fimmtudagur, 30. apríl 2009

Hvorki upp né niður í dag. Skiptir ekki máli. Mér líður svo vel með sjálfa mig. Og þetta er verkefni sem kemur aldrei til með að ljúka þannig að ein vika þar sem ekkert gerist er bara svo lítill tími miðað við tímann sem þetta á eftir að taka mig. Við erum að horfa á 2 til 3 ár. Bara að muna að vera í stuði.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Og er svo í líka svona rosa stuði í dag. Verð að muna næst þegar ég ætla að leyfa sjálfri mér að fara í svona blúsí fönk að það er bara ekki í lagi. Ég kem til með að borða of mikið suma daga og ég verð bara að segja "ah, djösins!" og byrja bara upp á nýtt. Ekkert svona sjálfsvorkunnar rugl. Hvað um það, mig vantar skemmtilegar uppskriftir að salati. Er búin að fá leið á því sem ég bý til, en er þó með u.þ.b. 12 mismunandi samsetningar sem spanna allt frá sólþurrkuðum tómötum yfir í quinoa að spínati og grilluðum kjúkling. Er bara alveg stúmm. Einvherjar tillögur?

mánudagur, 27. apríl 2009

Mér leiddist í smástund í morgun. Og notaði tækifærið med det samme og rauk út í co-op og keypti einn Thornton´s súkkulaði karamellu íspinna, einn pakka af caramel shortbread cookies og 100 gramma stykki af hvítu súkkulaði. (Allt í allt 1700 kal.) Ég er mjög hrifin af megrunaraðferðinni 90/10, það er að velja heilbrigðari kostinn í 90% tilvika. Og það er það sem ég geri. Nema að þegar að 10% kemur þá klikkast ég. Það hefði verið fínt að kaupa ísinn. Eða kökurnar. Eða súkkulaðið. En ekki allt þrennt. Svo borðaði ég engan mat, bara þessa vitleysu. Og þegar Dave stakk upp á að gera eitthvað þá afþakkaði ég og sagðist ekki nenna að gera neitt og leið bara illa. En ég vildi láta mér líða illa svo ég hefði afsökun til að borða hrúguna mína. Og núna er miðnætti og mér líður eins og ég þurfi að gubba. Mig langar svo rosalega að geta gert það sem ég er að gera alla vikuna, borða vel og hreyfa mig og líða eins og súpermanneskju og líka að fá mér eitthvað sem mér finnst ógeðslega gott á sunnudögum og líða bara vel með það. En það virðist sem svo að ég er enn ekki tilbúin í það. Þannig að ég ætla núna að prófa að sleppa sunnudeginum í næstu viku. Finna skemmtilega gönguleið og fara út. Ég er ekki að segja að ég sé hætt að borða sætindi en ég verð að fara í smá bindindi svona þangað til að ég er meira tilbúin til að vera sterkari aðilinn í sambandinu. Og ég ætla ekki að láta þessa ónotatilfinningu sem ég er með núna láta á mig fá. Ég er sterkari en smá sykur. Miklu sterkari.

laugardagur, 25. apríl 2009


Ég fann málningu sem málar yfir plast (melamine) og tók mig loksins til í morgun og málaði eldhússkápana. Upprunalega hugmyndin um að kaupa alveg nýtt eldhús hefur alveg verið sett í frost. Ég sé ekki tilgang í að eyða pening í nýtt eldhús þegar það væri miklu sniðugra að stækka við húsið og kaupa svo nýtt eldhús eða hreinlega að kaupa stærra hús og setja nýtt eldhús í það. Þannig að ég druslaðist loksins til að hressa upp á skáphurðarnar. Svona til að gera það besta úr því sem til er. Þær eru sumsé plast sem var áprentað með eftirlíkingu af striga. Alveg sérstaklega fallegt svona upp úr 1972. En virkar ekki alveg núna. Og sérstaklega ekki fyrir manneskju sem vill bara hafa allt hvítt. Og ér er líka svona þrumuánægð með útkomuna. Aðal ástæðan fyrir ánægju minni, fyrir utan hversu snyrtilegra og bjartara eldhúsið er, er sú að ég gerði þetta almennilega. Ég skrapaði skápana með sykursápu, pússaði með sandpappír og setti málningarteip yfir þá hluta sem ég vildi ekki hafa hvíta. Svona vönduð vinnubrögð eru bara nánast óþekkt hér hjá mér. Ég geri eiginlega allt sem ég geri svona frekar illa. Kannski að það sé bara von fyrir brussuganginn í mér eftir allt!

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Og það er súpervika þessa vikuna, 1.7 kíló farið. Sem þýðir að ég hef misst heilan stein. Og fékk verðlaunin fyrir það, Orla Kiely kakóbolla. Og ég er svo glöð af því að ég elska ekkert meira en hluti. Fallegir hlutir bara láta mér líða svo vel. Og mun betur en kökur og súkkulaði. Þannig að nú er keppikeflið að tapa pundum til að eyða pundum! Ég bara get ekki ákveðið hvaða mælikvarða ég á að nota. Á ég að fagna hverjum 10 pundum. Sem eru bara rétt rúm 4 kíló. Það er ekki alveg nóg. En steinn er tæp sjö kíló sem er bara skrýtin tala. En það er svo langt á milli hverra 10 kílóa, þannig að ég er hrædd um að fá ekki jafn mikið af fallegum hlutum! Og er búin að finna svooooo marga fallega hluti sem mig langar í. Eins og til dæmis þessi ketill. Og það má ekki gleyma ristavélinni sem er í stíl. Og ég er með þessi viskustykki á heilanum og get bara ekki valið. Þau eru öll svo falleg. Og sjáið þennan lampa! Er hann ekki til gera hverja manneskju hamingjusama. Og svo náttúrulega bara allt sem fæst í þessari búð. En hvað um það, nú er bara að halda áfram að æfa og borða hollan mat og þá eignast ég allt þetta drasl. Og verð jafnvel glaðari en ég er ákkúrat núna. Af því að ég elska hluti. Svona ef það fer eitthvað á milli mála.

sunnudagur, 19. apríl 2009


Og þá eru Harpa og Arnar farin heim. Ég er auðvitað voðalega fegin og glöð að þau séu komin heim heil á húfi og allt það en verð að viðurkenna að ég er leið að missa þau og smávegis öfundsjúk líka. Við fórum nú ekki oft að heimsækja þau en mér finnst það nú bara ekki vera aðalmálið; það var alltaf möguleikinn að fara til þeirra sem nú er ekki í boði. Og svo var líka voða gott að geta hringt í Hörpu og spjallað án þess að spá í kostnað. Allavega við fórum og kvöddum þau á föstudaginn langa og það er það. Til þess að svekkja þau og ykkur hin á rokrassgatinu Íslandi þá settum við sólstólana og borðið út í garð í gær og borðuðum kvöldmatinn úti í gær í sól og blíðu og höfum í hyggju að gera slíkt hið sama í dag.
Mig vantaði ljósaperu í gær og sagði Dave að þetta væri alveg sérstök tegund af ljósaperu sem aðeins fengist í Dunelm Mill. Hann trúði mér og ég fékk því að dúlla mér í einni af mínum uppáhaldsbúðum. Og fann þar sílikón bökunarform. Ég hafði nú heyrt af þessu og hvernig þau gera fitulausan bakstur mögulegan þar sem sílikónið gerir það að verkum að deigið festist ekki við formið. Ég svona slétt trúði þessu en ákvað að prófa. Og þetta bara svínvirkar. Ég bakaði í morgun alveg svakalegar Cappucino-Muffins. Kremið ofan á er reyndar smjörkrem en það er frídagur í dag þannig að ég ætla ekkert að spá mikið í það. Og er núna farin út í garð. Það þarf aftur að slá grasið.

laugardagur, 18. apríl 2009

Ég hef ákveðið að reyna að hafa allt skemmtilegt og ferskt hérna hjá mér. Hluti af því er að segja alltaf já þegar mér er boðið eitthvað eða ef upp á einhverju er stungið. Innan vissra siðlegra marka auðvitað. Til dæmis þegar Kelly spyr hvort ég sé til í göngutúr þá segi ég bara já og fer frekar en að segja að ég þurfi að læra. (Er ekki að læra, nenni bara ekki í göngutúr.) Eða þegar Láki spyr hvort ég komi með á róló þá segi ég já og fer frekar en að segja æji eigum við ekki bara að leika í garðinum (svo sit ég á tröppunum og horfi á hann leika sér). Í dag var 18 stiga hiti, sól og blíða og bara ekki hægt annað en að fara út að leika. Við röltum því á róló og ég ákvað að leika mér við Láka. Sko alvöru leika mér, ég gerði allt eins og hann. Þegar hann hoppaði, þá hoppaði ég, þegar hann klifraði upp á stein þá var ég upp á steininn komin líka. Þegar hann hljóp aftur á bak þá gerði ég slíkt hið sama. Og svo framvegis. Og ég var sveittari eftir hálftíma heldur en eftir BodyPump tíma. Jiminn, eini hvernig börn fara að þessu! Mikið ægilega skemmtilegt og ég á núna skilið að borða kjúklinga fajitas í kvöld. Lubely, jubely.

fimmtudagur, 16. apríl 2009

120.6 í morgun. Það eru 300g upp á við. Einn þriðji af mér er ægilega svekktur, það er bara ekki gaman að sjá töluna fara upp á við, tveir þriðju eru himinlifandi að þetta sé ekki meira. Maður fer ekki á 4 daga sykur-fyllerí án þess að þurfa að borga fyrir það einhvernvegin. En ég er öll að verða fittari, finn hvernig vöðvar sem voru búnir að gefast upp eru að vakna við aftur og ég er öll svona straumlínulagaðri. Ég er líka að reyna að leggja ekki þessa ofuráherslu á vigtina, hún segir ekki alltaf alla söguna. En ég verð líka að hafa hana svona til að halda mér við efnið.

Hér rignir enn, og við Láki erum að búa okkur undir smá fjallgöngu. Það þýðir ekkert að væla yfir veðrinu, við höfum tíma til að fara út í dag og verðum að nýta okkur tækifærið. Við förum bara í regngalla.

miðvikudagur, 15. apríl 2009



Nú þykir mér týra! Það er svo svakalegar þrumur og eldingar að sjónvarpið er dottið út. Eldingarnar eru svo bjartar að þær blinda nánast í sekúndubrot og húsið hristist við hverja þrumu. Og rigningin! Ég hélt að ég hefði séð allt hvað varðar rigningu í þessu landi en nei, þetta er eitthvað alveg spes. Mikið vildi ég að ég gæti sýnt ykkur þetta, mér finnst þetta alltaf jafn spennandi. Og ekki ósvipað ástandi í meltingarfærunum akkúrat núna þar sem gríðarleg neysla á trefjum og grænmeti hefur komið miklum þrumustormi í gang. En skemmtilegt.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Þrátt fyrir að hafa borðað heilmikið yfir páskana þá vorum við líka vel aktíf og vonandi kom það aðeins til móts við smá lakkrís og súkkulaði. Það hjálpaði sjálfsagt líka að páskasteikin var úldin og fór óétin í ruslið. Var smá óþekk í gær og bauð Láka og Dave á Frankie and Benny´s sem er amrískur ítalskur veitingastaður og mjög barnvænn. Ítalir myndu sjálfsagt ekki þekkja matinn sinn aftur en amríski blærinn er mjög góður ef maður er að leita eftir einhverju alveg sérlega djúsí. Og ó mæ god ég fékk mér East Coast Sundae í eftirrétt og varð að hætta þegar ég var hálfnuð vegna þess að ég gafst upp. Ég! Gafstu upp á ís og nammi! Þannig að það má ímynda sér magnið.

En í dag er bara aftur á hestinn og þeysa af stað. Mældi mig alla og er búin að minnka um 2-4 inches hér og þar um kroppinn. Sem segir kannski meira en vigtin. Onwards and downwards!

laugardagur, 11. apríl 2009

Ah, djöf.... Ég borðaði allan lakkrísinn. Oh, well. Þá er bara að fara í göngu.

fimmtudagur, 9. apríl 2009


Láki útskýrði fyrir mér í morgun um hvað páskarnir snúast: "We must celebrate easter and eat all the chocolate so that Jesus dies." Eitthvað sem trúarbragðakennsla ruglast í höfðinu á 5 ára.

1.1 kg farið í morgun og vonandi sést það aldrei framar. Það eru tveir áfangar í dag: ef ég væri bresk þá væri ég ánægð því ég væri komin úr 19.9 stone í 18.12 (alltaf gaman að minnka um stein) og ef ég væri amerísk þá gæti ég sagt að ég væri búin að léttast um rétt rúm 10 pund. Svo er það bara að vera í stuði um páskana, njóta lífsins án þess að verða klikk en líka án þess að neita mér um allt og verða fúl. Það er að finna þetta ballans. Mikið að gera líka, Milton Keynes á morgun, í hamborgarhrygg skilst mér og svo páskalamb og súkkulaðiát á sunnudaginn. Vonandi að veðrið haldist svona gott því við ætlum í göngu á laugardaginn til að reyna að koma til móts við átið. Ég segji því bara pasg hapus og munið að vera í stuði.

mánudagur, 6. apríl 2009

Við fórum til Kelly og Craig Salisbury á laugardaginn. Kelly vinnur með mér og Craig er í eldhúsinu í fyrirtækinu sem Dave vinnur hjá þannig að það var ákveðið að við þyrftum að kynna þá fyrir hvorum öðrum. Við fórum þangað um 5 leytið, Láki kom með og lék sér við Ben sem er jafngamall honum. Svo var pantaður kínverskur og hlegið og spjallað. Við höfðum komið okkur saman um að koma snemma og fara snemma svona út af krökkunum. En svo áður en maður vissi var komið að miðnætti, Ben og Láki enn í fullu stuði og ég og Kelly orðnar alltof fullar og Craig og Dave ekkert sérlega ánægðir með okkur. Og ég eyddi gærdeginum með hausinn ofan í klósettinu. Og er með alveg svakalegan móral í dag. Sem er alveg algjör synd af því að það var svakalega gaman, Dave fullvissar mig um að jú, hann hefði vilja fara heim tveimur tímum fyrr en að honum og Craig kom vel saman þannig að það var ekkert vandamál. Ég finn að þetta er svona kemísk depurð. Og þrátt fyrir að hafa bara gubbað og ekki borðað og þar með misst af nammidaginum þessa vikuna og hafa æft í morgun og er búin að léttast meira þá bara er ég alveg ægilega döpur. Og það þýðir ekkert að segja að ég ætli að hætta að drekka af því að það gerist hvort eð er svo sjaldan. Vesen alltaf hreint á mér.

föstudagur, 3. apríl 2009

Ég er búin að vera að dútla mér við að safna pening svo við kæmumst í sumarfrí í sumar. Ég hafði séð auglýsta viku í Alcudia á Mallorca fyrir um £700. Ég vildi upprunalega bara smella þessu á kreditkortið en eiginmaðurinn skynsami sagði nei, í fyrsta lagi þá getur hann ekki bókað frí fyrr en 1. apríl og það var engin fullvissa að hann fengi þessar tvær vikur í ágúst, ef ég hugsaði til baka þá fékk hann ekki sumarfrí í fyrra og ég hafði farið ein til Íslands. Í öðru lagi þá setur maður ekki svona óþarfa á kreditkort. Óþarfa á maður að borga fyrir. Ég ákvað því að sýna honum og mér að ég gæti sko alveg safnað pening. Og jú, 1. apríl átti ég £700. Og við fengum bæði fríið bókað. En þegar kom að því að bóka ferðina þá var hún komin upp í £1200. Ég lagðist því í smá rannsóknarvinnu og bókaði svo í gær vikuferð til Krítar. Og komst svo að því þegar ég fór að skoða Krít að ég er að fara í rannsóknarferð. Kemur ekki í ljós að Krítverjar borða hollasta mat í heimi! Þvílík sæla, heil vika á ströndinni að borða hollan mat!

Ég er að sjálfsögðu yfirkomin af samviskubiti líka. Ég get ekki komið heim í sumar út af þessari ferð. Ég fæ bara 2 vikur í frí yfir sumarið og ég hef ekki tíma til að koma heim líka. Það er bara ekki réttlátt að bara af því að ég er Íslendingur þá fái Dave aldrei framar að fara í sólarstrandarferð. Ég verð að taka tillit til hans líka. Og eins hrifinn og hann er af Íslandi þá er það ekki alveg það sama fríið fyrir hann. Ég kem því ekki til Íslands fyrr en í Október þegar það er vikufrí í skólanum hjá Láka.

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Opinber vigtunardagur í dag. Hálft kíló farið þessa vikuna. Get ekki neitað að ég er smá svekkt, ég er búin að halda mig undir 1500 kal. og æfa í 45 mínútur á hverjum degi ásamt litlum breytingum eins og að labba síðustu tvær strætóstoppistöðvarnar og þess háttar. Minni sjálfa mig stanslaust á að það hefur tekið mig 30 ár að éta þetta allt á mig þannig að að vera dugleg í nokkra daga er ekki nóg. Þetta á að taka langan tíma. Ég er hæstánægð með 1500 kaloríur, ég er ekki svöng og finnst gaman að vigta og telja og finna upp nýjar uppskriftir og ég er að fíla æfingarprógrammið í botn. Og ég veit að þetta er það sem virkar svona sem langtíma plan. Ef ég leyfi mér að byrja að svelta og ganga of langt með hoppið þá gefst ég upp. Þannig að nú er að finna þolinmæðina og halda sjónum á stóru myndinni. Djísus og læra að tala íslensku upp á nýtt. Keep my eyes on the big picture. Allavega svo er líka hægt að leika sér með tölur svona til að peppa sig upp. Ég er 121.4 kíló og hef lést um 3.6 á kíló á 4 vikum. Ég er 268 pund og hef lést um 7.2 pund á 4 vikum. Þannig að héðan í frá ætla ég að segjast vega 121 og hafa lést um 7.2. Það er miklu skemmtilegra.

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Nú ríður á að vinna lóttóið á laugardaginn. Ég fékk nefnilega hugmynd. Mig langar til að opna nývöruverlsun sem leggur áherlsu á góðan mat, hefur horn þar sem (feitt) fólk getur sest og smakkað og spjallað saman og hlustað á fyrirlestra og tekið þátt í umræðum um hollt líferni. Til hliðar er svo æfingarsalur fyrir offeita þar sem áherlsa er lögð á lyftingar og yoga. Í kjallaranum er svo lítil bókaverlsun. Þetta er augljóslega ekki gróðafyrirtæki og þessvegna vantar mig góðan lottóvinning svo ég þurfi ekki að græða peninga. Og ég gæti bara eytt öllum mínum dögum í að stússast í mat, vel gerðum, ferskum, og góðum mat, á milli þess að vera að lyfta og blaða í bókum. Og þar með er komið himnaríki fyrir Svövu Rán.