sunnudagur, 30. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 13

Þegar ég lít í spegil.....

...verð ég alltaf smá hissa. Tökum daginn í dag sem dæmi. Ég fór út að hjóla í morgun, gerði brekkuæfingar af nokkurri ákefð og ákvað svo þegar ég kom heim að ég ætlaði að hafa til fallegan sunnudagsmorgunverð handa okkur öllum. Skokkaði út í Co-Op og náði í fersk súkkulaði crossaint og appelsínusafa. Borðaði svo einu of mikið af því að ég sagðist vera svöng eftir hjólatúrinn. Varð allt of södd og þegar ég klæddi mig áður en við fórum út til Wrexham fannst mér allt sem ég fór í vera of lítið og þröngt og ómögulegt. Leit í spegilinn en í stað þess að vera svekkt og sár út af yfirmaganum tók ég eftir hversu vel mér hafði ekki bara tekist með hárið, heldur var augnmálningin líka sérlega smekkleg og dró fram stór, blá augu. Mikið er ég nú alltaf sæt, hugsaði ég og sendi sjálfri mér fingurkoss. Verst hvað ég er feit, kom svo örsnöggt en ég kæfði það niður jafnhratt. Mér tekst semsagt alltaf að finna eitthvað jákvætt,alveg sama hversu illa mér líður með fitubrákina. 

Ef ég hugsa um það alvarlega þá held ég  að þetta sé einn mikilvægast þátturinn í persónugerð minni til að baráttan við spikið beri að lokum árangur og ég finni jafnvægið. Svo lengi sem mér þykir nógu vænt um sjálfa mig til að finnast ég sæt hlýtur mér líka að finnast nógu vænt um mig til að lokum gera í alvörunni það sem er mér fyrir bestu. Það er ást, ekki hatur sem er leiðin áfram. 


laugardagur, 29. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 12

Elsku líkami. Ég elska þig af því að þrátt fyrir allt sem ég geri á þinn hlut ertu samt hraustur. Þú hefur hlaupið 10 kílómetra hlaup, lyft 100 kg, og getur beygt þig og sveigt í allskonar jógapósur. Þú fellur ekki auðveldlega fyrir flensum og pestum. Þú barst og nærðir barnið mitt. Þú ert alltaf í fallegum hlutföllum og þú ert minn. 

föstudagur, 28. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 11

Drauma líkaminn minn.

Ég ætlaði fyrst að komast létt hjá spurningu dagsins og setja bara inn mynd af sterkum kvenlíkama. Gúgglaði strong female body (google kom með allskonar skemmtilegar uppástungur) og skoðaði allskonar kvenlíkama. Og því er ekki að neita að það eru allskonar flottar stelpur út um allt. En engin þeirra er eins og ég. 

Draumalíkaminn er minn líkami. Heilbrigð ég.

fimmtudagur, 27. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 10

Hvernig sé ég tengingu milli matar og líkama? 

Þetta er eitt lykilvandamál; ég sé enga eða litla tengingu þar á milli. Ég greini illa hungur, get ekki sagt að einn eða annar fæðuflokkur leggist vel eða illa í mig og ég upplifi svona almennt lítil orsakatengsl milli þess sem ég borða og hvernig mér líður líkamlega. 

Ekki það að mér líði ekki betur þegar ég er léttari. Ég finn þá minna til í hné og baki og pirrandi hlutir eins og magi slæst í læri þegar ég hjóla verða minna áberandi. En ég á bara erfitt með beina tengingu á milli matar og líkama.

Fyrir mér er tengingin við líkamann andleg. Þegar ég segist vera "ógeðsleg" á ég einhvernvegin ekki við að ég sé feit beinlínis. Ég set alls ekki sama sem merki á milli feit og ljót. Ógeðið vísar frekar í það að finnast ég vera skítug, svona eins og spikið skilji eftir olíubrák utan á mér. Þetta er auðvitað ekki rétt og hlýtur að vera psychosomatic upplifun en engu að síður mjög raunveruleg tilfinning. Skrýtið.

miðvikudagur, 26. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 9

Hvað er spikið mitt að reyna að segja mér?

Þetta er ein af mínum uppáhaldsspurningum. Og ég er búin að velta henni fyrir mér í nokkur ár núna. Mér finnst þetta nefnilega alveg rosalega áhugaverð pæling; þetta að á einhverju beisikk leveli trúir sálin mín því að það sé betra fyrir mig að vera feit. Það er svo augljóst í raun og veru, því vitsmunalega veit ég að það er verra fyrir mig að vera feit, líkamlega veit ég að það er verra fyrir mig að vera feit. Þannig að eina svarið við því afhverju ég sé enn feit er af því að eitthvað í mér telur að það sé betra fyrir mig. 

1. Að taka upp meira pláss. Hvað ef spikið mitt er einfaldlega að passa að ég sjáist? Að ég hreinlega fylli upp í rýmið svo ég sé eftirtekktarverð?
2. Að hafa afsökun fyrir meðalmennsku. Spikið passar að ég er ekkert að reyna að gera of mikið. Ekkert að ota mínum tota því fitubollur fá ekki vinnuna, eða strákinn eða tækifærið. Hversvegna reyna?
3. Það er verkefnið mitt. Hver er ég ef ekki að berjast við spik? Það er mitt identity. 

Ég get ekki alveg ákveðið svarið.

þriðjudagur, 25. apríl 2017

Dagbók í 30 daga -8

Hvaða 3 orð lýsa best sambandi mínu við mat? 
Samviskubit, kvíði, hatur. 



mánudagur, 24. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 7

Ég var að vona að það að þurfa að skrifa á hverjum degi myndi koma mér aftur í svíng, ásamt því að veita mér djúpan skilning á sjálfri mér og sambandi mínu við mat. Það er ekki að gerast, ég er hinsvegar að verða meira og meira pirruð á naflaskoðuninni og sjálfhverfunni. Nóg var nú víst fyrir. 

Ég er samt enn að vona að þetta hjálpi. Kannski ef ég væri ekki svona stressuð í vinnunni, og þreytt þegar ég kem heim, eða ef ég tímdi að sleppa dofanum sem kemur með að horfa á sjónvarpið hefði g meiri tíma til að í alvörunni velta spurningunum fyrir mér og komast að niðurstöðu sem hefur einhverja merkingu, 

Spurning dagsins snýr að mat. Hvernig lætur matur mér líða? 

Matur lætur mér líða vel og illa. Ég nota mat til að fagna, til að syrgja. Matur er stresslausn þegar ég hef tíma til að dúlla mér í eldhúsinu, matur veldur mér líka endalausu stressi því ég hugsa um fátt annað. 

Matur er líka bara matur og það er hegðan mín gagnvart honum sem hefur skapað þetta rugl ástand. Matur er ekki óvinurinn, ég er óvinurinn, 

sunnudagur, 23. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 6

Sjötta færsla er til að líta yfir fyrri færslur og sjá hvort eitthvert þema sé til staðar. Ég held það sé algerlega augljóst þemað; ég veit hvað ég þarf að gera til að auðga lif mitt en ég nenni því ekki eða geri það hálfshugar og mest til að halda í einhverja smávegis vanalíðan til að mega borða. Einfalt.

laugardagur, 22. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 5

Hvað get ég gert til að auðga líf mitt og heilsu, og gleði þetta árið?

Enn er stór spurt og ég hef svör á reiðum höndum. Hjóla meira, eyða meiri tíma með vinum, spila á gítarinn. Þetta kemur allt um leið. Allt þetta er eitthvað sem lætur mér líða eins og sál mín sé fyllri og ég þarf minni mat.

Hitt er svo að gera þetta. Taka upp gítarinn og eyða klukkustundum saman að æfa mig. Fara út á hjólinu og hjóla bara, ekki spá í tíma eða vegalengd, hjóla bara. Taka upp símann og hringja. gera plön og hittast. Gera þetta. En það er bara allt annað en að vita að þetta sé það sem þarf og svo að gera það í alvörunni. Mig stundum langar bara ekki til að fylla sálina mína. Hvernig á ég þá að afsaka ofátið?

föstudagur, 21. apríl 2017

Dagbók i 30 daga - 4

Í ár vil ég helst...

Spurning dagsins fór alveg með mig. Í fyrsta lagi þá er bara ekki hægt að setja sér árs markmið núna; það er nánast hálfnað árið! Fyrir fólk eins og mig sem byrja bara á nýjum hlutum á mánudögum, eða um mánaðarmót er útilokað að ætla að ana út í ársplan í lok Apríl, hvað rugl er þetta eiginlega?

En svo sljákkaði aðeins í mér, kannski að þetta sé lexían, að ég læri að slaka á kröfunum sem að lokum eru svo bara til að ég slæ öllu á frest hvort eð er og reyna að setja mér markmið fyrir árið, Þó svo ég hafi bara helminginn af þvi núna til að ná þeim.

Það eru nokkrir mismunandi þættir sem spila hér inn í markmiðin og ég er stundum ekki alveg viss hvað er meginmarkmið og hvað er skref í áttina.

Ég vil vera sátt. Þetta hinsvegar er svo óskilgreint að það er nánast ekki hægt að nota sem markmið. Ég verð að setja inn í þetta ákveðin skref, eða verkefni sem ég get afgreitt sem gera mig sáttari. Inn í það fléttast að taka starfsframann af meiri ákveðni, gera meira úr að ferðast almennilega, rækta betur vinasambönd, spila meira á gítarinn, lesa meira,skrifa meira, horfa minna á sjónvarpið, hjóla meira, fara oftar í klippingu. Allt þetta get ég sett í plan og gert eitthvað í því. Og tjékkað svo á því hvort ég sé sáttari.

Spurning dagsins fékk mig til að hugsa. Og til að langa til að skrifa betur, ekki bara kasta út nokkrum orðum einfaldlega til að standa við loforðið. Kannski að þetta sé að virka?

fimmtudagur, 20. apríl 2017

Dagbók i 30 daga - 3

Hver er mín stærsta hindrun? Og get ég unnið eitthvað með það?

Innri mónólógurinn minn er mín stærsta hindrun. Engin spurning. Hvernig raunveruleikinn stenst ekki samanburð við söguna sem ég bý til í huganum. Þar á eftir er það svo innri mónólogurinn sem segir setningar eins og "þú er ógeðsleg". Hver segir svoleiðis eiginlega? Aldrei myndi ég vera vinur einhvers sem kallaði mig ógeðslega. En ég má segja það við sjálfa mig!? Verstu dagarnir eru svo þegar ég trúi sjálfri mér og finnst ég vera ógeðsleg. Ekki fallegt, en satt.

miðvikudagur, 19. apríl 2017

Dagbók í 30 daga- 2

Hvað vil ég mest í lífinu og hvað er ég tilbúin að gera til að ná því?
Ef ég hefði verið spurð fyrir nokkrum áratugum síðan hefði svarið verið kærasti. Og að verða mjó. Og að verða lögfræðingur. Ekki bara einhver lögræðingur heldur Jill Clayburgh, attorney at law, sjasamm! Svo var það að verða mjó, og fræg söngkona. Svo var það einhverskonar starfsframi og að vera mjó.  Svo var það bara að vera mjó.
Núna myndi ég helst segja að ég vil bara vera sátt. Og ég á við eins og orðið á ensku: Content. Mér finnst sátt ekki ná yfir það sem ég á við. Ég myndi helst nefnilega geta hætt að lifa í þarnæsta mómenti, mómentinu sem kemur ekki fyrr en eftir eitthvað skilyrt, og geta bara verið ánægð í mómentinu núna.
Fyrir einhverju siðan hefði ég líka sagt að ég myndi gera heilmikið, leggja mikla vinnu á mig til að ná markmiðinu en akkúrat núna er bara þetta, að skrifa í 10 mínútur nánast of mikið á mig lagt. En ég veit að það gerir mér gott að lokum, hversu klén skrifin svo sem eru. Það eitt að hafa þetta sem punkt, eða rútínu er byrjun. 

þriðjudagur, 18. apríl 2017

Dagbók í 30 daga - 1

Hver er ég? Fyrsta spurningin í mánaðarlangri skriftaráskorun sem ég hef ákveðið að taka þátt í. Í 30 daga ætla ég að tækla svona spurningar og komast vonandi að einhverju um sjálfa mig og hvað það er sem fær mig til að tifa. 

Hver er ég? Mér finnst eins og ég eigi að svara að ég sé móðir, eiginkona, dóttir.... en sannleikurinn er að það eru ekki orðin sem koma fyrst upp í hugann. Ég vil frekar nota orð eins og sjálfstæð, skapandi, öfundsjúk, örlát, bjartsýn, pirruð, hrokafull, klár, skammsýn, hégómafull. Öll þessi orð lýsa mér betur en hlutverkin sem ég er í. 

Langar mig líka til að segjast vera feit? Er það eitthvað sem skiptir mig máli? Ég efast ekki um að það að vera feit hefur heilmikið mótað hver ég. Það er ekki hægt að neita því að maður upplifir hluti öðruvisi og upplifir öðruvísi hluti eftir því hvernig maður er staddur líkamlega. Mér finnst samt ekki eins og feit sé orð sem lýsir mér eða hver ég er. 

Sem stendur langar mig helst til að svara að ég sé manneskja sem aldrei klárar neitt. Akkúrat núna er ég ekki ánægð með mig og sé helst vankantana á sjálfri mér og þetta að sjá aldrei neitt til enda er það sem helst veldur mér vonbrigðum. Ég er manneskja sem labbar alltaf í burtu frá öllu hálfkláruðu. Þýðir það að mig langi til að breyta því eða er ég bara að segja þetta sem staðreynd? Ég er ekki viss.

Ég held svo að bjartsýnin sé alltaf það sem ég er ánægðust með. Ég er extrovert og mjög stabíl tilfinningalega og sé alltaf björtu hliðarnar. Meira að segja þegar ég er að gagnrýna sjálfa mig hugsa ég með mér að gagnrýnin leiði eitthvað gott af sér og hressist öll við.