sunnudagur, 30. ágúst 2009Svona er sko fínt að byrja sunnudag, verða kófsveitt og rauð í framan. Vantar bara svitabandið og þá væri ég flott!

Ég uppgötvaði um daginn hugarfarsbreytingu hjá mér sem ég er ánægð með. Ég hef hingað til stundað líkamsrækt einungis til að grennast en í þetta sinnið hef ég bara áhuga á að verða "fitt". Og það einhvernveginn breytir öllu. Ég hlakka til að gera æfingar og nýt þess í botn þegar ég finn fyrir nýjum vöðva eða get gert eitthvað sem ég gat ekki í gær. Eins og að hlaupa stanslaust í 3 mínútur. Það gat ég ekki þegar ég var 125 kíló. Þetta hljómar ekki mikið þegar ég segi 3 mínútur en fyrir svona hlussu eins og mig er það meira en að segja það. Góður dagur.

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Lúkas og Heather skutluðu mér í vinnuna í dag og ég gaf Lúkasi fingurkoss þegar ég fór úr bílnum. Eftirfarandi fór svo á milli hans og Heather: "My mummy blew me a kiss." "Yes, isn´t your mummy lovely?" "Yes, she is gorgeus with her lipstick on!"

Ég stend í stað þessa vikuna, sem er kannski bara alveg eðlilegt svona þegar við hugsum til þess að ég er búin að þyngjast og léttast um 5 kíló á 4 vikum. Kannski að það sé í lagi að gefa líkamanum smá pásu. Og svo vonandi tek ég kipp aftur og við sjáum loksins 20 kílóa myndir innan skamms.


Coca Cola áskorunin gengur vel. Svo vel reyndar að mér finnst ólíklegt að ég fái mér oft sykurlausa gosdrykki héðan í frá. Það sem fyrst kom mér til að prófa goslausa viku var hversu mörg gerviefni drykkurinn inniheldur og ég er alltaf að finna meiri og meiri áhuga hjá mér að neyta þess sem ég kalla alvöru mat. Ég segji nú ekki að ég sé komin út í hrá fæði (eins áhugavert og mér finnst það vera) það er of fanatískt fyrir mig fyrir utan að ég get ekki hugsað mér að hætta að borða kjöt. En ég hef mikinn áhuga á að reyna að borða sem minnst unninn mat, vinna hann frekar bara sjálf. Það er svo bara meira en að segja það. Það er allskonar ógeð í nánast öllu sem maður kaupir. Hvað um það, þegar ég fór að rannsaka betur gerviefnin í gosinu þá var mér nánast allri lokið. Flestar rannsóknir benda til þess að sykurlausir gosdrykkir séu meira líklegir til að láta fólk bæta á sig! Margir nota diet gos sem afsökun til að borða meira (ég er að drekka diet kók og má þessvegna borða aðra pizzusneið) og falla þannig í þá gryfju. Ég reyndar tel kaloríur það vandlega að það væri ekki vandamál. En hitt sem er verra er að líkaminn breytir gerviefninu asparteme í formaldehyde í lifrinni og það síðan festir sig á fitu og gerir líkamanum nánast ómögulegt að vinna úr henni! Ég er búin að vera að vinna hryðjuverk á sjálfri mér innan frá! Og þegar nánar er rannsakað kemur í ljós að samsæriskenningar segja að eina ástæðan að aspartame er löglegt er að Donald Rumsfeld á stóran hlut í fyrirtækinu og getur haft áhrif á rannsóknir. Tengls við krabbamein og þessháttar eru svo í rannsókn núna. Uss og svei. En núna er ég í smá vandræðum, mér finnst koltvísýringur góður, mér finnst gosið gott. En finnst lítið varið í sódavatn. Hér er ekki seldur Kristall, allt sódavatn með bragðefni er líka bætt með sætuefni. Þannig að núna þarf ég að kaupa sóda og kreista sítrónu út í sjálf. Sem er enn eitt svona "vesenið" við að lifa heilsusamlega. Já, það er sko ekki hlaupið að því að vera heill og sannur á sál og líkama í nútímasamfélagi.

mánudagur, 24. ágúst 2009

Þessa vikuna er áskorunin að sleppa alveg gosdrykkjum. Ég drekk allt of mikið Coke zero. Og eins mikið og ég get séð af innihaldslýsingunni hversu óhollir diet gos drykkir eru þá hef ég ekki getað gefið þá upp á bátinn. En núna er komið að því. Ein vika og svo sjáum við hvort ég sé bara ekki tilbúin til að sleppa þeim alveg.

sunnudagur, 23. ágúst 2009


Lúkas byrjar aftur í skólanum núna í byrjun September. Og verður með karlkennara í ár; Mr. McLaren. Mér leist ágætlega á hann og það verður eflaust gaman að sjá hvort karllæg áhrif í kennslustofunni verða til einhverra breytinga. Ég þarf ekki að kaupa handa honum neinar stílabækur og blýanta en þarf að eyða dágóðum skildingi í skólabúning. Mér finnst skólabúningurinn í Maes-Y-Mynnydd ekki vera fallegur og finnst leiðinlegt að eyða svona miklum pening í fötin. En það er skylda að vera í búning þannig að ég verð að bíta í það súra enni. Búningurinn á að koma í veg fyrir að föt barnanna gefi til kynna fjárhagsstöðu foreldranna því að ef allir eru eins þá þarf enginn að hafa áhyggjur af því að vera fátækur. Ekki að það virki. Ég kaupi peysur og pólóboli, vindjakka og leikfimisföt af skólanum, allt með merki skólans ásaumað. Svo fær Lúkas teflon húðaðar buxur og fer í Clark´s til að láta mæla fæturnar og fær sér mælda skó. Þegar ég svo sé önnur börn í bekknum í ómerktum peysum, jogging buxum og skóm úr shoe zone þá veit ég að það eru afkvæmi ógreiddu mæðranna með þrjú minni börn á öðrum handleggnum og sígarettu í hinni fyrir utan skólann segjandi setningar eins og: "If I don´t fucking turn up to court tomorrow I´m fucking going to jail again." og "my fucking kids are always fucking crying" og "I told him to go fuck himself, I ain´t fucking going to fucking work." Classy or what? Og svona segir mér til um menntunarstig, fjárhagsstöðu og hverslags atvinnu þessir foreldrar hafa. Og það er ekki langt þangað til að Lúkas getur sagt til um hver þessara bekkjarsystina hans eiga mömmu eins og hann á sem vinnur og kaupir handa honum alvöru skólabúning og hverjir eiga mömmu sem segja fuck. Ekki það að þetta séu slæmir krakkar. En ég verð líka að viðurkenna að það er ekki langt þangað til að þau læra að það er bara fínt að lifa af ríkinu og segja fuck og ég vil alls ekki að Lúkas eignist vini sem læra svoleiðis hegðun heima hjá sér. Þannig að ég get ekki að því gert en þegar hann segist hafa verið að leika við Matthew, eða Iestyn eða Josh þann daginn þá skoða ég peysuna næst þegar ég sé barnið.

föstudagur, 21. ágúst 2009


Ég virðist lítið hafa beðið skaða af fríinu mínu og er alveg komin á fúllsvíng aftur í linsubaunir og hempolíu. Það var bara ágætis áminning að hafa varann örlítið á sér þegar rútínan breytist. Það er líka voða gott að vita að ég get farið svona algerlega út í kött og samt byrjað bara aftur eins og ekkert hafi í skorist. Og það er líka bara ágætt stundum að fara í frí og fá smá tækifæri til að endurskoða hlutina. Ég varð til dæmis að viðurkenna að eins ánægð og ég hef verið með æfingarútínuna mína þá var ég orðin aðeins leið á henni. Vísindin segja að maður eigi að breyta um æfingar á allavega 2 mánaða fresti og ég var komin vel á 4ja mánuð með sömu rútínuna. Þannig að eiginmaður minn elskulegi kom heim með nýtt prógramm handa mér, EA Active. Og nú er sko stuð. Ég er byrjuð að æfa hlaup (mjög rólega) og svo blandar prógrammið venjulegum æfingum og lyftingum við skemmtilegra efni eins og línuskauta, tennis, körfubolta, dans og uppáhaldið mitt; box og sparkbox. Ég er með lífshættulegt vinstra hné!

fimmtudagur, 20. ágúst 2009

3.5 af grísku kílóunum farin, bara 1.5 eftir í að ég verði aftur eins og ég var fyrir frí. Væri vanalega hoppandi um af gleði með svona tap en er bara óþolinmóð að komast aftur niður í það sem ég var. Nú er nefnilega farið að hitna í kolunum. Mér býðst núna að komast með í alveg svakalega verlsunarferð með atvinnumönnum í kaupum og tækifærið er of gott til að missa af. Nú er mini takmark að ná að vera komin í stærð 18 fyrir 4. september. Það þýðir 4 kíló á tveimur vikum. The heat is on. Bring it!

þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Það er svona nokkuð öruggt að það er hægt að setja samasem merki á milli þess að ég skrifi lítið og að ég sé ekki að borða á réttan hátt. Ég kom heim frá Krít fyrir tæpri viku og þessi vika hér heima er búin að vera dálítið merkileg. Það var að sjálfsögðu alveg frábært þar ytra; sól og sund í heila viku, skemmtilegur staður, krakkar fyrir Lúkas og nýr veitingastaður á hverju kvöldi. Við nutum tímans þar alveg í born. Og ég fylgdist með sjálfri mér svona smá slaka meira á á hverjum degi. Ein auka brauðbolla hér, bjór þar, svo vék gríska salatið fyrir grilluðum osti og svo var allt í einu komin eftirréttur og að lokum var allt í einu til súkkulaði í ísskápnum í hótelíbúðinni. En svo sem allt í lagi, ég er í fríi og gerði aldrei ráð fyrir að viðhalda lífstílnum fullkomlega. Steig á vigtina þegar heim var komið og ég hafði þyngst um 5 kíló. 5 kíló á viku. Rúmur mánuður af varkárni farinn á einni viku. Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér síðan ég kom heim. Og þó svo að ég sé svekkt yfir að hafa þyngst þá er það ekki aðalmálið. Ég get losnað við það aftur, nei það sem ég er svekkt yfir er hversu auðvelt það var fyrir mig að missa tökin. Ég var alveg sannfærð um að ég væri ný manneskja og að ég hefði mun betri stjórn á mér en þetta. Það var ofboðslega svekkjandi að komast að því að það að hafa afsökun (ég er í fríi) var nóg til að algerlega missa mig í alla gömlu vondu hegðunina mína. Hegðunarmynstur sem ég var sannfærð um að ég væri búin að komast út úr. Ég var sjálfsagt aðeins of bjartsýn að ætla að ég gæti breytt rúmlega 30 ára mynstri á örfáum mánuðum. En ég ætla að læra af þessu, núna veit ég að ég höndla ekki breytingar og verð tilbúin með neyðaráætlun sem fer í gang þegar ég fer til Íslands. (Og ég er strax búin að losa mig við 1 af þessum grísku kílóum.)

föstudagur, 14. ágúst 2009

Já, það jafnast fátt á við það að skella sér í gott sólbað.