miðvikudagur, 15. ágúst 2012

Það er voðalega sniðugt að elda mat sem dugar í marga daga. Þá þarf maður bara að hita upp aftur og aftur og sparar sér þannig mikilvægan tíma sem nota má til að hlaupa eða henda til ketilbjöllum eða skipta um á rúmunum eða tala við barnið sitt eða kela við manninn sinn eða lesa bók eða fleygja sér eða íhuga málin eða jafnvel stoppa í sokk eða tvo. Það er margt sem má gera við tímann.

Eiginmaður minn er Breti og þykir því að sjálfsögðu breskur matur voðalega góður. Ég geri stundum vel við hann og elda eitthvað breskt. Í fyrradag var það "Cottage pie". Cottage pie er nautahakk steikt með lauk og gulrótum og Worcestershiresósu og svo er kartöflumús sett ofan á hakkið og allt bakað í ofni í smástund. Mér þótti fínasta mál að búa þetta til handa honum þar sem rétturinn hentar sem tveggja máltíðamatur ásamt því að bjóða upp á möguleika á að endurbæta hann með heilsuna í huga.

500 g nautahakk
2-3 gulrætur
1 stór laukur
5 stórir sveppir
tvær vænar lúkur af spínati eða kale
1 hvítlauksgeiri
1 dós tómatar
1 msk worcesterhsiresósa
1 nautateningur
1 msk tómatkraftur
rúm tsk timjan
salt pipar
1 msk kartöflumjöl
1 msk vatn

1 haus blómkál
1 tsk smjör
salt

Steikja smátt skorinn lauk og smátt skornar gulrætur á pönnu þartil laukur er gullinn. Setja hakk á pönnuna og steikja þar til brúnt. Setja sneidda sveppi og marinn hvítlauk út í og steikja aðeins. Hella tómatdós, tómatkrafti, nautateningi, worcestershire, timjan og salt og pipar og láta bubbla aðeins. Hræra vatni og mjöli saman og hella svo út á pönnuna og láta þykkna aðeins. Á meðan kjötið mallar er sniðugt að skera blómkálið í búta, setja í skál, setja plast yfir og inn í örbylgju í sjö mínútur. Taka það svo út úr bylgjunni, skella smjörinu ásamt örlitlu af salti þar í og mauka svo með töfrasprota. Setja svo kjötsósuna í eldfast mót, setja blómkálsmúsina þar ofan á og ef maður er í voða góðu skapi er gott að setja niðurrifinn ost þar ofan á. Hafa inni í ofni þar til allt er orðið gullið og fallegt og maður er að drepast úr hungri.

Ég spara hérna olíu með því að steikja laukinn upp úr örlítilli ólívuolíu. Ég set meira grænmeti en venjulegt cottage pie býður upp á. Aðallbreytingin felst náttúrulega í að breyta út kartöflum fyrir blómkál og minnka eða jafnvel sleppa ostinum. Þetta var voðalega gott og einfalt og dugði í tvo daga fyrir okkur tvö með smávegis salati. Dave reyndar vildi ekki kalla þetta cottage pie, vildi meina að þetta væri kannski frekar semi-detached pie.

Engin ummæli: