sunnudagur, 20. desember 2015

Af fitusöfnun á aðventu

Enn mjatlast þetta niður á við og ég heldur betur sátt að renna inn i aðventuna. Hún hefur verið ljúf og góð, og kom alveg þó ég hafi ekki borðað neinar smákökur, eða pissuköku eða makkintoss. Ég er hinsvegar búin að fá mér Nóakropp og panetone og allskonar annað fínt fínerí. Ég tel enn hitaeiningar og hef í hyggju að gera það fram á aðfangadag. En ég er nú líka alveg á því að jólin eru bara einu sinni á ári og að það er ekkert að því að njóta á meðan stendur. Það er bara óþarfi að draga veisluna út allan desember mánuð. Ég flissa þessvegna líka aðeins þegar ég fæ uppástungur á FB um greinar til að lesa sem gefa manni "10 ráð til að forðast fitusöfnun yfir hátíðarnar!!" Ég sé fyrir mér td gamalkunna ráðið að borða afganga standandi með ísskápinn opinn. Allir vita að standandi afgangar eru hitaeiningalausir. Nú eða matur sem er skorinn til að "snyrta". Þannig er ef maður er að borða köku og sker í hana til að hún sé symmetrísk. Snyrtu bitarnir eru að sjálfsögðu hitaeiningalausir. Sama gildir um mat sem er borðaður í boðum, og mat sem maður borðar uppi í sófa og konfekt sem hefur verið gefið í gjöf. Svo er líka mjög sniðugt að drekka eitt vatnsglas yfir daginn. Það hreinsar mann út, virkar með andoxunarefnunum í súkkulaðinu og veitir fullvissu um að maður sé enn á heilsubrautinni. Ég meina! Vatn!!
Ef maður vill hinsvegar vera drulluleiðinlegur þá er líka hægt að borða bara þær hitaeiningar sem viðhalda líkamsþyngd. Oftar en ekki eru það færri hitaeiningar en það sem flestir borða yfir hátíðarnar og nokkur fitusöfnun eiginlega þessvegna nokkuð gefin staðreynd. Þetta eru ekki nein geimvísindi. Þessvegna myndi ég halda að það væri bara best að slaka á hringvöðvanum, borða eins og maður vill, halda hreinskilninni við og ljúga engu að sjálfum manni og taka svo bara aftur upp góða siði annan í jólum. Einfalt.

Afmælispanetone

Engin ummæli: