laugardagur, 20. mars 2004

Og þá veit ég hvað Mr. Big heitir. En segi ekki orð.

Ég er búin að ákveða að halda "nafna"veislu fyrir Lúkas þegar ég kem heim í sumar. ég ætla ekki að skíra hann, sjálf hef ég reyndar ekkert á móti því en Dave er algerlega andvígur því, þannig að ég get ekki haldið skírnarveislu, en ég var samt að spá í þessu og mér finnst lífsnauðsyn að bjóða til veislu, bara svona til að fagna því að hann sé kominn í heiminn og heiti svona fallegu nafni. Ég ætla því að halda nafnaveislu, vonandi fyrri part sumars fremur en þann seinni. Það er líka þá ljómandi ástæða til að hóa saman vinum og ættingjum og sýna öllum litla barnið mitt í einu. Ég er nefnilega svo ljómandi ánægð með hann. Það er þá bara að panta kívæjis-húsið og byrja að draga að sér hveiti og smjörlíki.

föstudagur, 19. mars 2004

Ég var alveg við það að pakka niður og koma heim í gærkveldi. Ég var einmana og leið og orðin vonlaus um að fá nokkra vinnu, og Lúkas var svo fyndinn að ég fór að vola yfir því að pabbi sæji ekki afastrákinn sinn. Við ræddum málin ég og einasti eini og þegar ég var búin að segja upphátt hvernig mér leið, þá merkilegt nokk leið mér einhvern vegin betur. Mér finnst reyndar alltaf jafn leiðinlegt að segja Dave ef mér leiðist eða líður illa því hann vill meina að það sé honum að kenna. Ef það væri ekki fyrir hann þá ég hamingjusöm á Íslandi. Þegar hann segir þetta þá sljákkar í mér. Ég var nú ekkert sérstaklega ánægð á Íslandi síðast þegar ég gáði. Annað hvort í rottuholum í Reykjavík, eða alein í hundsrassi og vissi ekkert hvað ég vildi eða hvert ég stefndi. Síminn hringdi svo í morgun og ég boðuð í spennandi starfsviðtal næsta föstudag hjá British Legions. Svona skín alltaf lukkusól hjá mér, ég er alveg að verða svartsýn en þá gerist eitthvað og bjartsýnisröndin mín byrjar að glóa upp á nýtt.

Við fórum svo í sundtíma í morgun. Lúkas er ekkert að venjast þessu. Hann grenjar hálfan tímann og ég er orðin hálftvístigandi yfir þessu. Mér líður eins og slæmri móður að vera að pína hann svona, en mér liði örugglega enn verr ef ég færi ekki, maður vill jú gera allt til að gera þau gáfuð og falleg! Annars er það verra hvað ég fer illa á þessu. Ég stend sjálfa mig að því að hugsa að hann sé sá eini sem grenji, hvurlsags sé þetta eiginlega, en barnið á að vera mest og best! hann er ekki orðinn 5 mánaða og ég vil strax að hann "sigri". hvernig verð ég eiginlega þegar hann er eldri? Heimtandi að hann fá i aðalhlutverkið í skólaleikritinu, látandi hann lesa alfræaði orðabækur svo hann vinni í Trivial, senda hann í balllett, sund, söng, gítar, leirkeragerð...greyið litla.

Svo er síðasti Sex and the City i kvöld. Ég er nú bara spennt að vita hvernig þetta endar allt saman. Ég ætla ekki að segja meira um það, ég vil ekki skemma neitt fyrir þeim sem eru rétt að byrja seríuna núna.

þriðjudagur, 16. mars 2004

Jæja, þá er lífið að komast aftur í kunnuglegar skorður eftir heimsókn stelpnanna. Við skemmtum okkur konunglega, fórum á pöbbinn, versluðum, út að borða, á djammið, smá túristarölt og síðast en ekki síst dúlluðumst í Lúkasi og spjölluðum saman. Ég held að þeim hafi bara litist vel á allt mitt og Chester sló tvímælalaust í gegn. Tvíbentar tilfinningar hjá mér eftir að þær eru farnar. Ég er alveg ákveðin í að hér líður mér vel og að hér vilji ég vera, en ég verð líka að viðurkenna að ég tek enn betur eftir því hvað ég er einangruð hérna. Þarf aðeins að velta þessu öllu fyrir mér.

Ég hafði áhyggjur af því að Lúkas væri ekki félagslyndur en annað kom í ljós hann vleti sér um af gleði yfir allri athyglinni frá þeim öllum (vantar frænku) og er búinn ða vera mun kröfuharðari við mig síðan á sunnudagskvöld. Enda svo vel gefinn, farinn að lesa bókina sem Harpa gaf honum! En heimsókninni er reyndar ekki alveg lokið, harpa er enn í Birmingham á sýningu og við ætlum að skutlast þangað á morgun að hitta hana í hádegismat. Það verður ljómandi endir á ævintýrinu.

þriðjudagur, 9. mars 2004

Mér sýnist að stelpurnar megi bara fara að koma núna, það er allt tilbúið. Bara eftir að kæla kampavínið.

laugardagur, 6. mars 2004

Lúkas er 4 mánaða í dag. Það fer að líða að því að hann fái graut og svona ýmislegt annað og meira en bara mjólk. Ég berst á milli þess að óska að hann verði bara alltaf svona pínkulítill og svo að vilja sjá næstu þroskastigin, borða, sitja, skríða, standa, tala... mikið er þetta margslungið hlutverk, foreldrahlutverkið. Ég held að ég kvíði því dálítið að fara að vinna og hætta með hann á brjósti því þá er síðasti hlekkurinn sem bindur hann við mig, líkamlega, brostinn. Eftir allan þennan tíma sem ég bar hann um og hann óx inni í mér og svo núna heldur sú tenging í gegnum brjóstagjöfina, þá tími ég ekki einhvern vegin að sleppa þessari tengingu. Voða erfitt að útskýra. Á hinn bóginn verð ég svo voða fegin að fá líkama minn tilbaka til að menga að eigin vild (hér er ég að sjálfsögðu að tala um eðalefnið rauðvín og sígarettur). Ætli að ég reyni bara ekki að ala hann upp eins og mamma og pabbi ólu mig upp, það er alveg sama þó ég sé þúsundir kílómetra í burtu, naflastrengurinn er þarna enn, óslitinn. Það er bara dramatíkin í dag, ha?

föstudagur, 5. mars 2004

Þá er öðrum sundtíma lokið og gekk allt miklu betur í dag. Lúkas var var um sig og ég er ekki með á hreinu að hann hafi beinlínis skemmt sér en hann grét ekki neitt og buslaði aðeins. Ég er viss um að næst finnist honum þetta orðið gaman. Við höfum bæði svo gott af þessu, að fara aðeins út á meðal fólks og hreyfa okkur aðeins meira en bara smá rölt um bæinn. Verst er að ég nota ferðina alltaf í smá innkaupaleiðangur og næ alltaf að eyða örlítið meira en fjárhagur leyfir. Skynsemin hans Dave ekki alveg tekin yfir.

Í kvöld er svo næst síðasti þátturinn af Beðmáli í borginni. Ég horfi enn spennt þó ég verði nú að viðurkenna að ég hef ekki sömu samúð (oh nú vantar mig orð, eins og samúð með karakterum, úr bókmenntafræðinni, eða er ég að hugsa um empathy? I don´t know) með karakterunum og áður. Þær eru orðnar of mikið "caricature" af sjálfum sér til að mér sé ekki sama. Bráðavaktin hinsvegar sjaldan verið betri og ég er búin að gráta yfir tveim þáttum nú þegar. Mikið sem gengur á.

miðvikudagur, 3. mars 2004

Ég fór með Lúkas til læknis í dag. Ég er búin að vera að vona að rakakrem dugi til að laga barnaexemið hans en allt fyrir ekki og núna síðustu daga eru kinnarnar hans alltaf að verða verri og verri og hann er kominn með sár á hnésbæturnar eins og Kalli bróðir var með. Ég man hvað þetta pirraði Kalla þannig að ég dreif hann (Lúkas þ.e.a.s. ekki Kalla) til læknisins sem gaf honum spes krem sem á að lækna þetta allt. Vona það bara. Sjálf er ég aftur orðin hress og bíð núna bara spennt eftir stelpunum. Vika í dag. Gestaherbergið smám saman að taka á sig mynd, þó ég verði nú að viðurkenna að þetta verður enginn lúxus. Ekkert að því, við verðum hvort eð er mest megnis á stússinu. Ég vona allavega að þær séu ekki komnar til að fá sér lúr!

þriðjudagur, 2. mars 2004

Mikið er óþægilegt að vera veik með lítið barn. Ég þarf alltaf öðruhvoru að hlaupa upp á klósett og það er voða erfitt að fá 4 mánaða snáða til að skilja nauðsyn þess í miðjum drekkutíma. Þannig að hann grætur og ég græt og allt er svo ómögulegt. Greyin við.

mánudagur, 1. mars 2004

Í dag er svo 1. mars sem, ásamt því að vera "bjórdagur" á Ísklandi (hí hí), er St. David´s Day hér í Wales. Sumsé þjóðhátíðardagur Veilsverja, og nafnadagur einasta eina. Ekki amaleg hátíð það.
Á laugardaginn fórum við aftur til Chester og í þetta sinnið til að velja úr myndunum sem voru teknar fyrir tveimur vikum. Við lentum í algjöru klandri með að velja því það kemur í ljós að við erum öll svona líka hugguleg og myndirnar hver annarri betri. Við völdum að lokum fjórar myndir, þrjár af okkur þremur saman, tvær í lit og ein svart/hvít og svo ein af Lúkasi einum. Mikil ósköp sem barnið er fallegt. Ég veit að maður á ekki að segja svona og ég er alltaf að verða hógværari af því að búa hérna í landi hinna hógværu, en madre de dios, ég bakka ekki með að barnið er gullfallegt. Við fáum þær svo afhentar í apríl. Við ákváðum að kaupa saman myndamöppu með 17 myndum og svo tekur bara hver fjölskylda sínar myndir. Það var langódýrasti kosturinn. Við látum svo bara stækka og innramma okkar myndir annarstaðar þar sem það er ódýrara.

Best af öllu er þó að ég og mamma erum búnar að koma upp vídeó-linki þannig að núna getum ég og Láki séð ömmu og afa og þau séð hann og mig hvenær sem okkur sýnist. Ég hugsa að með þessari tækni + loforði um að fara einusinni á ári til Íslands og að þau komi hingað 1-2var á ári þá sé ég nokkuð sátt við ástandið. Ég get bara ekki hugsað mér að Lúkas missi alveg af þeim, en ef hann elst upp við að sjá þau nokkru sinnum í viku á netinu þá verður það alveg eðlilegt fyrir honum og hann kynnist þeim eins mikið og hægt er. Ég fékk það líka upp úr Kalla í gær að hann ætli að flytja heim eftir post-doc og þá hafa m+p a.m.k. Kobba og Nönnu á Íslandi. Mér finnst það einhvernvegin betra.

Í öðrum fréttum þá eru núna 9 dagar í innrásina frá Íslandi og ég og Dave verðurm sí spenntari. Hann er með einhverjar skrýtnar hugmyndir um að hann verði eins og soldán í kvennabúri og ég leyfi honum bara að halda það. Lítið sem hann veit að hann verður lítið annað en upphafin barnapía og bílstjóri, en því minna sem hann veit um það, því betra. Sólin er byrjuð að skína aftur og ég er að vona að það verði farið að vora almennilega þegar þær koma, því hvað er varið í að búa í útlöndum ef veðrið er skítt?