föstudagur, 5. ágúst 2011

Í gær hafði ég tíma til að stoppa aðeins og hugsa. Á milli þess sem ég gerði viðskiptaáætlanir sem miða að því að ég verði milljarðamæringur af skyrsölu innan 5 ára hugsaði ég um hvernig ég hef hagað mér í fríinu mínu. Og mér til mikillar ánægju þá hef ég hagað mér betur en oft áður þegar ég er í fríi. En á sama tíma og mér til mikillar mæðu hef ég heldur ekki hagað mér eins og mér finnst að ég eigi að haga mér. Ég taldi til hlutina sem gera mig hamingjusama. Ég er hamingjusöm á meðan ég hleyp og þegar ég er búin að hlaupa. Ég er hamingjusöm þegar ég þrykki vöðva. Ég er hamingjusöm þegar ég borða hreinan mat. Ég er hamingjusöm þegar ég er samkvæm sjálfri mér. Ég er hamingjusöm þegar ég uppgötva eitthvað nýtt. Ég er ekki hamingjuöm þegar ég borða nammi. Hvorki á meðan né á eftir. Ég fæ nefnilega alltaf smávegis samviskubit og bragðið er aldrei jafn gott og ég hafði ímyndað mér. (Nema reyndar Ben & Jerry´s. Hann er alltaf jafn góður) Og ónotin í líkamanum eftir á er svo sannarlega ekki bragðsins virði. Þannig að þegar ég legg hlið við hlið kosti og ókosti eru kostirnir við að borða hreint svo yfirþyrmandi að eðlilegt fólk myndi spyrja sig eftir hverju ég sé að bíða? Ég held að ég sé hrædd. Ég held að ég sé hrædd um að við að ganga alla leið og breyta hegðun minni alfarið i heilbrigðari farveg þá tapi ég einhverju dýrmætu. Ég tapi sjálfri mér. Ég er hrædd um að ef ég borði hreint þá verði ég leiðinleg. Svona eins og fólk sem finnur gvuð, eða fólk sem gengur í félagasamtök sem krefjast ákveðinna viðhorfa til lífsins, eða fólk sem fer í afvötnun og byrjar svo að prédika. Að ég byrji að prédika og ganga um með örlítið sítrónusúran svip á andlitinu fussandi yfir þessu hræðilega fólki sem borðar sykur, ger og hvítt hveiti. En svo hugsaði ég aðeins meira. Mig langar til að borða meira hreint. Ég veit það fyrir víst. Hingað til hefur gengið vel hjá mér að taka þá taktík að prófa mig áfram og gera verkefnið ánægjulegt. Hversvegna ætti það ekki að virka hér líka? Ég ætla þessvegna að fikra mig áfram með þetta og hafa gaman af. Og það er ekkert sem segir að ég þurfi að breyta mér svo mikið. Fyrir utan að ef að persónuleiki minn stendur og fellur með að fá snickers öðruhvoru er það ekki eitthvað sem þarf að skoða hvort eð er?

2 ummæli:

Mjóna sagði...

Sæl
Ég stend nú í þeim sporum að reyna að koma líkamanum á réttan kjöl. Ég rakst á bloggið þitt og langaði bara að segja þér hvað það er frábært að lesa það. Þú veitir mér von um að þetta er hægt og til lukku með árangurinn.

murta sagði...

Það er allt hægt elsku besta mín, það þarf bara að skipuleggja það og framkvæma svo. Bestu kveðjur :)