laugardagur, 16. febrúar 2013

Það hefur örugglega komist í fréttirnar heim hrossakjötsskandallinn hérna í Bretaveldi. Það kemur semsagt í ljós að einhver kriminal element hafi komist inn í "supply chain" og hrossakjöt hefur verið selt sem nautakjöt í tílbúnum máltíðum. Hér er hrossakjöt ekki matur og fólk þessvegna að sjálfsögðu í miklu uppnámi yfir þessu. Þegar ég flutti frá Íslandi voru svona tilbúnar skyndimáltíðir ekki mikið til, mig minnir að 1944 réttirnir hafi verið til í nokkur ár og svo mátti alltaf kaupa sér Ömmupizzu en að öðru leyti eldaði maður sjálfur það sem maður borðaði. Hér er þetta allt annað mál. Fólk horfir á mig í forundran þegar ég tala um að baka brauð, baka kökur, og elda eitthvað "from scratch" eins og þeir segja. Það er alvanalegt að kaupa bara pakkamat og fylla frystinn og henda svo bara inn í ofn eða örbylgju þegar heim er komið. Ju minn eini! segja góðar húsmæður um allan heim.. Ég held að það sé nánast útilokað að útskýra fyrir Íslendingum hvernig lífið virkar fyrir sig hérna. Hér er nánast engin þjónusta við börn þannig að maður þarf að koma þeim fyrir í allskonar geymslum fyrir og eftir skóla. Það kostar mánaðarlaunin að geyma barnið einhverstaðar þannig að maður þarf að vinna ógrynni af yfirvinnu líka. Þannig byrjar maður og endar daginn. Þar á undan er eðlilegt að eyða nokkrum klukkustundum í ferðalag í vinnu. Ég t.d tek fjóra klukkutíma á hverjum degi í að komast í og úr vinnu. Það er erfitt að fá frí, og maður fær kannski ekki endilega þá daga sem maður vill, manni er bara úthlutað dögum. Er nema von að fólk komi heim kannski að verða átta og nenni ekki að elda? Ég skil það vel.  

En það afsakar það samt ekki. Ég skil það en ég afsaka ekki. Ég eyði nefnilega fjórum klukkutímum á dag í ferðalag, ég vinn yfirvinnu, ég skrifa ritgerðir og blogg, ég stunda líkamsrækt, ég el upp son minn, elska manninn minn og held (nokkurn vegin) hreinu húsi. Og ég elda minn mat. Þannig að ættleidda þjóðin mín má syrgja hrossaborgarana sína eins og þeim lystir en ég vorkenni ekki.

Það eina sem þarf er smá skipulag. Ég eyði klukkutíma á sunnudegi í að búa til matseðil fyrir vikuna. Ég á uppskrifabók sem ég hef sett inn allar uppáhaldsuppskriftirnar mínar og ég skoða hana og vel úr. Stundum bæti ég við einni nýrri, en ég reyni að hafa það einfalt. Ég elda mikið mat sem dugar í tvo daga eins og chili, bolognese, súpur og kássur. Ég nota uppskriftir sem þurfa að malla aðeins svo ég geti notað þann tima í að taka til og finna til salat fyrir hádegi daginn eftir.  Ég nota svipaðan strúktur alla daga og er ekkert að flækja málin. Ég skoða skápana mína og veit hvað ég á til og hvað vantar. Ég á alltaf til lauk og kjötkraft og get alltaf búið til djúsí lauksúpu. Þetta er hljómar kannski eins og ég sé innkaupalista fasisti en þetta er svo þægilegt. Það þarf bara að gera þetta í tvær vikur til að finna hvað það er gott og einfalt að hafa allt svona tilbúið. Og eftir það er útilokað að gera þetta ekki.

Og svo náttúrulega stundum planar maður að panta bara pizzu frá Kúrdunum á horninu.

Engin ummæli: