mánudagur, 1. mars 2004

Á laugardaginn fórum við aftur til Chester og í þetta sinnið til að velja úr myndunum sem voru teknar fyrir tveimur vikum. Við lentum í algjöru klandri með að velja því það kemur í ljós að við erum öll svona líka hugguleg og myndirnar hver annarri betri. Við völdum að lokum fjórar myndir, þrjár af okkur þremur saman, tvær í lit og ein svart/hvít og svo ein af Lúkasi einum. Mikil ósköp sem barnið er fallegt. Ég veit að maður á ekki að segja svona og ég er alltaf að verða hógværari af því að búa hérna í landi hinna hógværu, en madre de dios, ég bakka ekki með að barnið er gullfallegt. Við fáum þær svo afhentar í apríl. Við ákváðum að kaupa saman myndamöppu með 17 myndum og svo tekur bara hver fjölskylda sínar myndir. Það var langódýrasti kosturinn. Við látum svo bara stækka og innramma okkar myndir annarstaðar þar sem það er ódýrara.

Best af öllu er þó að ég og mamma erum búnar að koma upp vídeó-linki þannig að núna getum ég og Láki séð ömmu og afa og þau séð hann og mig hvenær sem okkur sýnist. Ég hugsa að með þessari tækni + loforði um að fara einusinni á ári til Íslands og að þau komi hingað 1-2var á ári þá sé ég nokkuð sátt við ástandið. Ég get bara ekki hugsað mér að Lúkas missi alveg af þeim, en ef hann elst upp við að sjá þau nokkru sinnum í viku á netinu þá verður það alveg eðlilegt fyrir honum og hann kynnist þeim eins mikið og hægt er. Ég fékk það líka upp úr Kalla í gær að hann ætli að flytja heim eftir post-doc og þá hafa m+p a.m.k. Kobba og Nönnu á Íslandi. Mér finnst það einhvernvegin betra.

Í öðrum fréttum þá eru núna 9 dagar í innrásina frá Íslandi og ég og Dave verðurm sí spenntari. Hann er með einhverjar skrýtnar hugmyndir um að hann verði eins og soldán í kvennabúri og ég leyfi honum bara að halda það. Lítið sem hann veit að hann verður lítið annað en upphafin barnapía og bílstjóri, en því minna sem hann veit um það, því betra. Sólin er byrjuð að skína aftur og ég er að vona að það verði farið að vora almennilega þegar þær koma, því hvað er varið í að búa í útlöndum ef veðrið er skítt?

Engin ummæli: