sunnudagur, 25. febrúar 2007

Þetta moggablogg hefur komið mér í bloggfýlu. Við sjáum til hvort ég fari úr henni eftir stund.

föstudagur, 16. febrúar 2007

Lúkas er þá loksins staðinn upp úr veikindum síðan á sunnudaginn. Ég var farin að hafa rétt rúmar áhyggjur af honum, fannst þetta langur tími til að vera með háan hita. Ég verð nú samt líka lúmskt að viðurkenna að á vissan hátt er þetta búið að vera dálítð næs, hann hefur nefnilega ekkert viljað leika með lestar. Ég varð svo sjálf veik í nokkra daga. En við erum semsé hress og í stuði tilbúin að fá ömmu og afa í heimsókn. Nú er bara að láta daginn líða einhvernveginn.

Við erum komin vel og vandlega inn í 21. öldina hér í Rhosllannerchrugog, þeir bönkuðu upp á hjá mér í fyrradag ruslakallarnir og létu mig fá endurvinnlsukassa. Tunnu fyrir garðúrgang, kassa fyrir dósir og flöskur og poka fyrir dagblöð og pappír. Haldiði að það sé! Og ég sem er nýkomin yfir herpinginn í maganum sem ég fékk alltaf þegar ég setti kókflöskur í ruslið. Nú þarf ég að fara að láta mér varða umhverfið!

sunnudagur, 11. febrúar 2007Hér getur að líta snjókallinn sem Lúkas bjó til í gær, (gulrótin hans er dottin á jörðina, hann hefur bráðnað aðeins í nótt) og snjóinn allan sem varð til þess að ég var í rúma tvo tíma á leiðinni heim úr vinnunni á föstudagskvöldið og komst ekki í vinnu fyrr en á hádegi í gær. Ótrúlegt en satt. Já, ferð sem vanalega tekur tuttugu mínútur tók tvo tíma og svo neitaði bílstjórinn að fara lengra og ég þurfti að labba helminginn af leiðinni heim, og svo á laugardagsmorgun komu bara engir strætóar.

fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Bretland allt og sérlega Veils í lamasessi í dag vegna ofankomu. Ég var send heim snemma úr vinnu vegna þess að strætó var að hætta að ganga og ég þurfti einhvernvegin að komast heim. Ljómandi alveg hreint. Ekki það að það sé hægt að kalla þetta snjó en svona er nú mismunandi hvað okkur finnst. Enginn er með snjódekk. Nú er bara að sjá hvort ég komist í vinnu á morgun.

mánudagur, 5. febrúar 2007

Ástar- og samúðarkveðjur til Hönnu og Ástu. Stundum eru engin orð til.

föstudagur, 2. febrúar 2007

Á meðan að á heimili bróður míns finnst ekki sjónvarp erum við hér í Veils miklir sjónvarpsjúklingar. Ég er með einhverjar sexhundruð sjónvarpstöðvar til að horfa á og þrái ekkert heitar en Sky plús box svo ég geti horft á tvær mismunandi sjónvarpstöðvar í einu. Sjónvarpið sýgur úr manni sálina sagði Kristján sögukennari í MS og satt er það, ég er orðið sálarlaust skrípi. Ég gæti nefnilega verið að horfa á The History Channel og a.m.k uppfræðst örlitið við að horfa á heimildamyndir en ó nei, ég er dolfallin fyrir versta sjónvarpsefni sem upphugsð hefur verið. Svo sjúk að ég tel niður dagana fram á laugardagskvöld og get sest fyrir framan kassann og horft á "Dancing on ice". Semi frægt fólk er parað saman við atvinnuskautadansara og þarf að æfa vissar rútínur fyrir hvern þátt. Svo eru dómarar sem dæma og svo get ég hringt inn og kosið hver er bestur. Eitt par dettur út í hverri viku þar til einn stendur upp sem sigurvegari. Glæsilegt! Ég er sálarlaus og heiladauð.