miðvikudagur, 26. júní 2013

Venjulega væri ég nú lítt spennt fyrir matvöru sem er merkt "diet", "light", "fat-free", "sugar-free" og myndi hnussa og sveia og halda langar ræður um næringargildi alvöru matvöru. En það er nú með það eins og annað  stundum tekur maður fúllsvíng beygju og breytir alveg um skoðun.

Ég sá fyrir margt löngu einhvern blogga um japanskar núðlur sem eru búnar til úr plöntu sem er svipuð og þang. Núðlurnar eru alveg bragðlausar og kolvetna, fitu, sykur og nánast hitaeiningalausar. Í Japan heitir þetta Shirataki eða Konjak og er alvanalegt til átu. Næringarlega séð eru bara trefjar í núðlunum, ekkert annað. Síðan að ég fyrst sá minnst á þetta er mig búið að langa til að prófa. Tilhugsunin um hitaeiningalausar núðlur var ómótstæðileg.

Það var svo um daginn að ég sá pakka í Holland og Barrett og þrátt fyrir hrikalegt verð, £2.50, ákvað ég samt að prófa.


Nafnið "SLIM PASTA" er alveg út í hött, og mér finnst það draga úr heilsusamlegu innihaldinu. En ég get nú lítið að því gert. Ég var samt ægilega spennt og ákvað að búa til heilsusamlegt sveppa carbonara eitthvað sull.

Þegar maður opnar pakkann gýs upp skringileg lykt, mér fannst helst minna á fiskilykt. Ekki vond, bara skrýtin. Samkvæmt leiðbeiningum á maður að skola vel af núðlunum til að hreinsa þær og ná af þeim lykt. Eftir að hafa hreinsað vel smellti ég þeim á pönnu með ostasósunni og sveppum.

Úr varð þetta líka fína sull. Áferðin er allt önnur en á venjulegu pasta eða núðlum. Maður þarf að bita í og tyggja vel. En þær eru líka alveg bragðlausar sem þýðir að þær taka á sig bragðið af sósunni. Mig grunar nú að ítalski ættboginn minn myndi hrylla sig en það verður nú bara að hafa það. Ég var hæstánægð. Carbónara pasta fyrir 15 hitaeiningar! Það hefði ég nú haldið.

Næst verður prófað bolognese og svo kínverskt stir fry. Lukkan yfir manni alltaf hreint.

laugardagur, 22. júní 2013

Það þýðir víst lítið að fela sannleikann, ég er þessvegna búin að laga myndaseríuna hér til hliðar. Nei, það er því miður ekki hægt að ljúga til um fíkn sem maður ber utan á sér.

Ekki það að ég reyni ekki. Ég held að það sé enn sterkasta áráttan hjá mér það að ljúga, fela og stelast. Ég held að eitt það erfiðasta sem ég geri er að neyða sjálfa mig til að borða opinberlega. Mig langar alltaf mest til að borða ein. Borða þannig að ég geti borðað þar til mig verkjar í lungun, borða skrýtnar samsetningar, borða aðalrétt, eftirrétt, aðalrétt, eftirrétt. Borðað í friði.

Ég reyni alltaf að ljúga um magn og eða gæði. Það er eins og það sé bara í eðli mínu að reyna að fela hvað ég borða í alvörunni, meira að segja núna þegar það er ósköp lítið að fela. Ég stend sjálfa mig lika að því að telja upp allt sem ég hef borðað yfir daginn fyrir Dave svona eins og til að reyna að þröngva sjálfri mér til að ljúga ekki.

Ég var sko að borða ostaköku. Bara þannig að þið vitið það.

miðvikudagur, 19. júní 2013

"Það gengur rosalega vel á þessum kúr, þetta er bara ekkert mál!" sagði erfiða samstarfskona mín fyrir nokkrum dögum. Hvað kúr er það? spurði ég kurteisislega af því að hún vildi greinilega ræða þetta. Hún er semsagt á þessum allra nýjasta; föstukúrnum. Hann snýst um að tvo daga vikunnar fastar maður, þaes maður borðar 500 hitaeiningar en hina dagana borðar maður bara venjulega. Ekki megrunarmat, ekki ofát, bara venjulega. Og það bara lekur af manni spekið. Fyrirhafnarlaust.

Það er alltaf við þetta orð sem ég stoppa. Fyrirhafnarlaust. Reyndar ekki fyrr en ég hef í smástund hugsað með mér "Ég ætla sko að prófa þetta! Þetta er frábært!!" en það líður fljótt hjá og ég man hvað gerist þegar venjulegt fólk byrjar að fylgja nýjasta kúrnum. Það gengur rosalega vel, en svo gengur illa og svo gleymir maður að maður er á kúr. Það er enginn annar endir. Það er ekki hægt að fylgja nýjasta kúrnum og gera það að eilífu.

Og fólk er alltaf jafn glórulaust. Kúr eftir kúr eftir kúr.

Erfiða samstarfskonan var greinilega á vímunni sem fylgir fyrstu dögunum þegar maður byrjar á nýjum kúr. Núna tekst þetta hjá mér! Í þetta sinnið gengur þetta allt upp! Ég þarf bara að borða ekkert tvo daga vikunnar, hina dagana get ég gert það sem mig lystir! Badabúmbadabing! Og ég verð mjó eftir smástund. Like a boss!

En svo rennur af manni víman. Og það sem var fyrirhafnarlaust verður allt í einu mikið mál.

Ég tók eftir í dag að erfiða samstarfskona mín náði sér í sizzling steak flavour snakkpoka og kitkat úr sjálfvendivélinni rétt fyrir ellefu í morgun. Ekki það að það komi mér neitt við en ég verð að segja að það gengur greinilega rosalega vel hjá henni á kúrnum. Ef miðvikudagur er föstudagur þá er hún búin að nota 500 hitaeiningar heldur senmma. Ef miðvikudagur er ekki föstudagur, nú þá verð ég að segja að það að fá sér snakk og súkkulaði fyrir klukkan ellefu er ekki það sem ég myndi kalla að borða venjulega. Ja, nema fyrir fólk sem er 120 kíló sem erfiða samstarfskonan og er.

Ég vildi óska að þetta væri fyrirhafnarlaust. Að maður gæti bara borðað ekkert tvo daga vikunnar og venjulega hina dagana, eða sleppt kolvetnum, eða bara borðað fyrir klukkan fimm á daginn, eða bara drukkuð sjeik eða hvað það nú er sem er í tísku. En ef þetta væri fyrirhafnarlaust þá VÆRI ENGINN FEITUR.

Hvorki ég né erfiða samstarfskonan.

sunnudagur, 16. júní 2013

Svo leið næstum heil vika. Og enn er maturinn ekkert mál. Ég skil þetta ekki alveg, en ætla bara að njóta á meðan ég þarf ekki að hnykla sjálfstjórnarvöðvann. Er þó á varðbergi. Ég er vön að ganga í gegnum svona tímabil þar sem ég get stjórnað magni án þess að það sé neitt tiltökumál en ef satt skal frá segja þá enda svoleiðis tímabil oftast með alveg gífurlegu "binge" partý. Ég er búin að ákveða að það hefur með vöntun að gera. Ég neita sjálfri mér um allt og finnst ég vera svo "góð" og "dugleg". Svo kemur sá tími sem ég er "vond" og "löt" og ég segi sjálfri mér að ég sé ekki nógu góð og dugleg og fæ mér allt sem mig langar í og svo aðeins meira. Af því að ég er hvort eð er vond og löt. Vítahringur fitubollunnar.

En svo datt mér í hug að þetta þarf ekki að vera svona. Hvað ef mér tekst að afnema skilgreininguna á sjálfri mér og hætti að hugsa um mig sem "góða" eða "vonda"? Hvað ef ég er  bara "svöng" eða "sátt"? og öll persónuleikaeinkenni eru bara skilin eftir í samskiptum við aðrar mannverur þar sem þau eiga í alvörunni heima en ekki inni í eldhúsi?

Þetta er ég búin að dúlla mér við í vikunni og gengur vel. Og mér líður vel. Ég er góð manneskja svona að mestu leyti til, og oftast er ég dugleg. Stundum er ég dálítið vond þegar ég hugsa illa til þeirra sem ég kalla Wrexham druslur - ég hef engan tíma fyrir þær og skammast mín smávegis yfir því hvað ég er fordómafull gagnvart þessum greyjum en svona er þetta bara; maður getur ekki verið næs við alla. Stundum er ég löt og geri hluti illa - en það er líka bara þannig.  Það er í lagi að skilgreina sjálfan sig eftir þessu, ekki eftir því hvort maður fær sér snickers öðruhvoru.

Þetta snýst allt um að finna þetta jafnvægi. Þar sem ég fæ nógu mikið magn af mat til að mér líði ekki eins og um vöntun sé að ræða og fríki út, nógu lítið til að ég haldi áfram að léttast. Nógu hollan mat til að líkamanum og sálinni líði vel en nógu djúsí líka til að ég fullnægji átvaglinu í mér og fríki ekki út.

Hjónabandsæla; hið fullkomna hjónaband hnetusmjörs og sultu!
Í gærkvöldi fór ég að hugsa um hjónabandssælu. Ekki veit ég hvað kom þeirri hugsun af stað en engu að síður þá var hjónabandssæla það sem mig langaði í. Ég minnti sjálfa mig á að það að langa í hjónabandssælu væri ekki til þess að ég mætti gefa út skotleyfi á sjálfa mig og kalla mig aumingja, ég þyrfti bara að taka þetta skynsamlega.  Ég ákvað að nota tímann í gærkveldi og aðlaga uppskriftina að hollum lifnaðarháttum og gefa mér tíma til að ákveða hvort ég væri svöng eða ekki og baka svo í dag ef ég væri svöng. Mamma bjó alltaf til voðalega góða hjónabandsælu þannig að ég veit ekki afhverju ég fékk ekki bara uppskriftina hjá henni, ákvað frekar að gúggla uppskriftinni og það kemur í ljós að það eru til ótal margar útgáfur. Með eða án eggja, með smjöri eða olíu, sykri eða púðursykri og mjög mismunandi hlutföll af höfrum versus hveiti.  Ég skipti út hveiti fyrir kókóshnetuhveiti og smjöri og olíu fyrir kókósolíu og hnetusmjör. Hnetusmjörið var snilldarhugmynd, breytti reyndar allri kökunni í eitthvað alveg nýtt og öðruvísi. Gekk svo ekki nógu langt í heilsusamlegheitum og setti púðursykur út í deigið. Átti heldur ekki rabbabarassultu svo ég notaði bara jarðaberjasultu. Hún hefði líka getað verið heilsusamlegri með því að nota sykurlausu St.Dalfour sultuna, en ég átti hana ekki til.

 Útkoman var reyndar alveg hrikalega góð þó það megi enn betrumbæta. En er það ekki bara eins og með allt? Má ekki alltaf gera aðeins betur?

mánudagur, 10. júní 2013

Við Bretar erum alveg eins og við Íslendingar að því leyti til að þegar sólin skín rífum við okkur úr og rjúkum út til að nýta sólargeislana á meðan þeirra nýtur. Maður veit nefnilega aldrei hvenær dýrðinni lýkur. Nú er búið að vera sumar hjá okkur í heila viku, og hámarkinu náð um helgina. Brakandi hiti og glampandi sól. Við litla einingin mín eyddm helginni úti í garði, reyndum að lokka til okkar broddgelti, spiluðum frisbí, lásum og borðuðum allar máltíðir dagsins úti.

Bónus við svona hita er að maður nennir lítið að borða og ég meira að segja afþakkaði súkkulaði. Helgin fór því eins vel og hægt var að hægt að óska sér hvað hitaeiningafjöld varðaði og ég léttari á mánudagsmorgni en á laugardagsmorgni. Eitthvað sem hefur bara aldrei nokkurn tíman gerst áður.

Það var ljómandi þægilegt að þurfa ekkert að spá og spekúlera, og ekkert að þurfa að hnykla sjálfstjórnarvöðvann, bara borða eins og "eðlilegt" er. Mikið hlakka ég til þegar þetta verður normið hjá mér.

sunnudagur, 9. júní 2013

Í ljósi þess að fyrir ekki svo löngu síðan var ég búin að "fatta" þetta alltsaman og hélt að ég væri alveg seif er alveg við hæfi að spóla aðeins tilbaka og athuga hvað gerðist. Helst finnst mér áhugavert að skoða viljastyrk alveg sérstaklega. Nú er alveg ljóst að ég er ekki búin að fatta rassgat og er alveg jafn glórulaus og ég hef alltaf verið. Getur það verið að viljastyrkurinn hafi brugðist? Eða varð ég bara kærulaus? Eða var ég að blekkja sjálfa mig og ég var í megrun allan tíman þó ég segðist vera að breyta um lífstíl? Var ég ekki í alvörunni að breyta neinu? 

Ég trúi því staðfastlega að til að gera langvarandi breytingar þurfi að gera meira en að drekka meira vatn og sleppa snickers öðruhvoru. Það þarf að breyta algerlega um innri trú og sannfæringu um hvað sé rétt og gott og hvað skapi langtíma afleiðingar. Ég veit og trúi að það sé betra fyrir mig til langframa að sleppa því að borða snickers, sérstaklega þegar ég borða snickers til að láta mér líða betur. Það sem þetta svo algerlega snýst um er að sjá og skilja orsakir og afleiðingar. Þannig veit ég að þó að það sé ósköp næs núna að liggja lengur upp í rúmi og sleppa því að mæta í vinnu, þá eru langtíma afleiðingar svo inngreiptar í mig að ég myndi aldrei láta það eftir mér. Ég kýs mun frekar að sleppa þægindinum sem kúr upp í rúmi eru og mæti í vinnu af því að ég vil fá útborgað, ég vil fá að eiga hús og eiga fyrir mat og geta boðið fjölskyldu minni upp á öryggi. 

Málið snýst sem sagt um að fá sjálfan sig til að skilja langtíma afleiðingarnar af því að velja hollari kostinn yfir skyndinautnina. Ef ég gæti í alvörunni séð og trúað því sem gerist ef ég vel oftast hollari kostinn þá væri þetta einfalt mál og maður þyrfti ekki að grípa til viljastyrks. Nú segi ég að ég skilji og trúi þessu. En það getur bara ekki verið, ekki í alvörunni. Því ef ég liti á málið á sama hátt og ég mæti í vinnu, eða vaska upp eða bursta tennurnar nú þá væri ég þvengmjó og þyrfti ekki frekar að pæla í þessu. 

Vinnan núna er þessvegna falin í að fá mig til að samþykkja langtíma afleiðingarnar. 

Af því að það er ekki fokkings sjéns að ég verði aftur feit. 

Fokk nei.


laugardagur, 8. júní 2013

Nei! Bara allt í einu kominn föstudagur aftur og vikan var rétt að byrja! Þetta hlýtur að hafa eitthvað að gera með að eldast svona. Dagarnir langir en árin þjóta hjá hraðar og hraðar. En svona er það nú víst bara, öll brjóst hneigjast í suðurátt fyrr eða síðar og ekki þýðir að gráta það. Það forðar því nú samt ekki að ég er alltaf, að því að mér finnst, kúguppgefin.

Ég er ekki alveg viss hvort það sé bara aldurinn sem veldur þessu eða hvort það sé þetta stanslausa samviskubit sem ég er með og hef haft síðan 2003. Það var árið sem Lúkas fæddist og ég fékk minnimáttarkenndina. Mér finnst ég nefnilega vera glatað foreldri. Hann er aldrei í réttum fötum, borðar vitlausan mat, spilar tölvuleiki og horfir á sjónvarp út í eitt. Ég hef nefnilega ekki tíma til að ala hann upp. Ég er alltaf í vinnunni, eða þreytt eða að taka til eða læra eða elda. Og ég er með stanslausa minnimáttarkennd gagnvart öllum öðrum foreldrum sem eflaust leyfa börnunum sínum ekki að drekka kók og láta þau fara í fimleika og þylja svo upp margföldunartöfluna með þeim á meðan að þau leika létta þroskaleiki. Og ég er með samviskubit yfir að hafa hvorki tíma né orku til að sinna honum svona vel.

Þegar ég byrjaði í lífstílnum 2009 var ég í vinnu þar sem ég gat notið morgunmatarins með Láka, labbað svo með hann í skólann og hafði svo tíma til að rækta mig, læra og elda og plana áður en ég mætti í vinnu klukkan tvö. Þetta var fullkomið. Og alger forréttindi að hafa tækifæri til að gera þetta. Þegar ég svo byrjaði hjá Lloyds var þar rækt á svæðinu sem ég hafði auðveldan aðganga að. Og ég var ekki í ábyrgðarstöðu þannig að ég fór heim áhyggjulaus. Núna aftur á móti finn ég að allar mínar prédikanir um að "maður býr bara til tíma til að mæta í ræktina" hljóma hálf hrokafullar. Jú, ég get mætt í ræktina en það er þá til að bæta á samviskubitið sem ég er nú þegar að berjast við hvað son minn varðar.

Ég verð víst að éta ofan í mig margar af þessum hrokafullu yfirlýsingum frá 2009 og 2010.

En það þýðir samt ekki að ég sé hætt að trúa sjálfri mér, það þýðir bara að ég hef lært lexíu hér og að ég hef lært örlitla auðmýkt. Og það er öllum hollt.

Ég get hjólað og ég geri það. Hvað frekari líkamsrækt varðar þá hef ég bara ekki tíma akkúrat núna. Ekki til að gera það nógu skipulega til að það hafi eitthvað að segja. Ég hef því ekki um annað að velja en að einbeita mér algerlega að mataræðinu.

Með því að einbeita mér að mataræðinu í viku léttist ég um 1.3 kíló. En eftir að hafa skráð þau samviskulega í 222 vikur verð ég að viðurkenna að þau hafa orðið litla merkingu fyrir mér. Þetta eru kíló sem ég er búin að sjá koma og fara hundraðmilljónsinnum. Ég ætla þessvegna ekki að telja þau neitt frekar upp. En um leið og ég passa aftur í gallabuxurnar númer 14 skal ég æpa upp yfir mig.

Og núna ætla ég að eyða gæðatíma með Láka og reyna að kenna honum að hjóla.

mánudagur, 3. júní 2013

Það er allt að verða vitlaust í vinnunni. Ég er að sameina tvö teymi, flytja á milli hæða með allskonar mismunandi tölvukerfi, reyna að læra á handvömmina, ásamt því að kljást við sérlega erfiða samstarfskonu. Þetta náði alltsaman hápunkti í dag þegar tölvukerfið brást þegar ég minnst mátti við því. Ég hafði tekið með mér hafragraut og ávexti, ásamt eggjaköku og möndlum. Nýja reglan segir engin unnin matvara. En um 10leytið, eftir að sýna bara rósemd og yfirvegun út á við á meðan að inni í mér hljóp ég hjálparvana og veinandi um í hringi í angistar-og kvíðakasti gat ég ekkert gert annað en að troða hverri kexkökunni á eftir annarri til að viðhalda róseminni út á við.

Ég sá án þess að þurfa mikið að pæla í því að ég var að gera mistök númer eitt. Það er að leyfa tilfinningu að ráða för frekar en að treysta á innri sannfæringu. Innri sannfæring stjórnast af skynsemi sem segir að það að velja heilbrigðari kostinn, að hreyfa mig og sýna jafnaðargeð á raunastundu sé það sem best sé að gera  og það sem veitir langtímahamingju. Tilfinning er ákafari og hömlulausari og segir mér að fullnægja hvaða hvötum sem er núna, núna, núna! Og sér í lagi að það að troða í mig kexi láti mér líða betur. Auðvitað líður mér betur við að troða í mig kexi. Í svona umþaðbil fjórar sekúndur. Og svo er það búið og ekkert stendur eftir en samviskubit.  Og það lækna ég með að troða í mig kexi. Bráðsniðugt alveg hreint.

En sólin skein og þegar ég gat ekki unnið meir rauk ég heim á hjólinu, fór lengri leiðina og náði um átta kilómetrum í blakandi sól og blíðu. Og gaf sjálfri mér svo engan tíma til að hugsa, náði bara í ketilbjöllurnar og fór út í garð að sveifla. Þar með stóð ég við helminginn af loforðum dagsins og þyki bara nokkuð kát með það.

Það var líka ágætis áminning þetta að láta ekki tilfinningar stjórna sér. Ég þarf bara að komast aftur í æfingu með það rétt eins og ég þarf að komast aftur í æfingu með að sveifla bjöllum.

Harðsperrur allan hringinn á morgun.

laugardagur, 1. júní 2013

Ég hef afskaplega lítinn áhuga á að grenja, gnísta tönnum eða rifa í hár mitt eða skegg. Að vera reið, sár og vond við sjálfa mig núna hefur engin áhrif. Og breytir ekki að ég er búin að þyngjast um 15 kiló síðan ég náði að verða léttust 86 kíló.

Þetta er allt saman voðalega skrýtið. Ég var svo viss um að ég væri búin að "ná" þessu. Ég hélt að ég væri búin að koma þessu öllu saman svo inn í eðlilegan feril að ég þyrfti ekki að pæla í þessu neitt frekar. Sko, ég vil nefnilega ekki vera í megrun. Og þessi sannfæring mín um að maður eigi ekki að vera í megrun stangaðist á við að ég var samt í megrun. Og ég get ekki annað en gert uppreisn.

Þegar manni er sagt að það þurfi bara að gera litlar breytingar, labba aðeins meira og sleppa einu og einu snickers þá er verið að ljúga að manni. Það að snúa við öllu sem maður trúir á og velur í hvert einasta skipti sem maður tekur ákvörðun er ekkert að gera smáar breytingar. Og þetta var mér ofviða. En svona er þetta bara. Ég er ekki tilbúin í að færa mig yfir í þetta ástand þar sem maður velur náttúrulega rétta kostinn. Ég þarf að halda áfram að vera í megrun. Akkúrat núna er ég líka bara sátt við það. Mig langar frekar að komast aftur í gallabuxurnar mínar sem eru númer 14 og vera í megrun en að vera ekki í megrun og halda áfram að fitna. Ég hef valið það að halda stríðinu áfram.

Mig langar ekkert frekar en að "lose the diet, love my body, find peace" og allt það en það er bara ekki að gerast. Ég er ekki sátt.

Ég er hinsvegar í stuði. Og það veit alltaf á gott.