þriðjudagur, 26. apríl 2016

Af tennis

Sjónvarpið var stillt á Sky sports eftir einhvern fótboltaleikinn og af einhverjum ástæðum var enn í gangi þegar tennisleikur byrjar. Ég er enn ekki með á hreinu hvaða mót eða leikur eða jafnvel hvaða konur voru að spila. Ég staldraði engu að síður við skjáinn því myndavélin sýndi í nærmynd handskrifaðann minnismiða sem hafði dottið upp úr tösku annarra tennisleikaranna. Miðinn var listi sem var einhvernveginn svona:
1. Gratitude
2. Focus on what you can control
3. Focus your eyes
4. Feel your body, accept the tension
5. Focus on your game, one at a time
6. Stop comparing and judging
7. Face your fear and trust yourself

Mér fannst þetta frábært, að atvinnuíþróttamaður taki tíma til að hripa niður svona punkta til að minna sjálfa sig á það sem er mikilvægt. Punktarnir sjálfir svo rosalega góðir og eitthvað sem ég sjálf þarf oft að minna mig á. Þakklætið er þar efst í flokki. Ég er stanslaust þakklát fyrir að hafa allt það sem ég hef og fyrir að hafa fengið vit, styrk og skilning í vöggugjöf. Þakklát fyrir allt það sem hefur gert mig að mér. Hitt allt er svo það sem ég er að vinna að. Að einbeita mér að verkefnum, einu í einu. Að hætta samanburðinum, að skynja líkamann og treysta sjálfri mér. 
Þetta var góð áminning í dag þegar ég er yfirkomin af efasemdum um eigið ágæti. 

sunnudagur, 24. apríl 2016

Af 50/50

Það var eins og ég hélt og ég sá ekkert af Edinborg. Var bara á skrifstofu og hóteli. Þetta var samt mjög vel heppnuð ferð og ég kom ýmsu í verk. Það var líka gaman að hitta vinnufélagana frá Brighton því þau sáu mig síðast fyrir þremur vikum og öll minntust þau á að ég væri sýnilega grennri en þá. Mig grunar nefnilega að þó apríl verði lélegur hvað kílóafjölda á vigtinni varðar þá hef ég grennst heilmikið. Ég er nefnilega búin að auka heilmikið í allar þyngdir í lyftingunum og hef fundið greinilegan árangur þar. Ég er því nokkuð viss um að ég sé að brenna fitu og bæta í vöðva. Eða það er svona það sem ég er að segja mér því í hjartanu veit ég að ég er ekki búin að gefa mig alla í þetta. Ég borðaði of mikið í Lomdon, ég borðaði of mikið í Brighton, ég borðaði og mikið í Edinborg og ég borðaði svo sannrlega of mikið í dag. Og um leið og ég er sanntrúaður 90/10 trúboði þá er þetta fiftyfifty dæmi að sjálfsögðu ekki leiðin til árangurs. 
Mér datt svo reyndar líka í hug að þessi tala sem ég er að rokka á núna, 95, er ein af "stöðvunar"tölunum mínum. Ég virðist alltaf taka langan tíma i að koma mér héðan. Svona eins og ég stundi einhverskonar sjálfshryðjuverk til að stöðva framgang. (Sem er líka alveg sérstakt umhugsunarefni og tilefni í marga, marga pistla.) Það er þessvegna alveg tími núna til að hrista aðeins upp í hlutunum. Ég er enn að hugsa hvað það þýðir, ekki ætla ég að borða minna, né lyfta meira. En það hefur eitthvað með að nýta sumarið. Borða ferskara og hreyfa mig meira úti. Svo datt mér reyndar í hug að verðlauna sjálfa mig. Segjum sem svo að mér takist að verða 85 kg í ágúst þá má ég td kaupa mér nýjan kjól. Það er nú aldeilis hressandi tilhugsun.

þriðjudagur, 19. apríl 2016

Af skrifstofum

Ég þarf að fara á fundi í Edinborg á morgun og fimmtudag. Fer héðan snemma í fyrramálið og kem ekki aftur heim fyrr en seint á fimmtudagskvöld. Og ég vissi að ég er komin vel inn í heilsusamlega rútínu því ég byrjaði á að athuga hvort það væri líkamsrækt á hótelinu eða nálægt því. Því miður er engin rækt í grenndinni þannig að í kvöld þegar ég kom heim úr vinnunni gerði ég ræktargallann tilbúinn fyrir föstudagsmorgun, vitandi að ég verð ekki komin heim fyrr en að verða ellefu á fimmtudagskvöldið og eflaust ekki í standi þá til að vera að finna til galla og annað slíkt. Ég setti líka saman léttan morgunmat og vigtaði hollt nasl til að hafa með mér svo ég detti ekki í kexið sem er alltaf boðið upp á á þessum fundum.
Mér sýnist á dagskránni að það verði lítill sem enginn tími til að skoða sig um. Sem er synd því ég hef aldrei komið þangað áður og hefði metið að fá að fara í smá göngutúr um miðsvæðið. Sama er reyndar um Brighton, þangað hef ég farið milljón sinnum en aldrei séð borgina, bara skrifstofur. Samt, gaman að hitta loks fólk í fleskinu sem maður talar við í síma oft á dag.
Ég vona svo að skipulagið allt sé þess virði. Ég hef engan áhuga á að taka skref aftur á bak nú þegar allt er í svona líka fúll svíng. Och aye the noo!

laugardagur, 16. apríl 2016

Af orsök og afleiðingu

Af einhverjum ástæðum situr fast í mér eitthvað sem ég las í félagsfræði í MS fyrir alls ekkert svo löngu síðan. Þannig er að þegar sala á rjómaís eykst er líka hægt að greina aukningu á nauðgunum. Þannig má þá draga þá ályktun að það að borða ís láti mann nauðga fólki. En að sjálfsögðu er hér þriðja breytan sem vantar í dæmið; sumarhiti. Á sumrin borðar maður meiri ís og það er auðveldara að athafna sig við nauðganir. Ísátið og nauðganir þannig alveg óskyldar.  Mér dettur þetta alltaf í hug þegar ég byrja að draga ályktanir. Þannig er að ég hætti að drekka sykurlausa gosdrykki í September. Og hef hreinlega ekki fengið mér einn einasta sopa af diet kók allan þennan tíma. Er búin að fá mér eina eða tvær dósir af sykruðu kóki en diet draslið snerti ég ekki. Ég er heldur ekkert sérstaklega að taka út alla gervisætu, ég nenni ekki að vera með einhvern trúarofsa gagnvart þessu. Á þessum sama tíma er ég búin að léttast um einhver fjórtán kíló. En það eru of margar aðrar breytur í dæminu til að ég geti sagt að velgengin sé þessu að þakka. Ég er náttúrulega búin að gera heilmikið annað líka á þessum tíma. En það er samt eitthvað sem segir mér að hluti af velgengninni sé þessu að þakka. Svona eins og að líkami minn sé meira tilkippilegur við fitubrennslu þegar ég sleppi diet kókinu. Ég þurfti reyndar ekkert að hafa fyrir því að hætta að drekka það, ég bara hætti því einn daginn svona eiginlega óvart. 
Á þessum sama tíma hef ég nefnilega líka unnið staðfastlega að því að koma "allt eða ekkert" hugsunarhættinum fyrir kattarnef. Ég er nefnilega alltaf að gera mér betur grein fyrir því hvað það er litlir, agnarsmáir daglegir hlutir sem skipta máli til breytinga. Það er ekki nauðsynlegt að mæta í ræktina tvisvar á dag, hætta að borða sykur,lactósa, glúten og aspartame, hugleiða klukkustund á dag og verða sérfræðingur í hvernig á að búa til gómsæta hráostaköku úr tófú einusaman og byrja að halda uppi vinsælu heilsumatarbloggi til þess að verða heilsusamlegri.
 Á hverjum degi er nóg að taka einn hlut af 'to do' listanum til að láta manni líða vel og það er til þess að velgengisspírallinn fer í gang. Á mínum persónulega lista er ýmislegt að finna en ef ég horfi yfir vikuna þá líður mér vel þegar ég hef borðað fisk þrisvar sinnum í kvöldmat og salat í hádeginu frekar en samloku. Þær vikur sem ég geri þetta léttist ég líka undantekningalaust. Ég hugsa aftur að orsök og afleiðingu því ég er ekki viss hvort þetta tvennt geri það að verkum að ég borða líka hollara í hin málin eða hvort fiskur og salat hafi grennandi áhrif á mig meira að segja þegar ég borða gúmmelað inni á milli. Skiptir svo sem litlu máli svo lengi sem spírallinn snýst og eykur hraðann. 
Hvað er á þínum daglega 'to do’ lista? 

þriðjudagur, 12. apríl 2016

Af primordial soup

Ekki veit ég hvaða forsjá það var sem sá til þess að réttu örverurnar sem flutu um í endalausu úthafi hittust og elskuðu hvora aðra til að skapa aðstæðurnar sem að lokum milljón trilljón árum síðar skilaði mannfólkinu á jörðina. Og ekki skil ég heldur hvað það var sem gerði mannveruna þannig að hún hefur vitund og sjálfskilning umfram aðrar dýrategundir. Hvað þá að ég skilji hvaða þróunarlegar ástæður lágu að baki því að einhverntíman í svartnætti frummennsku tóku formæður mínar upp á því að grilla mammútalærin. Hver svo sem ástæðan var þá er ég afskaplega þakklát því akkúrat þetta að elda matinn varð til þess að við mannverurnar gátum tekið inn mun meiri hitaeiningar á fljótlegri hátt en að þurfa að melta hrátt kjöt og smá saman varð það til þess að við urðum klárari og klárari. Auknar hitaeiningar urðu til þess að við gátum sett svo mikla orku í að stækka og stækka heilann og að lokum er útkoman mannveran eins og hún er í dag. Að elda fallegan og góðan mat sem heiðrar líkamann er því skylda til að þakka þeim sem á undan okkur komu fyrir að leggja í þróunarpúkkið. Og ég gat ekki annað en spurt sjálfa mig að því í kvöld því hvernig í ósköpunum við gátum eytt milljón trilljón árum í þróunarsöguna aðeins til að enda með pulsur í kvöldmatinn?

laugardagur, 9. apríl 2016

Af mætti auglýsinga

Ég setti mér það sem markmið um áramótin að versla ekki einn einasta fatalepp í 12 mánuði. Og það er núna miður apríl og ég stend mig eins og hetja sko.
Það voru margþættar ástæður að baki þessu áramótaheiti. Mér blöskrar neyslan í nútímasamfélagi ásamt áganginum á auðlindir í samhengi við að blöskra eigin neysla. Ég verð bara að viðurkenna að ég er með svona netta þörf fyrir að versla. Mér líður bara betur þegar ég fer í búð og kaupi eitthvað. Skiptir litlu hvað er; föt, snyrtivörur eða matur, bara svo lengi sem ég kaupi eitthvað. Þegar ég svo tók föt úr jöfnunni setti ég samt fyrir sjálfa mig að ég mætti ekki bara kaupa meiri mat eða maskara. Nei, ég á að draga úr neyslu í alvörunni. Og í rúma þrjá mánuði er þetta búið að ganga eins og í draumi. Ég búin að ná í tvennar buxur úr gömlum kassa eftir því sem ég grennist en að öðru leyti teygjast fötin bara með mér. Og ég er líka búin að passa vel að kaupa ekki of mikinn mat, er enn alveg jafn meðvituð um að gera matarplan og nýta afganga og þessháttar.
Ég reyndar setti engar reglur um þetta. Hvað td gerist ef ég í alvörunni léttist um 20 kíló fyrir áramót. Eg gæti kannski verið í einhverjum kjólum sem ég nota núna en ég gæti ekki notað buxur þremur númerum of stórar. Og flokkast nærföt undir þetta? Hvað með skó? Má ég kaupa mér skó? Eða stuttbuxur í ræktina? Eru það "föt"? Ég hefði átt að hugsa þetta út og setja reglur. Sko, ég lenti nefnilega í atviki um daginn. Mamma sendi mér íslenskt glamúrmagasín til að lesa um daginn. Og á laugardagsmorgun sest ég niður með morgunsólina glampandi inn um gluggann og blaða í gegn um tímaritið og á meðan ég sötraði góðan kaffibolla. Ljúft. Á fyrstu blaðsíðu var auglýsing frá Farmers Market um sokka. Og áður en ég gat stunið upp "Gvuð blessi Ísland" var ég búin að gúggla Farmers Market, finna út að þeir sendu til útlanda, velja mér, og borga fyrir sokkapar. Booked it, paid, fucked off. Rétt sí sonna. Og um leið og ég ýtti á confirm payment mundi ég að ég kaupi ekki föt. Svona, svona, þetta eru bara ullarsokkar sagði ég við sjálfa mig. Það er svona eins og inniskór og það má, það verður að eiga innisokka í Bretlandi. Svo eru þeir líka svo þjóðlegir og ég er með svo mikla sorg í hjartanu út af Íslandi núna, þetta var meira svona eins og ástarjátning til Íslands en að kaupa föt. Og er ekki hjálplegt af mér að senda verðmæt pund í efnahagsastandið heima? Var þetta ekki bara göfugt góðverk fremur en að ég hafi ekki staðið við ætlunarverk? 
Ég er svona nokkurnvegin búin að réttlæta þetta fyrir mér, þetta eru bara sokkar. Og svo nú þegar réttlætingin er hafin er auðveldara fyrir mig að réttlæta kjólinn sem ég sá í Cos um daginn. Hvað er kjóll annað en léreftshula? Og er það í raun ekki bara lak? Og hvar í reglunum segir að ég megi ekki kaupa rúmföt?.....

Af "forward planning and blue sky thinking of the art of the possible"

Ég var 95.8 kíló í morgun. Það er verra en að vera 94 komma eitthvað en skárra en að vera 96 komma eitthvað. Ég er semsagt aftur búin að finna rytmann eftir páska og svo tvo daga í London. Ég er drullufegin rútínunni. Satt best að segja finnst mér óskaplega gott að vera í rútínu, ég er búin að reyna allskonar trix til að halda mér á beinu brautinni þegar rútínan aflagast en tekst það oftast ekki lengur en í einn eða tvo daga. Ég geri ráð fyrir nú að þetta sé bara mitt, ef ég er ekki tilbúin til að fara ekki í frí, þá þarf ég að vera tilbúin að díla við afturförina sem því fylgir. Einfalt. 
Það er síðan dálítið mikilvægt að horfa á stóra samhengið. Ég er ein af þessum sem sé gífurlegar sveiflur á vigtinni. Þessvegna finnst mér gott að stíga á vigt reglulega, það þýðir að ég hef einfaldlega minni áhyggjur af sveiflum, ég veit að ég get þyngst og lést um tvö, þrjú, fjögur kíló yfir sumar vikur. Ég settist því niður og skoðaði skjalið sem sýnir þyngdina mína og frá september þegar ég var tæp 109 er ég staðfastlega búin að léttast um tvö eða þrjú kíló í hverjum mánuði. Og það er miklu mikilvægara en að ég fari upp eða niður í hverri viku. 
Hvernig svo sem ég geri það þá datt mér líka í hug að ég þurfi að skjalfesta þetta spikvesen á mér einhvernvegin. Það er nefnilega framlegðin mín til heimsins. Sagan mín. Ég vinn gagnslausa vinnu, ég er miðstjórnandi í bankageiranum, tala tilgangslaust "management speak" við aðra tilgangslausa miðstjórnanda í þeirri von að næsta skýrsla sem ég sendi upp línuna sé svo flott og tilgangsleysið svo vel falið að ég fái að verða yfirstjórnandi og geti talað enn meira tilgangslaust management speak. Ekki það að mér finnist ekki gaman í vinnunni, þetta er meira hugsað út frá sjónarhorninu að ég í raun legg ekkert til að gera umheiminn að betri stað. Ég er ekki læknir, eða bóndi, eða listamaður. Ég skapa ekki, legg ekki til mat og ég hjálpa engum. Ég er ekki vísundamaður sem gerir uppgötvanir sem bjarga mannslífum eða uppfattar internetið og ég er ekki slökkviliðsmaður sem nær í kisur úr tré. Mig langar til að ég færi eitthvað til heimsins, og fyrst ég geri það ekki í vinnunni verð ég að gera það utan hennar. Og þetta spikvesen er það besta sem ég hef. Ég ætla þessvegna að halda því uppi og skrásetja allt sem mér dettur í hug og allt sem ég uppgötva og vona svo að það verði arfðlegðin mín. Mitt meistarverk. Og kannski nýtist einhverjum.