laugardagur, 30. maí 2015

50 mílur

Ég er búin að skrá mig í svona hjóla"atburð". Ekki veit ég hvað maður kallar svona á íslensku. En hvað um það, ég mundi hvað það var gaman að æfa fyrir eitthvern sérstakan atburð þegar ég var að hlaupa og hvað það var svo gaman að taka þátt í svoleiðis. Ákvað því að reyna að svipast um eftir svoleiðis. Mér finnast hjólreiðamennirnir heldur mikið uppteknir af tímatökum og var eiginlega hætt við þegar Ég fann svo 50 mílna amatörvænan atburð í gegnum hjólagrúppuna sem ég hitti í Port Sunlight. Hugsaði með mér að þetta væri nú meira bara svona í gamni, eins og svo oft er þetta gert með fjáröflun í huga og meira svona til að skemmta sér en að liggja á einhverri brjálaðri tímatöku. Fyrir utan að ég er nú vön að fara þessa vegalengd orðið þegar ég fer báðar leiðir í og úr vinnu. Það var svo ekki fyrr en ég var búin að borga þáttökugjaldið að ég fattaði að ég fer rúma 50 kílómetra í vinnuna. En hér er um að ræða 50 mílur. Mílur og kílómetrar eru ekki það sama. 50 mílur eru rúmir 80 kílómetrar. 

Eftir að hafa fölnað aðeins hugsaði ég með mér að þetta væri bara hið besta mál. Þetta er ekki fyrr en 5. júlí þannig að ég hef núna mánuð til að æfa mig aðeins. Ég ætla þess vegna að drífa mig í að hitta hjólagrúppuna sem fer lengri leiðir en konugrúppan mín núna næst laugardag og fara lengra og hraðar með þeim. Svo setti ég svona meiri reglu á hvernig ég fylgi eftir daglegri rútínu hvað hjólreiðarnar varðar og svo lengi sem ég fylgi því nokkuð eftir ætti að vera í lagi með mig. 

Það er allt annað að hjóla en að hlaupa. Ég hefði aldrei skráð mig í 10 km hlaup með mánaðarfyrirvara. Ekki nema ég væri viss um að ég gæti hlaupið 10 km. En það er eitthvað þægilegra við hjólreiðarnar. Það er hægt að hjóla miklu lengur en maður getur hlaupið. Og það er hægt að hjóla miklu lengur en maður heldur.  Svo lengi sem maður passar að drekka vatn og rasssærið er ekki of mikið er hægt að krúsa endalaust. Ef brekkurnar eru viðráðanlegar. 

Það er bara voðalega gaman að hafa eitthvað svona til að stefna að og hlakka til. 

fimmtudagur, 28. maí 2015

Af síðasta sjens

Dave minn skemmtir sér konunglega í nördamegruninni sinni. Hann telur hitaeiningar og skref og skrásetur af miklum móð í algorytma og lógarytma og kökuriti (namm kökur...) og línuriti og hvaða excel búnaði sem hann kemur höndum yfir. Rannsakar og analýserar og dregur ályktanir. En aðallega situr hann bara brosandi og dáist að tölfræðinni. 

Það lekur líka af honum lýsið. Og ég náttúrulega gat ekki annað en hrifist með. Kannski að ég byrji bara að telja hitaeiningar líka? Ég geri það hvort eð er fyrir kvöldmatinn sem ég elda til að gera prósessinn auðveldari fyrir hann, ætti ég ekki bara að byrja að skrásetja allt líka? Ég hefði nú svo sem ekkert á mótii því að léttast um nokkur kíló áður en við förum til Spánar í ágúst. Og ég hafði varla sleppt hugsuninni áður en ég var komin út í kaupfélag, búin að kaupa hálfan líter af cookie dough Ben & Jerry´s rjómaís og búin að troða allri dósinni í mig. Svo öflug er "síðasta kvöldmáltíðar" hugsunin í mér. Bara tilhugsunin um að reyna að hafa örlítila heftingu á hitaeiningum yfir daginn og ég geri tafarlaust uppreisn og borða þangað til mér verður illt. Þetta er eiginlega alveg merkilegt. Ég get líka hugsað þetta þannig að hefði ég ekki gælt ástúðlega við megrunarhugsunina hefði ég sparað mér átta milljón hitaeiningar. Ég hefði aldrei borðað ísinn ef þessi hugsun hefði ekki komið upp. Það finnst mér dálítið merkileg pæling. Fyrir mig er megrun einfaldlega skaðlegri en að bara sleppa henni. 

Þessvegna er líka svo afskaplega mikilvægt fyrir mig að ég nái að hætta öllu þessu daðri við megrunartilraunir eða lífstílsbreytingar eða hvað það á nú að kallast. Því fyrr sem ég bara byrja að treysta sjálfri mér fyrir sjálfri mér því betra. Ég er enginn fábjáni, ég á alveg að geta hugsað vel um sjálfa mig. 

Við erum öll ólík og það sem virkar fyrir Dave virkar bara ekki fyrir mig. Engu að síður, um leið og ég var búin að jafna mig aðeins ákvað ég að prófa að telja saman hvað ég er að borða mikið yfir daginn nú þegar ég er öll svona full af innsæji og sjálfsást. 

Týpískur dagur lítur einhvernvegin svona út:
Morgunmatur: Skyr með lófafylli af múslí og spíruð brauðsneið með vænni slettu af hnetusmjöri (350) 
Morgunsnarl: Epli og 15 gramma stykki af reyktum cheddar osti (150)
Hádegismatur: 2 harðsoðin egg, mtsk af paprikumauki, tvær sneiðar af súrdeigsbrauði og jógúrt með ástriðualdin (650)
Millisnarl: Heimagerð haframúffa og kaffi latte (300)
Kvöldmatur: Tveir bitar af úrbeinuðu, skinnlausu kjúklingalæri með salsasósu og ananas, 125 g af brúnum grjónum og gufusoðið pak choi kál (600)
Kvöldsnarl: Skinny latte og jógúrsletta (250)

Allt í allt eru þetta um 2100 hitaeiningar. Ég hjólaði 60 km þennan dag og var svöng áður en kom að matmálstímum. Samt. Samkvæmt fræðunum er þetta allt of mikið af hitaeiningum. Allt er þetta samt matur sem er stútfullur af næringarefnum, ekkert unnið eða sykrað eða óhollt á neinn hátt. Mér fannst þetta bara vera fínt þó ég verði að viðurkenna að mér finnst hitaeiningafjöldinn heldur mikill þegar ég týni þetta saman. Er ég að borða allt of mikið? Ef ég hefði borðað minna hefði ég verið svöng, liðið illa og endað í einhverri Ben og Jerry vitleysu. Eða er það kannski bara málið? Ég þarf bara að sætta mig við að borða minna en ég vil? Eða er kannski bara betra að hafa orku í 60 km hjólatúr, líða vel með hvað ég borða og segja bara fokk it, ég verð bara feit?

fimmtudagur, 21. maí 2015

Af nýjabrumi

Fílelfd og fíldjörf fór ég í Waitrose eftir vinnu í gær og hnusaði um allan grænmetisgangana fram og tilbaka. Mig langaði til að elda eitthvað nýtt og óþekkt og á sama tíma sýna Dave hvað það er hægt að borða vel þó maður sé kannski jafnvel að passa upp á hitaeiningar eða næringarefni. Ég er fílelfd því ég finn það svo skýrt hvað það er rosalega gott að vinna innan svona ramma. Hann hefur ákveðið á meðan við bíðum eftir coeliac greiningunni að halda sig við ákveðið magn af hitaeiningum yfir daginn. Léttirinn sem ég fann þegar hann kom með þetta var svakalegur. Svo mikill að mér datt jafnvel í hug að ég hafði verið farin að þjást af ákvarðanaþreytu. Þegar maður hefur óskilyrt leyfi til að borða hvað sem er er líka fljótt að koma í lós við hverskonar ofngótt af mat við búum við. Það er svo mikið til af öllu, bæði af mat og allri neysluvöru að stundum verður maður bara ringlaður af öllu þessu drasli sem maður á að kaupa endalaust. Markaðsetning innan matvöruverlsana neyðir mann til að langa í allskonar vitleysu og það er ekki einu sinni bara matur og drasl sem er yfirþyrmandi; maður er eiginlega líka að drukkna í hverskonar upplýsingum á þessari gervihnattaöld

Stundum er bara gott að taka allt þetta val, taka allt þetta framboð af manni og fylgja bara settum reglum. Hvort sem það er að halda sig innan hitaeiningaramma, eða taka út heilu matarflokkana, eða allt kjöt, og þar fram eftir götunum. Maður hefur bara úr vissu að moða og öll ákvarðantaka verður einfaldari og auðveldari. Það þýðir samt ekki að maður hætti að gera tilraunir. 

Ég fann semsagt afskaplega ljóta rótarhnyðju í Waitrose og gekk út frá því að því ljótari því betri hlyti það að vera á bragðið. Keypti sem sagt celeriac rót, sem ég myndi þýða sem sellerírót á ástkæra ylhýra en get ekki alveg svarið fyrir það. Ég ákvað að byrja einfalt og hamfletti og kubbaði svo niður og sauð í mauk. Stappaði svo með smávegis smjéri og bauð upp á sem um kartöflumús væri að ræða. Mér þótti þetta óskaplega gott, kremað og létt, með örlitlum selleríkeim. Og kom alveg í staðinn fyrir músina. 

Og skildi mig eftir kampakáta; valmöguleiki innan ramma. Gæti ekki verið betra. 

mánudagur, 18. maí 2015

Af magabólgum og meltingarvegum

Það er örugglega fátt skemmtilegra en að setja sér markmið. Setja upp plan, brjóta það niður í smærri einingar, kaupa sér nýja stílabók, setja upp litakerfi, reikna út kíló, eða sentimetra, eða vegalengd eða peninga. Hvað svo sem markmiðið er, að léttast eða lyfta þyngra, hlaupa lengra, safna fyrir einhverju eða verða hávaxnari kannski. Ég alveg elska þetta tímabil, þegar framtíðin er óskrifuð og hvað sem er getur gerst.  Og ég verð að viðurkenna að ég er svona smávegis háð því. Maður fær svona vímutilfinningu fyrst. Ég hef oft rokkað um í hugsuninni að kannski væri bara best að ráfa á milli mismunandi megrunarkúra og um leið og nýjabrumið fer af að byrja þá bara á þeim næsta. Svo lengi sem ég held alltaf í það að enginn kúr sé lausnin "á þessu öllu saman" þá sé í raun lítið að því að lifa bara frá einum kúr til annars. Það virðist samt ekki alveg virka þannig. Það fylgir alltaf tímabil þar sem maður verður fyrir vonbrigðum eða dettur í það og þyngist aftur um allt draslið áður en maður fattar að byrja á öðrum kúr. Og maður þarf að byrja upp á nýtt frekar en að geta bara haldið áfram. 

Dave minn fór til læknis um daginn. Hann er með slæmt magasár og er núna farin að fá allskonar skemmtilegar meltingartruflanir. Kom heim hálf traumtíseraður eftir pot í alla enda og eftir að fengið að vita að hann er ef til vill með coeliac (glúten óþol) og að læknirinn mælti eindregið með að hann taki mataræðið alvarlega í gegn. Eins niðurlútur og hann var gat ég ekki annað en uppveðrast yfir þessum fréttum. Ég gæti upplifað nýjabrumið í gegnum hann! Lögleg megrun! Sett upp plan um hitaeiningar sparaðar yfir daginn og vikuna, sett upp skrá um þyngd og hæð, framvarpað áætluðu þyngdartapi, búið til matseðil, verið peppari og gúrú og stjórnað hreyfingarplani. Þvílik lukka yfir mér! Já, og honum auðvitað. 

Hugsaði málið aðeins og ákvað að stinga upp á að hann myndi kaupa sér fitbit, úrið sem mælir hitaeiningar inn og út, skref tekin yfir daginn og mælir svefnmynstur. Mér fannst að svona tölfræðinördadót myndi helst höfða til hans til að halda honum við efnið. Og það var eins og ég vissi, hann varð ægilega spenntur yfir að fá nýtt "gadget" og rauk til að kaupa tækið. Síðan bað hann mig um að slaka á. Ég væri búin að ganga í gegnum mitt og að hann þyrfti að fá að gera þetta allt á sínum forsendum. Og ég skil hann vel, ég held að það sé ekki hægt að byrja á punktinum sem ég er stödd á núna. Það þarf hver og einn að skrifa sína sögu, prófa þetta allt. Er ég ekki sú sem hvað hæst belja um að engin ein leið henti öllum? 

Ég sit því núna og bít niður endajaxlana til að koma ekki með of miklar upplýsingar, eða vera með krítík eða bjóða ekki fram of mikla hjálp. Hann verður að fá að gera þetta sjálfur. Ég er bara að vona að gleðin og kátínan sem hann finnur fyrir núna smitist yfir í mig. Get ég sameinað þetta að borða af innsæi OG borðað eftir plani? Það er svo gaman að hafa plan....

föstudagur, 15. maí 2015

Röddin í eyðimörkinni

Ég hef ekki verið ég sjálf að undanförnu. Ég er rosalega hress gella vanalega, jákvæð og bjartsýn og að mestu leyti hamingjusöm. En eitthvað hefur greinilega verið að plaga mig að undanförnu því þegar ég lít tilbaka finnst mér eins og að það heyrist afskaplega lítið í þessari jákvæðu, bjartsýnu rödd af því að reiða röddin yfirgnæfir allt annað. Svona eins og stjórnmálamaður í kappræðum hrópa ég bara hærra og hærra án þess að hafa svo sem neitt sérlega uppbyggilegt til málanna að leggja. 

Ég er bara að reyna að koma einhverju sensi á heiminn sem hefur skyndilega snúist á hvolf hjá mér. En í staðinn fyrir að vera glöð og þakklát fyrir þetta tækifæri að rannsaka heiminn út frá nýju sjónarhorni varð ég hrædd og reið. Og tók þann pól í hæðina að ég þyrfti að sannfæra alla um að við búum við misrétti og hatur og hamfarir og mér fannst ég þurfa að afsaka og bera í bætifláka fyrir allt sem ég gerði, eða gerði ekki. En ég þarf ekkert að sannfæra neinn um að þetta sé erfitt. Það vita það allir. Ég þarf heldur ekki að sannfæra neinn um að upplýsingarnar séu ruglandi og að maður viti ekki dag frá degi hvað "megi" og hvað "megi ekki" borða. Við erum öll jafn ringluð yfir því. Ég þarf heldur ekki að sannfæra neinn um hversu mikla vinnu ég legg í heilsuna. Ég veit það sjálf.  Málið er að maður þarf bara að afsaka sig ef maður skammast sín. Og ég á ekki að þurfa að skammast mín fyrir nokkurn skapaðan hlut. 

Ég er búin að blogga í langan tíma. Ég hef alltaf reynt að vera hrein og sönn og ímynda mér að ég sé að halda dagbók og að það sé enginn að lesa. Ég er kannski stundum of hreinskilin. En ég get heldur ekki neitað því að það er fólk sem les og að flestir sem lesa gera það vegna þess að ég var einu sinni "eftir" mynd. Og mér finnst leiðinlegt til þess að hugsa að ég sé hætt að veita hvatningu eða gefa hugmyndir eða hreinlega bara vera skemmtileg. En ég get heldur ekki bara hætt að skrifa eftir öll þessi ár. Það má vera að áherslan breytist aðeins.  

Mig langar ekki til að vera reiða röddin sem þrumar um réttindi feitra. Ég á ekkert að þurfa þess. Ég vil vera röddin sem talar um jafnvægi og sátt, um forvitni og uppgötvanir og frelsi og ást. Ég vil vera röddin sem segir að þetta verði allt í lagi. Ég vil vera röddin sem segir sannleikann, en ég vil líka vera röddin sem gefur von, ekki sú sem drepur hana niður. 

miðvikudagur, 13. maí 2015

Af tíma-og fjárþröng

"Það þarf að hafa tíma, kunnáttu og fjárhag til að elda mat.

Svona þegar ég skoða söguna finnst mér augljóst að ein af ástæðunum fyrir því að fólk fitnar er unnin matvara. Ég tel að það sé engin tilviljun að við byrjum að fitna fyrir alvöru á svipuðum tíma og við hættum að elda frá grunni og matur verður meira og meira unninn til að vera einfaldara og fljótari í meðhöndlun. Endalaus viðbætt gervi-og bætiefni eru núna sett í allt bæði til að lengja líftíma, gera auðveldara til notkunar og til að bragðbæta. Og sumir segja til að gera okkur háðari bragðinu, þe með viðbættum sykrum og fitu. Þetta, í sambland við óæti sem er selt sem megrunarvara, megrunarkúrana sjálfa og breytta hegðun hvað hreyfingu varðar stuðlar svo allt að aukinni fitusöfnun meðal almennings. 

En fyrir utan að hér komi kjarnorkustyrjöld sem þurrkar allt draslið út svo við getum byrjað upp á nýtt tel ég að það sé fáránlegt að halda því fram að allir geti borðað vel og hollt og óunnið. Það er ýmislegt sem hér kemur til. Er aðgangur að ferskri matvöru þar sem þú býrð? Hefur þú efni á að kaupa ferska matvöru eða er dósamatur og hvítt brauð það sem launin þín bjóða upp á? Ef þú getur keypt ferskt geturðu borgað enn meira fyrir lífrænt? Hefurðu aðstöðu til að elda? Ertu með sæmilega vinnuaðstöðu, geymslu og hefurðu efni á að borga fyrir gas/rafmagn? Hefurðu orku eftir vinnu til að elda? Hefurðu kunnáttu til að gera það? Hefurðu tíma til að elda frá grunni? Þetta eru allt aðstæður sem eru ekki sjálfgefnar hverjum sem er. 

Það að borða hollan og góðan mat er því orðið að þjóðfélags-og efnahagsmálefni. (Socio-economic issue) og "offitufaraldurinn" því hluti af stærri umræðu en einfaldlega þeirri sem er í heilanum á mér. 

Flestir gera sér illa grein fyrir því hversu mikinn tíma og orku það tekur að standa í eldhúsinu, sér í lagi ef allt er eldað frá grunni. Það er nánast ómögulegt að biðja fólk um að gera þetta eftir langan vinnudag með börnin hangandi á manni þegar maður er ekki viss um hvort það sé til nóg á heftinu til að borga rafmagnsreikninginn. Mér þykir líka ólíklegt að flest okkar gerum okkur nægilega grein fyrir hvað matvara er gífurlega mikið unnin, og líka sú sem virðist ekki vera svo. Þannig myndi maður halda að það væri seif að kaupa kjúklingabringu, spínatpoka og pestókrukku. Sulla þessu svo saman og segjast hafa eldað kvöldmat. En kjúklingurinn hefur sjálfsagt verið alinn upp í loftlausu búri þar sem hann var neyddur til að éta sykrað korn. Svo er bringan sykur, vatns- og saltsprautuð til að vera stærri, ferskari og fallegri í pakkningunni. Spinatið er útsprautað af eiturefnum til að halda pöddum frá og til að gera það grænna. Pestóið inniheldur 50 grömm af sykri. En það er líka fáránlegt að rétta mér lifandi hænu og biðja mig um að snúa úr hálslið, skera í sundur, hamfletta eða reyta og elda svo. Ég kem ekki heim úr vinnu fyrr en klukkan sex, ég hef engan tíma í að kála hænum. 

Og ég nenni varla að fara út í ruglið sem viðgengst þegar að heilsuvöru kemur. Það virðist vera hægt að selja allan andskotans til almúgans ef stimpillinn "náttúrulegt" er smellt á dósina. Arsenik og blásýra eru 100% náttúrleg þannig að það er ekki endilega sama sem merki á milli "náttúrlegt" og "hollt". 

Það er lítið mál að flykkjast á námskeið í að elda hollt, kaupa matreiðslubækur og næla endalausum uppskriftum á pinterest. En hefurðu í alvörunni tíma og fjárráð til að elda hollt? Og ef þú hefur tíma og peninga (heppinn þú!) geturðu verið viss um að matvaran sé í alvörunni holl?

Það er sjálfsagt best að gera eins vel og maður getur með úrræðin, tímann og kunnáttuna sem maður hefur. En að halda að það sé sjálfsagt mál fyrir alla að borða "hollt" er hroki einn.

Af áralöngum misskilningi

Ég er búin að úthugsa þetta allt saman og hef einungis komist að einni niðurstöðu. Allt sem við teljum að sé rétt, satt og óhrekjanlegur sannleikur hvað fitutap varðar stenst ekki. Hitaeiningar inn og út, þjálfun, viljastyrkur. Ekkert af þessu útskýrir hversvegna ég er feit og held áfram að vera feit. Og ekkert segir mér heldur að það sé slæmt að vera feit, nema fagurfræðin. 

Ef það væri hægt að stjórna fitu þá væri hún undir stjórn. Það er bara svo einfalt. Ég trúi því bara ekki lengur að það sé hægt að nota aga til að stjórna mataræði eða jafnvel matarhegðun. Ég trúi að það sé hægt að nota innsæji og skilning og virðingu við sjálfan sig. Ef maður finnur fyrir gífurlegri löngun í eitthvað þá er það vegna þess að það vantar eitthvað. Ef maður er að ströggla við að berjast gegn því sem maður skilgreinir sem lélegt val á mat, er betra að reyna að sleppa því að refsa sjálfum manni og reyna frekar að skilja hvað er í gangi. Ég hef notað aga og viljastyrk til að neyða sjálfa mig til að borða og haga mér á hátt sem er skilgreindur sem heilsusamlegur og það hefur hreinlega ekki hjálpað til að gera mig heilsusamlegri. Á margan hátt hefur það frekar gert mig veikari; hefur skaðað enn frekar samband mitt við mat, skaðað traustið sem ég á að bera til sjálfrar mín og að auki hefur það ekki skilað sérlegum varanlegum árangri til að verða mjó.

Það er hinsvegar hægt að ná árangri í að laga óheilbrigt samband við mat og það er hægt að verða heilsusamlegri og það allt án þess að léttast um eitt einasta kíló. 

Hræsnin í samfélaginu er augljós þegar skaðleg áhrif þess að fara í megrunarkúr eru skoðuð. Ef heilsan væri málið þá væri áherslan önnur. En samt er því er haldið fram að það eitt að vera grönn sé nóg. Að hvað aðferð sem er notuð til að verða grönn sé í lagi. Skera út heila næringarflokka, taka inn pillur sem valda hjartaflökti eða pillur sem valda saurleka! Og allt er þetta dæmt sem virðingarverðar leiðir til að verða "heilsusamlegur"! Endalausir jó-jó megrunarkúrar skilja ekkert eftir nema litla orku, lélega næringu og þeir algerlega rugla brennslukerfinu og hormónastarfsemi líkamans. Þegar fókusinn er á að refsa sjálfum sér, halda frá manni næringu, hatast við sjálfan sig fyrir að vera ekki nógu sterkur, er engin leið að ná fram heilsu. 

Um leið og við erum að sjá mannfólkið fitna sem heild erum við á sama tíma að horfa á næringarskort. Hvernig passar það? Erum við ekki að borða of mikið? Hversvegna erum við ekki að fá næringarefni? Kannski að það hafi með að gera að megrunarmarkaðurinn er búinn að fokka þessu öllu upp. Tökum sem dæmi D-vítamín bætta mjólk. Til að líkaminn geti upptekið D-vítamín þarf hann fitu. Mjólkin er engu síður auglýst sem fitusnauð. Hvernig á líkaminn þá að vinna úr viðbættu D-vítamíninu? Þetta er allt saman bara rugl.

Ég hef að undanförnu heyrt mikið talað um fólk sem er "skinny fat" Það er að segja að það er grannt á að líta en er með offitu að innan. Líffærin eru þakin innri fitu sem er mjög óheilsusamleg. Þegar ég hugsa um þetta þá sýnist mér að skilgreining á offitu sé orðin meiningarlaus ef grannt fólk getur líka verið offitusjúklingar. Ef grannt fólk fær innri offitu og sykursýki og feitt fólk er fílhraust með lágt kólesteról og fínan blóðþrýsting nú þá hlýtur það að vera merkingarlaust að vera of feitur.

Nema auðvitað hvað útlitið varðar. 

Mismunandi fólk bregst við mataræði og þjálfunarprógrammi á mismunandi hátt. Ég get skapað 3500 hitaeiningaþurrð yfir vikuna en ekki lést um 500 grömmin sem stærðfræðin segir að ég eigi að léttast um. Við stynjum upp yfir okkur að þessi og hinn geti borðað eins og hestur en aldrei fitnað en sumir geti ekki hugsað um mat án þess að bæta á sig fitu og samt höldum við að sama prógrammið gilldi fyrir alla? Hvaða rugl er það eiginlega? Borða minna og hreyfa sig meira... Þetta bara virkar ekki. Ef poki af kartöfluflögum hefði nákvæmlega sömu áhrifin á alla þá væru kartöfluflögur einfaldlega ólöglegar. 

Frá fyrstu stund sem maður byrjar að hreyfa sig byrjar líkaminn að vinna betur úr öllum næringarefnum og sér í lagi sykrum. Hreyfing er góð, ekki vegna þess að maður gæti kannski grennst. Hreyfing er góð vegna þess að allt kerfið helst við betur og lengur fram eftir ef maður hreyfir sig, þó maður léttist aldrei um eitt einasta kíló. En samt sjáum við ekkert sem árangur nema ef kíló og sentimetrar fjúki. Sannleikurinn er að frá fyrsta skrefi er árangri náð. 

Ef líkaminn vildi ekki vera feitur myndi hann ekki berjast gegn því að fitna? Ef líkamlega það er betra að vera grannur af hverju höfum við þróast til að vera með fituforða? Maður grennist þegar maður borðar ekki nóg. Og hvernig í ósköpunum er hægt að segja að það sé gott að borða ekki nóg? Náttúrulega granna fólkið dó allt út. Við erum afkomendur þeirra sem best söfnuðu fitu á líkamann til að lifa af hungurtímabil, við erum genatískt prógrömmuð til að fitna. 

Hjarta, heili og lifur eru líffærin sem brenna mestum hitaeiningum. Ef maður takmarkar þær byrjar maður einfaldlega að ganga á hæfni líffæranna til að starfa af fullum krafti. Það má vera að til að byrja með noti maður upp einhvern fituforða en að lokum byrja þess líffæri einfaldlega að starfa verr. Kaldhæðnin er svo að allir þessir "detox" kúrar sem fólk fer á. En með því að hefta orkuna sem lifrin fær byrjar að draga úr hæfni hennar til að vinna úr einmitt þessum eiturefnum sem tilgangurinn var að ná úr líkamanum! 

Það eina sem þarf að breytast er viðhorf okkar til feitra. Ef við erum jafnheilsusamleg og grannt fólk nú þá er engin ástæða til að krefjast þess að við grennumst nema af fagurfræðilegum ástæðum. Ekki krefst ég þess að rauðhærðir raki af sér hárið. Það velur það enginn að vera feitur, það eru mýmargar ástæður fyrir því að vera það. Nei, þetta er allt saman bara rugl og vitleysa og hver tilraun til að verða grennri gerir ekkert nema að vinna gegn því markmiði. Hættum þessu bara og byrjum frekar að fagna margbreytileika mannfólksins. 

fimmtudagur, 7. maí 2015

Þorlákshöfn -Rhosllannerchrugog

6. júní næstkomandi eru komin tólf ár síðan ég flutti hingað til Norður Wales. Þó ég hafi flutt hingað til að búa með manni og barni þá verð ég nú samt að viðurkenna að það voru mörg ár sem liðu þangað til ég hætti að vera "á leiðinni heim". Og það liðu enn fleiri þar til ég fékk ekki lengur spurninguna um hvenær ég flytti aftur heim. Eins og það að búa erlendis sé alltaf bara tímabundið ástand fyrir Íslending. En hér er ég enn og með hverju árinu sem líður finnst mér ólíklegra að ég fari nokkuð aftur heim. Það er svo komið núna að það eru rétt fjögur ár í að ég verði búin að búa hér eins lengi og ég átti heima í minni ástkæru Þorlákshöfn! Þannig að það líður heldur ekki á löngu áður en ég geti með sanni kallað sjálfa mig jafnmikinn "Jacko" (gæluorð fyrir fólk sem býr hér í þorpinu mínu) og ég get kallað mig Þollara.

Það er margt gott við að búa í útlöndum en ég skal nú samt segja að þetta var erfitt fyrst. Fyrir utan að sakna mömmu og pabba, vina og vandamanna ákaflega, þá var íslenskur matur mér sérlega hugleikinn. Hver sem hingað kom var krafinn um harðfist, söl, Nóakropp, flatkökur, lakkrís, remúlaði, pulsusinnep, hraunbita, appelsín, hangikjöt, saltfisk og skyr. Eftir því sem árin liðu varð listinn styttri þangað til að eftir stóð eiginlega bara harðfiskur. Þó ég slái nú ekki hendinni á móti Nóakroppi svona ef mér er boðið. Allt hitt fæ ég bara þegar ég kem heim. Það hjálpar líka að viðhalda harðfisknum (fyrir utan að vera gvuðaveigar) að Lúkas hámar hann í sig og ég vil endilega viðhalda því. Skyr var svo alltaf smávegis hjartasorg. Það er einhvernvegin vesen að vera að burðast með það á milli landa, og eitthvað sem ég nenni ekki að gera. Sérstaklega núna þegar keppikeflið er að fljúga með sem minnstan farangur. 

Hér í Bretlandi er alltaf heill gangur tileinkaður jógurtafurðum í öllum stórmörkuðum. Heilu kílómetrarnir í röðum af allskonar gúmmelaði; hreint og bragðbætt, sykrað og ósykrað, með allskonar ávöxtum eða granóla og kexi, heilsusamlegt eða jafn djúsí og góður eftirréttur. Og þar með talin grísk jógurt sem síðustu ár hefur aldeilis byrjað að njóta vinsælda meðal þeirra sem hugsa um heilsuna. Full af próteini og fitusnauð en samt þykk og rjómakennd. Ég fór fljótt að hugsa með mér að ég þyrfti að koma fólki upp á séríslenskt skyr. Skildi eiginlega ekki afhverju það hafði ekki gerst fyrr. Enn betra og hollara en grísk jógúrt! Þegar ég svo fattaði að það er í raun einfalt mál að búa sér skyr til heima sá ég í hendi mér að hér væri tækifærið mitt. Byrja á heimayrkju, koma í umferð, og koma svo með sér íslensk-velska blöndu; íslenskt skyr úr velskri sauðamjólk! 

Innan við viku eftir að ég hóf tilraunir heima kom í ljós að auðvitað var einvher búinn að hugsa þetta fyrir, og nú er hægt að kaupa hér skyr eftir íslenskri uppskrift í öllum betri stórmörkuðum. Hreint, jarðaberja og með hunangi. (Sem er bara rangt!) Og auglýsingin fylgir með. Tvisvar til þrisvar á kvöldin við sjónvarpsgláp æpi ég upp yfir mig "Eyrarbakki!" Og "hvaða fjall er þetta eiginlega? Það er ekkert fjall á Eyrarbakka?" Og um mig hríslast unaðsþjóðrembingur. VIð erum svo spes og æðisleg. 

Skyrið er fínt. Það er ekki alíslenskt, framleitt í Þýskalandi, hugsað upp í Danmörku og markaðsett hér. Skyrið mitt er kannski ekki mikið íslenskara, framleitt í Wales með enskri undanrennu. Og það er ekki ódýrara að búa það til sjálf, amk ekki á meðan ARLA skyrið er á tilboði í ASDA.  En það er svo skemmtilegt að búa það til sjálf. Standa yfir pottinum og fylgjast með hitastiginu. Hvað það er rosalega góð lykt sem stendur af skyrinu þegar það er búið að hleypa. Hvað það glansar fallega og að sjá svo breytinguna þegar mysan hefur síast frá. Það er bara eitthvað óviðjafnanlegt við allt sem maður leggur vinnu og ástúð í. Alveg sama hvað það er.  Meira segja þó maður endi ekki sem útrásarvíkingur.

mánudagur, 4. maí 2015

Af uppreisn

Ég á aldrei eftir að verða grönn. Aldrei. Ég á aldrei eftir að verða grönn þannig að ég get allt eins verið hamingjusöm. 

Oftar en ekki ljósta mann bestu hugmyndirnar þegar maður er að hreyfa sig og það var á hjólreiðum á leiðinni í vinnunna um daginn sem þessi hugsun kom upp. Ég get allt eins bara verið hamingjusöm frekar en að reyna að vera grönn. En hvað þýðir það eiginlega þegar ég segi svona hluti? Hvað þýðir það að vera feit og hamingjusöm og í hvað á ég að eyða tíma mínum ef ég er búin að gefa upp á bátinn þennan draum um að verða grönn og í ofan á lag búin að fjarlæga samasemmerkið á milli grönn og hamingjusöm? 

Get ég nú bara látið það eftir mér að ryksuga í mig heilum kexpakka á kvöldin? Get ég hætt að hreyfa mig? Get ég bara strokið ástúðlega um belginn á mér og andvarpað af hamingju að ég þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af honum? Get ég bara "gefist upp"?

Mér finnst að gefast upp ekki vera skilgreinining á að hætta að reyna að vera grönn og vera hamingjusöm. Ég held að þetta túlkist frekar sem bara ein setning: að vera hamingjusöm. Um leið og ég tek út úr dæminu að vera grönn opna ég fyrir möguleikann á að borða til að næra mig af alvöru og hreyfa mig fyrir gleðina. Ég er nefnilega hamingjusöm þegar ég hreyfi mig og þegar ég næri mig. Þegar ég hinsvegar borða með það eitt í huga að þvinga fram hitaeiningaþurrð og hreyfi mig með það eitt í huga að brenna enn fleiri hitaeiningum er ég ekki hamingjusöm. Hreyfing er ekki góð af því að maður gæti grennst af því að hreyfa sig; hreyfing er góð af því að hreyfing er góð. Það er hreyfinging sjálf sem gerir manni gott, ekki eitthvað sem kannski gæti gerst í framtíðinni. 

Ég á bara enn erfitt með að slaka á uppreisninni. Ég veit ekki alveg gagnvart hverjum ég er að gera uppreisn þegar ég borða yfir mig; gegn einhverju óskilgreindu yfirvaldi sem áður bannaði ofát á mat sem ég flokka sem djúsí eða gagnvart samfélagi sem segir mér að ég sé ákveðinn karakter bara vegna þess að það ég er feit. Ég á enn mjög erfitt með það. Að það sé hægt að segja mér að ég sé löt, án viljastyrks og einmana bara af því að ég ber utan á mér hvernig ég borða. Hvað með grönnu manneskjuna sem mætir ekki í vinnu? Ekki get ég dæmt um að hún sé löt bara á útlitinu en samt er í lagi að dæma svo um feitt fólk. Persónulega veit ég um fáa sem vinna jafn hörðum höndum að nokkrum sköpuðum hlut og ég hef unnið að því að verða grönn síðustu 35 árin. En samt má dæma mig sem lata. 

Er nema von að mig langi stundum að gera uppreisn. En ég er bara alltaf að skilja betur að byltingin étur börnin sín og fær sér svo líka kökusneið á eftir og bitnar á engum nema sjálfri mér. 

Sem færir mig aftur að því að vera hamingjusöm. Fyrir mér er það að finna þetta jafnvægi. Þar sem ég hreyfi mig þannig að það er skemmtilegt og með tilgangi en krefst ekki neins járnvilja. Járnvilji er bara fyrir sérsveitarmenn og á ekkert erindi við venjulegt fólk sem stundar venjulega hreyfingu. Þar sem ég er ekki það feit að ég meiði mig þegar ég hreyfi mig. Þar sem ég get borðað það sem mér sýnist, þegar mér sýnist en að ég kjósi frekar sjálfviljug að borða mat sem ég veit að lætur mér líða vel líkamlega. Þannig að ég kjósi að hætta að borða áður en ég verð of södd. Þar sem ég get dílað við sorgina sem ég finn þegar ég þvinga mig til að hætta áður en ég vil. Þar sem ég er frjáls.  

Það er meira en að segja það að gefa upp á bátinn rúmlega þrjátíu ára gamlan draum. Ég geri ekki ráð fyrir því að ég get bara hætt rétt sí sonna að hugsa í hitaeiningum. Þetta á eftir að vera smá prósess. En ég geri líka ráð fyrir því að sátt við sjálfa mig, jafnvægi og frelsi séu betri og stærri verðlaun en að passa í buxur sem ég keypti 1988.