mánudagur, 26. mars 2012

Ég las alveg sérlega áhugaverða grein um daginn. Það virðist sem svo að vísindamenn hafi fundið það út að líkamsrækt hafi áhrif á DNA. DNA nútímamannsins er orðið uppfullt af "merkjum" (tags) sem breyta því hvernig það er lesið af frumum. Þannig eru vöðvar í líkamanum sem fá enga æfingu komnir með merki sem hindrar þá við að brenna fitu og orku. Og líkamsrækt við lága ákefð virtist ekki breyta þessu. En hinsvegar þegar æfing var stunduð af ákefð, þ.e.a.s allavega 30 mínútur við 80% ákefð, þá kom í ljós að þessi "tags" fóru og betri sykur og fitubrennsla átti sér stað.

Þannig er hægt að útskýra hversvegna ég léttist ekki þrátt fyrir löng hlaup. (Já, Ragga, ég veit, ég veit!) Ég hef ekki minnkað matinn neitt, borða bara meira af hollum mat (meira en er hollt) og það að minnka sykur niður í ekki neitt virðist ég hafa túlkað sem svo að ég hafi frítt spil til að auka skammta úr góðu hófi. Og á sama tíma hef ég nánast hætt að gera "vöðvaæfingar" en hleyp bara. Þó að ég reyni mikið að viðhalda æfingungum sem Julia Jones, hlaupaþjálfarinn setti mér, þá á ég það voða mikið til að renna mér í þægindin sem langt, rólegt hlaup gefa. Ég hugsa svo vel þegar ég er að hlaupa rólega. En ef tilgangurinn er að verða fljótari, hraustari og léttari er engin spurning um að ég þarf að auka ákefðina.

Ég er þessvegna í síðustu og þessari viku búin að gera þrennt. Ég er búin að leyfa sjálfri mér að borða smávegis súkkulaði. Og því fylgdi mun meiri meðvitund um skammtastærðir. Það kom í ljós að þó ég væri að borða hafragrautinn sykur, hunangs og rúsínulausann, þá var ég búin að stækka skammtinn um helming og hlaða hann fullan af cacao nibs, maca dufti, kókósolíu og hnetusmjöri. Það sem áður var um 300 kalóríur allt í allt með smá hunangi eða rúsínudreitli var núna allt í einu orðið 700 kalóríur, en sykurlaust. Ægilega sniðugt. Eða hitt þó. Og ég sem hélt ég væri klárari en þetta. Kemur í ljós að ég er jafn mikill bjálfi og konan sem heldur að "lífrænt" þýði hiteiningalaust.

Hitt sem ég er svo búin að gera er að passa að hlaupaæfingar innihaldi góðan skammt af fartlek og ég er búin að vera að leika mér með ketilbjölluæfingar inn á milli. Og keyrði af gífurlegum krafti og hvíldi stutt inn á milli.(og það rumdi í vöðvafjallinu inni í mér af gleði og hamingju!)

Það þriðja og allra mikilvægasta er að ég er búin að reyna að hafa gaman af þessu öllu saman. Ég var búin að tapa gleðinni og stuðinu. Þetta var orðið leiðinlegt og kvöð og uppspretta vonbrigða. Og það gengur náttrúlega ekki. Þegar það gerist, þegar maður tapar gleðinni þá þarf maður að stoppa við og skoða hvað er í gangi. Ég hef það fyrir reglu að vera í stuði og ætla ekkert að breyta því neitt núna.

Sykurleysistilraunin er ekki búin. Ég er að aðlaga sykurneysluna að mér. Ég ætla að halda áfram að sleppa unnum sykri að mestu leyti. Ég ætla að halda áfram að sleppa unnum sykri í sósum og þessháttar. Ég ætla að halda áfram að sleppa þurrkuðum ávöxtum að mestu leyti. Og bakkelsi er alveg út úr myndinni. Ég er búin að uppgötva að kökur og kruðerí er það sem veldur geðveikinni hjá mér. Súkkulaði er ekki jafn hættulegt og kökusneið eða hvítt brauð. Ég get borðað eitt súkkulaðistykki og verið alveg róleg, en gefðu mér eina kökusneið og ég iða um þar til öll kakan er uppétin.

Svona hefur þetta alltaf virkað best fyrir mig; ég prófa og geri tilraunir og tek svo með mér það sem virkar fyrir mig. Hitt læt ég bara vera. Málið er að það er alveg sama hversu mikið ég þyl upp að þetta sé ekki megrun heldur lífstíll þá er lokaniðurstaðan alltaf sú að ég þarf samt að borða minna og hreyfa mig meira og stundum er það bara hundfúlt. Maður verður bara að drullast til að gera það samt. Og þá er um að gera að reyna að gera það besta úr öllu. Og tilbreyting er lífsins krydd.

Númer eitt, tvö og þrjú er nefnilega að vera í stuði og halda hópinn.

2 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Dugleg ertu alltaf í þessum pælingum þínum og að komast að því hvað er að valda stöðnun hverju sinni. Nú er bara að passa upp á matarmagnið og halda áfram að gera fjölbreyttar æfingar og ég er sannfærð um að kg fari að hrynja af þér aftur.

Nú bara ef ég gæti gert hið sama....

Nafnlaus sagði...

þarna þekki ég þig :-)
knús
H