miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Ég bara stóðst ekki mátið í gær þar sem ég var stödd inni í Marks & Sparks og sá þar í pakka frosna ýsubita tilbúna í neytendapakkningu. Ekki það að ég sé með óstjórnandi fíkn í frosna ýsubita, þessi freisting hafði meira með einhverjar leifar af þjóðarrembing að gera vegna þess að pakkningin var rembilega merkt "Icelandic haddock" í bak og fyrir.

Hingað til hefur mér gengið illa að fá ætan fisk hérna. Það var eiginlega þannig komið að ég var hætt að reyna. Ég var búin að reyna allt, steikja úr raspi og lauk, drekkja honum í rótsterkum sósum til að fela ýldubragðið, krydda og marinera en allt fyrir ekki. Enda get ég svarið að ég sá ekki betur en ég væri að mestu leyti til að kaupa blokk sem ég hafði sjálf ormatínt og beinhreinsað í Meitlinum sumarið ´88.  Ekki til manneldis að mínu mati. Þannig að ég nennti þessu bara ekki lengur og allur minn fiskur er bara túnfiskur úr dós. 

En eitthvað sagði mér að ég ætti að prófa. Í fyrsta lagi þá er gæðastjórnunin innan M&S ein hin þéttasta af matvælaframleiðendum í Bretlandi og í öðru lagi þá var luðran samlandi minn. Íslenskur fiskur. Þetta hlaut að virka. 

Til að hafa vaðið fyrir neðan mig ákvað ég samt að búa til netta bragðblöndu til að fela óbragð svona just in case. 

1 laukur, smátt saxaður
250 g sveppir, sneiddir
1 skvetta af ólívuoliu (sprey)

Steikt á pönnu þar til glært og gullið og tilbúið.

4 ýsubitar raðað í eldfast mót

1 egg
2 msk fitulaus grísk jógurt
30 g gruyere, fínt rifinn (eða hvaða annar harður ostur eins og parmesan eða grana padano eða aged gouda)
allt hrært saman þartil mjúkt

smyrja svo egg-jógurtblöndunni á fiskinn, krydda með salti, pipar, smá steinselju og hella svo sveppa-laukblöndunni yfir. Baka inni í ofni í hálftíma við 190 gráður. 
Bera fram með grænu salati og blómkáls-hvítlauksmús. (bita niður blómkálshaus, setja i skál og hylja með plasti, inn í örbylgju í rúmar fimm mínútur, sletta msk af fitulausum sýrðum rjóma og smá hvítlaukssalti og mauka með töfrasprota)

Fiskurinn brást ekki, ferskur og hvítur næstum jafngóður og nýveiddur fiskurinn sem pabbi kom með með sér síðast. Eldamennskan var í raun óþarfi, smávegis af grænmeti hefði verið fínt, en uppskriftin var líka alveg hrikalega góð og þess virði að prófa.

Eftirréttur; frosin bláber. Namm. 

þriðjudagur, 28. ágúst 2012

Um daginn komst ég að því að ég væri alveg herfileg mannvera. Ég var að flakka um á netinu og las af áfergju blogg eftir blogg þar sem bloggarinn hafði tekið ákvörðun um að breyta lífi sínu í eitt sinn fyrir öll, og byrjaði svo að telja hitaeiningar/hlaupa/hætti að borða brauð/skipti um hugsunarhátt/byrjaði að lyfta/nota duft í staðinn fyrir mat/hætti að borða sykur/baðar sig upp úr morgundögginni og þar fram eftir götunum. Og lof og dýrð! þremur mánuðum seinna er allt spik horfið sem dögg fyrir sólu og lífið er dans á rósum að eilífu amen, fokk og enter. Og ég herptist öll saman af öfund og afbrýðissemi; afhverju virðist þetta ekki vera svona einfalt fyrir mig??????? (Um leið herptist ég saman af vonbrigðum með hversu mikil leiðindapíka ég er, hvernig dirfist ég að lesa það úr öllum þessum bloggum að þessir sigrar hafi verið einfaldir og auðveldir fyrir allt þetta fólk, ég veit að þetta er gífurleg vinna og ég á að vera glöð fyrir þeirra hönd og ekki vera öfundsjúk.)

En ég bara gat ekki stillt mig. Og ég þurfti að minna sjálfa mig á að öll tökum við á þessu á mismunandi hátt. Ég virðist ætla að taka heila öld í þetta. Ég er sveimhugi og verð fljótt leið á öllu þannig að ég þarf stanslaust að breyta til. Það þýðir að stundum er ég að gera hluti sem ekki virka. Eða þá að ég er bara að gera einhverja vitleysu. En hvað með það þó ég ætli að taka öld í þetta? Ég er enn að. Ég hef enn ekki gefist upp. Ég get kannski bara verið bloggarinn sem fólk les þegar það vill fá að vita að það er allt í lagi að ruglast alveg í ríminu og gera allskonar mistök og gera vitleysur og gera tilraunir sem virka ekki.Og halda svo bara áfram. Ég þarf alla vega ekki að öfunda sjálfa mig.

mánudagur, 27. ágúst 2012

Mikið var. Ég er loksins búin að skrá mig í næsta kapphlaup. Annað svona alvöru hlaup, 10 km í Winsford sem er rétt fyrir utan Chester. Hlaupið fer fram 28. Október þannig að ég hef núna tvo mánuði til að losa mig við átta kíló og komast í 10 km form. Akkúrat núna get ég ekki einu sinni farið 5 km skammlaust.

En vitiði hvað? Það skiptir bara engu máli. Ég er búin að eyða núna allt of löngum tíma í að 1) vera reið út í sjálfa mig fyrir að vera ekki "búin og 2) syrgja hversu fitt ég var orðin og hversu auðveldlega ég lét það renna úr greipum mér. Ég get haldið því áfram. Og ég get reynt að grafa inni í sjálfri mér eftir þessari ofur hvatningu sem ég tók sem sjálfsögðum hlut fyrir nokkrum mánuðum síðan. Eða ég get skráð mig í hlaup og notað það sem hvatningu til að koma mér aftur í gang.

Hva! Voðalegt andleysi er þetta!? Ekki skrifaður stafur? Ég er svo hissa.

mánudagur, 20. ágúst 2012

Að undanförnu hef ég verið að vinna hörðum höndum að því að breyta um hugsunarhátt. Ég er búin að vera að "gaintain" (vinna staðfastlega að því að viðhalda líkamsþyngd en þyngjast samt) núna í að verða eitt og hálft ár. Og ég stóð sjálfa mig að því að vera farin að trúa þvi að ég gæti bara ekki lést meira. Og ég held að ég hafi verið farin að haga mér í samræmi við það. "Ég stenst ekki brauð" "Ég má ekki eiga nammi inni í skáp þá ét ég það stjórnlaust" "'Eg hef enga stjórn á átinu" "Svona er ég bara" og þar fram eftir götunum voru hugsanir og setningar sem ég sagði við sjálfa mig og aðra. En svo rann upp fyrir mér ljós. Ég er ekki bara að reyna að breyta matnum sem ég borða og magninu af honum, heldur er ég að reyna að breyta grundvallartrú, skoðun og hegðan sem ég hef. Og ef ég TRÚI því ekki að ég geti NOKKURN tíman orðið grönn hversvegna í ósköpunum ætti það þá að gerast? "Sko!" get ég sagt. "I told you so!". Og þarf þá ekkert frekar að bera ábyrgð á ákvörðunum sem ég tek sem halda mér feitri. Það er heilmikið verkefni að breyta þessari trú minni en ég ætla að reyna.

Ég loka augunum og ég slétti úr öllum misfellunum á maganum og lærunum og upphandleggjum og höku. Ég sé fyrir mér hlaupara í stuttbuxum og topp og með sléttan maga. Ég splæsi svo hausnum á mér á þann kropp. Og ég ímynda mér að ég sé að hlaupa og hlaupa og hlaupa. Fimm og hálf mínúta kilómetrinn. Og ég ímynda mér hvernig mér kemur til með að líða þegar þetta er raunveruleikinn. Og ég lofa sjálfri mér að það að hlaupa í stuttbuxum og topp sé milljón sinnum betra en allt súkkulaði í heiminum. Það er engin ást, það er engin vellíðan, það eru engin verðlaun fólgin í því að éta sér til óbóta. Ég kem ekki til með að finna neitt svar við neinu við það að raða í mig kökum og sætmeti. Það er engin lausn í því að borða. Engin endapunktur, ekkert svar. Ef svo væri þá hefði ég fundið það úr þessu.miðvikudagur, 15. ágúst 2012

Það er voðalega sniðugt að elda mat sem dugar í marga daga. Þá þarf maður bara að hita upp aftur og aftur og sparar sér þannig mikilvægan tíma sem nota má til að hlaupa eða henda til ketilbjöllum eða skipta um á rúmunum eða tala við barnið sitt eða kela við manninn sinn eða lesa bók eða fleygja sér eða íhuga málin eða jafnvel stoppa í sokk eða tvo. Það er margt sem má gera við tímann.

Eiginmaður minn er Breti og þykir því að sjálfsögðu breskur matur voðalega góður. Ég geri stundum vel við hann og elda eitthvað breskt. Í fyrradag var það "Cottage pie". Cottage pie er nautahakk steikt með lauk og gulrótum og Worcestershiresósu og svo er kartöflumús sett ofan á hakkið og allt bakað í ofni í smástund. Mér þótti fínasta mál að búa þetta til handa honum þar sem rétturinn hentar sem tveggja máltíðamatur ásamt því að bjóða upp á möguleika á að endurbæta hann með heilsuna í huga.

500 g nautahakk
2-3 gulrætur
1 stór laukur
5 stórir sveppir
tvær vænar lúkur af spínati eða kale
1 hvítlauksgeiri
1 dós tómatar
1 msk worcesterhsiresósa
1 nautateningur
1 msk tómatkraftur
rúm tsk timjan
salt pipar
1 msk kartöflumjöl
1 msk vatn

1 haus blómkál
1 tsk smjör
salt

Steikja smátt skorinn lauk og smátt skornar gulrætur á pönnu þartil laukur er gullinn. Setja hakk á pönnuna og steikja þar til brúnt. Setja sneidda sveppi og marinn hvítlauk út í og steikja aðeins. Hella tómatdós, tómatkrafti, nautateningi, worcestershire, timjan og salt og pipar og láta bubbla aðeins. Hræra vatni og mjöli saman og hella svo út á pönnuna og láta þykkna aðeins. Á meðan kjötið mallar er sniðugt að skera blómkálið í búta, setja í skál, setja plast yfir og inn í örbylgju í sjö mínútur. Taka það svo út úr bylgjunni, skella smjörinu ásamt örlitlu af salti þar í og mauka svo með töfrasprota. Setja svo kjötsósuna í eldfast mót, setja blómkálsmúsina þar ofan á og ef maður er í voða góðu skapi er gott að setja niðurrifinn ost þar ofan á. Hafa inni í ofni þar til allt er orðið gullið og fallegt og maður er að drepast úr hungri.

Ég spara hérna olíu með því að steikja laukinn upp úr örlítilli ólívuolíu. Ég set meira grænmeti en venjulegt cottage pie býður upp á. Aðallbreytingin felst náttúrulega í að breyta út kartöflum fyrir blómkál og minnka eða jafnvel sleppa ostinum. Þetta var voðalega gott og einfalt og dugði í tvo daga fyrir okkur tvö með smávegis salati. Dave reyndar vildi ekki kalla þetta cottage pie, vildi meina að þetta væri kannski frekar semi-detached pie.

sunnudagur, 12. ágúst 2012

Eftir laugardagshlaupið með hlaupahópnum mínum hef ég ákveðið að ég hef engan áhuga á langhlaupum. Ég er öll fyrir hraðann. Ég hljóp með Angie sem heldur vanalega um 5 mínútna hraða á kílómetrann. Hún hægði snarplega á sér til að ég gæti haldið í við hana og ég hljóp eins hratt og bústnir leggirnir gátu borið mig. 6 og hálf mínúta á kílómetrann og ég komst bara fjóra og gubbaði þegar við kláruðum en engu að síður þá var þetta besta og skemmtilegasta hlaup sem ég man eftir í langan tíma. Ég var öll uppveðruð og víruð þegar ég kom heim og er núna búin að ákveða æfingaplan sem miðar að hraðaaukningu frekar en vegalengd. Eftir að hafa fylgst með Ólympíuleikunum af miklum áhuga núna hef ég líka ákveðið að mér finnast spretthlaupararnir hafa til að bera þá hreystilegu líkamsbyggingu sem ég myndi vilja hvað helst líkjast. Hraustlegar og vænar.

"WREXHAAAM, WREXHAM, WREXHAM!!"
Ég var svo uppveðruð að ég ákvað að halda uppi íþróttaandanum og bauð Dave mínum á fyrsta fótboltaleik þessarar vertíðar, heimaleikur Wrexham á móti Woking. Ég hef ekki farið á The Racecourse Ground, heimavöll Wrexham AFC, síðan 2003 þegar ég horfði á Wrexham tapa 3-1 fyrir Macclesfield. Þá var Wrexham á uppleið, voru við það að komast upp úr annarri deild og allt lék í lyndi. Síðan ég sá þann leik þá hefur liðið fallið niður um þrjár deildir og spilar núna fyrir utan deild í Blue Square Premier og er nánast gjaldþrota. Það er þessvegna ekki skrýtið að hjátrúafullur knattspyrnuaðdáandinn Dave hafi sett mig í vallarbann. En eitthvað lá vel á honum í gær og hann samþykkti að ég tæki hann með á völlunn. Og í glampandi sólskini fylgdumst við, ásamt tæplega 5000 öðrum gallhörðum Wrexham aðdáendum, liðinu vinna sinn fyrsta leik á vertíðinni. Sjálf fylgist ég lítið með fótboltanum sjálfum, til þess er ég of upptekin við að syngja hástöfum. "Who are you? Who are you?" hrópum við að fámennum hópi stuðningsmanna Woking og bendum á þau í leiðinni. "OOOOOOoooooo you´re shit aahhhhhhhh" æpum við þegar markmaðurinn reynir að sparka boltanum frá markinu. "Three one to the sheepshaggers, three one the sheepshaggers" syngjum við með ánægju þegar við skorum og núum þannig ensku liðinu því enn meira um nasir að ekki nóg sé með að þeir séu að tapa heldur eru þeir að tapa fyrir Walesverjum. Fyrir utan allan hinn sönginn. Ég var hás þegar leik lauk.

Við fórum svo til mágkonu og svila og fengum grillmat og bjór. Ég drakk of mikið, var eitthvað kærulaus og í stuði og greiddi fyrir það með heilu kílói upp á við í morgun. En ef satt skal segja þá er mér eiginlega sama, ég skemmti mér of vel til að hafa áhyggjur af smáatriðum. Verra er að í dag er ég búin að halda kæruleysinu áfram, bauð strákunum mínum á Frankie & Bennie´s eftir keilu og nagaði þar heilan grís og súkkulaðiís í eftirrétt.

En ég hef engar áhyggjur. Ég er búin að sitja við í dag að gera markmiðin mín skýr fyrir sjálfri mér, og ég veit hvað ég ætla að gera næst. Skilmerkileg, mælanleg og innan seilingar. Mikið skemmtilegt framundan.

miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Ég er mikil listakona. Og þá á ég ekki við olíu á striga og batík heldur það að ég skrifa niður lista. Um eiginlega allt sem ég geri. Ég geri óskalista, og "að gera" lista, innkaupalista, gjafalista, æfingalista. Í strætó á leiðinni heim úr vinnunni geri ég lista yfir það sem ég þarf að gera þegar ég kem heim. Í vinnunni geri ég lista yfir það sem ég þarf að gera yfir daginn, ég geri lista fyrir vikuna, fyrir mánuðinn, fyrir árið. Ég geri lista yfir föt sem mig langar í, yfir bækur sem ég ætla að lesa, kíló sem ég ætla að léttast um.

Ég held ekki að þetta sé merki um skipulag og stálaga. Ég held frekar að ég sé að reyna að koma einhverskonar skikki á flækjuna sem eru hugsanir og tilfinningar mínar. Ég er nefnilega búin að fatta að þegar um lógík er að ræða er ég með allt á hreinu. Vandamálið mitt er að ég leyfi oftast tilfinningum mínum að ráða yfir lógíkinni.

Þannig liggur það í augum uppi að það er lítil lógík í að fá sér súkkulaðistykki klukkan sex, rétt fyrir kvöldmat. Lógíkin segir mér að ég hafi valkost. Ég get valið að fá mér súkkulaðið og tekið svo afleiðingum þess. Afleiðingarnar eru samviskubit (það er alveg sama hvað ég reyni, ég get ekki borðað súkkulaði án þess að fá samviskubit, til þess er skömmin bara of djúpgróin í mig), ásamt því að vita að það að borða súkkulaði færir mig ekki nær markmiðinu mínu. Hinn valkosturinn er að sleppa súkkulaðinu. Það myndi þýða stolt og gleði yfir að ráða við langanir mínar, það myndi færa mig skrefi nær markmiðinu og færa með sér almenna vellíðan. Eini ókosturinn er væg tilfinning um að ég þurfi að takmarka mig eitthvað smávegis.

Lógíkin segir mér líka að það sé eðlilegt ástand að takmarka sig eitthvað smávegis. Þannig myndi ég helst kjósa að fara ekki í vinnu, en eyða frekar deginum á kaffihúsi, eða við lestur eða í ferðalög. Að mæta til vinnu skapar takmörkun á því lífi sem ég vil lifa. En ég veit að ef ég fer ekki til vinnu þá fæ ég ekki útborgað og ég myndi ekki geta gert neitt af því sem ég vil. Þannig kýs ég að mæta í vinnu. Á sama hátt á ég að geta hugsað með mér í hvert sinn sem ég kýs að takmarka matarval mitt við það sem er hollt og gott að afleiðingarnar af því vali eru það góðar að takmörkunin verður smávægileg í samanburði.

Þetta meikar allt svo mikinn sens að annað eins hefur bara sjaldan sést á prenti. En eins og ég sagði áður þá er ég ekki að efast um lógikina. Lógíkin vefst ekkert fyrir mér. Mitt vandamál er að ég er að éta tilfinningar mínar. Og þær ráða oftast yfir lógíkinni. Það er hola inni í mér sem ég er að reyna að fylla. Það er eitthvað inni í mér sem segir að ég sé ekki nógu klár, nógu fyndin, nógu sæt, nógu sniðug, nógu dugleg, nógu góð. Og eins vitlaust og það er, eins öfugsnúið og það er þá reyni ég að fylla upp í þess vöntun með því að borða.

En með því að gera lista og skipulag og strika út það sem ég er búin að gera kem ég smávegis skikki á tilfinningarnar inni í mér. Með því að strika út atriðin á listanum fylli ég í holuna mína. Og læt sjálfa mig vita að ég sé nógu góð. Að ég sé nóg. Og smásaman get ég látið lógíkina taka yfir.

Ég er líka alls ekki ein um að búa til lista. Uppáhalds "to do" listinn minn kemur frá engum öðrum en Johnny Cash; "...cough, pee, eat, not eat too much..." Kannski að ég sé að flækja hlutina of mikið?...

sunnudagur, 5. ágúst 2012

Í heila viku er ég búin að nostra við, næra og hlúa að súrdeigsbyrjunardeiginu mínu. Ég skipti á því, passaði að nota bara trésleif til að hræra í því, mældi hitastigið í húsinu, talaði fallega til þess, hugsaði til þess á meðan ég var í vinnunni, lagði í það alla mína ást. En allt kom fyrir ekki og ég náði ekki að kveikja líf í því. Á laugardagskvöld var ekkert í skálinni nema sorgleg hveitiklessa.

Á sama hátt hef ég lagt allt mitt í mataræðið þessa vikuna. Skrifaði upp matseðil, fylgdi honum af kostgæfni, vigtaði, taldi og mældi. Eldaði af áhuga, ástúð og innlifun, hugsaði og pældi. En allt kom fyrir ekki, ég var 93.3 kíló í morgun, sem er það sama og ég var síðasta sunnudag.

Séð aftan á pramma siglandi eftir Ponctysyllte Aquaduct
Ég gerði eins mikið og ég gat hvað líkamsrækt varðar, ég hljóp á þriðjudag og hitti hlaupahópinn minn á laugardagsmorgun og hljóp með þeim. Ég skemmti mér konunglega við það og ég var glöð og þakklát fyrir að hafa fundið þetta fólk til að deila ánægjunni við að hreyfa sig með þeim. Ég fór svo með strákana mína í ægilega fjallgöngu upp á Pontctysyllte Aquaduct. Það er hægt að ganga yfir hana meðfram skipaskurðinum og horfa yfir alla sveitina. Þetta var svakalega skemmtilegt og fallegt og aðeins lengra en strákarnir mínir eru vanir að fara þannig að ég var voðalega stolt af þeim. Við lentum svo í úrhellisdembu á leiðinni tilbaka og komum heim þannig að það var ekki þurr þráður á okkur. Ég lagði allt mitt, allt sem ég átti aflögu í að hreyfa mig þessa vikuna. Engu að síður þá hljóp ég hægt þegar ég hlóp og það var erfitt og ég þufti að taka á öllu mínu til að gera það sem ég gerði og ég get varla labbað núna fyrir sársauka í hnénu.

Og hvað er best að gera? Jú, ég ætla að setja í nýtt súrdeig, ég ætla að fara yfir hvað ég gerði og hverju ég get breytt til að reyna að kveikja líf í lögnum. Svo ætla ég að þétta aðeins matseðilinn og vigta aðeins meira og telja aðeins betur. Ég ætla líka að gera nýjar æfingar í þessari viku. Ég ætla að leyfa hnénu að jafna sig og gera því meira af vöðvaæfingum.

Ég er engin hveitiklessa neitt.