fimmtudagur, 29. mars 2012

Ég hef aldrei á ævinni klárað nokkurn skapaðan hlut. Ég byrja á endlausum verkefnum af krafti og einurð en missi svo áhugann og sný mér að einhverju öðru af sama krafti og einurð. Píanónám í æsku, endasleppt skiptinemavist í Bandaríkjunum, stjórnmálafræði, lögfræði og svo tók það mig áraraðir að klára enskuna. Ég komst meira að segja inn í FÍH í söngnám en einhvernvegin lét það svo bara fjara út. Ég hef alltaf talið þetta vera ljóð á ráði mínu, næstum persónuleikabrest. Það er nefnilega ekki gert ráð fyrir fólki eins og mér í samfélaginu. Það eru kröfur gerðar til manns að maður festi ráð sitt við eitt áhugamál, stundi nám í beinni línu og að eitthvað komi út úr öllu sem maður gerir. Að allt beri eitthvern ávöxt. Hvar er launaseðillinn, hvar er allt monníið? er maður spurður. Ég hristi oft höfuðið yfir sjálfri mér, hugsa jafnvel stundum með mér að ég sé að sóa tíma mínum og hæfileikum með þessu einbeitningarleysi. Að ég sé að sóa sjálfri mér. Og það sama virtist vera með breytingarnar sem ég hef gert á hreyfingu og mataræði. Ég gríp eitthvað á lofti, helli mér út í verkefnið af fullum krafti, slæ um mig með stórum yfirlýsingum... en fæ svo leið og breyti um og helli mér af sama krafti út í allt aðra aðferð.

Bara alltaf í stuði! 
En þegar ég sest niður og hugsa málið þá held ég að loksins sé komið að því að þetta sveimhuga mentalitet, þetta einbeitningarleysi sé að koma sér vel. Ég held að ég hafi fundið ástæðuna fyrir því að eitthvað hefur loksins að mestu leyti gengið upp hjá mér. Fyrri tilraunir til spiksköfunar hafa allar verið litaðar af því sem samfélagið ætlast til af mér; þeas ég hef rembst við og reynt að fylgja áætlun, fylgja prógrammi með upphafi, miðju og enda. En það er bara ekki ég. Ég fúnkera ekki í beinni línu. Þannig að þegar ég leyfði sveimhuganum að taka yfir og hætti að skammast mín fyrir að skipta um taktík og plan jafnóðum og ég skipti um nærbrók þá loksins fór þetta allt að virka.

Ég er að hugsa um að vera þessvegna loksins glöð og ánægð með að vera eins og ég er. Og þakklát fyrir að hafa loksins fundið eitthvað sem sýnir einbeitningarleysið í jákvæðu ljósi. Ég hef lært á öllum þessum hliðarsporum mínum að það þarf ekki bara að vera ein útkoma, ein niðurstaða möguleg. Og ég hef lært að díla við óvæntar uppákomur og óvæntar útkomur betur en ella. Ég breyti bara um ef niðurstaðan er mér ekki þóknanleg.

Það er ekkert til sem heitir endir eða lokaniðurstaða. Markmiðið er nefnilega ekki að fullkomna og klára, heldur að aðlaga og breyta og halda gleðinni út allt lífið. Og ef það eitthvað sem ég geri vel og af einurð og krafti þá er það að vera glöð.

þriðjudagur, 27. mars 2012


Rúllandi á IT-bandinu (illiotical band)
Síðan ég byrjaði að hlaupa hef ég fundið miklu meira fyrir öllum vöðvum en þegar ég lyfti af meiri ákefð. Og þegar ég segi fundið fyrir þá á ég við að þeir eru þreyttir og strengdir. Ég fæ til dæmis oft krampa í kálfana núna, eitthvað sem er alveg nýtt. Ég hef ekki efni á að fara reglulega í djúpvöðvanudd þannig að ég gerði bara það sem ég geri vanalega; redda þessu bara sjálf. Ég keypti mér foam roller. Það er bara 90 cm langur kvoðussýlinder sem maður leggur á gólfið og rúllar sér á honum fram og tilbaka. Maður notar eigin líkamsþyngd til að þrýsta og nudda hnúta og bólgur og þannig slakar maður á vöðvum og veitir vellíðan og almenna gleði. Foam rolling hefur líka fleiri kosti. Með því að nudda í burtu hnúta í vöðvum getur maður komið í veg fyrir meiðsli sem geta fylgt strengdum vöðvum. Nuddið getur slakað á stressi dagsins og við sem sitjum fyrir framan tölvu allan daginn ættum að nota rúlluna á hverjum degi. Svo getur maður aukið á teygjanleikann og þegar maður er fimari eru meiri líkur á að maður nái framförum í hverri þeirri íþróttagrein sem maður er að æfa.  Það eina er að þetta er svoooooo vont. Vá! hvað þetta er vont! Hver einasti hnútur sem ég vinn á er eins og að vera stunginn með söltuðum flökunarhníf. En mér skilst að því duglegri sem ég er við nuddið því mjúkari verði ég og það verði ekki jafn vont. Það er með þetta eins og allt annað, verst fyrst og svo smá versnar það.

Hætt að geta brosað, of sárt. Aaargh!

mánudagur, 26. mars 2012

Ég las alveg sérlega áhugaverða grein um daginn. Það virðist sem svo að vísindamenn hafi fundið það út að líkamsrækt hafi áhrif á DNA. DNA nútímamannsins er orðið uppfullt af "merkjum" (tags) sem breyta því hvernig það er lesið af frumum. Þannig eru vöðvar í líkamanum sem fá enga æfingu komnir með merki sem hindrar þá við að brenna fitu og orku. Og líkamsrækt við lága ákefð virtist ekki breyta þessu. En hinsvegar þegar æfing var stunduð af ákefð, þ.e.a.s allavega 30 mínútur við 80% ákefð, þá kom í ljós að þessi "tags" fóru og betri sykur og fitubrennsla átti sér stað.

Þannig er hægt að útskýra hversvegna ég léttist ekki þrátt fyrir löng hlaup. (Já, Ragga, ég veit, ég veit!) Ég hef ekki minnkað matinn neitt, borða bara meira af hollum mat (meira en er hollt) og það að minnka sykur niður í ekki neitt virðist ég hafa túlkað sem svo að ég hafi frítt spil til að auka skammta úr góðu hófi. Og á sama tíma hef ég nánast hætt að gera "vöðvaæfingar" en hleyp bara. Þó að ég reyni mikið að viðhalda æfingungum sem Julia Jones, hlaupaþjálfarinn setti mér, þá á ég það voða mikið til að renna mér í þægindin sem langt, rólegt hlaup gefa. Ég hugsa svo vel þegar ég er að hlaupa rólega. En ef tilgangurinn er að verða fljótari, hraustari og léttari er engin spurning um að ég þarf að auka ákefðina.

Ég er þessvegna í síðustu og þessari viku búin að gera þrennt. Ég er búin að leyfa sjálfri mér að borða smávegis súkkulaði. Og því fylgdi mun meiri meðvitund um skammtastærðir. Það kom í ljós að þó ég væri að borða hafragrautinn sykur, hunangs og rúsínulausann, þá var ég búin að stækka skammtinn um helming og hlaða hann fullan af cacao nibs, maca dufti, kókósolíu og hnetusmjöri. Það sem áður var um 300 kalóríur allt í allt með smá hunangi eða rúsínudreitli var núna allt í einu orðið 700 kalóríur, en sykurlaust. Ægilega sniðugt. Eða hitt þó. Og ég sem hélt ég væri klárari en þetta. Kemur í ljós að ég er jafn mikill bjálfi og konan sem heldur að "lífrænt" þýði hiteiningalaust.

Hitt sem ég er svo búin að gera er að passa að hlaupaæfingar innihaldi góðan skammt af fartlek og ég er búin að vera að leika mér með ketilbjölluæfingar inn á milli. Og keyrði af gífurlegum krafti og hvíldi stutt inn á milli.(og það rumdi í vöðvafjallinu inni í mér af gleði og hamingju!)

Það þriðja og allra mikilvægasta er að ég er búin að reyna að hafa gaman af þessu öllu saman. Ég var búin að tapa gleðinni og stuðinu. Þetta var orðið leiðinlegt og kvöð og uppspretta vonbrigða. Og það gengur náttrúlega ekki. Þegar það gerist, þegar maður tapar gleðinni þá þarf maður að stoppa við og skoða hvað er í gangi. Ég hef það fyrir reglu að vera í stuði og ætla ekkert að breyta því neitt núna.

Sykurleysistilraunin er ekki búin. Ég er að aðlaga sykurneysluna að mér. Ég ætla að halda áfram að sleppa unnum sykri að mestu leyti. Ég ætla að halda áfram að sleppa unnum sykri í sósum og þessháttar. Ég ætla að halda áfram að sleppa þurrkuðum ávöxtum að mestu leyti. Og bakkelsi er alveg út úr myndinni. Ég er búin að uppgötva að kökur og kruðerí er það sem veldur geðveikinni hjá mér. Súkkulaði er ekki jafn hættulegt og kökusneið eða hvítt brauð. Ég get borðað eitt súkkulaðistykki og verið alveg róleg, en gefðu mér eina kökusneið og ég iða um þar til öll kakan er uppétin.

Svona hefur þetta alltaf virkað best fyrir mig; ég prófa og geri tilraunir og tek svo með mér það sem virkar fyrir mig. Hitt læt ég bara vera. Málið er að það er alveg sama hversu mikið ég þyl upp að þetta sé ekki megrun heldur lífstíll þá er lokaniðurstaðan alltaf sú að ég þarf samt að borða minna og hreyfa mig meira og stundum er það bara hundfúlt. Maður verður bara að drullast til að gera það samt. Og þá er um að gera að reyna að gera það besta úr öllu. Og tilbreyting er lífsins krydd.

Númer eitt, tvö og þrjú er nefnilega að vera í stuði og halda hópinn.

sunnudagur, 25. mars 2012

Tölvulaus er ég bara hálf manneskja. Það er ómögulegt að geta ekki skrifað niður það sem mér dettur í hug. En nú er allt komið í lag þannig að ég get aftur byrjað að hugsa.

Allir að koma sér fyrir.
Vikan er búin að vera löng og ströng í vinnunni og ég því orðin langþjáð þegar sunnudagur loksins rann upp. Ég var búin að skrá mig í þriggja mílna hlaup fyrir góðgerðarátakið Sport Relief og hafði séð það fyrir mér sem þriðja innleggið í "12 á 12" verkefninu mínu. Líkamsrækt, peningasöfnun fyrir góðan málstað og útivistardagur og skemmtilegheit fyrir alla fjölskylduna; gæti ekki verið betra. 

Tilbúin!
Lukkan var yfir okkur og hér er ljómandi veður, upplagt til útivistar. Eiginlega meira en ljómandi, ég hugsa að hitinn hafi slagað hátt upp 20 gráður um miðjan dag. Glampandi sól og stilla. Við pökkuðum þessvegna með okkur nesti því hlaupið átti að fara fram í Ty Mawr sem er gullfallegt svæði þar sem við förum oft í göngutúra og stoppum í lautarferð.

Hægt var að velja um sex, þrjár eða eina mílu. Ég hafði ákveðið að fara bara þrjár sem rétt slaga í 5km. Fannst það bara nóg í svona skemmtiskokki. Hef líka sterkan grun um að ég sé alls ekki í 10 km formi lengur.

ég og Glen Little, miðjumaður Wrexham FC - Lukkan yfir mér!
Við komum okkur fyrir við upphafsreit, og tveir af leikmönnum Wrexham FC sáu um upphitun og smá pepp og allir þáttakendur í jafn glampandi skapi og sólin skein. Það var ekki neinar tímamælingar og öll stemningin meira stuð og gaman frekar en alvarlegt hlaup eins og það sem ég tók þátt í í desember. Fullt af fólki í búningum, sá sem helst stóð upp úr var klæddur eins og varúlfur. Eða ég vona að þetta hafi verið búningur. Leiðin sem var hlaupin var frá Ty Mawr Barn, í gegnum dalinn framhjá ánni og upp að Ponctysyllte Aquaduct. 
Aquaduct.
Þar þurfti maður að klifra upp snarbrött þrep upp að aquaduct, snúa svo við og hlaupa niður og svo upp aftur í gegnum skóginn að endalínunni. Þetta var bara skemmtilegt. Ofboðslega fallegt umhverfi, allir í góðu skapi og ég smitaðist af stemningunni og fór heldur geist af stað. Hélt tempói við mjóa stelpu allan tímann. Þurfti reyndar að labba aðeins en bætti það alltaf upp með að hlaupa því hraðar þegar ég hljóp. Kom svo í mark á 33:20, minn langbesti tími.

Lúkas með Ty Mawr dalinn í baksýn.
Við markið stóðu svo borgarstjórinn og Danny Wright og Glen Little sem báðir spila fyrir Wrexham. Þeir létu mig fá medalíu og ég heimtaði að fá mynd með Glen svo ég gæti montað mig við Dave. Dave er harður Wrexham  aðdáandi, fór meira að segja með mig á leik þegar ég fyrst kom hingað (við töpuðum 3-0 fyrir Macclesfield og ég hef verið í leikbanni síðan).

Svo sátum við úti í sólinni, borðuðum nesti, lékum okkur og skoðuðum náttúruna allt í kring.

Ég safnaði ekki miklum pening, borgaði £10 sjálf og fékk önnur £20 í styrki, en mér líður samt vel með það, allt hjálpar og ég fékk stórskemmtilegt hlaup út úr deginum. Við keyrðum síðan aðeins um á leiðinni heim og reyndum að mæla út nýjar hlaupaleiðir fyrir mig. Mjög spennandi.

Komin með medalíu og welsh hottie upp á arminn; mín aðal klappstýra .

laugardagur, 24. mars 2012

1. Settu þér markmið.
2. Gerðu áætlun.
3. Byrjaðu að vinna samkvæmt áætlun.
4. Haltu þér við efnið!
5. Náðu markmiðinu.

Hversu einfalt er þetta?

sunnudagur, 18. mars 2012

Alveg er med olikindum hvad lifid kemur manni a ovart. Hefdi mer verid sagt fyrir nokkrum arum sidan ad eg aetti eftir ad eyda laugardegi a litlum pobb i Nordur-Wales, horfandi a Rugby, aepandi og skraekjandi med bjor i hendi, hefdi eg sjalfsagt hlegid mig mattlausa. Engu ad sidur, her var eg i gaer, ad fylgjast med aettleidda landinu minu vinna "Grand Slam" i 6 Nations Rugby keppninni.

Thjodarithrott okkar Veilsverja er rugby og vid stondum okkur alveg hreint agaetlega. Motid i ar, thar sem England, Irland, Skotland, Wales, Frakkland og Italia kljast, er einn af hapunktunum a rugby vertidinni og i ar small allt saman hja Wales. Vid hofdum unnid fimm af sex leikjum sem thyddi ad vid hofdum unnid motid. Best af ollu var ad vid unnum Englendinga, eda eins og Kelly Jones i Steriophonics syngur; "got beat by the irish, got beat by the scots, but we don't care, as long as we beat the english". Malid snerist nu um ad vinna thennan sidasta leik gegn Frokkum lika til ad fa ekki bara vinningstitilinn, heldur einnig "Grand Slam" titilinn.

Magkona min og svili budu okkur ad koma a pobbinn til ad fylgjast med leiknum. Og tho eg skilji hvorki upp ne nidur i reglunum gat eg ekki annad en hrifist med. Klukkan tvo var pobbinn stutfullur, allir i raudum velskum rugby peysum, einn og einn med slagord eins og "I support 2 teams: Wales and whoever England is playing!". Allir med bjor i glasi og rifandi stemning. Frakkar byrjudu a ad fa viti, og komust 3 stig yfir okkur. En svo tok velska lidid vid ser og vid skorum "try" (thegar einn leikmadur naer ad hlaupa med boltann alla leid yfir endalinu) og nokkur viti og lokatalan 16-9. Eg gat ekki annad en tekid thatt af fullum krafti, hoppadi um og aepti og skraekti og drakk otaepilega af bjor. Og var i alvorunni hraerd thegar bikarnum var lyft og velski thjodsongurinn var sunginn af krafti. Lagid er reyndar afskaplega fallegt og mer hefur alltaf thott vaent um thad.

Vid akvadum svo ad rolta upp i Ponciau a The Colliers (namumanna klubbinn) til ad fylgjast med Irlandi og Englandi keppa um annad saetid. Thar var rifandi stemning og allir studdu Ira af heilum hug. Thvi midur vard okkur ekki ad oskinni um algera nidurlaegingu Englendinga, their unnu 30-9. Skemmtilegt er tho ad segja fra thvi ad thessi rigur er allur i godu, i rugby er ekki thetta ofbeldi sem fylgir t.d fotbolta. A rugby leikjum sitja ahangendur fra mismunandi lidum hlid vid hlid og allt i godu. Thetta hefur verid utskyrt med ad rugby er yfirstetta ithrott a medan fotbolti er leikur verkamanna. En eg aetla nu ekki ad fara a kommenta a thad.

Vid roltum svo a annan pobb, drukkum enn meira, bordudum sausage roll og scotch egg og skemmtum okkur konunglega. Eg skal svo vidurkenna ad um attaleytid og milljon bjorum sidar var eg buin a thvi og vid Dave skundudum heim, blindfull og kat, haestanaegd med Grand Slam sigurinn og frabaeran dag.

I dag er maedradagur og eg er buin ad fa yndislegt kort sem Lukas bjo til, morgunmat i rumid og loford um indverskan take away i kvold. Lifstillinn faer sma pasu vegna thynnku i dag. Skitt med thad.

Tolvan min er i vidgerd og eg nenni ekki ad breyta lyklabordinu hans Dave thannig ad thad verdur litid um skrif i vikunni.

miðvikudagur, 14. mars 2012

Þvílík og önnur eins hamingja. Ég pakkaði hlaupagallanum í morgun af því að ég hafði hug á að fara aftur Wrexham-Rhos leiðina. En þegar vinnu var lokið og ég komin í gallann bara gat ég ekki hugsað mér að fara í strætó og bíða eftir að hlaupa. Sólin glampaði á síkinu, fólk tifaði um allstaðar og borgin öll víbraði af vori og lífi. Ég ákvað á stundinni að hlaupa í gegnum Chester og sjá svo bara til hversu langt ég kæmist. Og mikið rosalega var þetta skemmtilegt. Alveg ný leið, allt nýtt að sjá, smá útúrdúr og ég komst alla leið að hringtorginu þar sem maður velur um Manchester, Chester eða Wrexham. Greip strætó þar og sat svo skælbrosandi og rennandi sveitt í gegnum Rossett og Gresford og hálfa leiðina til Rhos þar sem ég ákvað að hlaupa síðasta kílómetrann heim til að ná síðustu geislum sólarinnar. Allt stress dagsins lekur úr manni. Það jafnast bara nánast ekkert á við gott hlaup. Kannski er það merkilegra fyrir mig að geta gert svonalagað en fólk sem alltaf hefur getað notað líkama sinn til svona hreystiverka. Ég er alltaf jafn hoppandi glöð þegar ég geri eitthvað sem kemur mér á óvart. Mér varð hugsað út frá því um hugmyndafræðina sem heitir Healthy at Every Size og Fat Acceptance. Hér er hugmyndin sú að maður hætti að hatast við sjálfan sig og líkama sinn, hætti þessum jó jó megrunarkúrum, hætti þessi endalausa niðurrifi og umfaðmi sjálfan sig og líkamann eins og hann er. Í HEAS er ekki verið að tala um að "gefast upp" heldur er hugmyndin frekar að maður heiðri líkama sinn með líkamsrækt sem manni finnst skemmtileg og borði mat sem nærir og gefur vellíðan. Fat Acceptance virðist vera meira að því lútandi að sættast við að maður sé feitur og byrja að elska líkama sinn í sínu feita formi. Mér finnst í öllum þeim greinum sem ég hef lesið um þetta að skilaboðin séu að þau okkar sem erum að reyna að verða heilbrigðari og jafnvel grennast séum að því vegna þess að við hötumst við likama okkar. Ég hata ekki líkama minn - það virðast vera skilaboðin frá HAES fólki, að það að vilja grennast þýði að ég sé óhamingjusöm af því að ég hata sjálfa mig og að ég þurfi að læra að elska líkama minn með öllum sínum bugðum og sveigjum og hrukkum og krukkum. En ég elska likama minn. Hann er lifandi sönnun hversu ótrúlegur mannslíkaminn er. Ég gat misboðið honum árum saman og hann er samt núna sterkur og fallegur. Ég er rosalega sæt. Ég elska sjálfa mig og líkama minn.

En það þýðir ekki að ég sjái ekki að ég geti gert betur. Að vilja verða hraustari og fljótari að hlaupa er ekki talið vera merki um óhamingju og sjálfshatur hjá íþróttamanni. Af hverju þarf það að þýða að ég sé haldin sjálfshatri?

laugardagur, 10. mars 2012

Það voru ýmsar hugsanirnar sem þutu í gegnum hausinn þegar ég las grein Brynhildar á Vísi um í gær. Ég hef alltaf haft mínar skoðanir á fordómum gagnvart feitum sem eru alveg hreint sláandi. Feitt fólk fær síður vinnu, fær verr borgað og þarf að greiða meira fyrir líf- og sjúkdómatryggingar fyrir utan að fá háðsglósur og leiðindi svona almennt frá samfélaginu. Og allt þetta er alveg forkastanlegt.

Nú hef ég sveiflast um í skoðunum mínum á þessu öllu saman. Að sjálfsögðu þykir mér ömurlegt til þess að hugsa að fólki sé mismunað á þeim forsendum einum að það séu fitubollur. Og ekkert þótti mér leiðinlegra en að heyra ljóta hluti sagða um útlit mitt þegar ég var feit. Enn verra var þegar mér var sagt að ég væri svo sæt og frábær, en ég gæti verið svo mikið frábærari ef ég myndi léttast aðeins. Allt þetta gerði mig forherta í því að hata mjótt fólk og vilja berjast fyrir rétti mínum til að vera feit óáreitt. En á sama tíma langaði mig ekkert meira en að vera mjó.

En málið er hvað sem öllum mannréttindum líður þá er óhollt að vera of feitur. Ég þarf ekki að telja upp hjartasjúkdóma, sykursýki, öndunarsjúkdóma, liðaveiki, krabbamein, svefnörðugleika og almenna likamlegan sársauka. Það sem ég hef svo líka fundið út meðörlitlum rannsóknum er sláandi. Krabbamein t.d greinist síður í offeitu fólki vegna þess að læknar og hjúkrunarfólk eiga erfiðara með að gera skoðanir á feitu fólki. Fitan felur kvillan betur. Ef hann svo finnst er mun erfiðara að gera skurðaðgerðir á feitum, bæði vegna aðgengis og fylgikvilla. Að auki er algengt að offeitir fá of lágan lyfjaskammt. Þetta er svo fyrir utan að offita er algeng ástæða fyrir rangri greiningu.

Læknar eru síður tilbúinir til að leyfa of feitum konum að fá aðgang að frjósemismeðferðum vegna þess að þær ganga verr á offeitum. Líffæraflutningar eru meira að segja haldið frá offeitum vegna þess að vandamál eftir aðgerðir eru mun meiri og flóknari en á grönnum sjúklingum.

Sjálf var ég mest leið á hvað mér var alltaf illt allstaðar. Ég var svakalega heilsuhraust, svona eins og Brynhildur, með lágt kólesteról, fínan blóðþrýsting og allt í fínu lagi. En mér var illt allstaðar. Þá er ég sérstaklega að hugsa um hnén. Ég var ekki þrítug og gat ekki labbað. Fyrir utan að vera með núin og nudduð læri þá var ég líka sveitt og másandi og átti erfitt með að halda í við fólk á göngu. Þetta var ömurlegt. Og ef ég reyni að setja mig í spor Brynhildar sem segist vera þrjátíu kílóum of þung, og hugsa tilbaka um fimmtán þá var ég enn með verki hér og þar þá. Sérstaklega í hnjám.

Kannski er ég bara svona ómerkileg manneskja. Ég gat nefnilega ekki annað en hugsað með öfund hvað hún ætti rosalega gott. Hún er í svo fínni vinnu og þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum. Kannski ef ég fengi vinnu sem ég hef áhuga á og hætti að vera andvaka allar nætur af áhyggjum af því hvernig í ósköpunum ég eigi að borga næsta reikning myndi ég komast á þetta stig sem ég þrái svo heitt; að vera sátt við mig eins og ég er. Mér þykir svakalega leiðinlegt ef þetta er málið, að ég setji verðmiða á sjálfa mig. Að fyrst ég sé blönk þurfi ég að bæta mér það upp með að vera mjó.Ég hélt nefnilega alltaf hingað til að ég hafi verið stolt af öllu sem ég hef gert í lífinu. Ég hef greinilega ekki gert nóg fyrst mér finnst leiðinlegt að eiga svona lítinn pening.  Hitt er svo að hluti af mér, feiti hlutinn, hreinlega trúir Brynhildi ekki. Feiti hlutinn af mér segir hana ljúga. Að það sé EKKERT sem er í lagi við að vera þrjátíu kílóum of þung og mér er skítsama hversu heilsuhraust hún segist vera. En það er bara langþjáð fitubollan í mér sem hugsar svona ljótar hugsanir. Að mestu leyti öfunda ég hana bara að vera komin á stað í heilanum þar sem hún er í alvörunni sátt við að vera feit. Það er staðurinn sem ég vil vera á.

En ég er líka örlítið uggandi yfir greininni. Ég held nefnilega að fullt af fólki (í þessum skrifuðu orðum hafa 3313 manns "líkað" greinin) lesi greinina og hugsi með sér að það sé bara fínt að vera feitur. Að það séu lágmarks mannréttindi að fá að troða sig út af súkkulaði, hammara og kók. Að það sé bara vont fólk sem heimtar að við séum öll eins, að við séum öll mjó. Að þessi endalausa umræða um spik og fitu og spelt og agave og blóðsykur og fartlek sé orðin svo leiðinleg. Og ég get ekki að því gert að að hugsa að þessu leyti sé greinin óábyrg. Því þó Brynhildur kenni sér einskis mein er ekki alveg jafnvíst að allt hitt feita fólkið sé jafn heilsuhraust. Og að það lesi svo grein sem segir að það sé í lagi að vera of feitur. Og það heldur svo áfram að éta McJónas og Snickers.

Ég dáist að Brynhildi. Mér finnst æðislegt að hún sé svona hamingjusöm. Að hún hafi fundið sinn verðleika án þess að þurfa að miða hann við kílóafjölda. Það er engin spurning um að það er allt of mikið af (kven)fólki sem setur samasem merki á milli þess að vera mjór og að vera hamingjusamur. Og mér finnst greinin frábær með mannréttindi í huga. En ég verð líka að segja að þegar ég segi frá minni eigin reynslu þá er ég hamingjusamari núna en þegar ég var þrjátíu kílóum þyngri. Samt var ég í betri vinnu þá og hafði engar áhyggjur af peningum. Ég efaðist líka aldrei um eigin verðleika, hversu feit sem ég var. Mér var bara alltaf illt allstaðar. Þannig að mér finnst bara að það hefði átt að fylgja með greininni svona viðvörun sem segir að engu að síður þá sé það ekki hollt svona almennt að vera of feitur.


föstudagur, 9. mars 2012

Það er búið að taka mig heila EILÍFÐ að fullkomna þessar. Og nú loksins eru þær tilbúnar.

Kókóshnetuhveiti er í raun afgangurinn sem verður eftir þegar olían og vatnið og mjólkin hafa verið fjarlægð úr hnetunni. Hveitið er í raun bara þurrkað hratið sem eftir verður. Þannig að það er ekki bara hollt heldur er það líka umhverfisvænt og sparneytið. Hér er verið að nýta afurð sem annars væri hent. Glútenlaust, kolvetnin eru nánast bara trefjar, fitulítið, bragðgott og ódýrara en önnur hnetuhveiti. What´s not to love?
En það virkar alls ekki eins og venjulegt hveiti. Það sýgur í sig allan vökva og fitu þannig að maður þarf að nota miklu minna magn en af venjulegu hveiti. Það er smá vinna að fatta hvað hentar best og hvernig er best að nota það.

Ég borða þessar í morgunmat og hádegismat og í kvöldkaffi. Ég bý til vænan skammt og geymi inni í ísskáp í tvo, þrjá daga. Smyr með smjöri, eða kókósolíu eða möndlu- eða kasjúhnetusmjöri. Fersk bláber... rjómi... nammi nammi namm.

Kókóshnetuhveitilummur.

1/3 bolli kókóshnetuhveiti
1 tsk lyftiduft
salt
Allt sigtað saman

4 egg
1 bolli (250 ml) mjólk
1 tsk vanilludropar

Msk kókósolía.

Hræra allt nema olíuna vel saman. Bræða olíuna á non stick pönnu og hella svo út í deigið og hræra. Hella svo deiginu á pönnuna í lummu stærð. Svona þrjár, fjórar lummur í einu. Láta vera þangað til að margar loftbólur eru komnar á yfirborðið. Snúa þá við og steikja í þar til gullnar allt um kring.

Ég elda á gasi og ég er með puttana á hitanum allan tímann sem ég er að steikja lummurnar.Upp og niður. Þannig að ég veit ekki hvort það er auðvelt að gera þær á rafmagnshellu. Það er heilmikið trix að þekkja hvenær þær eru tilbúnar til snúnings, snúa þeim svo snögglega þannig að ekkert leki út og allt er eins og á að vera. En maður minn, eru þær þess virði. Og nú er ég orðin svo sjóuð að ég hendi í þær, steiki og ét á 10 mínútum flat.

fimmtudagur, 8. mars 2012

(Ástarþakkir allemaal fyrir tölvupósta og kveðjur og komment, ég er agndofa yfir hvað allir vilja mér vel.)

Ég er ekki pirruð yfir því að léttast ekki um þessi síðustu fimmtán. Ég er pirruð yfir því að vera pirruð á að léttast ekki um þessi síðustu fimmtán. Ég er nefnilega á allt öðrum stað núna en þegar ég var rúm hundraðogþrjátíu kíló. Þá setti ég mér markmið sem miðuðu að því að verða heilbrigð en þau voru líka mjög tölfræðilega miðuð. Ég sá spikið gersamlega leka af mér og það var afskaplega mikilvægt þá. Ég þurfti á því að halda að sjá töluna á vigtinni fara niður á við til að að geta haldið áfram. Ég spurði sjálfa mig að því hvað ég væri tilbúin að gera til að léttast og það kom í ljós að ég var tilbúin til að gera heilmikið. Ég var tilbúin til að borða minna, til að taka út sætindi, kex og kökur, til að gera tilraunir með grænmeti og ávexti og hollara matfang, ég var tilbúin til að hreyfa mig meira og ég var tilbúin til að fórna allskonar tilbúnum hækjum og þægindum fyrir tímabundin óþægindi.

Núna er þetta allt annað umhverfi sem ég er að kljást við. Tilgangurinn er ekki lengur sá að léttast. Að léttast á að vera svona gleðilegur fylgifiskur. Tilgangurinn er að laga í mér heilann. Tilgangurinn er að vera hamingjusöm í eigin skinni feit eða mjó. Tilgangurinn er að hætta að vera svona upptekin af því að léttast og einbeita mér einungis að því að vera heilbrigð. Þess vegna verð ég svona reið þegar ég fyllist örvæntingu yfir því að léttast ekki. Ég á að vera komin yfir svoleiðis tilfinningar.

Ég hef nefnilega engan áhuga akkúrat núna á að gera það sem ég gerði í upphafi. Mig langar ekki til að telja og vigta. Mig langar ekki til að stjórna með smásjá öllu því sem ég borða. Mig langar ekki til að líða eins og neitt sé fórn eða að ég sé að sleppa einhverju. Og það eitt þýðir að ég kem ekki til með að léttast á sama hátt og ég myndi gera ef ég væri tilbúin til að mæla út grunnbrennslu, áætla kolvetnisskammt, auka hann á meðan á viðhaldi stendur, telja og vigta, telja og vigta. Ég er bara ekki til í þetta núna. Ég ætla að borða alvöru,hollan mat, þegar ég er svöng, þangað til ég verð södd. Ég er sannfærð, algerlega hundrað prósent sannfærð um að ef að ég geri það, borða alvöru, lifandi fæðu í mannsæmandi skammti og hreyfi mig eins og ég hef tíma til þá, að lokum, fari þessi síðustu fimmtán kíló. Ég hef engar áhyggjur af því. En ég verð að kenna sjálfri mér að vera þá líka samkvæm sjálfri mér og hætta að kveina yfir því að léttast ekki. Það er það sem ég þarf að laga.

Kannski hef ég komið sjálfri mér í þetta klandur. Ég skrifa bara fyrir sjálfa mig. En ég get heldur ekki neitað því að u.þ.b tvöhundruð manns kíkja hingað inn á hverjum degi. Og ég ímynda mér að mikið til af lesendum mínum leiti til mín til að fá inspirasjón og hvatningu. Og þegar ég, ár eftir ár, segi ekki frá neinum stórfenglegum leyndarmálum um hverning á að "léttast um tuttugu kíló á tveimur mánuðum" eða þegar ég missi sjónar á mínum eigin markmiðum, fæ ég herping í magann. Ég hlýt að vera að valda fullt af fólki vonbrigðum. Ég er bara engin fyrirmynd.

Það eina sem ég veit er að mér líður milljón, trilljón sinnum betur núna, meira að segja þegar ég er kveinandi í angist og örvæntingu, en mér leið þegar ég var alvöru feit. Og það er góð tilfinning.

Næst; uppskrift að kókóshnetuhveiti ammrískum pönnukökum. sunnudagur, 4. mars 2012

Ég vigtaði mig í gærmorgun. Tvö kíló í plús. Og ég er send aftur á byrjunarreit. Hvað kílóafjölda varðar er mér alveg sama. Ég á við að ég er send á byrjunarreit hvað hugsun varðar. Sykurlaus og hrein, innan skammtamarka, regluleg hlaup og tiltölulega lítið stress að undanförnu og ég þyngist um tvö kíló. Og allt sem ég er öskrar og æpir að þetta sé bara ekki réttlátt. Að ég bara geti ekki meir. Að ég sé búin að reyna allt. ALLT. Og það virðist engu máli skipta hvað ég geri; ég losna ekki við þessi síðustu fimmtán kíló. Og ég get ekki að því gert en að setjast bara niður, gráta og gefast upp. Ég get ekki meir. Öll hugsun sem segir að þetta snúist um að vera heilsuhraust og heilbrigð hverfur. Allt sem segir að þetta snúist ekki um buxnastærð eða hvernig ég lít út fer út um gluggann. Það eina sem ég get hugsað um er að ég sé feit. Feit, feit, feit. Feit og verði alltaf feit.

Þegar þetta gerist reynir sá hluti af sjálfri mér sem er æðri vitund að taka yfir. Æðri vitund er skynsöm og ástrík og hún reynir að segja mér það sem ég veit að skiptir máli, að ég sé að vinna ævilangt starf, að þetta taki tíma, að það skipti í alvörunni ekki máli hvort ég sé í buxum númer tíu eða sextán, það segi ekkert um hversu verðmæt ég sé sem manneskja. Og þetta allt saman er rétt hjá æðri vitundinni.

En suma daga langar mig til að taka æðri vitundina, kyrkja hana hægt og henda henni svo fyrir svínin.

Sjálfseyðingarhvötin tekur svo við af fullum krafti. Tvö kíló í plús? Okei, þá fer ég og fæ mér MacJónas, sjeik og þrjú mismundandi súkkulaðistykki. Þetta er hvort eð er tilgangslaus barátta.

(Ég drekk svo bara spínatsjeik í þrjá mánuði, losna við þessi fokkings fimmtán kíló og sjáum svo hvað setur. Af því að það er jafn hjálplegt og að fá sér MacJónas.)

Þegar ég er svo hálfnuð með súkkulaðistykki númer tvö rennur aðeins af mér. Ég veit að ég er ekki að fara að gefast upp. Það er á engu að gefast upp. Ég er nefnilega ekki sama manneskjan lengur. Lífstíllinn er ekki einu sinni lífstíll lengur, hann er bara lífið.

En ég þarf greinilega að vinna aðeins í því sem ég segi, hugsa og geri. Það er ekki alveg samræmi í þessu. Er tilgangurinn að losna við fimmtán kíló í viðbót? Er hann að vera "sæt"? Er hann að vera einfaldlega sterk og fljót að hlaupa? Ég þarf að skoða þetta betur.

Best er að hugsa málið á meðan maður hleypur. Best að taka sprett.

fimmtudagur, 1. mars 2012

Ég fæ oft góðar hugmyndir, segi við sjálfa mig að drífa hitt og þetta af, massa annað og koma öðru í gang. Og geri svo voðalega lítið í því. Ég var búin að segja að það væri ljómandi góð hugmynd að hlaupa heim úr vinnunni. En ef satt skal segja þá var ég ekki með á hreinu hvort ég væri bara að segja það eða hvort ég ætlaði í alvörunni að láta af verða.

Þannig að þegar ég tilkynnti að sumarið væri komið, að það væri tími til að pakka niður vetrarhlaupagallanum, sá ég líka að ég þyrfti að standa við það sem ég hafði sagt. Það var kominn tími á skipulag.

Komin heim.
Ég pakkaði hlaupagallanum í hlaupabakpokann í gærkvöld og fór í léttum (en gasalega smart) fötum í vinnuna í morgun. Vann svo eins og mófó við að afskrifa skuldir og lækka vexti (er ég ekki góð?), fór svo í hlaupagallann inni á klósetti og í strætó. Fór frá Chester til Wrexham og svo í stað þess að taka tengistrætó frá Wrexham til Rhos lagði ég í hann. Þetta er náttúrulega sama leiðin og ég hleyp á laugardagsmorgnum, nema bara í hina áttina. Og nú skil ég afhverju ég er alltaf að hlaupa svona ægilega hratt til Wrexham. Öll leiðin er niður í mót. Sem að sjálfsögðu þýðir að tilbaka er hún fricking upp í mót. Ég er líka búin að vera að vinna af mér föstudaginn, er sem sé í fríi á morgun, tróð bara allri vinnuvikunni á fyrstu fjóra dagana. Þannig að kannski var ég smávegis þreytt. Ég veit ekki. Allavega þá gafst heilinn upp á miðri leið. Sagði mér að stoppa, ég væri ekki hlaupari, hvað ég væri eiginlega að þykjast. Ég gerði þá trixið mitt þar sem ég kanna hvaðan þreytan kemur; sendi spurningu í fætur, í leggi, í læri, í mjaðmir og hendur. Ég spyr lungun hvort þau fái nóg súrefni, og hjartað hvort það sé að hamast of mikið. Ef allt þetta er í lagi þá veit ég að vandamálið er heilinn. Og það er nú bara orðið skemmtilegt að berjast við heilann í mér. Hann er rugludallur sem ég hef gaman að kljást við. Ég lofa mér allskonar skemmtilegheitum ef ég hleyp hálfan kílómetra í viðbót. Svo segi ég við sjálfa mig hvað það sé gaman að vera svona hraust, svona hress, finndu muninn! Og þá get ég stundum meira að segja ekki bara hlaupið aðeins lengra, heldur hraðar líka. Vííí hvað það er gaman að taka sprett! Og áður en ég veit af er ég komin á leiðarenda. Þetta virkar ekki alveg alltaf, en svona oftast.

Ég var allavega kát og hress þegar ég kom heim í kvöld. Skárra en að veltast um í strætó.