
Ég er voðalega fegin að þurfa ekki að baka neinar smákökur í ár. Ekki það að ég hafi nokkurn tíman bakað smákökur en í ár hef ég hina fullkomnu afsökun að ég er "í megrun" og ég þarf ekki að skammast mín fyrir að vera meira en léleg húsmóðir. Í ofanálag við að vera lélegur bakari finnast mér smákökur ægilega vondar. Það eru alveg sér vísindi að baka góðar kökur, maður þarf að vera nákvæmur í vigtun og fylgja vissum vísindalegum reglum sem ég á erfitt með að gera. Ég er svona "slump" kokkur, sem hentar vel í matargerð en alls ekki í bakstur. En ég sakna smákökugerðarinnar af öðrum ástæðum. Það fylgir henni alveg sérstök jólatilfinning. Á Fullveldisdaginn var hveitið, smjörið og sykurinn dregið fram, Willy Nelson skellt á fóninn og svo bakaði mamma og jólahátíðin kom í húsið með lyktinni og tónlistinni. Þessari athöfn fylgdi gífurleg vellíðan og öryggistilfinning. Og mér finnst hálf leiðinlegt að ég búi ekki til svona stemmingu fyrir Láka. Mér finnst heimatilbúinn ís hinsvegar alveg svakalega góður. Ég er þessvegna að spá í að splæsa nokkrum hitaeiningum í ís og fá Láka til að hjálpa mér. Og skella Willy Nelson á fóninn. Hann er alveg sykurlaus og hitaeiningafrír.