mánudagur, 29. september 2008

Þetta er búinn að vera góður dagur enn og aftur. Hingað kom sérlega kumpánlegur rafvirkji í morgun, þáði tebolla og eftir gott spjall um vexti, vaxtavexti, veðurfar og viðbit hóf hann störf. Setti upp ljósið yfir borðstofuborðið svo unun er á að líta. Mikið sem svona lagað gerir mig hamingjusama. Svo skundaði ég á fund hjúkku og hef enn lést um annað kíló. Betra var þó að hún lét mig fá lyfseðil í ræktina. Já, núna get ég farið í ræktina og rétt afgreiðsludömunni lyfseðil og þá borga ég £1 í stað fjögurra. Það munar nú um minna! Ég get því miður ekki stólað á Ceri og Shirley og þarf að finna mér leiðir til að fara sjálf en ég er nú svo uppnumin af bodyPumpinu að ég reyni nú að finna leiðir til að komast án þeirra. Aðalatriði dagsins var svo atvinnuviðtalið. Það er ómögulegt að segja hvernig gekk, mér fannst ég koma ágætlega vel fyrir en maður veit aldrei. Nú bíð ég bara átekta. Fingers crossed eins og við segjum hérna megin.

fimmtudagur, 25. september 2008

Og áfram heldur það. Þegar ég kom heim úr eróbikki (gaman en ekki jafn skemmtilegt og pumpið) beið mín bréf frá háskólanum þess efnis að ég hafi náð júlí prófinu! Ég var orðin vel nojuð, en þetta er greinilega allt að koma. Þetta framskrið af stuði heldur bara áfram.

þriðjudagur, 23. september 2008

Já, og góðir dagar verða bara betri. Hef greinilega tekið á því í gær því allir vöðvar eru með léttan sviða. Er búin að tala við rafvirkjann og hann kemur á mánudagsmorgun til að setja upp ljósið. Ég hef einnig þann dag verið boðuð í atvinnuviðtal hjá skattinum. Ég er hæstánægð. Við sjáum svo bara hvað setur með það. Já, það er deginum ljósara að maður þarf að vera í stuði og þá kemur meira stuð til manns.

mánudagur, 22. september 2008

Þetta er búinn að vera mikið svakalega góður dagur. Ég fékk borðstofuljósið sent og er himinlifandi yfir hversu vel mér tókst í valinu. Þarf nú bara að finna dag sem hentar mér og rafvirkjanum til að hengja það upp. Á milli þess svo sem ég fór með Lúkas í og úr skóla, skipti ég á rúmum, setti í tvær þvottavélar og hengdi upp, tók til, eldaði stroganoff, læknaði Lúkas af njálg, vaskaði upp og skrifaði eina ritgerð. Fór svo með Ceri og Shirley í líkamsrækt. Við ætluðum í legs, bums and tums, léttar æfingar fyrir konur á öllum aldri. Fannst fólkið sem var í salnum vera í dáltið góðu formi og af báðum kynjum. Merkilegra þó að þau voru öll með lyftistangir og enn furðulegra var þegar okkur var öllum rétt lóð. Kom fljótlega í ljós að við vorum staddar í bodyPump og var nú tekið almennilega á því. Mikið svakalega var þetta gaman. Hrikalega erfitt en gaman. Ekkert hopp og rugl bara tekið almennilega á því í takt við þungarokk. Mér hefur ekki liðið svona vel í langan tíma. Ritgerð og ræktin. Nú vantar bara að fá vinnu. Stuð maður, stuð!

laugardagur, 20. september 2008

Ég er núna ekki búin að vera í megrun í viku og glöggir lesendur taka ef til vill eftir að ég er búin að léttast um 2 kíló. 2 kíló jafngilda 14000 karólínum. Ég hef sem sagt endurgreitt 14000 karólínur inn á fituskuldina mína. Ég skulda sjö hundruð þúsund (700.000) karólínur sem ég vona að ég geti endurgreitt á næstu árum með að vera ekki í megrun. Ég er að vona að þetta sé ekki misskilningur en þessa viku er ég búin að vera á fullu í Pilates og hefur lítið langað í nammi. Ég sagði við sjálfa mig að ef mig langi í eitthvað gott þá bara fæ ég mér það en mig hefur bara ekkert langað til að borða. Skrýtið. Ekki getur verið að ég sé búin að leysa 27 ára gamlan vanda?

þriðjudagur, 16. september 2008

Jæja, hvort sem maður er feitur eða mjór þá verður maður nú alltaf að reyna að vera í stuði og það er það sem ég hef í hyggju að gera. Eins og áður hefur komið fram er ég alltaf að reyna að finna nýja vinnu, enda er ekki mikið stuð í vinnunni sem ég er í núna. Og viti menn, ætli að ég hafi bara ekki verið í atvinnu"prófi" hjá Skattinum í morgun. Svissaði frídegi til að komast í þetta og er bara vel spennt núna. Þetta var semsagt 3 lota í því að fá vinnu hjá Her Majesty´s Revenue and Customs, fyrst var próf á netinu, núna skriflegt próf á skrifstofunni hjá þeim og ef ég hef náð því þá verður mér boðið í viðtal. Ég hlakka til að sjá hvað gerist næst, fannst ganga vel prófinu en maður veit aldrei.

Ég er alveg í stuði með mataræðið. Ætla alveg að hætta í megrun, ætla aldrei framar að spá í þessu. Ætla bara að hugsa mig um í hvert sinn sem ég fæ mér eitthvað að borða. Og fara til hjúkku í vigtun. Halda áfram í Pilates enda finnst mér það gaman og fara með Ceri og Shirley til Plas Madoc í bodyPump. En ég ætla ekki að telja karólínur eða kaupa einn einasta matarsnefil sem heitir "diet", "light" eða "létt". Basta.

sunnudagur, 14. september 2008

Ég hef margoft sagt að það liggi enginn sálrænn þáttur að baki ofáti mínu, mér finnst matur einfaldlega rosalega góður og á bara erfitt með að hætta. En það er orðið svo að ég verð eiginlega að skoða það mál aðeins betur. Ég hef aldrei verið jafnslæm og ég er núna. Ég hugsa stanslaust um mat, allt mitt líf snýst í kringum næstu máltíð, að versla í matinn og panikk ef það er ekki til "eitthvað gott." Þetta er búið að vera að ágerast eftir að ég flyt hingað út. Það er víst komið svo að ég þarf að athuga hvort ég sé að borða vegna heimþrár. Ef svo er þá verð ég að fara í að laga það. Ég get í það minnsta ekki haldið svona áfram, öll loforðin sem ég geri sjálfri mér og brýt svo, vonbrigðin og sjálfsfyrirlitning sem svo fylgir. Ég bara verð að ná tökum á þessu. Ég get þetta bara ekki enn einu sinni. Ég er alveg búin á því.

miðvikudagur, 10. september 2008

Ég hef alveg misst tökin á sjálfri mér. Hvað nú? Erase and rewind...

mánudagur, 8. september 2008Jessss! Veraldargæðin fylla hjarta mitt þvílíkri hamingju að ég má vart mæla! Arne Jacobsen (knockoff) stólarnir komu loksins í dag eftir margra mánaða leit (þeir urðu að vera eins líkir upprunalegu stólunum og hægt var en á viðráðanlegu verði) og svakalegt vesen við að fá þá senda. Ég er svo grunnhyggin að þetta eitt að fá nýja stóla gerir það að verkum að ég verð ánægð með allt í lífinu. Hvað það er gott að og þægilegt vera svona einföld sál. Ég er svo búin að panta rafvirkja til að setja upp ljós yfir borðinu til að skapa "task lighting". Tvö svona hlið við hlið sem hanga lágt. Ef þið skiljið hvað ég á við. Þá verður borðstofan aðskilin frá stofunni með ljósum. Ég set að sjálfsögðu inn öppdeit á myndum þegar þau eru komin upp. Ohhhh ég get ekki beðið!
Ég á ekki að vera skrifa neina bloggfærslu, ég á að vera að skrifa ritgerð. Um BCG matrix. En mig langar ekkert til þess akkúrat núna, ég er enn ekki búin að fá að vita hvort ég hafi náð prófunum og get einhvern vegin ekki komið mér til vinnu. Þannig að ég sit hérna og skoða síðu eftir síðu af jólaskrauti. Já, þið heyrðuð rétt, jólaskraut. Ég er að skoða þemað í ár og mér sýnist að það sé best að hafa svona "country" þemuð jól í ár. Ég á fullt af fallegu svona dóti (takk Gréta, Rut, mamma og amma) og ég held að það fari svo vel í litla húsinu mínu. Betur en gull og súkkulaði jólin í fyrra. Já, það er ótrúlegt hvað manni tekst að eyða tímanum í þegar maður er að forðast ritgerðarsmíð.

miðvikudagur, 3. september 2008


Jæja, Láki byrjaði aftur í skólanum í dag, og er núna kominn í Ysgol Maes-Y-Mynnydd (Maæs í munnuþ) sem er "alvöru" skóli. Í fyrra var hann í nursery class sem er svona eins og að leyfa elstu börnunum í leikskólanum að vera í grunnskóla fyrir hádegi. Núna er hann hins vegar í reception og er allan daginn. Bara 4 ára og skipulagður dagur frá 8 til 4. Hugsa með sér. Hann fékk nýjan skólabúning sem mér finnst ekki jafn fallegur og búningurinn í fyrra en hann sjálfur var svo spenntur að hann var kominn í skóna klukkan 7 í morgun! Mér finnst enn eitthvað smá óþægilegt við þetta alltsaman, ég er enn ekki með kerfið hérna á hreinu einhvernvegin. Mér finnst ég alls ekki fá nægar upplýsingar og þegar ég leita eftir þeim virðist enginn geta svarað mér. Svona smáatriði eins og leikfimi. Ég var látin kaupa bol og stuttbuxur svo hann gæti farið í leikfimi en engu að síður er ég ekki með stundatöflu og veit ekki hvaða daga vikunnar hann á að fara með leikfimisdót með sér. Fyrir utan að hann getur enn ekki almennilega klætt sig. (Sokkar eru eitthvað að vefjast fyrir honum) Þetta reddast svo sem alltaf allt en samt...
Í öðrum fréttum þá er Dave 35 ára í dag. Ykkur er öllum boðið í velskt lambalæri á sunnudaginn í því tilefni.