laugardagur, 1. febrúar 2014

Ekki veit ég hversu oft á á að læra þessa lexíu en enn einu sinni kemur hún; planlaus ertu glórulaus kona.

Ég fór nestislaus í vinnuna á föstudaginn. Hafði bara skipulagt matseðil fram á fimmtudag og vegna álags í vinnunni (ég er aftur að taka við nýju teymi og þarf að setja allt upp frá byrjunarreit) var ég komin í ákvarðanatökuþrot. Það er alvituð vísindaleg staðreynd að mannsheilinn þolir bara visst magn af ákvörðunum yfir daginn. Þannig er það að þegar maður er undir miklu álagi í vinnunni nú þá er ekki líka hægt að taka góðar ákvarðanir hvað mat varðar og heilinn leitar eftir auðveldum, einföldum ánægjugjafa. Hjá fitubollum er það súkkulaði, snakk, kökur og annað slikkerí. Þegar klukkan var að verða fimm var ég búin að vera við skrifborðið mitt í tæpa níu klukkutíma, leysa þrjú stór vandamál, hlusta á viðskiptavin hóta sjálfsvígi og setja upp sex mismunandi stórar spreadsheets. Og án þess að fá neitt að borða. Ég bara gat ekki meira og fór og keypti mér salthnetur og kók. Ef ég hefði verið búin að skipuleggja mig hefði ég ekki þurft að taka neinar ákvarðanir aðrar en þær sem að vinnunni lutu, ég hefði bara verið með gott nesti með mér og hollusta hefði verið sjálfsagt mál án nokkurrar ákvarðana eða erfiðleika. Gott væri ef hefði verið.

Þegar heim var svo komið var ég úrvinda og gat hvorki upp hugsað neitt að elda hvað þá að ég hefði orku til að elda það. Langaði bara í gott, gott, gott djúpsteikt í núll prósent áreynslu. Labbaði út í Co-op og keypti beikon og fékk mér beikon samloku í kvöldmat og skolaði niður með einu twix.

Algjör mínus.

En. Í plús fer að ég fór ekki út í chippie til að kaupa franskar til að borða með beikoninu eins og mér datt í hug og hinn plúsinn er að um leið og twixið var búið bjó ég til vikumatseðil og pantaði heimsendingu frá Asda. Ég læt ekki grípa mig sofandi á verðinum aftur.

Engin ummæli: