fimmtudagur, 27. október 2016

Og algjört sökksess

Oprah Winfrey veldur mér ægilegu hugarangri. Ekki svona hún sjálf per se, en samt. Hún er holdgervingur þess sem má kalla Oprah paradox, eða Oprah þverstæðuna. Þverstæðan er að hér er kona sem hefur unnið hörðum höndum til að komast í mikla áhrifastöðu innan síns geira og allt sem hún gerir er gert afskaplega vel og af miklum metnaði. Það er ekki hægt að segja neitt um Opruh annað en að hún sé dugleg, vel gefin, hörð af sér, útsjónarsöm og sterk en samt hefur hún líka eytt síðustu 30 eða 40 árum í að berjast við að vera feit og mjó og feit og mjó. Og hún lætur spikið angra sig. Þverstæðan því tvíþætt í raun. Hversvegna lætur kona sem að öllu leyti flokkast sem sigurvegari, láta það fara í taugarnar á sér að vera feit? Og hversvegna nær kona sem að öllu öðru leyti er við stórnvölinn ekki stjórni á átinu? 
 Ég var beðin um að halda lítinn fyrirlestur í vinnunni um daginn. Ég hafði vakið athygli eins hátt setts manns og hann bað mig um að taka saman lítinn pistil og flytja svo fyrir nokkurn hóp áheyranda. Og þó ég segi sjálf frá þá tókst þetta alveg hreint með ágætum. Ég hef nefnilega fullvissuna um að vera virkilega flink við framsögn. Það er einfaldlega eitthvað sem ég geri afskaplega vel, finnst hrikalega skemmtilegt að gera og á auðvelt með. Svo mikið að ég myndi helst kjósa að vera fyrirlesari að atvinnu.
Mér datt svo í hug eftir á hvað það er gott að finna þetta sem maður er einfaldlega virkilega flinkur við. Og hvernig þessi vitneskja spilar inn í sjálfstraust. Mér datt svo reyndar líka í hug að kannski er það bara sjálfumglatt og sjálfhverft fólk eins og ég sem veit að það er flinkt við eitthvað. Allir aðrir kannski bara gera hluti án þess að spá í því. Ég allavega fyllist sjálfstrausti þegar mér tekst vel upp og fíleflist og geri síðan fleiri hluti vel.
Ég kýs svo að setja minn eiginn mælikvarða á hversu vel mér gengur í lífinu. Þannig kýs ég að telja bara upp hluti sem ég geri vel og nota þá sem mælistiku. Ég meira að segja tel sjálfa mig sem success sögu hvað spik varðar; ekki vegna þess að ég er ægilega mjó eftir að hafa verið ægilega feit, heldur vegna þess að ég er enn að hugsa, spá og spekúlera.
Hvað er það svo annars sem maður telur til þegar maður mælir velgengni? Er það launin sem maður vinnur inn, útlitið, makinn sem maður eignast eða ekki, draslið sem maður sankar að sér? Innri friður, samhyggja, vinafjöldi? Hvað myndi Oprah segja um sitt líf? Myndi hún segjast hafa verið sökksess? Eða myndi hún telja sjálfa sig sem failure af því hún borðar stundum of mikinn mat?

miðvikudagur, 26. október 2016

Af breytingarskeiðinu

Ég held að á þessum tæpu fimmtán árum sem ég er búin að skrifa hafi aldrei liðið svona  langur tími á milli pósta.  Ýmislegt kemur þar til; mestmegnis tæknilegt þar sem fartölvan mín gafst upp fyrir nokkru og mér finnst hreinlega erfitt að skrifa pistla á ipaddinn. Ég er búin að prófa að kaupa lyklaborð með blátönn fyrir paddinn en er sem komið er búin að skemma tvö. Ég ætti náttúrulega að kaupa nýja fartölvu. Ég var búin að segja að mig langaði til að skrifa meira og ef það er bara aðgangur að tækni sem er að stoppa mig nú, þá hlýtur lausnin að vera fersk fartölva. Hitt er svo alvarlegra sem mig grunar að ég noti tölvuleysið til að hylma yfir og það er blessuð ritstíflan. Ég tek nefnilega paddinn upp á hverju kvöldi og ýti á "new post" en enda alltaf í Candy crush eða á Pinterest og ekkert gerist. 

Ég er smávegis þreytt líka. Ég fékk stöðuhækkun um daginn, er komin í nokkra ábyrgðastöðu í bankanum sem ég vinn hjá og því fylgdi dálítið stress tímabil á meðan ég var að átta mig á stöðuháttum. Ég ferðast líka snöggtum meira núna og er bara þreyttari. Ég veit hinsvegar að það er tímabundið og innan skamms verður þetta orðið normal og ég get beint orku að fleiru en bara vinnunni. Mig langar til að standa mig vel þar og hef auga á að komast aðeins hærra í metorðastiganum þannig að það er betra að eyða púðri í vinnuna núna og koma ár minni vel fyrir borð.

Ritstíflan kemur svo til af því að það er erfitt að skrifa það sem er að gerast hjá mér núna hvað spik varðar án þess að hljóma vúvú. Öfugt við fegurðardrottningar er ég þvengmjó akkúrat núna. Eftir þónokkurn tíma þar sem ég taldi hitaeiningar og macros er ég smá saman búin að vera að treysta líkamanum meira og meira. Þetta er búið að vera svona smávegis eins og að sleppa stýrinu á hjóli. Hitaeiningarnar eru svona ómeðvitað alltaf í bakgrunninum en á hverjum degi verð ég færari í að treysta á að finna til hungurs og láta það stýra magni sem ég borða. Og ég borða nammi og beikon og allskonar "óhreint" og virðist að mestu leyti ráða við það.
Það var nefnilega þannig að ég var aftur að verða klikk. Mætti í ræktina til að brenna hitaeingum. Stóð æpandi á vigtinni. Gólaði á sjálfa mig um að ég væri ómöguleg, ég myndi aldrei breytast, aldrei, aldrei breytast. Og það var í miðri svona ræðu sem ég þrumaði yfir sjálfri mér að ég gerði mér skyndilega grein fyrir að þetta er bara ekki rétt. Ég hef breyst svo mikið síðustu árin að ég er nánast óþekkjanleg að innan og utan. Það sem ég skildi ekki var að þessar breytingar hafa gerst á skriðjöklahraða, með örlitlu mynstri breytinga á hverjum degi í rúm átta ár. Á hverjum degi í allan þennan tíma gerði ég eitthvað agnarsmátt sem svo smá saman er orðið vani og eðlileg hegðun. Ég hætti að ljúga. Á hverjum degi sagði ég sjálfri mér og öðrum sannleikann. Og með hverjum deginum var það eðlilegra að segja satt þangað til að núna myndi mér ekki detta í hug að reyna að fela át. Alveg sama hversu hrikalegt það er. Ég gerði það að vana að hrósa sjálfri mér fyrir eitthvað. Það varð að vana að vera forvitin um líkamann. Það varð að vana að vera skipulögð, búa til nesti, finna til ræktargallann á kvöldin, að elska að hreyfa mig. Allt þetta eru breytingar sem tóku öll þessi ár að koma á og bara með að vinna að því á hverjum einasta degi. Vani tekur 21 dag my arse! 

Á hverjum degi núna vakna ég og minni sjálfa mig á að í dag ætla ég að vera sterk og falleg og umburðarlynd gagnvart sjálfri mér. Og ég minni mig á hversu mikið ég hef breyst. 
Þessi uppgötvun hefur eiginlega umturnað öllu og mér finnst eins og ég sé kominn inn á þetta næsta level sem ég er búin að vera að leita eftir af svo mikilli örvæntingu í langan tíma. Ég sagði alltaf að ég skildi að þetta snýst ekki um tölu á vigtinni og að þetta væri eilífðarverkefni. Ég hélt að þetta myndi snúast um að geta hunsað það að ég misnota mat og að ég þyrfti einfaldlega að ná valdi yfir sjálfri mér. Ég skil það hinsvegar núna að ég á að þvert á móti að einbeita mér að þessu, og halda áfram að breyta hegðuninni dag eftir dag. Í hvert sinn sem ég borða þegar ég er ekki svöng eyði ég tíma í að skilgreina ástæðuna fyrir því og minni svo sjálfa mig á það næst þegar ég ætla að gera það aftur. Og breyting er í alvörunni möguleg.