miðvikudagur, 27. febrúar 2013

Mér finnst rosalega gaman að gera mig fína. Með lakkaðar neglur, plokkaðar augabrúnir og í háum hælum líður mér vel. Sem er ljómandi gott þar sem ég er í vinnu sem krefst þess að ég sé fín alla daga nema föstudaga þegar það er "casual Friday". En það krefst ægilegrar staðfestu og tíma og viðhafnar að vera fínn stanslaust og ég verð að viðurkenna að ég get aldrei haldið bjútí rútínunni uppi. Ég pússa og lakka neglurnar og dáist að þeim, tek jafnvel af mér lakkið og set nýtt lag en svo gleymi ég því. Og þremur dögum seinna er ég með hálflakk á annarri hvorri nögl og er druslulegri en ef ég hefði bara sleppt lakkinu.

Ég lét alveg fallast fyrir malinu í stelpunni í Clinique deildinni í Boots um daginn. Hún lét mig setjast niður, tók mig í mini make-over, sýndi mér hvað húðin á mér er hrikalega flögnuð, blettótt og alveg laus við öll andoxunarefni, og til að varna þessu öllu ásamt hrukkumynduninni, nuddaði hún mig með allskonar kremum, sápum og tóner þangað til að ég keypti allan pakkann af henni. Ég skjögraði svo út, með afskaplega létta pyngju, sannfærð um að ef ég nota ekki allt draslið þá hreinlega detti af mér andlitið fyrir fertugt. Hún æpti á eftir mér; "money back guarantee" og af einhverjum ástæðum situr það i mér. "Better skin or your money back". Ég er búin að nota sápuna, tónerinn, kremið og hitt kremið af trúarofsa núna í tæpa viku. Og ég ætla að skila öllu draslinu á morgun. Fyrir utan að hafa ekki hálftíma aflögu kvölds og morgna í verkið þá sé ég engan mun. Ég er alveg jafn sæt og ég var á fimmtudaginn.

þriðjudagur, 26. febrúar 2013

Ég var ekki gömul þegar ég lærði fyrst að mér væri ekki treystandi þegar um mat var að ræða. Ég man ekki lífið öðruvísi en með skömmustutilfinningu yfir því hvað mig langar til að borða mikið. Mig langaði alltaf í meira. Ég skildi mjög snemma að ég var að gera eitthvað "rangt" þegar mig langaði í meira og það var líka mjög snemma á lífsleiðinni sem valdið var tekið frá mér og ég þurfti að fylgja settum reglum, settum matseðli. Og ég hef trúað því síðan að ég sé bestía, að ég sé magnvana gagnvart mat, að ég hafi enga stjórn á mér, að mér sé ekki treystandi, að ég geti ekki lifað nema eftir settum reglum. Ég trúði því frá unga aldri að ef mér væri gefin laus taumurinn myndi ég bara éta og éta þangað til ekkert stæði eftir af heiminum.

Og þannig borða ég. Ég trúi því inni í mér að ef ég flýti mér ekki, ef ég troði ekki í mig eins fljótt og mögulegt er þá taki einhver matinn frá mér. Þannig kemur til þessi löngun mín til að borða í einrúmi. Ef enginn sér hvað ég er að borða þá get ég bara borðað og borðað og borðað í friði.

En hvað ef ég veit að enginn hefur í hyggju að taka neitt frá mér? Og væri ekki enn betra ef ég segði við sjálfa mig að það eru engar reglur til að fylgja? Að ekki bara að ég geti borðað það sem mig langar í heldur að ég geti borðað það hvenær sem er?

Ef það væri málið myndi ég þurfa að borða af þessari ákefð? Myndi ég þurfa allt þetta magn?

Ég gæti sagt sjálfri mér að ég geti loksins hætt að fylgja reglunum sem ég er búin að reyna og mistakast við að fylgja síðan ég var krakki. Að ég geti bara slakað á því ég sé núna fullorðin manneskja sem veit hvað er mér fyrir bestu. Hvað ef ég treysti bara sjálfri mér?

Ég er ekki vandamál. Ég er ekki biluð.

mánudagur, 25. febrúar 2013


Í dag héldum við Dave upp á kærustuparadag. Það er ægilega skemmtilegt að vera kærustupar þegar maður er giftur; það er svona smá risqué. Ég gæti farið út í of mikil smáatriði en við skulum bara segja að það eru um þetta leyti 10 ár síðan Lukku-Láki Jones varð meira en glampi í augunum á pabba sínum. Þegar maður er giftur en heldur upp á kærustuparadag er mjög mikilvægt að gleyma því að maður eigi krakka. Maður bara skilar þeim af sér í skólann og gleymir þeim svo bara. (En bara til klukkan þrjú, annars kemur sósjallinn og tugtar mann til). Svo gerir maður það sem manni finnst skemmtilegt að gera saman.

Í okkar Dave tilviki er það aðallega að fá okkur kaffi og nördar sem við erum, að lesa bækur. Mikil lukkan sem var yfir mér þegar ég fann mann sem nennir að sitja bara og lesa og stundum tala um það sem maður er að lesa. Það er bara ekki sjálfgefið að allir skilji hversu mikilvægt það er að sitja bara í þögn og lesa. Að njóta andartaksins fyrir það sem það er, ekki fyrir það sem það ætti að vera.

sunnudagur, 24. febrúar 2013

Hundrað milljón sinnum hef ég lést um og þyngst um sömu kílóin. Hundrað þúsund milljón sinnum. Það er bara komið gott núna. Það er mér mun eðlislægara að vera ánægð með sjálfa mig, eins og ég er, frekar en að vera að rembast þetta að breyta sjálfri mér og enda bara full af vonbrigðum. Ég bara á ekki því að venjast að vera óánægð með sjálfa mig. Ég er þessvegna hætt. Hætt að rembast og reyna. Hætt í lífstíl, hætt í megrun. Hætt.

Það er algerlega tilgangslaust að finna upp á enn einni megrunaraðferðinni, trixinu eða viljarstyrksæfingu þegar það sama gerist trekk í trekk; ég finn upp megrunaraðferð, verð glöð og léttist um nokkur kíló, fyllist svo vanþurftartilfinningu, fæ mér nammi, kalla sjálfa mig aumingja og þyngist aftur um öll kílóin.

Ég hef þessvegna núna einungis áhuga á að láta mér líða vel. Ég sé enga frekari ástæðu til að halda áfram að kvelja sjálfa mig. Ég er hraust og ég er sæt, hvað annað þarf ég? Jú, ég væri til í að skilja hvað það er sem lætur mig borða þegar ég er ekki svöng. Það þykir mér áhugavert. En bara alls ekki í þeim tilgangi að léttast um þessi endalausu tuttugu kíló. Þau mega vera ef þeim sýnist svo. Þetta snýst ekki um hvað ég er þung. Þetta snýst reyndar heldur ekki ekki um hvað ég er þung. Ég hef engan áhuga á að verða hundrað og fimmtíu kíló aftur - enda er það að vera hundrað og fimmtíu kíló klénn vitnisburður um sjálfsást.

Nei, ég hef bara enga áhuga á að argast út í sjálfa mig lengur. Ég er búin að reyna að pína sjálfa mig í þrjátíu ár núna og það er ekki að virka. Það að vera hraustur og sætur er bara nóg. Ég, er nóg.

Það sem ég hef áhuga á er að komast að því afhverju ég segi að mér finnist matur bara svo góður, mér finnist bragðið svo gott þegar ég svo borða þannig að ég finn ekki bragð. Ég borða svo hratt að ég finn ekkert bragð. Afhverju ég segi að mér finnist matur svo fallegur þegar ég svo er búin að troða honum svo hratt upp í mig að ég sé ekki hvernig hann lítur út. Það getur bara ekki verið að mér finnist þetta mikið varið í mat ef ég borða hann þannig að ég hvorki sé hann né finn bragð.

Héðan í frá ætla ég að njóta hvers einasta bita sem ég set upp í mig. Ég ætla að spyrja mig hvort ég sé svöng. Og ef ég er svöng þá ætla ég að borða það sem mig langar í. Og ég ætla að hætta að borða þegar ég er orðin södd. Og ég ætla að vera ánægð með sjálfa mig.

laugardagur, 23. febrúar 2013

Við Dave ákváðum að stjarna vikunnar ætti skilið að fá að kaupa sér eitthvað smotterí og buðum honum þessvegna í smá rúnt til Wrexham til að kíkja í dótabúð. Ég notaði tækifærið og hjólaði til Wrexham í kappi við strákana mína í því sem stjarnan kallaði "The race to Wrexham". Ég kom bara sex mínútum á eftir þeim þannig að það er augljóst að það er allt sem mælir með því að nota hjólið til að komast á milli staða. Við byrjuðum á að fara með hjólið á verkstæði til að láta setja á það bretti og til að laga gírana. Ég veit ekki hvað veldur en það festist alltaf í fyrsta gír og svo dettur keðjan af. Þetta þurfti að laga. Ég skildi hjólið eftir á verkstæðinu og við röltum um Wrexham. Þegar Lúkas var búinn í sinni dótabúð var komið að okkur Dave. Nei, ekki þannig dótabúð, nammibúð öllu heldur. Það var komið að vikulegum innkaupum á kaffi. Það er voðalega skemmtilegt að fara inn í Wrexham Just Tea and Coffee, eigendurnir eru gott fólk og mikil uppspretta visku um allt kaffi-og tetengt.Við förum þangað inn svona á viku til tveggja vikna fresti og kaupum poka af Draig Espresso (Dreka Espresso) sem er sérbrennt fyrir verslunina og svo veljum við okkur eitt nýtt drykkjarkaffi. Drekinn fer í latte gerð, tilraunakaffið er fíni morgunbollinn. Þetta er bráðskemmtilegt áhugamál, við fáum að prófa nýtt kaffi og það er svo gaman að fylgjast með þeim í búðinni mala kaffið og tala um það á meðan ilmurinn af nýmöluðum baununum fylla vitin. Við höfum enn ekki tímt að kaupa Kopi Luwak kaffi (þetta sem kötturinn skítur) og höfum heldur ekki lagt í að leggja út fyrir Jamaican Blue Mountain en fundum í dag kaffi frá Súmötru sem notar sömu baun og þessi frá Jamaica. Og þó það sé aðeins dýrara en hin "köffin" í búðinni þá er það langt í frá að vera jafn dýrt og Blue Mountain en býður engu að síður upp á ótrúlega þétt bragð. Ríkur ilmur sem lofaði bragði af karamellu, súkkulaði og berjum og með þessu jarðarbragði sem kaffi frá Súmötru eiga sameiginlegt. Besta kaffi sem ég hef smakkað hingað til.

Við verðum svo stanslaust meiri heimsborgarar hér í rassgati; nú er komið Starbucks í Rhostyllen, sem er næsta þorp hér við okkur. Við ákváðum því að ég myndi fá svona "pit-stop" á leiðinni heim þegar hjólið var tilbúið. Ég rauk því til Rhostyllen og vann keppnina. Traffíkin var orðin slík að þeir sátu fastir í bílnum á meðan ég skaust um, frí og frjáls, og var komin á kaffihúsið langt á undan þeim. Okkur finnst voða gott að sitja á Starbucks, þó ég myndi ekki mæla með því fyrir kaffifólk sem bara drekkur espresso þá er það gósenland fyrir okkur sem hafa gaman af mjólkurblönduðum kaffidrykkjum.

föstudagur, 22. febrúar 2013

Í dag hélt ég upp á dag Murtunnar. Og það var svo gaman að  ég ímynda mér að hann verði haldinn hátíðlegur á landsvísu árlega héðan í frá. Ég byrjaði daginn á að sofa aðeins út. Vanalega er ég farin út rétt eftir klukkan sex en í morgun var enginn asi og ég og Lúkas gátum dúllað okkur rétt til níu þegar hann mætti í skólann. Það var yndislegt að byrja daginn með honum og að fá stórt knús við skólann. Ég hélt svo sem leið lá til Chester. Rölti mér meðfram ánni Dee, sá þar Lafði Díönu og annað skemmtilegt. 


Eftir göngu í morgunkulinu var kominn tími á morgunmat. Ég ákvað að prófa að fara á Hickory´s sem er ammrískur diner sem stendur við ánna. Nashyrningurinn er auglýsing fyrir Chester Dýragarð sem er ofboðslega skemmtilegur staður að heimsækja. 

Á Hickory´s fékk ég mér klassískan ammrískan morgunmat; pönnukökur, beikon, hlynsíróp og sterkt, gott kaffi. Þarna sat ég ein, ekki með bók, ekki með neitt til að verja mig eða fela. Sat bara og smjattaði og kjamsaði á matnum mínum og naut hvers einasta bita. Allt hluti af því að sýna sjálfri mér að ég er ekki veik, það er ekkert sem þarf að laga við mig. Ég get borðað mat án þess að það verði til þess að ég missi stjórn á lifinu. Og ég sat og borðaði og brosti. Stoppaði af ásettu ráði þegar ég var hálfnuð með skammtinn og kannaði hvort ég væri enn svöng. Og það kom í ljós að ég var búin að fá nóg þannig að ég ýtti frá mér disknum, södd og sæl. 

Frá Hickory´s lá svo leiðin í Grosvenor Bygginguna, sem er verslunarmiðstöð frá Viktoríutímabilinu og þar má finna háklassaverlsanir. Allt langt utan þess sem ég hef efni eða áhuga á en engu að síður svakaleg gaman að skoða.  

Þar fann ég gallerí sem var með sýningu á súperhetjumyndum og ég skoðaði svona mest með son og eiginmann í huga. Þeir hefðu gaman af þessu. 

Ég stoppaði svo við í Zara og Next og náði mér í peysu og buxur og hringsnérist í mátunarklefanum af ánægju með hvað mér fannst ég vera sæt. Eftir það var um lítið að ræða en að ná í meiri pening, því miður er hann ekki ókeypis eins og auglýst er. Maður borgar sko sjálfur. 

Þaðan lá leiðin um borgarmúrana og framhjá elsta pöbbnum sem hefur verið starfræktur síðan á 12. öld.  Ég kom við í  Waterstones og skoðaði bækur sem ég er reyndar hætt að kaupa út af Kindle en finnst enn alveg svakalega gaman að skoða. Ég get heldur aldrei staðist að skoða matreiðslubækur með fallegum myndum.

Í Chester er enn líka hægt að finna sérverlsanir sem eru hvergi annarstaðar. Allstaðar í Bretlandi eru litlu , einkarreknu búðirnar og veitingahúsin að deyja út en hér er enn haldið í sérstöðuna. 

Ég stóðst reyndar ekki að ég átti ókeypis kaffibolla á Neró og settist því þar inn. Haf'ði hugsað mér að fá mér möndlucroissant með en þegar ég spurði mallakút þá var hann bara enn saddur og ég sleppti því kruðeríinu. Sko! Ég er ekki veik!. Er út er litið er ekki hægt að efast um hvar maður er staddur; rauður símaklefi gefur vísbendingu. 

Ég sat á Neró í dágóða stund og ákvað að fara svo í Boots og nota inneignarpunktana mína þar til að kaupa mér eitthvað sem ég þurfti ekki á að halda. Það er svo gaman að gera gott við sjálfan sig. Og það er líka svo gott að minna sjálfan sig á að eittvhvað gott þarf ekki endilega að vera sjúkkulaði. 

Þegar heim var komið tók ég saman afrakstur dagsins; haframjöl, kókós og trönuber til að búa til hafragraut sem nærir bæði sál og líkama.

Peysa og buxur til að minna mig á að ég er þess virði. 


Hárolía bara svona til að bæta við lúxus. 

Og ein kúla af heimatilbúnum kaffi- og kókósís (uppskrift fylgir ef einhver vill) af þvi að það er svo gaman að skapa eitthvað nýtt. 

Dagur Murtunnar endaði svo fullkomnlega þegar Lúkas minn kom heim með skírteini úr skólanum sem sagði að hann væri "Seren Yr Wythnos" eða Stjarna Vikunnar fyrir sjálfstæð vinnubrögð i skapandi skrifum. Þvílík stjarna! Og ég tel þessvegna að ekki nokkur vafi leiki á að dagurinn verði aftur haldinn hátíðlegur bráðlega. 

þriðjudagur, 19. febrúar 2013

Eitt af því sem mér líkar hvað best við sjálfa mig er að ég er alltaf bjartsýnog tilbúin að sjá jákvæðu hliðina á málinu. Og að mestu leyti er ég enn jákvæð og bjartsýn. En að undanförnu hefur mér hröplast aðeins og ég hef dottið niður í að reyna að kúga sjálfa mig til að ná árangri. Og ég finn að ég hef smásaman verið að tapa gleðinni inni í mér. Ef þú reynir að grennast með því niðurlægja þig, svipta sjálfa þig nauðsynjum og hræða sjálfa þig þá endarðu niðurlægð, soltin og hrædd. Það er augljóslega ekki leiðin að hamingju.

Ég er alltaf að berjast á móti hinu og þessu. Berjast við sjálfa mig og aðstæður mínar og með því að berjast á móti því sem ég er að upplagi er ég einungis að skapa sjálfri mér óhamingju. Ég er kúguppgefin og þreytt andlega og líkamlega. En málið er að þetta er algerlega af mínum eigin völdum. Ég hefði getað valið að sjá og skilja aðstæðurnar eins og þær eru og lært að takast á við það frekar en að óska þess að hlutirnir væru öðruvísi. Það er komin tími til að sætta mig við hlutina eins og þeir eru.

Það þýðir alls ekki að ég sé að gefast upp. Að sætta sig við raunveruleikann þýðir ekki að gefast upp. Það er eðlilegt að spyrja hvernig get ég breytt einhverju ef ég sætti mig bara við núverandi ástand? En það er þegar maður sér ástandið eins og það er, sættir sig við það sem á undan kom og lærir af því, sem það er hægt að breytast. Þannig er ég ekki lifandi í ástandi sem segir mér að hlutirnir "ættu" að vera á einhvern vissan hátt og ég endalaust frústreruð að berja höfðinu upp við vegg.

Geneen Roth skrifar í bók sinni Women, food and God;

“. . . hell is wanting to be somewhere different from where you are. Being one place and wanting to be somewhere else . . . . Wanting life to be different from what it is. That's also called leaving without leaving. Dying before you die. It's as if there is a part of you that so rails against being shattered by love that you shatter yourself first. (p. 44)”

Nei, ég er ekki að gefast upp. Þvert á móti. Ég er uppfull af nýrri von. Ég er bara hætt að berjast á móti sjálfri mér. Ég ætla frekar að vinna með sjálfri mér. Við erum sko saman í liði. Ég bara vil ekki lifa lífinu óskandi þess að ég sé stödd annarstaðar. Ég vil bara vera ánægð eins og ég er á meðan ég er að gera það sem er best fyrir mig. Ferlið er markmiðið.

sunnudagur, 17. febrúar 2013

Ég er búin að reyna árum saman að koma af stað súrdeigsstarter en algerlega án árangurs. Ég er búin að reyna allt. Ég er búin að prófa allar aðferðir sem ég get fundið skrifað um eða heyri talað um eða sé í sjónvarpinu. Um daginn tókst það svo loksins. Ég ákvað að gera síðustu tilraunina. Lagði allt mitt í. Og af einvherjum óskiljanlegum ástæðum kviknaði líf í skálinni. Ég horfði á hana bubbla upp og fylltist ægilegum spenningi. Nostraði og fitlaði við, tók úr og bætti í og allt eftir kúnstarinnar listum. Og svo var komið að því að baka. Ég veit fátt betra en gott súrdeigsbrauð. Hef horft á það í fínum bakaríum og öfundast út í það árum saman og tilhugsunin um að búa til mitt eigið fyllti mig von og hamingju.

Líf í skálinni

Tekið úr og bætt í

Deigið hefur sig undir hveitiþöktum klút

Bakað í potti

Tilbúinn hleifurinn
Og eftir alla þessa vinnu, eftir allan þennan tíma, eftir alla þessa eftirvæntingu og tilhlökkun, eftir allt þetta var brauðið nánast óætt. Bragðlaust, þurrt og leiðinlegt. Mér datt í hug að þetta væri eins og dæmisaga um þetta lífstílsævnitýri mitt. Árum saman hef ég þráð það eitt að vera mjó og ég setti alla mína trú á það að bara ef ég væri mjó þá myndi allt annað smella saman. En kannski er ég að elta eitthvað sem reynist svo bara vera bragðlaust, þurrt og leiðinlegt?

Ég veit það eitt að ég er orðin ósköp leið á að eltast við eitthvað sem virðist bara ekki ætla að gerast hjá mér. Og ég get ekki haldið áfram að verða fyrir stanslausum vonbrigðum með sjálfa mig. Ég held að það sé komin tími til að endurmeta vonir mína og drauma.

laugardagur, 16. febrúar 2013

Það hefur örugglega komist í fréttirnar heim hrossakjötsskandallinn hérna í Bretaveldi. Það kemur semsagt í ljós að einhver kriminal element hafi komist inn í "supply chain" og hrossakjöt hefur verið selt sem nautakjöt í tílbúnum máltíðum. Hér er hrossakjöt ekki matur og fólk þessvegna að sjálfsögðu í miklu uppnámi yfir þessu. Þegar ég flutti frá Íslandi voru svona tilbúnar skyndimáltíðir ekki mikið til, mig minnir að 1944 réttirnir hafi verið til í nokkur ár og svo mátti alltaf kaupa sér Ömmupizzu en að öðru leyti eldaði maður sjálfur það sem maður borðaði. Hér er þetta allt annað mál. Fólk horfir á mig í forundran þegar ég tala um að baka brauð, baka kökur, og elda eitthvað "from scratch" eins og þeir segja. Það er alvanalegt að kaupa bara pakkamat og fylla frystinn og henda svo bara inn í ofn eða örbylgju þegar heim er komið. Ju minn eini! segja góðar húsmæður um allan heim.. Ég held að það sé nánast útilokað að útskýra fyrir Íslendingum hvernig lífið virkar fyrir sig hérna. Hér er nánast engin þjónusta við börn þannig að maður þarf að koma þeim fyrir í allskonar geymslum fyrir og eftir skóla. Það kostar mánaðarlaunin að geyma barnið einhverstaðar þannig að maður þarf að vinna ógrynni af yfirvinnu líka. Þannig byrjar maður og endar daginn. Þar á undan er eðlilegt að eyða nokkrum klukkustundum í ferðalag í vinnu. Ég t.d tek fjóra klukkutíma á hverjum degi í að komast í og úr vinnu. Það er erfitt að fá frí, og maður fær kannski ekki endilega þá daga sem maður vill, manni er bara úthlutað dögum. Er nema von að fólk komi heim kannski að verða átta og nenni ekki að elda? Ég skil það vel.  

En það afsakar það samt ekki. Ég skil það en ég afsaka ekki. Ég eyði nefnilega fjórum klukkutímum á dag í ferðalag, ég vinn yfirvinnu, ég skrifa ritgerðir og blogg, ég stunda líkamsrækt, ég el upp son minn, elska manninn minn og held (nokkurn vegin) hreinu húsi. Og ég elda minn mat. Þannig að ættleidda þjóðin mín má syrgja hrossaborgarana sína eins og þeim lystir en ég vorkenni ekki.

Það eina sem þarf er smá skipulag. Ég eyði klukkutíma á sunnudegi í að búa til matseðil fyrir vikuna. Ég á uppskrifabók sem ég hef sett inn allar uppáhaldsuppskriftirnar mínar og ég skoða hana og vel úr. Stundum bæti ég við einni nýrri, en ég reyni að hafa það einfalt. Ég elda mikið mat sem dugar í tvo daga eins og chili, bolognese, súpur og kássur. Ég nota uppskriftir sem þurfa að malla aðeins svo ég geti notað þann tima í að taka til og finna til salat fyrir hádegi daginn eftir.  Ég nota svipaðan strúktur alla daga og er ekkert að flækja málin. Ég skoða skápana mína og veit hvað ég á til og hvað vantar. Ég á alltaf til lauk og kjötkraft og get alltaf búið til djúsí lauksúpu. Þetta er hljómar kannski eins og ég sé innkaupalista fasisti en þetta er svo þægilegt. Það þarf bara að gera þetta í tvær vikur til að finna hvað það er gott og einfalt að hafa allt svona tilbúið. Og eftir það er útilokað að gera þetta ekki.

Og svo náttúrulega stundum planar maður að panta bara pizzu frá Kúrdunum á horninu.

þriðjudagur, 12. febrúar 2013

Jesús er sáttur.
Það er alsiður hér að taka þátt í páskaföstunni (Lent). Maður er oft spurður hvort maður hafi í hyggju að gefa eitthvað upp á bátinn þessa 40 daga fram að páskum. Þetta eru leifar tíma þar sem trúaðir borðuðu ekki kjöt á öskudaginn og alla föstudaga fram að páskum og eyddu tíma sínum í syndaaflausn og íhugun til að færast nær gvuði. Ég er náttúrulega harðsvíraður heiðingi og sé enga ástæðu til að komast í trúarofsa í gegnum ofskynjanir eftir föstu og sjálfsmeiðingar. Enda er það að gefa eitthvað upp á bátinn neikvæð reynsla og ég nenni engu neikvæðu. Þess í stað ætla ég að bæta hlutum við næstu 40 dagana. Þannig hef ég í hyggju að að hjóla 35 km á viku. Ég ætla að fylgja matseðli fimm daga vikunnar. Ég ætla að skrifa tvær málsgreinar á hverjum degi í ritgerðinni minni. Og ég ætla að segja eitthvað fallegt við aðra manneskju á hverjum degi. Ég er viss um að gvuð er alveg hress með þetta plan.

sunnudagur, 10. febrúar 2013

Dyggir blogglesendur eru eflaust farnir að velta fyrir sér hvort ég sé enn þunn. Og þeir hafa að vissu leyti rétt fyrir sér, ég eyddi síðust viku í óskaplegt þunnildi. Fór í vinnuna, kom heim, horfði á sjónvarp, svaf og þess á milli las ég fjórar skáldsögur. Eyddi hinsvegar engum tíma í að velta fyrir mér spiki. Lét það bara alveg vera. Hugsaði ekki um það einu sinni. Og þegar ég steig á vigtina í morgun var ég búin að þyngjast um eitt og hálft kíló. Sem er sérstaklega skemmtileg áminning um að ég er ekki enn hæf til að taka augun af markmiðinu. Ég þarf að vera með allavega 90% heilans fókusuð á spik ef ég ætla að bara viðhalda núverandi þyngd, hvað þá að léttast. Góð áminning.

Breskar á kökufati, sú íslenska fremst á diski. 

Þegar ég flutti til Wales fyrir rétt tæpum 10 árum síðan var ég haldin gífurlegum ranghugmyndum um Ísland. Og sérstaklega þá um ýmislegt sem ég hélt að væri íslenskt. Sagan af Nínu og Geira til dæmis. Það er bara alls ekki íslenskt lag heldur Ammrískt. Og vatnsdeigsbollur. Þær heita profiteroles hér og eru bara enn eitt kruðeríið. Ég veit reyndar ekki hversvegna í ósköpunum ég hélt að bollur væru íslenskar, þegar ég hugsaði um það þá eru þær einmitt sérlega óíslenskar en svona er þetta bara. Maður er svo lítill heimsborgari. Ég ákvað í ár að nota gömlu uppskriftina mína en prófa líka að nota uppskrift frá Mary Berry af Great British Bake off frægð.  Sjá hvort það væri munur. Efnin þau sömu, hveiti, vatn og smjör ásamt eggjum en bretinn notar líka salt og sykur, en íslenska uppskriftin segir örlítið lyftiduft. Og hlutföllin öll önnur. Breska uppskriftin mun blautari og erfiðari að móta en kemur fallegri út úr ofninum. En þar er yfirburðir þeirra bresku uppurnir. Að öllu öðru leyti er íslenska uppskriftin betri. Meira bragð, betri áferð, meiri fylling. Allt. Þannig að ég ætla að halda áfram að kalla bolludag íslenskan og bollurnar eins íslenskar og hrossabjúgu.

Ég fæ ekki saltkjöt í ár frekar en þau síðustu tíu. Ég get búið til baunasúpu og geri það vanalega. Og á þriðjudag er hér Shrove Tuesday þegar bretar nota upp sín egg og hveiti í undirbúing fyrir páskaföstuna í pönnukökur. Sem var annað sjokk. Bretar gera nefnilega örþunnar "íslenskar" pönnukökur. Og þeir gera það án þess að nota pönnukökupönnu. Þeir bjóða reyndar upp á þær með sykri og sítrónusafa sem ég get ekki vanist. Ég efast reyndar um að ég bjóði Bretunum mínum upp á pönnukökur í ár, bollurnar eru nóg. Og svo er ég að spá í að taka á mig yfirskin trúaranda og nota páskaföstuna til að koma einbeitningu aftur að. Það eru nefnilega ekki bara tvö kíló í boði núna heldur þrjú og hálft. Og það er bara ekki jafn flott slagorð.

sunnudagur, 3. febrúar 2013

Við fórum á ægilegt skrall í gær maðurinn og ég. Mágkona mín og svili buðu okkur að koma með sér á pöbbinn að horfa á fyrsta leikinn í "6 Nations" keppninni í rugby. Eins og allir vita erum við Veilsverjar miklir rugby aðdáendur og það er að sjálfsögðu heimsfrægt að við unnum þessa keppni með "Grand Slam" í fyrra, þeas við unnum alla okkar leiki. Þetta er alvitað. (Eða er rugby jafnfrægt á Íslandi og handbolti er hér?) Við röltum okkur niður til Johnstown þar sem Lúkas fékk að gista hjá nain og taid (ömmu og afa) og hann var heldur betur sáttur við það enda var Cade frændi hans þar líka og ætlaði að gista. Við vissum semsé að það myndi ekki væsa um þá kumpána.

Lee Halfpenny í stuði. 
Við Dave héldum því á pöbbinn og fyrsti bjórinn kominn á borðið klukkan hálftvö um leið og leikur hófst. Ég hafði sagt við Dave fyrr um daginn að nú væri sko aldeilis tími til að sýna framsýni og fyrirhyggju. Fyrst við værum að fara að fá okkur í stórutána svona yfir daginn þá væri nokkuð ljóst að við myndum sjálfsagt vera komin aftur heim snemma. Við myndum líka sjálfsagt vera rallhálf. Og að vera rallhálf er ávísun á kæruleysi og tvöfaldan beikonborgara. Ég fór þessvegna í langan hjólatúr um morguninn og kom við í búð og kippti með mér því sem þarf í heilsusamlegt kalkúnapastalauslasagne. Og hafði það til þar um morguninn þannig að þegar við kæmum heim um kvöldð með mallann fullan af bjór og óstjórnlega löngun í eitthvað djúsí, nú þá þyrfti ég bara að stinga lasagne inn í ofn og hey presto! við hefðum indælis, djúsí mat tilbúinn og enga ástæðu til að fara í chippie. Við hófum því drykkju án nokkurra vandkvæða og vönduðum okkur til við verkið. Wales hóf leik illa, var komið 17 stigum undir Írland þegar þeir loksins tóku þumalputt úr rassgati og byrjuðu að skora stig. En allt kom fyrir ekki, við töpuðum. Og þurftum að sjálfsögðu að drekkja sorgum okkar. Gerðum það vel og vandlega og höfðum gaman af. Horfðum svo á Skota tapa fyrir Englendingum sem er eins hræðilegt og hugsanlegt er og þurftum að sjálfsögðu að skála í sorg fyrir keltneskum bræðrum og systrum í Skotlandi. Þegar hér var komið sögu var farið að halla mikið á hlutföllin stuð versus skynsemi. Eins og allir vita þá segir jafnan að því meira stuð, því minni skynsemi. Það var komið fast að kvöldmat og okkur fannst öllum tilvalið að panta hálfsmetralangar pulsur í brauði og franskar með um leið og við pöntuðum næsta bjór. Og þessu var svo skolað niður með meiri bjór.

Bacon pancake stack. 
 Eftir því sem ég best veit var alveg hrikalega skemmtilegt, ég var með harðsperrur í kinnum þegar ég vaknaði í morgun. Ég á hinsvegar enn tilbúið heilsusamlegt lasagne inni í ísskáp. Það var ekki sjéns að ég fengi mér eitthvað heilsusamlegt. Nei, fita,hveiti og sykur var það sem minn líkami krafðist og það var það sem hann fékk. Við Dave fórum í rómantískan morgunverð á Frankie & Benny´s og fengum ammríska útgáfu af breskum morgunmat og í eftirrétt fékk ég svo möndlucroissant á Café Neró. Ég hreinlega gæti ekki verið sáttari. Stundum þarf maður bara að láta stuðið eftir sér svona til að geta tekist á við alla skynsemina alla hina dagana.

Ég klára janúar með þriggja og hálfs kílóa tapi og byrja febrúar á stærðfræði formúlunni (93.5-71)/11=2.05. Tvö kíló í febrúar. Við sjáum til. Kannski er ég bara hamingjusöm eins og ég er. Bara hamingjusöm.