Svo leið næstum heil vika. Og enn er maturinn ekkert mál. Ég skil þetta ekki alveg, en ætla bara að njóta á meðan ég þarf ekki að hnykla sjálfstjórnarvöðvann. Er þó á varðbergi. Ég er vön að ganga í gegnum svona tímabil þar sem ég get stjórnað magni án þess að það sé neitt tiltökumál en ef satt skal frá segja þá enda svoleiðis tímabil oftast með alveg gífurlegu "binge" partý. Ég er búin að ákveða að það hefur með vöntun að gera. Ég neita sjálfri mér um allt og finnst ég vera svo "góð" og "dugleg". Svo kemur sá tími sem ég er "vond" og "löt" og ég segi sjálfri mér að ég sé ekki nógu góð og dugleg og fæ mér allt sem mig langar í og svo aðeins meira. Af því að ég er hvort eð er vond og löt. Vítahringur fitubollunnar.
En svo datt mér í hug að þetta þarf ekki að vera svona. Hvað ef mér tekst að afnema skilgreininguna á sjálfri mér og hætti að hugsa um mig sem "góða" eða "vonda"? Hvað ef ég er bara "svöng" eða "sátt"? og öll persónuleikaeinkenni eru bara skilin eftir í samskiptum við aðrar mannverur þar sem þau eiga í alvörunni heima en ekki inni í eldhúsi?
Þetta er ég búin að dúlla mér við í vikunni og gengur vel. Og mér líður vel. Ég er góð manneskja svona að mestu leyti til, og oftast er ég dugleg. Stundum er ég dálítið vond þegar ég hugsa illa til þeirra sem ég kalla Wrexham druslur - ég hef engan tíma fyrir þær og skammast mín smávegis yfir því hvað ég er fordómafull gagnvart þessum greyjum en svona er þetta bara; maður getur ekki verið næs við alla. Stundum er ég löt og geri hluti illa - en það er líka bara þannig. Það er í lagi að skilgreina sjálfan sig eftir þessu, ekki eftir því hvort maður fær sér snickers öðruhvoru.
Þetta snýst allt um að finna þetta jafnvægi. Þar sem ég fæ nógu mikið magn af mat til að mér líði ekki eins og um vöntun sé að ræða og fríki út, nógu lítið til að ég haldi áfram að léttast. Nógu hollan mat til að líkamanum og sálinni líði vel en nógu djúsí líka til að ég fullnægji átvaglinu í mér og fríki ekki út.
|
Hjónabandsæla; hið fullkomna hjónaband hnetusmjörs og sultu! |
Í gærkvöldi fór ég að hugsa um hjónabandssælu. Ekki veit ég hvað kom þeirri hugsun af stað en engu að síður þá var hjónabandssæla það sem mig langaði í. Ég minnti sjálfa mig á að það að langa í hjónabandssælu væri ekki til þess að ég mætti gefa út skotleyfi á sjálfa mig og kalla mig aumingja, ég þyrfti bara að taka þetta skynsamlega. Ég ákvað að nota tímann í gærkveldi og aðlaga uppskriftina að hollum lifnaðarháttum og gefa mér tíma til að ákveða hvort ég væri svöng eða ekki og baka svo í dag ef ég væri svöng. Mamma bjó alltaf til voðalega góða hjónabandsælu þannig að ég veit ekki afhverju ég fékk ekki bara uppskriftina hjá henni, ákvað frekar að gúggla uppskriftinni og það kemur í ljós að það eru til ótal margar útgáfur. Með eða án eggja, með smjöri eða olíu, sykri eða púðursykri og mjög mismunandi hlutföll af höfrum versus hveiti. Ég skipti út hveiti fyrir kókóshnetuhveiti og smjöri og olíu fyrir kókósolíu og hnetusmjör. Hnetusmjörið var snilldarhugmynd, breytti reyndar allri kökunni í eitthvað alveg nýtt og öðruvísi. Gekk svo ekki nógu langt í heilsusamlegheitum og setti púðursykur út í deigið. Átti heldur ekki rabbabarassultu svo ég notaði bara jarðaberjasultu. Hún hefði líka getað verið heilsusamlegri með því að nota sykurlausu St.Dalfour sultuna, en ég átti hana ekki til.
Útkoman var reyndar alveg hrikalega góð þó það megi enn betrumbæta. En er það ekki bara eins og með allt? Má ekki alltaf gera aðeins betur?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli