laugardagur, 11. maí 2013

Samkvæmt talningu í morgun er ég rétt um hálfnuð með mastersritgerðina. Hún er enn ljót og þarfnast allrar minnar athygli til að ég nái að klára að skrifa, laga og setja upp fyrir maí lok. Í ofan á lag fékk ég stöðuhækkun í vinnunni og þarf núna að vera með mannaforráð yfir tólf manneskjum auk þeirra átta sem ég sá um áður. Það er ásamt því að taka yfir Professional Negligence deildinni (handvömm?) og þarf því að læra allt sem því  fylgir. Þetta er auðvitað svakalega spennandi og sýnir sjálfsagt að það hefur einhver tekið eftir mér og treystir mér til starfsins. Launahækkun er þó lítil og þetta er frekar stökkpallur til frekari starfa. En samt, þetta hefði ekki getað gerst á verri tíma. Ég var búin að plana vinnu/heimalíf jafnvægið þannig að hallaði á vinnuna í maí og júní til að einbeita mér að ritgerðinni. Það verður víst lítið um það og ég þarf bara að halda áfram að skrifa á kvöldin og um helgar. Bloggið hefur óneitanlega þjáðst fyrir. Ég klára alla mína ritfærni í skýrslugerð og ritgerðarsmíð.

Hluti af mér er líka dálítið nervös yfir nýjustu hugmyndinni minni. Um leið og ég hef skilað af mér ritgerðinni ætla ég að byrja að æfa fyrir þríþraut (tri-athlon).Bara sprint vegalengd sem er 500-750 metra sund, 20 km hjól og 5 km hlaup. Ég er ekki alveg tilbúin í járnkarlinn. Ég er búin að finna mér plan, á sundbol, hjól og hlaupaskó og sé því ekkert mér að vanbúnaði. Ég verð reyndar að labba meira en að hlaupa út af hné en það er það sem er svo brilliant við þríþrautina að maður þarf ekki að vera sérfræðingur í neinu, bara ágætur í öllum þremur. Hugmyndin er enn ómótuð og eins og ég segi þá er ritgerðin og vinnan í fyrirrúmi núna en ég er byrjuð að plana lengri hjólatúra og að vinna aftur í að labba/hlaupa. Næst kemur svo "brick" æfingar þar sem ég sameina sund/hjól og hjól/hlaup. Og svo er það að finna keppni og setja dagsetningu.

föstudagur, 3. maí 2013

Ég er mikið búin að vera að velta fyrir mér hvort bragðlaukarnir í mér hafi breyst með hollari lífsháttum eða hvort það að eldast einfaldlega breyti því sem mér finnst gott. Aðallega er ég búin að vera að spá í þetta síðan að Ólína sagði mér að hún hafði prófað að baka kjúklingabaunasmákökurnarir sem ég setti hér inn fyrir nokkru og að hún hafi aldrei smakkað neitt jafn hræðilegt á lífsleiðinni. Mér datt fyrst í hug að þær væru barra fyrir áunna bragðlaukur, eitthvað sem maður venst bara þegar maður borðar bara hollt. Svo hugsaði ég með mér að kannski var ég bara svona helsvelt af sætindum að jafnvel eitthvað jafn vitlaust og kjúklingabaunasmákökur yrðu bragðgóðar. Svo varð ég að taka það til skoðunar að kannski hefði Ólína rétt fyrir sér og að kökurnar væru bara hrikalegar til átu. Og ég varð að prófa.

Skolaði af og hreinsaði kjúklingabaunir. Setti í skál og bætti svo við fullt af hnetusmjöri. Og svo líka dálítið vel af kókóssmjöri. Svo sullaði ég saman við þetta hlynssýrópi. Og svo aðeins meira af því. Vanilludropar, salt, lyftiduft og matarsódi. Aðeins meira af kókóssmjöri. Svo datt mér í hug að gera þetta að súkkulaðibrownies frekar en smákökur og setti fullt af Hershey´s kakó út í. Maukaði og maukaði. Svo sá ég það í hendi mér að það væri við hæfi að setja fullt af súkkulaðibitum út í. Bætti svo við meira af hnetusmjöri og súkkulaðibiðum. Setti svo í form og bakaði og skar svo í búta eins og um brownie´s væri að ræði. Borðaði svo með rjóma.

Mér fannst þetta ægilega gott. Ég er greinilega með svona háþróaða heilsubragðlauka.

En verð líklegast líka að viðurkenna að viðbæturnar eru heilmargar.