þriðjudagur, 29. september 2015

Af Pinterest


Ég eyði miklum tíma á Pinterest, og að mestu leyti er það hið besta mál og hin besta skemmtun. Þar er hægt að finna uppskriftir að öllum andskotanum, allskonar húsráð og hugmyndir. En hitt er svo að Pinterest gerir mig svo öfundsjúka út í allt og alla. Það er allt svo miklu fínna hjá öllum öðrum, maturinn fallegri og hollari og fataskápurinn svo miklu meira töff. Það er því ágætis skemmtun að skoða Pinterest vs. nailed it myndir til að minna sig á að fæst stenst manns eigin væntingar. 

Og þá ekki síst maður sjálfur. Ég geri stanslausar Pinterest kröfur til sjálfrar mín. Sér í lagi þegar kemur að hollustunni. Mér þætti afskaplega gaman hefði ég getað pinnað "50 kíló farin" söguna mína og snúið mér svo að einhverju öðru. En það er nú víst ekki svo og ég held áfram að klóra mér í hausnum yfir þessu öllu saman. Og minna sjálfa mig á að samanburður er dauði gleðinnar. Fyrir utan að mitt "nailed it!" Gæti verið einhvers annars pin.

sunnudagur, 27. september 2015

Af Ottolenghi


Ég þurfti að vera á fundum í Brighton miðvikudag og fimmtudag í síðustu viku. Það þótti því þjóðráð að stoppa við í London á leiðinni og hitta Ástu mína. Stoppið var stutt en hún náði þó að fara með mig á Yotam Ottolenghi deli og veitingastað í Islington. Ottolenghi er einn af þessum kokkum sem eg elska að skoða myndir af matnum sem hann gerir og fletta í gegnum bækurnar hans. Ég hafði nú samt aldrei lagt í að prófa að elda. Og það var nánast eins og að koma í mekka að komast þarna inn. Allt sem mér finnst fallegt var þarna uppsett á fallegasta máta. Ég á erfitt með að lýsa hvað fallega uppraðaður matur hefur mikil áhrif á mig, hvað mér líður vel í svoleiðis umhverfi. Allar áhyggjur og sorgir dagsins flutu tímabundið í burtu og eg leyfði visjúalinu að hrífa mig með á annan og betri stað. 

Ég gat heldur ekki farið út án þess að versla smá. Keypti mér poka af anzac kexkökum með það í huga að ég gæti notað sem morgunmat á leið til Brighton. Ég fekk þær í fallegum sellófan poka bundnum sman með trademark rauðum Otttolenghi borða.

Anzac eru astralskar að uppruna, hannaðat fyrir ástralska hermenn í fyrra stríði og eiga að duga lengi. Otttolenghi útgáfan er mun meira djúsí en upprunalega uppskriftin og sennilega bestu smákökur sem ég hef smakkað. Uppfullar af höfrum, kókos, rusínum og appelsínuberki. Ég vissi við fyrsta bita að eg myndi þurfa að reyna að gera mína útgáfu, og þá kannski aðeins hollari. Þær eru nefnilega heldur hitaeiningaríkar og ég err hrædd um að þær hafi stuðlað að því að ég þyngdist aðeins í vikunni. Rétt er að það er flóknara að halda uppi hollum háttum þegar maður er ekki heima hjá sér, en það hjálpar víst ekki að raða í sig bestu kexkökum í heimi þegar manni leiðist í lest.

Quinoa hveiti, kókosolía og hunang og ég er komin með rétta bragðið. Áferðin hinsvegar ekki rétt og ég þarf að halda áfram með tilraunastarfsemi. Og það er bara gaman. 

föstudagur, 18. september 2015

Gamechanger

Sumarið var yfirfullt af skemmtilegheitum. London, Reykjavík,  Barcelona, Berlin og Brighton. Endalaust stuð, og mikið af mat og enn meira af drykk. En nu slutter festen eins og maðurinn sagði og mál að linni.

Ég vóg 110 kíló á sunnudaginn síðasta. Það er nær því að vera feitasta ég en að vera mjóasta ég. Er það nokkuð hægt? Mér finnst ekki. Ég stend mig að allskonar fitubolluhegðun sem mér líkar illa; gera grín að sjálfri mér, forðast myndavélar, hafa áhyggjur af hvort stólar beri mig, forðast verslanir sem ég veit að selja föt í smærri stærðum, toga í peysuna til að fela bumbu...og þar fram eftir götunum. Ég þoli þetta ekki, þetta er allt eitthvað sem ég taldi af alvöru að ég hafði skilið eftir í reyk. 

Skiptir ekki máli, það eru þrír mánuðir til jóla og ekkert stórvægilegt planað utan vinnuferða og Dave er enn á full swing í sínum lífstíl og ekkert sem stöðvar mig í að taka smá rassíu núna. Eigum við að segja að þessi 10 kíló sem skilja á milli þess sem ég sé sem venjulega og vellíðandi og að vera hlussa verði farin um jól? Ég held það. Snýst þetta ekki allt um að halda áfram, byrja aftur, gefast ekki upp? Hversu vandræðalegt eða frústrerandi svo sem það er að endalaust segja sama hlutinn aftur og aftur.

Ég fann líka gamechanger um daginn. Ég er ástríðukokkur, og það er fátt sem veitir mér eins fölskvalausa gleði og að stússast í eldhúsinu. Það er eitthvað töfrum líkast við hvernig hlutir breytast úr einu í annað; mjólk í skyr, hveiti í brauð. Ég keypti mér spiralizer, lítið tæki sem sker grænmeti í örmjóa strimla. Þannig bar ég á borð í gærkveldi kalkúna bolognese með kúrbítsspaghetti. 425 hitaeiningar í sneisafullri skál með parmiggiano. Og rosalega gott. Ég hlakka til í kvöld, þá ætla ég að spírala sætar kartöflur og mixa einhvernveginn inn í kókoskarrí eitthvað. 

Neikvætt reinforcement virkar ekki á mig. Þannig er tilgangslaust fyrir mig að skoða hlussumyndir af mér. Þá verð ég bara sorgmædd og vil borða til að róa mig niður. En að skapa gleði, gleði í lífinu virkar sem tæki fyrir mig. Og það veitir mér gleði að raspa niður grænmeti. Eigum við ekki bara að rúlla með það?