo þar fram eftir götunum.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér, það þarf að viðhalda velgengnishringrásinni en það verður líka alltaf auðveldara og auðveldara.

Sér í lagi þegar ég hugsa til þess að ég er þessi manneskja.

2 ummæli:

Shauna sagði...

you are indeed that person! keep going lovely lass :)

murta sagði...

Thanks Shauna :)