fimmtudagur, 31. mars 2011

Nei, hættu nú alveg!
Ég er búin að kaupa mér jogginggalla. Bara komin í tríkotí. Flestum þætti það ekki í frásögur færandi en fyrir mér er þetta stórmál. Ég held að ég geti sagt og staðið við að þetta er fyrsta joggingflíkin sem ég hef keypt síðan ég fékk adidas apaskinnsgalla 1987. Í hann fór ég einu sinni. Og það sem verra er að ég ætla að nota hann á meðal almennings, ekki í ræktina. Ég nenni ekki í sturtu í ræktinni, langar bara til að drífa mig heim enda myndi ég sjálfsagt vera tæp á tíma ef ég væri eitthvað að dedúa við sjálfa mig eftir rækt. En get ekki alveg hugsað mér að fara í ræktargallanum i strætó, og vil alls ekki fara sveitt aftur í vinnufötin. Ég kom þessvegna með þessa lausn að strjúka af mér og fara svo í joggara og strillum í strætó. Það útskýrir þá rautt andlitið og vöntun á málningu; ég er greinilega íþróttamaður eftir æfingu. Og kemst vonandi upp með að vera smá sveitt í strætó og kemst fyrr heim. Málið er bara að ég er bara ekki hrifin af þægilegum fötum. Mér finnast þægileg föt óþægileg. Og það er algerlega sálrænt atriði. Í mínum huga er samasemmerki á milli þess að vera í teygjanlegu, leggings, joggings, stretch, víðu, rúmgóðu og þess að vera búin að játa sig sigraðann. Maður er þá búinn að gefast upp á að þykjast að vera ekki feitur og bara játar það fyrir almenningi. Það er mér og hefur alltaf verið algert kappsmál að vera snyrtileg, smart og veltilhöfð. Svona til að viðhalda þeirri ímynd að ég sé ekki feit og löt og luraleg í joggingalla. Og svo ætla ég núna bara að ferðast á milli borga, og það erlendis, í teygjubuxum! Þetta er voðalegt alveg hreint. Bjargar það einhverju ef ég segji frá því að buxurnar eru númer 14?

miðvikudagur, 30. mars 2011

Ég var lengi, og reyndar bara þangað til fyrir stuttu síðan, haldin þeim ranghugmyndum að ég "væri bara svona" og að ég væri máttvana gagnvart áunninni hegðun minni gagnvart mat og hreyfingarleysi. Þessi nýfundni skilningur minn að ég gæti vaknað á hverjum morgni og ákveðið sjálf hvernig dagurinn myndi fara er það sem hefur gert mér kleift að breyta því sem ég hélt að væri óbreytanlegt.  Málið er nefnilega að það er hægt að velja að setja sér markmið. Það er hægt að velja að setja markmiðið aðeins hærra á hverjum degi. Það er hægt að velja að gera eitthvað nýtt í dag. Það er hægt að velja að sleppa namminu í þetta sinnið og fá sér frekar gúrku. Það er hægt að velja að mæta í ræktina og taka á því. Það er hægt að velja að vera ánægður með sig. Það sem er merkilegast við þetta alllt saman er að ég er ekkert merkileg. Ég er ekkert sérstök. Það er ekkert við mig sem gerir mig frábrugðna öðrum. Ég valdi þetta bara.

þriðjudagur, 29. mars 2011

"Worth it" listinn. Endanlegur.

1. Nýbakað brauð.
2. Íslenskur lakkrís og Nóa súkkulaði.
3. Nóa-Kropp.
4. Ben & Jerry´s cookie dough ice cream.
5. Reece´s Peanutbutter Cups.
6. Daim Ostakaka.

Það er allt og sumt. Fyrir þetta er ég tilbúin að fórna fitutapi öðru hvoru. Ekki fyrir neitt annað. Öðru hvoru.

mánudagur, 28. mars 2011

Það flökti aðeins litla OCD hjartað mitt í morgun. Ég er stjóri í vikunni sem þýðir að ég get ekki haupið á morgnana. Eftir viku þar sem ég hef bara skekið skanka í léttum pilates voru vöðvar og sinar farnir að grátbiðja um smá átök. Ekki gat ég sleppt hlaupunum. Þannig að það var um ekkert annað að ræða en að skella sér í hlaupagallann eftir vinnu og rjúka út. Ég var svo sannfærð um að ég gæti ekki hlaupið eftir vinnu að ég nánast gafst upp áður en ég byrjaði. Svona er ég föst í rútinu og venjum að ég hef ákveðið að ég sé A-manneskja sem sé ófær um stórræði eftir klukkan fimm og á erfitt með að hugsa út fyrir þann ramma. En þegar ég kom heim í kvöld var enn glampandi sólskin úti, örlítil hressandi gola og úrvalsaðstæður fyrir hlaup. Ég fann að þráin til að hreyfa mig var þreytunni yfirsterkari og lagði þess vegna af stað. Þetta var bara gott. Það er ólíkt skemmtilegra að hlaupa í sólskini en í morgunmistrinu og svo það sem kom mér helst á óvart var hvað mér fannst gaman að hafa fólk í kringum mig. Ég byrjaði að keppa í huganum við bíla og fólk, heimtaði af sjálfri mér að ég færi fram úr þessum og hinum sem ég mætti, reyndi að spretta í takt við bíla. Tók einn ægilegan sprett þegar ég var rétt að komast heim og mætti gömlum kalli á sama tíma. Hægði á mér og hann æpti á mig; "You can´t stop now!" þannig að ég þorði ekki öðru en að spítta aftur í. Bara skemmtilegt. Og ég ætla að reyna að vera slakari héðan í frá, reyna að vera sveigjanlegri. Maður verður að prófa áður en maður dæmir.

laugardagur, 26. mars 2011

Enn sigli ég um áður ósigld höf. 87.8 kíló í morgun sem er tala sem ég þurfti að stara á í smástund áður en ég fattaði að ég er enn á hraðbyru stími í rétta átt. Ég hef núna lokið 73% verkefnisins. Ef þetta væri masters ritgerðin mín þá væri ég að lagfæra setningar og setja saman lokaorð. 73% af því sem ég lagði upp með er búið. Ég skoðaði líka í morgun BMI (body mass index) stuðulinn minn. Og komst að því að ef ég léttist um tvö kíló í viðbót þá færist ég úr "obese" (eigum við að þýða það sem akfeit? eða spikfeit? hvað ætli að læknamál segi á íslensku?) niður í "overweight". Yfirþyngd. Ég get lifað með því. Og það má segja sem maður vill um BMI, en að mínu mati þá er hann ágætis viðmið fyrir flest venjulegt fólk. Mér datt líka annað í hug út frá því. Þegar við keyptum húsið okkar þá tókum við bæði út liftryggingu. Við erum svo skynsöm (!!) Og ég þurfti þá að leita eftir sérstakri líftryggingu fyrir fólk eins og mig þvi flest venjuleg fyrirtæki neituðu að líftryggja mig eða þá að mánaðargjaldið var svo hrikalegt að ég hafði ekki efni á þvi. Svona eftir á að hyggja hefði ég kannski ekki átt að verða reið og móðguð en frekar átt að gera eitthvað í mínum málum. En ég fann að lokum tryggingu sem tók til greina þá fullvissu að ég myndi drepast úr spiki fyrir fertugt og rukkaði mig ekki svaðalega fyrir. En nú þegar ég fer að nálgast það að vera bara overweight ætti ég að fá hjúkkuna sem kom hingað og vigtaði mig og mældi til að koma hingað aftur og votta að ég er venjuleg núna. Og fá mánaðargjaldið lækkað. Áþreifanleg sönnun fyrir breytingunni.

Skoskar hafrakexkökur
Ég dúllaði mér við að fagna 73% í morgun og bjó til hafrakex. Alltaf þegar ég les aftan á Nairns kexpakkann minn undra ég mig yfir einfaldleikanum og ég ákvað svo í morgun að ég ætti að prófa að búa til mínar eigin fyrst uppskriftin er svona einföld. Fann uppskrift á BBC og þetta var ekkert mál, tók hálftíma frá upphafi til enda og ég á núna 12 heimatilbúnar hafrakexkökur, hvort heldur sem er í morgunmat eða millisnarl. Og betri en Nairns. Hafrakex er svo æðislegt af þvi að það má setja hvort heldur sem er sætt eða savoury á það. Ost eða sultu, eða það sem mér finnst allra best, gróft hnetusmjör og sykurlausa jarðaberjasultu. Peanutbutter and Jelly. Verður ekki betra. Uppskriftin er á uppskriftasíðunni. Og af því að ég var í svona finu skapi bakaði ég líka eitt rúsínufyllt epli og bauð með kexinu og gríska jógúrtinu ásamt eggjahræru. Fullkomið. Vill einhver koma í morgunmat?

föstudagur, 25. mars 2011

Með aulaglott á andliti.
Merkilegt hvað það er miklu erfiðara að tala um velgengi en um það þegar illa gengur. Það er bara einfaldlega frá færru að segja, minni pælingar, ekkert sem þarf að "skrifa sig frá". Maður fer bara úr einu í annað með aulaglott á andlitinu og allt bara svona gerist einhvernvegin eins og af sjálfu sér. Og akkúrat núna er rifandi gangur hjá mér. Ég er eiginlega alveg hissa á sjálfri mér, hafði gert ráð fyrir dramatík í þessari viku vegna aflýsts nammikvölds í síðustu viku, var fullbúin undir fráhvarfseinkenni, "hversvegna ég?" góli, hár-og skeggrífngum og löngum, áhrifaríkum bloggfærslum um mikilvægi þess að vera staðfastur og hversu langt ég hef náð hingað til og bla bla bla. En svo bara ekkert. Ekki rassgat í bala. Mér er búið að vera drullusama alla vikuna. Ég lýg engu um að hlakka ekki til að fá karamellurnar sem ég ætlaði að borða um síðustu helgi og hafa núna bara beðið rólegar eftir mér alla vikuna, auðvitað langar mig í þær. En þær hafa líka bara verið upp í skáp og ekki káfað neitt upp á mig. Ég borða ekki karamellur á virkum dögum. Simple as. Og við það sat. Má ég segja að ég hafi snúið við blaði í vikunni? Ég er ekki frá því. Er þetta kannski dramatisk bloggfærsla eftir allt? Ég er ekki frá því. Stórir atburðir láta vanalega lítið yfir sér.

fimmtudagur, 24. mars 2011

Uppskriftasíðan mín minnti mig á nokkra góða rétti sem ég hafði eiginlega gleymt og endurvakti núna í vikunni. Sérstaklega grænmetisbakan mín, ég var búin að steingleyma hvað hún er bæði góð og hentug. Ég gerði hana reyndar aðeins einfaldari núna, lét nægja að raspa niður eina gulrót, mauka einn hvítlauksgeira, búta niður hálfa rauða papriku og setja svo þrjár lúkur af spínati á pönnu í nokkrar mínútur og hellti því svo út í hræru af  200 g af kotasælu, 4 egg, matskeið af hrísgrjónahveiti og góða gommu af parmesan osti. Ég bætti svo líka við hálfri teskeið af dijon sinnepi. Salt og pipar, baka við 190 gráður þar til gullið og hamingjan er þín. Ég skar niður í sneiðar og er búin að vera að borða þetta ýmist sem morgun-eða hádegismat í vikunni. Ekkert slor það. En merkilegra þótti mér ný uppskrift að quinoa-salati. Ég hafði séð uppskrift sem blandaði rjómaosti við quinoa og náttlega vaaaaarð að prófa. Það er mjög mikilvægt að skola aðeins af quinoanu því að það getur verið biturt bragð af ytra laginu ef ekki er skolað i burt. Sumsé skola hálfan bolla af korninu og setja svo í einn bolla af vatni og sjóða með smá salti eða jafnvel með grænmetisteningi þar til kornið hefur sogið i sig allt vatn. Alveg eins og maður sýður grjón. Láta kólna aðeins. Skera fínt niður hálfa lauk, nokkra sveppi og hvítlauksgeira og svissa aðeins á pönnu í smá olívuolíu. Hræra það svo við quinoað ásamt 1/4 teskeið dijon sinnepi og matskeið af rjómaosti (fitumagn fer eftir smekk og kalóríueign hvers og eins). Ég setti þetta svo saman við grillaða kjúklingabringu sem ég átti til inni í ísskáp og lagði svo á hvað annað en spínatbeð. Þetta var aldeilis hádegismatur til að hrópa húrra yfir. Ég ætla að prófa að setja túnfisk út í blönduna næst, get ímyndað mér eintóma hamingju þar líka. Svo er ég búin að vera með hálfgert æði fyrir rósakáli að undanförnu. Það er sko ekki bara fyrir jólin. Ég hreinsaði og skar til helminga nokkuð af rósakáli og setti i ofndisk. Dreifði svo yfir ólífuolíu, dropum af balsamic og örfáum dropum af hunangi. Pipraði líka. Bakaði svo inni í ofni í svona hálftíma. Setti svo út í kúskús með smá rjómaosti og grilluðum kjúlla. Voðalega gott og að sjálfsögðu má bera rósakálið fram heitt með nánast hverju sem er. Ég er líka alltaf að verða stoltari af gulrótarmorgunverðarkökunni minni, eftir því sem þef-og lyktarksyn verður betra með minnkandi kvefi finnst mér kakan bara verða betri og betri. Ég er að hugsa um að prófa næst að minnka hveitimagn niður í nánast ekki neitt og auka hafrana. Fara bara alla leið i að skapa morgunverðinn sem ég lagði af stað með að búa til. Og að mínu mati geta meiri hafrar bara verið af hinu góða.

miðvikudagur, 23. mars 2011

Vorið kom núna í vikunni til Wales í allri sinni dýrð. Vor er árstíð sem er lítt eða ekki þekkt á Íslandi, en hér í Bretaveldi finnst fátt yndislegra. Þjóð sem er vön grámyglulegri þoku og rigningu að mestu leyti er fljót til að rífa sig úr um leið og sólin skín og í dag voru allir farnir að spóka sig um í sandölum og hvítum léreftsbuxum. Ég fór að sjálfsögðu á rölt um Chester í hádegishléinu mínu, enda vel komin tími á að ég fái smá ferskt loft. Ég hef þessa viku þurft að stunda líkamsrækt hér heima, mestmegnis pilates, en ég hef ekki treyst mér út í hlaup vegna þess sem ég er viss um að heiti á læknamáli brennandi lungu. Ég er alveg viss um að eitt af meginatriðum við gott hlaup sé hæfileikinn að anda. Reyndar þegar ég hugsa um það þá er það örugglega meginatriði í lífinu yfir höfuð að geta andað, en það er alveg sérlega hentugt þegar maður hleypur. Og andadráttur hefur verið frekar þvingaður núna undanfarna daga. Það var þessvegna unaðslegt að smella D&G (vintage) sólgleraugunum á nefið og rölta um miðbæinn í Chester í dag. Ég gat ekki látið það vera að kíkja í smá búðarráp líka. Hingað til hef ég látið það vera að fara inn í Zara, átti svo sem lítið erindi þangað inn enda fötin þar hönnuð með smávaxnar senjórítur í huga, ekki víkinga kellingar eins og mig. Það er nú svo komið að ég er á milli númera. 18 er allt samanbrotið og niðurpakkað og ónothæft. 16 er fínt svona nýþvegið og að mestu leiti en samt smá stórt. 14 er allt of lítið. Mér datt í hug að setja sjálfri mér nýtt markmið (sem passar líka vel inn í nýju fjárhagsóáranina) og það er að kaupa mér ekki eitt einasta nýtt plagg fyrr en ég passa í annaðhvort 14 eða eitthvað úr Zöru. Hvort heldur að kemur fyrst. Við rannsóknina sem ég fór svo í dag þangað inn kom í ljós að tæknilega er möguleiki að versla þar; ef flíkurnar væru til í L þá væri ég í góðum málum, en þar er bara til XS, S og M í öllum hillum. Svona sjálfsagt til að leggja frekari áherslu á "No fatties" stefnuna þeirra. Hluti af mér er sármóðgaður. Hluti af mér klæjar að komast í klúbbinn. Ég sá nebblega fullt af fallegum flíkum og er núna með "lúkk" í huga fyrir sjálfa mig í sumar. Í 14. Ótrúlegt en satt en ég held meira að segja að mér takist það. Með þessa ákvörðun í huga sveiflaði ég mér inn á Starbucks og fékk mér frappucino light með röri og rölti aftur á skrifstofuna. Labbaði framhjá byggingarsvæði þar sem verkamenn héngu í stillönsum og uppskar tvö úlfablístur, eitt "hey there!" og eitt "looking good baby!". Ef við skiljum öll feminista issjú eftir heima þá var ég hæstánægð með athyglina og sveiflaði mjöðmum enn meira á meðan ég labbaði framhjá. Þangað til mér datt í hug að það er örugglega í samningum hjá byggingaverkamönnum að þeir eru skyldir til að blístra á allar konur undir fimmtugu sem labba framhjá. Damn.

þriðjudagur, 22. mars 2011

Við tókum að okkur smávegis verkefni í vinnunni sem hefur gengið framar björtustu vonum. Ef ég má segja sjálf frá þá er ég nokkuð stolt að hafa tekið þátt og að allt hafi gengið þetta vel, sér í lagi þar sem ég sá um nokkuð stóran hluta framkvæmdarinnar. Yfirmönnum mínum þótti reyndar slíkt hið sama og úthlutuðu teyminu einhverjum 300 pundum úr svona "well done" sjóði sem bankinn býr yfir. Ekki má rugla honum við milljóna punda sjóðinn sem þeir úthluta sjálfum sér í bónus með reglulegu millibili. En það er önnur saga. Þegar við fréttum þetta héldum við að við myndum bara fá 20 pund hvert, sem er skítur og ekkert á miðað við það sem við eigum skilið en samt, við ákváðum að það væri skárra en blaut tuska í andlitið. En svo var okkur sagt að það ætti að eyða peningunum í "treats" fyrir teymið. Einn daginn myndum við bara fá fullt af súkkulaði og kexi og kökum og einhverju gúmmilaði til að gera daginn í vinnunni skemmtilegan. Ef ég á að segja satt og rétt frá þá varð ég alveg fokreið. Í fyrsta lagi yfir niðurlægjandi upphæðinni sem mér finnst eiginlega verri en ekki neitt, sér í lagi þegar hugsað er til hvað yfirmenn bankans hafa í laun. Aðallega þó yfir hversu fáránlegt þetta er. Nammi og kökur handa fullorðnu fólki í verðlaun fyrir vel unnin störf? Ég spurði hvort ég gæti fengið minn skerf í peningum þar sem að ég myndi ekki taka þátt í að borða sætindi, fyrir mér væru það ekki verðlaun. Ef það væri ekki hægt hvort það væri gert ráð fyrir að kaupa grænmeti, húmmús, ávexti og hafrakex handa mér. Það á víst að taka það til umhugsunar. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Er ég leiðindapúki að vilja ekki taka þátt í sætindaáti í vinnunni? Eða er það rétt hjá mér að það er út í hött að eyða 300 pundum í kex?

mánudagur, 21. mars 2011

Það er dálítið gaman til þess að hugsa í allri þessari umræðu um hollustu að Ítalir búa til besta rjómaís í heimi og borða að miklu leyti til einföld kolvetni. Frakkar nota smjör sem aðaluppistöðuna í sína matargerð, Spánverjar borða sína aðalmáltíð um og upp úr tíu á kvöldin og grísk fjölskylda notar upp undir 5 lítra af olífuolíu á viku. Á sama tíma hafa Ameríkanar fundið upp Diet, Light, Low Fat, Low Carb og SugarFree. Án þess að gera á því vísindalega úttekt er ég ekki í efa um hvaða þjóð kemur verst út þegar á að skoða heilsu-og holdarfar. Og út úr þessu hefur fæðst ofurtrú mín á að það eigi að borða góðan mat. Svo lengi sem maður borðar alvöru mat, rjómi og smjör innifalið, og borðar hann í eðlilegum skammti, þá er allt leyfilegt. Ég trúi því staðfastlega að ég geti þjálfað sjálfa mig til að haga mér eins og eðlileg manneskja. Að ég geti sleppt nammikvöldi einu sinni og einu sinni án þess að ég leyfi sjálfri mér að missa af allri skynsemishegðun í viku á eftir. Ég trúi því staðfastlega að ég geti læknað sjálfa mig með skynsemi og smá vinnu. Ég vil nefnilega ekki útiloka neinn mat. Ég trúi því staðfastlega að góður matur, gott hráefni eigi rétt á sér og það sama gildir hvort sem maður er að tala um grænmeti, smjör, quinoa, spínat, rjóma, sólblómafræ eða súkkulaði. Ég myndi frekar borða smjör en fitulaust jógúrt sem hefur verið pumpað fullt af sykri, sætuefni og gerfiefnum til að bæta upp fyrir fitumissinn. Ef mig langar í rjómakrem og súkkulaðiköku þá trúi ég því staðfastlega að það sé það sem ég eigi að fá mér. Að ég eigi að búa hana til úr alvöru súkkulaði og feitum rjóma og að ég eigi að deila henni af ástúð með sem flestum með mér og að ég eigi bara að fá mér eina sneið. Ég trúi staðfastlega á að það eigi að borða alvöru mat og að maður eigi að gera það að ástúð, og að maður eigi að njóta hvers einasta bita. Og ég trúi því staðfastlega að einn daginn verði ég þessi manneskja sem getur fengið sér eina sneið af þessari ótrúlegu súkkulaðiköku og látið staðar numið þar. Ég ætla þessvegna að halda áfram að þjálfa sjálfa mig í að njóta hvers einasta bita af croissant úr hreinu smjördeigi, af ostaköku úr hreinum rjómaosti, af gæðasúkkulaði og að geta svo þakkað fyrir mig og ýtt disknum frá mér. Mér finnst sjálfsagt að borða eins holla fæðu og mögulegt er, mér finnst sjálfsagt að sleppa sykri eins og hægt er. Mér líður einfaldlega betur líkamlega þegar ég sleppi sykri. Og fyrir mig er leikurinn líka gerður með það í huga að spara mér kalóríur. En megintilgangurinn hjá mér er að hætta að vera fíkill, ég vil læra að umgangast mat eins og eðlilegan hlut, ekki fá skitu fyrir hjartað ef það er minnst á rjóma eða sykur.

sunnudagur, 20. mars 2011

Kvöldið hefur skilið eftir sig ýmiskonar pælingar. Um og upp úr hádegi missti ég allt bragð-og lyktarskyn sem þýddi að það var tilgangslaust fyrir mig að borða planlagða ruglið mitt. Og ég sleppti því bara. Í fyrstu var ég dálítið leið og pirruð yfir því, ég hlakka til eiginlega alla vikuna að fá smá nammi á sunnudagskvöldi, og mér fannst eiginlega hálflélegt að missa af því þessa vikuna. En svo fór ég að spekúlera. Ég verð alltaf fyrir smá vonbrigðum með sjálfa mig því ég er enn að ströggla við að halda magninu á ruglinu mínu í skefjum. Ég enda alltaf á að borða aðeins of mikið. Er þá ekki bara fínt að prófa að sleppa því og sjá hvernig mér gengur í vikunni? Gerist það sem ég óttast (og er það sem hingað til hefur gerst áður fyrr þegar ég fór í megrun sem bannaði allt nammi) að þegar ég gef hlussunni ekki neitt að hún breytist í ógnarskrímsli sem tekur yfir nýju Svövu Rán og byrjar að éta allt sem tönn á festir? Eða á ég að treysta að ég sé orðin svo sjóuð og sjálftraust í lífinu sem ég lifi núna að ég geti sleppt góðgærinu eina viku án þess að það hafi nein áhrif á mig? Það verður bara að koma í ljós í vikunni. Ég ætla að treysta sjálfri mér.
Gulrótar-og rúsínukaka
Hann Láki minn er sjálfsagt besta barn í heimi. Ég og Dave vorum alveg út úr kú í gær, lágum eins og slytti hálfmókandi og sofandi mest allan daginn í gær og hann bara dúllaði sér sjálfur á milli þess sem hann kúrði hjá mér og strauk mér um hárið. En mér líður miklu betur í dag og ætla að bæta barninu sinnuleysið upp í dag með einhverjum skemmtilegheitum. Svo er náttúrulega alltaf voða gaman að sjá vigtina eftir veikindi, 88.4 kg, þó ég viti svosem að þessi tala stoppar ekki við lengi. Áður en ég fer út með Láka er tími til að hanna nýjan morgunmat. Enn er haframjöl aðalmálið enda er ekkert sem veitir mér meiri ánægju en hafrablanda einhverskonar. Í morgun var hugmyndin að búa til einhverskonar brauð eða köku sem hægt væri að borða í morgunmat. Þessvegna notaði ég spelt hveiti í bland við hafrana. Kryddið er enn kanill og salt og það hentar vel því bleytan kemur frá eplamauki, banana og gulrótum sem tóna allar vel við kanil. Fitan er alveg í lágmarki, bara matskeið af kókósolíu og eitt egg. Smá sætur keimur er nauðsynlegur til að fá kökubragðið í gang. 2 matskeiðar af sweet freedom og rúsínur og það er sorterað. Með einni sneið af hafraköku og eggjahvítupönnuköku er kominn fullkominn morgunmatur. Og ekki gleyma góðum kaffibolla. Mér fannst þetta alveg ferlega gott, eiginlega bara alveg eins og gulrótarkaka. Ég get nú samt svona nokkuð staðið við að hún sé holl, enginn sykur, hvítt hveiti eða smjör. Verð nú samt að viðurkenna að mér datt í hug að setja smá flórsykur út í rjómaost og smyrja ofan á til að fá fullkomna gulrótarköku, enda ekkert að því að fá sér smá gúmmelað einu sinni í viku. En líka alger óþarfi ef í því er pælt. Svo verður líka að hafa í huga að ég er enn með hrikalegt kvef og bragðlaukarnir hálfskrýtnir. Kakan gæti hafa verið ferlega vond og ég bara ekki fattað það. Uppskriftin er á uppskriftasíðunni. (er það ekki voðalega tæknilegt?)

laugardagur, 19. mars 2011

Ég stærði mig mikið af þvi við Huldu í símann um daginn að ég væri svo stútfull af andoxunarefnum, stein-og snefilefnum eftir allt bláberja og spínatátið að ég gæti bara ekki orðið veik. Þannig að þegar að Dave fékk þetta hrikalega kvef í vikunni og vildi ekki kyssa mig til að smita mig ekki púaði ég á það, ég væri ósmitanleg. Að sjálfsögðu er ég núna undir feld með hálsbólgu og hor og hundrað stiga hita. Þetta er hræðilegt. Ég rétt náði að draga mig á vigtina sem sýndi það sama og síðast, 88.9 kg. Hið besta mál svo sem. Úff. Ég get varla fókusað á skjáinn. Farin aftur upp í.

fimmtudagur, 17. mars 2011

Ég er búin að setja saman uppskriftasíðu með örfáum uppskriftum. Ég er að vinna að því að gera þær notendavænni, vandamálið mitt er alltaf að ég tek svo illa eftir magni og hlutföllum og þar af leiðandi erfitt að deila með vandasamari kokkum. Það er nú samt gaman að reyna að halda aðeins utan um uppskriftirnar mínar og eiga þeim samastað. Ég ætla líka að reyna að vera vandvirkari héðan í frá.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Hún er öll að venjast nýja rútínan mín. Ég verð nú samt að segja að ég er óskaplega fegin að hafa fundið íþróttagrein sem mér finnst jafn skemmtilegt að stunda og lyftingar því ef það væri verið að biðja mig um að mæta í eróbikktíma eftir vinnu þá myndi ég segja takk fyrir and gúddbæ! En lyftingarnar mæti ég í með bros á vör meira að segja þegar ég er þreytt eftir vinnu og veit að ég verð ljót í strætó og að það verður ekki fyrr en rúmlega sjö þegar ég loks kemst heim og að heima bíður mín heimanám og húsverk. Skiptir ekki máli af því að ég fæ að reyna á vöðvana mína. Ég er samt óneitanlega A-manneskja. Mér þykir ekkert tiltökumál að vakna um fimm leytið, og af einhverjum ástæðum er ég enn kát með að fara út að hlaupa, hef ekkert verið að vandræðast með að rífa mig upp og út. En ég er alveg búin á því um og eftir níu á kvöldin og það er smávegis erfitt þá daga sem ég er ekki komin heim fyrr en sjö að vera orðin þreytt tveimur tímum síðar. En þetta er samt betra en að hreyfa sig ekki. Já, hún er sko öll að venjast rútínan.

þriðjudagur, 15. mars 2011

Það sem mér finnst allra best við mat eru töfrarnir sem í honum eru fólgnir. Maður tekur hveiti, ger og vatn og blandar saman, bakar og það breytist í ilmandi brauð. Þetta er alveg ótrúlegt. Eða þegar maður bætir smá salti við eitthvað sætt og sæta bragðið magnast upp. Ótrúlegt alveg hreint. Svo ekki sé talað um hvernig matur getur látið manni líða. Fallegur og hollur matur hefur lækningarkraft. Og það er svo sannarlega málið þegar kemur að hnetum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrr en núna nýlega að það eitt að rista hnetur í smá stund færir bragð og áferð upp á eitthvert nýtt plan. Hnetur eru góðar svona beint af kúnni en ristaðar, givi minn góur, dýpt og fylling í bragðinu magnast upp og þær verða eins og í öðru veldi. Mér skilst líka að þegar það á að nota hnetur í bakstur þá er mjög sniðugt að rista þær af því að þá sökkva þær síður til botns í deiginu. Ristaðar pekan hnetur eru mínar uppáhald. Í kvöld var ég með kveikt á ofninum og henti inn í hann lófafylli af heilum möndlum sem ég er að nasla á núna. 6 mínútur inn í 190 gráðu heitum ofni. Ég ætla svo að prófa um helgina að rista þær með kanill og smá sweet freedom. Það er náttúrulega bara nammi. Náttúrulegt nammi.

mánudagur, 14. mars 2011

Ég á milljón sokkabuxur sem er líka alveg nauðsynlegt af því að ég er eiginlega bara alltaf í kjól. Það er af sem áður var þegar maður þurfti að bæta 1600 krónum inn í fjárhagsáætlunina fyrir hvert djamm til að eiga fyrir Oroblu sokkabuxum. Núna fer maður bara í Primark og fær fullt fang af sokkabuxum fyrir eitt pund. Það sem allar þessa milljón sokkabuxur eiga sameiginlegt er að þær eru allar í XL og þær eru allar allt of stórar á mig. Ég togaði einar upp yfir brjóst og upp að handarkrikum í morgun og hefði getað notað sem bodysuit. Það var bara léttur regnúði sem stöðvaði mig. Og örlítil sómatilfinning. Mér datt nú samt í hug að það er komin tími til að taka af skarið og kaupa sokkabuxur í L. Eða jafnvel M/L. Ég bara geri mér svo illa grein fyrir því hvernig ég er í laginu núna. Ég fæ ennþá sjokk í hvert sinn sem ég hengi super skinnies upp á snúru því ég trúi því ekki að ég passi í eitthvað svona pínkulítið. Ég verð ennþá voðalega glöð þegar ég sé flíkur í stærð 20 á rekka í búð þó ég viti að sú stærð komi mér ekkert við lengur. Og tilhneigingin er alltaf að taka aðeins of stórt. Mig langar svo að geta séð sjálfa mig utanfrá til að geta lagt alvöru mat á það hvernig ég er núna. Það á víst eftir að taka smá tíma að venjast þessu.

sunnudagur, 13. mars 2011

Hvítlaukurinn áður en hann bakaður
Sólin skín á okkur í Wales og allstaðar gægist þjóðarblómið páskaliljan upp úr moldinni. Sólin og blíðan minntu mig á að nú væri gott að prófa léttari rétti í sunnudagsmatinn en velska lambakjötið eða roast beef hnullunginn sem dugði svo í salat í viku. Ég byrjaði á að baka hvítlauk til að nota í kúskús salat. Ég tók einn heilan hvítlauk og nuddaði hvíta pappírskennda efnið utan af, skar svo toppinn af, hellti nokkrum dropum af ólífuolíu ofan í hann og vafði inn í álpappír. Setti svo inn í 200 gráðu heitan ofn í 25 mínútur. Ég hafði gert tilbúið gróft kúskús, steikt á pönnu nokkra sveppi og rauða papriku sem ég blandaði svo saman. Út í þetta kreisti ég svo hvítlaukinn. Hann verður alveg mjúkur og ef maður tekur í endann og kreistir niður með þumal og vísifingri rennur hann bara út. Ég hrærði hann svo út í kúskúskið og setti að lokum nokkrar rúsínur út í. Hvítlaukurinn verður sætur og karamellukenndur og mun mildari en ella. Hann gerir það að verkum að frekar bragðlaust kúskús verður að alveg spes rétti og maður finnur ekki fyrir hversu þurrt það er eins og stundum verður. Næst ætla ég reyndar að nota quinoa af því að ég get ímyndað mér að hnetukennt bragðið af því blandist einstaklega vel saman við bakaðan hvítlaukinn.

Kúskús með bökuðum hvítlauk og sætur kjúklingur.
Með þessu bauð ég svo upp á sætan sítrónu kjúkling með butternut squash. Ég flysjaði og hreinsaði squash og kubbaði niður og lagði í eldfast mót ásamt nokkrum hvítlauksgeirum. Þar ofan á fóru svo nokkrir kjúklingabitar. Skar svo sítrónu til helminga og kreisti yfir. Maukaði svo tvo hvítlauksgeira og setti í skál ásamt matskeið af sweet freedom ávaxtasætunni, tveimur matskeiðum af ólifuolíu og kreisti hinn helminginn af sítrónunni. Hrærði vel saman og hellti svo yfir kjúklinginn og squashið. Salt og pipar og rósmarin og svo inn í ofn í 40 mínútur. Og saman var þetta suðrænn og seiðandi hádegismatur. Ég hellti svo afgangs squashi í kúskúsið og á núna þetta líka fína salat með túnfiski á morgun. Hér má að sjálfsögðu skipta út squash fyrir sætar kartöflur, en þá er líka aðeins meira af kolvetnum. En bara af góðu gerðinni. Sweet freedom má sjálfsagt bítta fyrir hunang, mér finnst hunang bara ekki gott á bragðið. Eða jafnvel St. Dalfour apríkósu sultu. Það væri örugglega voðalega gott.

Túnfisksalatið er líka voðalega gott. Út í eina dós af túnfiski fer einn mjög lítill og fínsneyddur púrrulaukur, einn hakkaður tómatur, 2 smátt skornar gherkins (svona súrar gúrkur í fingurstærð), 1 matskeið af grískri jógúrt, teskeið af sítrónusafa, pipar og teskeið af ólífuolíu. Gherkins, (hvað heita þær á íslensku?) gefa ótrúlega skemmtilegt bragð og gríska jógúrtin þó hún sé fitulaus gefur rjómakennda áferð. Salatið má svo setja á brauð, hrökkbrauð, út í kúskús eða ofan í bakaða sæta kartöflu. Enn og aftur endalausir möguleikar.

Við ætlum svo að fara til Ponciau að sveifla okkur aðeins í klifurgrindinni, enda ekki hægt að sitja inni í svona veðri. Þvílík dýrð.

laugardagur, 12. mars 2011

Vaknaði í morgun við að vera þvengmjó. Það er nú gaman að vakna við það. 88.9 kíló sem er bara allra minnsta tala sem ég man eftir að hafa séð á vigt. Smellti mér í hlaupagallann og tók einn hring um Rhosllannerhrugog. Fann tíu punda seðil úti á götu. Hver segir svo að útihlaup borgi sig ekki? Fór svo í ofurvinnu til að reikna út skattaafslátt á frjárfestingum. Tók með mér lottó miðann frá síðasta laugardegi og lét renna í gegnum vélina á lestarstöðinni á leið heim úr vinnu. Og vann önnur tíu pund! Keypti að sjálfsögðu nýjan miða. Hvað ætli gerist næst?

miðvikudagur, 9. mars 2011

Ég vil helst ekki kalla matinn minn staðgengilsmat. Það kemur sem hluti af því að lifa af sannfæringu. Mér finnst eins og maður taki smá frá matnum þegar maður hugsar um hann sem "gerfi" eða "lélegri" eða guð forði mér "holla" útgáfu af einhverju sem er "forboðið". Mér finnst miklu betra að hugsa að maturinn sem ég borða standi bara alveg fyrir sínu eins og hann er. Þannig er ég hætt að hugsa um blómkálshrísgrjónin mín sem staðgengilshrísgrjón, þetta er bara blómkál og er ógeðslega gott. Sama er með næfurþunnan kúrbít sem er notaður í lögum í kjötsósu; þetta er ekki staðgengill fyrir lasagna plötur heldur stendur kúrbíts rétturinn minn bara alveg fyrir sínu án samanburðar. Og ostasósan sem ég nota í hann í stað béchemel sósu, er eiginlega hundrað milljón sinnum betri en béchemel sósa. Svo gerist það að maður sér alveg nýja útgáfu af standard og verður að prófa; gulrótar húmmús.

4 stórar gulrætur kubbaðar niður, gufusoðnar, soðnar eða best grillaðar þar til mjúkar
1 hvítlauksrif, maukað
1 mtsk gæða ólivuolía
1 mtsk sítrónusafi
1 mtsk sesamfræ
2 mtsk hrísgrjónahveiti
2 tsk paprika
1/2 tks cumin
1/2 tks reykt chilifduft
salt og pipar

Þetta er svo allt maukað saman með töfrasprota og notað sem meðlæti með hverju sem er eða sem ídýfa eða ofan á hrökkbrauð eða hvað sem er. Ég blandaði smá kotasælu við þetta og notaði sem dressing á salat. Og graðgaði í mig áður en ég hafði rænu á að taka mynd. Hrikalega gott og maður sparar örlítið af kolvetnum og fitu á miðað við venjulegan húmmús. Ekki slæmt það.

þriðjudagur, 8. mars 2011

Þegar ég fór út að hlaupa á sunnudagsmorgun var ég þvengmjó. Hreinlega tálguð. Ég sá ekkert nema leggi og grönn læri, mjaðmabein, viðbein, granna úlnliði og kinnbein. Í dag veg ég 800 tonn, rorra um í spiki, er ekkert nema endalausar undirhökur og belgur og er mest hissa á að ég geti labbað, ég ætti frekar að rúlla um. Hvað hefur breyst síðan á sunnudag? Sex þúsund rjómabollur og eitt kíló. Það er það sem hefur breyst. Þegar ég var búin að stússast í eldhúsinu á sunnudagsmorgun sá ég skyndilega í hendi mér að ef ég bakaði ekki nokkrar bollur myndi ég sjálfsagt ekki geta talist sem Íslendingur lengur. Nei, það yrði örugglega tekið af mér vegabréfið. Það gengi náttúrulega ekki upp. Þannig að með þjóðernisstoltið brennandi í hjartanu skellti ég í eina bollu uppskrift og raulaði um leið Ísland ögrum skorið fyrir sjálfa mig. Ég sá í hendi mér að ég þyrfti að kenna Láka allt um bolludag og að ég væri að bregðast honum sem íslenskur uppalandi ef ég bakaði ekki bollur. Og svona gat ég sannfært sjálfa mig um að ég væri ekki bara að gera gott heldur lífsnauðsyn að baka bollur. Og réð svo að sjálfsögðu ekki neitt við neitt og missti mig algerlega í átinu. Það skiptir svo sem ekki miklu máli, ég fæ mér vanalega smávegis vitleysu á sunnudögum þannig að þó þetta hafi verið aðeins of mikið magn þá var þetta líka planað misstig. En mér datt samt í hug í vanlíðaninni sem hefur ekki yfirgefið mig síðan á sunnudagskvöld hvort ég sé í alvörunni að lifa lífstílinn af nægilegum sannfæringarkrafti þegar ég geri svona vitleysur. Ég vil gera róttækar breytingar á, ekki bara viðhorfum mínu til þess hvernig ég borða, heldur líka á matnum sjálfum. Þeir eiga það sameiginlegt sem hafa breytt um lífstíl og viðhaldið merkjanlegu fitutapi yfir langan tíma að hafa gert róttækar breytingar á mataræði. Og ég velti fyrir mér hvernig manneskja ég vil vera. Vil ég vera manneskja sem mokar og mokar í holuna á virkum dögum til þess eins að moka upp úr henni aftur um helgar? Eða vil ég vera manneskja sem notar af alvöru hollari efni og lífshætti og gefur dópið alveg upp á bátinn? Er það möguleiki fyrir mig? Mér hefur tekist að ná þetta langt með skipulagðri dópneyslu, er það þá ekki bara fínt? Er ég að gera nóg? Er ég að lifa lífi mínu af alvöru, einlægri sannfæringu?

sunnudagur, 6. mars 2011

Prótein pönnukökkur
Sunnudagsmorgnar eru algerlega minn uppáhaldstími. Þá sest ég niður og skipulegg vikumatseðilinn og reyni að plana aðeins þær aðstæður sem ég verð í og gera mér grein fyrir bestu viðbrögðunum. Svo fer ég inn í eldhús og geri eins mikið af matseðlinum sem hægt er að gera fyrirfram til að allt þetta sé litið mál yfir vikuna. Ég hlusta á Radio Wales í leiðinni af því að á sunnudagsmorgnum er Dewi Griffiths með þáttinn String of Pearls sem spilar tónlist frá tímabilinu 1920 til 1955, tónlist sem amma og langamma hlustuðu á. Yndisleg tónlist sem kemur mér í húsmóðurgír. Ég grilla nokkrar kjúklingarbringur með mismunandi kryddlögum til að eiga tilbúnar í salat í hádeginu, ég sker jafnvel niður og frysti grænmeti til að nota í rétti á kvöldin. En það sem ég geri aðallega er morgunmaturinn. Ég er alltaf með hann alveg tilbúinn. Þannig baka ég ferðafæru haframúffurnar mínar tilbúnar fyrir alla vikuna og set í frysti og þá geri ég líka eggjabökur eða eggjapönnsur. Að undanförnu er ég búin að vera að gera tilraunir með pönnuköku sem sameinar allt sem þarf í morgunmat; prótein, flókin kolvetni og ávexti.

8 Eggjahvítur þeyttar aðeins
240 grömm haframjöl
2 "scoop" (60 g) prótein duft (þessu má sleppa, en þá er að sjálfsögðu ekki sama prótein magnið í pönnsunum. Ég nota scitec whey prótein með ýmiskonar bragði og scitec er besta próteinið sem ég hef prófað.)
1 tsk kanill
2 tsk lyftiduft
120 g kotasæla
1 mtsk kókósolía (eða matarolía)
1 tsk vanilludropar (eða kaffidropar)
undanrenna þar til degið er orðið eins og þykkt vöffludeig

Epla-blá-og hindberja "krums"
Allt hrært saman og bakað á pönnu eins og lummur á báðum hliðum. Ég sker svo niður nokkur epli og set í pott með matskeið af sweet freedom ávaxta"hunangi" og tsk af vatni og slurk af kanil. Ég set stundum ber út í líka eins og hér sjást bláber og hindber. Þetta læt ég svo malla til í dágóða stund þar til er orðið mjúkt og sætt en þó enn smá klumpótt. Kæli svo niður og set í dós inn í ísskáp og á til heimagerða, sykurlausa "sultu" sem dugar í viku. Ég ætti auðvitað að setja gæsalappir á sykurlausa líka því auðvitað eru ávextir bara sykur. Skárri samt en unninn sykur. Þetta kalla ég eplakrumsið mitt og það má að sjálfsögðu nota út á allt, hafragraut, jógúrt, hafrakexkökur og þar eftir götunum.

So bara borð´ana!
Ég á þannig orðið 15 prótein pönnukökur og sultu sem dugar mér vikuna. Ég set 3 í litla poka og inn í frysti og tek svo einn poka með mér í vinnu ásamt slummu af sultunni minni. Maula þetta svo við skrifborðið með kaffibolla. Og fæ prótein, flókin kolvetni, góða fitu, ávexti og fullvissuna um að ég sé að gera mér gott. Ef maður skipuleggur sig er nokkuð ljóst að það er mikið auðveldara að fylgja hverri þeirri áætlun sem maður hefur sett sér. Megrunarkúrar virka, það er fólk sem virkar ekki. En ef maður eyðir smá tíma í að láta þetta virka fyrir sig eru möguleikarnir á að maður haldi sér við efnið 100% líklegri.

laugardagur, 5. mars 2011

Hægt gerist það en gerist samt, 89.6 kg í morgun sem þýðir að ég hef núna lokið 70% verkefnisins. Það er nú ekkert til að snýta sér í. Og ég alveg að fara að komast á "stöðugt undir 90" stigið. Ég rokka svo í þyngd yfir vikuna, upp og niður um allt að þremur kílóum að ég þarf alltaf að sjá sömu töluna í nokkrar vikur áður en ég treysti því alveg að þetta sé komið hjá mér. Verð að segja að ég held að mér hafi sjaldan liðið jafn vel með sjálfa mig og akkúrat núna. Og ég held því fram að það er ekki bara af því að ég er alveg að verða venjuleg manneskja þó það sé óneitanlega stórkostlega skemmtilegt að vera ekki lengur feitasta manneskjan í herberginu, heldur hefur það meira með hreystið að gera. Það er stórfenglegt að vera svona hraust. Að geta reimt á sig strillur og bara farið út að hlaupa, að geta labbað inn í rækt og lyft 70 kílóum upp af gólfinu, að geta hlaupið á eftir strætó, að geta hangið í klifurgrindinni á róló, að geta sagt já takk ef stungið er upp á fjallgöngu, að geta hnyklað alvöru vöðva... þetta er betra en milljón dollarar. Betra en kynlíf. Og svo sannarlega betra en súkkulaði.

föstudagur, 4. mars 2011

Hingað til hafa stærstu brjóst í Evrópu farið lítið í taugarnar á mér. Ég hef aldrei verið með bakverki eða verki í öxlum eða nein líkamleg óþægindi eins og fer oft um aðrar brjóstgóðar konur. Mér hefur aldrei þótt mikið mál að vera með fangið fullt af brjóstum. Ég hef einhvern vegin alltaf passað við sjálfa mig. Stór brjóst, stórt allt. Ég fór reyndar einu sinni til lýtalæknis til að kanna minnkun en það var bara vegna þess ég var að vona að brjóstaminnkun myndi láta mig líta út fyrir að vera mjórri. Læknirinn ráðlagði mér að léttast um 30 kíló og koma svo aftur. Tilgangslaus ferð það. Nei, ég hef alltaf verið hæst ánægð með stelpurnar. Það eina er hvað það er dýrt að kaupa brjóstahaldara. Og íþróttabrjóstahaldarar eru hrikalega dýrir. Þeir einu sem virka fyrir mig eru með höggdeyfum, ég er ekki að djóka, þeir heita Shock Absorber, og kosta formúgu. Sem stendur á ég þrenna. Tveir voru keyptir fyrir 30 kílóum síðan og eru orðnir heldur haldlausir. Einn passar enn en er farinn að missa aðeins tökin þegar ég hleyp. Og ég lenti í því í morgun að óska þess í fyrsta sinn á ævinni að ég væri með lítil brjóst. Það er allsekki hlaupið að því að hlaupa með þau í fanginu.

fimmtudagur, 3. mars 2011

Neyðin kennir naktri  konu að spinna, eða í það minnsta að fara í fataverslun og máta kjól. Ég mátaði í dag einn í númeri 14. Nú á ég til inni í skáp skyrtu sem ég get enn notað, hún er smá stór en vel nothæf sem er í stærð 20 frá þessu sama fyrirtæki. Svo á ég peysu í 18, nýji ponsukjóllinn er 16 og nú þessi í 14. Okei, hann er svona sígaunastíll einhver og á örugglega að flaksast meira á mjórri stelpu en hann gerir á mér, en samt; 14!!! Ég keypti hann ekki, ég held mest megnis af því að ég var svo hissa að ég hafði ekki rænu á því (smávegis af því að ég á engan pjéning) en ætla að fara aftur og prófa til að sjá hvort þetta hafi verið einhver mistök. Ég, í 14, detti mér allar dauðar og allt það.

Sæt kartöflu falafel og bókin góða.
Ég var nú samt ekki svo hissa að ég hefði ekki rænu á smá tilraunastarfsemi í eldhúsinu, Falafel búið til úr sætum kartöflum. Falafel felur í sér margar af mínum skemmtilegustu minningum frá árinu sem ég bjó í Belgíu; ég og Andres vinur minn enduðum flest ævintýrin okkar á Mama´s Garden um 6 leytið á morgnana og fengum okkur falafel, pitubrauð og líter af hvítlaukssósu. Þar gátum við borðað og hlegið og látið renna af okkur áður en við fórum á fyrirlestur í háskólanum. Good times. Hvað um það. Hann er aftur orðinn hálftómlegur hjá mér matarskápurinn og því góð ráð dýr, ég þurfti að búa til kvöldmat og hádegismat úr því sem ég fann.  Ég byrjaði á að búa til uppkýlda eggjapönnuköku í kvöldmat. 2 egg, 5 sólþurrkaðir tómatar, 3 mtsk brown rice flour (hrisgrjónahveiti) tsk lyftiduft og salt og pipar og svo allt þeytt saman með handþeytara. Svo steikt á pönnu eins og lummur. Ég tók 2 pönnsur, setti svo bakaðar baunir ofan á, smá fitulausan rjómaost og salat með. Hey prestó! Kvöldmatur. Hádegismaturinn er svo aðeins fínni. Hugmyndin kemur frá grænmetisveitingastað hér í Bretlandi sem heitir Leon. Mig langar einmitt alveg hrikalega í matreiðslubók frá kokknum þeirra. Ég bakaði eina sæta kartöflu þar til hún var mjúk. Tók svo úr hýðinu og setti í skál. Bætti þar út í 3 maukuðum hvítlauksgeirum, tsk cumin (ekki kúmen), tsk paprika, 1/2 tks cayenne, 1/4 tsk kanill, salt, pipar, 1/3 bolli hrísgrjónahveiti, nokkrir dropar af sítrónusafa og mauka allt saman. Mynda svo nokkrar litlar bollur, velta upp úr sesamfræjum og setja í kæli til að jafna sig í smá stund. Ég setti í frystinn í 20 mínútur. Svo bakaði ég þær við 200 gráður í 25 mínútur. Og maður er komin með sæt kartöflu falafel. Ég skelli eggjapönnsunum, salati og falafel í tupperware og helli yfir smá hvítlaukssósu sem ég bý til úr grískri jógúrt á morgun og fer með í vinnuna. Er nema von að ég sé alltaf svona kát? Og í ofanálag er ég búin að fullkomna frappucino uppskriftina mína. Betri en Starbucks.

miðvikudagur, 2. mars 2011

Það er lítil spurning um að það má staðsetja mig á einhverfurófið einhverstaðar, eða í það minnsta má segja að ég sé með Tourette og OCD. Ég hef bara ekki mátt á mér heillri taka þessa daga sem ég hef verið stundaskrárlaus. Ég hreinlega fúnkera ekki án röð og reglu og skipulags. Algjör Rainman. Ég er búin að vera áhyggjufull og stressuð og pirruð og allt að hjá mér þangað til í dag þegar skipulag komst aftur á lífið. Ég fer út að hlaupa mánudag, miðvikudag og fimmtudag og Ragga ætlar að gera mér prógramm sem miðar að lyftingum á þriðjudags og fimmtudagskvöldum. Og ég get skipulagt tíma minn, haldið vöðvunum og má núna anda léttar. Ég er búin að fara út að hlaupa núna tvisvar og það er að venjast aftur. Ég var smá nojuð á mánudagsmorguninn; það var svo dimmt úti og kalt og ég var bara hálfsmeyk. Við myrkrið og þögnina. Og svo er ég alveg úr þjálfun við útihlaup, maður er fljótur að gleyma hvað þetta er öðruvísi en að hlaupa á bretti. En þetta gekk miklu betur í morgun, ég fann ryþmann minn fljótt og hætti að vera hrædd. Naut þess bara að vera ein í heiminum. Svo fer að birta bráðum, það er að fara að koma sumartími hér í Wales. Enn og aftur sannast að það er ekkert útilokað; það er alltaf hægt að finna tíma til að gera líkamanum gott.