þriðjudagur, 31. maí 2011

Það var bank holiday eða almennur frídagur hér í Bretlandi í gær. Og samkvæmt venju þá rigndi hér allan daginn eins og bara getur rignt hér í Wales. Við ákváðum að stússast bara hér heima við, ég hef ekki þrifið húsið svo vikum skiptir og fannst upplagt að gera það og Láka langaði til að raða upp Star Wars köllunum sínum á hillu svo þeir væru allir fínt til sýnis. Hann er að verða eðal nörd eins og pabbi sinn. Og svo bað hann mig um að baka með sér súkkulaðiköku. Það er athöfn sem við höfum bæði voðalega gaman af, ég spila ekki með honum tölvuleiki og hef takmarkaða þekkingu á Star Wars; pabbi sér um þær deildir. En við getum hoppað og klifrað, við byggjum Lego og við bökum kökur. Og dagurinn fullkominn til þess, hellidemba úti, allt húsið hreint og fínt, Dave upptekinn við að fylgjast með Swansea reyna að komast inn í Úrvalsdeildina, eðal aðstæður til að eyða gæðatíma saman í eldhúsinu. Ég hikaði nú samt dálítið. Ég tók nammidaginn minn á sunnudaginn, borðaði ammrisku smákökurnar mínar og fékk vel góðan skammt af söltuðum pístasíu-hnetum. Það var svo sannarlega ekki súkkulaðikaka á planinu. Ég veit líka hvernig Láki "borðar" súkkulaðiköku, hann fær sér sneið á disk, rífur hana í sundur og sleikir kremið. Og lætur þar við sitja. Sem þýddi að hér myndi vera heil súkkulaðikaka fyrir greyið Dave að berjast við og fyrir mig að langa í. En svo hugsaði ég með mér að hvaða fútt væri í þessu ef ég þyrfti ekki að standast smá freistingar? Það væri nú lítið varið í að segja sögu mina ef ég hefði ekki nokkrar sögur líka sem lýstu því hvað ég var dugleg að berjast? Lítið gaman að segja frá að þetta væri bara ekkert mál. Ég get ekki hugsað mér að gefa upp á bátinn þetta sem við Láki deilum í eldhúsinu, guð veit að hann verður örugglega orðinn unglingur sem nennir ekki að púkka upp á mömmu sína áður en ég veit af. Þannig að ég skellti í köku með honum, horfði á hann sleikja sleif og skál og skreyttum svo með kremi. Horfði svo á hann og Dave fá sér sneið og setti svo í ruslið sneiðina hans Láka. Andaði að mér súkkulaðigufum allan daginn. Og setti kökuna svo í stamp og sendi í vinnuna með Dave. Þetta gerði ég allt saman með smá herping í maganum og með viðstöðuvöðvann þaninn svo klukkutímum skipti. En ég á líka núna fallega minningu með syni mínum og  þegar ég vaknaði í morgun og gat ég klappað sjálfri mér á bakið. Mikið er ég dugleg. Hann skilur nefnilega eftir sig miklu betra bragð í munninum sigurinn en súkkulaðið.

mánudagur, 30. maí 2011

Tilraunadagurinn í eldhúsinu fór svona líka vel. Ég bjó til nokkuð af nýjum réttum og eyddi deginum í endalaust smakk, varð aldrei svöng allan daginn út af stanslausu narti hingað og þangað. Sem er kannski ekki alveg það sniðugasta.

Fyrst á listanum voru amerískar smákökur. Svona risastórar, stökkar utan með en seigar í miðjunni smákökur. Þær eru vanalega búnar til með gommu af smjöri og púðursykri til að ná þessari djúsí, seigu áferð. Ég ákvað að mínar gætu ekki verið þannig alveg vegna þess að mig langaði til að skipta út hveiti fyrir hafra, og þar með er áferðin strax orðin önnur. Og þær urðu ekkert eins og ammrískar smákökur. En rosalega góðar engu að síður. Ég á náttúrulega þennan pálmasykur og hann er fullkomin staðgengill fyrir púðursykur. Smjörið vafðist ekki lengi fyrir mér; kókósolía. Mér finnast bestar svona súkkulaðibitakökur og ákvað því að i þær færu smávegis af svarta súkkulaðinu mínu. Það er sykurlaust og geðveikt í allan bakstur. En eiginlega óætt eitt og sér. Ég hripaði niður hugmyndina og sá að þetta var allt saman að smella saman á blaði. Ég ákvað svo að setja nokkrar rúsínur til að gera þetta sætt.

1 og 1/4 bollar hafrar
1/4 bolli heilhveiti
3/4 tsk salt
3/4 tsk lyftiduft
1/ tsk matarsódi
2 góðar mtsk kókósolía í föstu formi
1/3 bolli pálmasykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
1 kubbur Baker´s unsweetened súkkulaði
lófafylli af rúsínum.
Allt þurrt sett í skál. Sykur og kókosolía hrærð saman og svo eggið og vanillan út í það. Sett saman við þurrt og svo sex lummum skellt á bökunarpappir og bakað við 180 g  í svona 15 mínútur þar til gullið. Mér fannst þetta hrikalega gott. Næst ætla ég reyndar að sleppa rúsínunum, þær eru óþarfi. Og ég ætla að bæta við hnetum. Það vantaði. Ekki má ætla að hér sé heilsufæði á ferðinni, þetta er sneisafullt af hitaeiningum en næringarefnin skárri en í venjulegum smákökum og maður afsakar sig þannig.

Á meðan að ég gerði þetta endurbætti ég morgunverðar gulrótarkökuna mína þannig að núna er hún fullkomin. Bæði orðin hollari og einfaldari í meðhöndlun.

250 g hafrar
50 g heilhveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk sódi
1/4 tsk salt
næstum mtsk kanill
rúmur hálfur bolli af sojamjólk hrærð saman við náttúrulega jógúrt
2 mtsk matarolía
mtsk hlynsýróp
1 egg
1 tsk vanilludropar
2 þroskaðir bananar
2 raspaðar gulrætur
góð lúka af rúsínum, (hálfur kubbur af Baker´s unsweetened chocolate.Ef maður er í góðu skapi)

Blautt maukað, þurrt út í blautt, bara rétt að blanda saman, ekkert hræri vesen, í sílikón form inn í ofn í alveg 40 mínútur. Skera í 12 sneiðar og borða 2 í morgunmat.

Quinoa eplakakan tókst líka ágætlega. Setti hana reyndar í vitlaust form og þarf að gera hana aftur í réttu formi. Ég var búin að sjá þessa hugmynd að baka upp úr soðnu quinoa á nokkrum grænmetisætu bloggsiðum en notaði uppskrift frá Anja´s food 4 thought sem byrjunarreit. Breytti þangað til ég var ánægð. Ofan á kökunni er svo svona "streusel" sem ég er lengi búin að vera að mauka við að hanna til að setja ofan á haframúffurnar mínar og er núna loksins orðin ánægð með.


1/4 bolli hafrar
1/2 bolli heilhveiti
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tks sódi
1 tsk kanill
1/4 tsk salt
2 góðar mtsk pálmasykur
3 mtks sólblómafræ
1 stórt epli, raspað gróflega niður
1 mtsk kókósolía
1 bolli soðið quinoa
1 tsk vanilludropar

"Streusel"
1/4 bolli grófir hafrar
1 tsk kanill
rúm tsk pálmasykur
1 tsk kókosolía         Allt mulið saman.

Epli, kókósolíu, quinoa og vanilla blandað saman og svo út í þurrt. Sett í lítið sílíkón form. Ég notaði ferkantaða mótið mitt en næst ætla ég að nota brauðformið. Svo er streusel dreift ofan á og bakað í 40-50 mín við 180 g.

Ég bjó svo til rosalega góðar kjúklingabaunir sem henta bæði heitar sem meðlæti og kaldar sem aðalatriði í salat. Ég setti á pönnu smá olívuolíu, balsamic edik, sinnepsslettu og hunang. Dós af kjúklingabaunum og smá vatn og paprikukrydd. Leyfði þessu svo bara að malla aðeins áður en ég setti gommu af spínati og lét það malla niður. Bar þetta fram með fiskbita. Og er búin að prófa núna kalt á salat. Bæði alveg hrikalega gott. Er líka að prófa mig áfram með að nota bygg (barley) í staðinn fyrir pasta og grjón í salat og súpur. Það lofar allt góðu.

sunnudagur, 29. maí 2011

Bújakasja! 88 kíló bæði í gærmorgun og í dag. Það eru 3 kíló í mínus þessa vikuna. Það finnst mér nú skemmtilegt. Og þá er bara 1.2 kíló eftir af prófstresskílóum og ég er aftur komin af stað.

Að öðru leyti er ég voðalega fegin að í dag er sunnudagur og ég æfi ekki á sunnudögum. Ég fór nefnilega í ræktina í gær og átti þar stefnumót við einkaþjálfara. Það fylgdu með í byrjendatilboðinu þrjár æfingar með þjálfara. Ekki það að ég hafi neinn áhuga á að láta þá búa til fyrir mig plan eins og boðið er, ég er hæst ánægð með planið sem ég fylgi núna, en mér datt hinsvegar í hug að það væri kannski sniðugt að gera æfingarnar með þjálfaranum, láta hann kommenta á formið mitt og svo að láta hann kenna mér varaæfingar fyrir þau skipti sem ég kem í ræktina og lóðin eða tækið sem ég ætla að nota er upptekið. Hann var hæst ánægður með þetta, enda minni vinna fyrir hann, og við fórum í gegnum æfinguna saman. Ég er búin að gera allar mínar líkamsæfingar ein hingað til. Og ég fæ oft hrós fyrir dugnaðinn að gera þetta svona bara sjálf.  Og ég tók því hrósi alltaf og þakkaði fyrir mig enda fannst mér ég alltaf keppa heilmikið við sjálfa mig og ég var sannfærð um að ég ýtti mér alltaf að endamörkum. Ég þarf ekki á neinum að halda til að þrýsta mér áfram. En svo kom í ljós í gær að svo er ekki. Í hvert sinn sem ég ætlaði að hætta og hann sagði :"I´m sure you can do another one" eða "are you sure you can´t set the weights heavier?" þá gerði ég eins og hann sagði. Og ég gat það alltaf. En það verður líka að segjast að eftir æfinguna vegna áreynsluskjálfta í öllum líkamanum gat ég líka varla labbað yfir í Waterworld þar sem Láki var að fara í sundtíma og ég er með harðsperrur alltstaðar í dag. Þar með talið á augnlokum. Og ég hef eitthvað beytt bakinu vitlaust í rúmensku lyftunni þvi það er bogið og kreppt í dag. Keppnisskapið er svo gríðarlegt að ég er frekar tilbúin til að vinna mér skaða en að segja stopp. Og þessvegna ætla ég að eyða deginum í rólegheitum í eldhúsinu.  Mín bíða tilraunir með kjúklingabaunir, eplaköku bakaða úr quinoa og heilsusamlegar ammrískar smákökur. Smjör, smjör, hvað í veröldinni kemur í smjörs stað?

fimmtudagur, 26. maí 2011

Ég ætla að gefsast upp á leitinni að hollum sykri. Nýjasta tilraunastarfsemin fólst í "palm sugar" eða sykri unnum úr kókóspálmatré. Þessi sykur er mest notaður í asíska matargerð og nú er ég svo lukkuleg að Wrexham verður stanslaust menningarlegri og nú höfum við hér sérverslun með asískar matvörur. Það er af  sem áður var þegar ég fyrst kom hingað og hér var ekki einu sinni kaffihús. En það er önnur saga. Ég var i fyrstu ægilega spennt og hélt að ég hefði fundið hér heilaga graleikinn. Sykurinn er nánast ekkert unninn og minnir því meira á hrásykur eða púðursykur. Og ég held að hér fari næsta tískumatvaran. Kókóssykur er seldur bæði hreinn og svo er lika hægt að kaupa hann blandaðan saman við hvítan sykur. Það er það fyrsta sem maður þarf að vara sig á. Hitt er svo að hreinn kókóssykur er betri næringarfræðilega séð en venjulegur sykur. Maður fær stein- og snefilefni úr honum. Svo er hann líka rosalega bragðgóður, dýpt og tónar sem ekki fást í venjulegum sykri og hann er "low glycemic" sem á að þýða að hann fer hægt út í blóðstreymi og skapar ekki svona ris í blóðsykri. Að auki er framleiðslan á honum lífvænleg (sustainable), sem er gott fyrir umhverfið. En engu að síður þá er kókóssykur að upplagi mest súkrósi og glúkósi,  sem sagt sama uppbygging og hvítur sykur. Ég á dós af honum og hef í hyggju að prófa mig áfram með nokkrar uppskriftir um helgina en það má sko aldrei missa sjónir á að sykur er sykur er sykur er sykur. Og það er allt sem þarf að vita.
BURPEE!
Og ég guggnaði á ræktinni í dag. Æfing dagsins innihélt meðal annars stökk mikið sem kallast froskahopp eða "burpees" á engilsaxnesku. Maður hoppar í einskonar armbeygju stellingu á gólfið og stekkur svo upp (hæð sína í fullum herklæðum) og svo þaðan aftur í gólfhopp. Og svo framvegis. Ég hreinlega gat ekki hugsað mér að gera þetta fyrir framan fólk. Ég sá fyrir mér bolinn flettast upp fyrir yfirmaga við hvert stökk og hvernig hvítt spikið myndi þá vella yfir joggingbuxnastrenginn. Þetta voru ljótar hugsanir um sjálfa mig. En suma daga er maður með ljótuna og verður bara að vinna með því. Eitthvað var ég líka lítil inni í mér í morgun og ákvað að ég myndi bara gera settið hér heima. Þurfti aðeins að aðlaga eina eða tvær æfinganna og endaði á að hanga öfug á borðstofuborðinu í tilraun til að búa til smith vél en að öðru leyti fór þetta ágætlega fram. Ég held líka að það hafi smávegis angrað mig tilhugsunin um að kannski gæti ég ekki hoppað svona. Ég er ekki byggð til að skoppa um. Hvað ef ég stæði ein og óvarin á miðju gólfi fyrir framan hundrað manns og reyndi að hoppa og ég hreinlega myndi ekki takast á loft? Það þótti mér vandræðaleg tilhugsun. En svo enn og aftur kom ég sjálfri mér á óvart og það eina sem stoppaði mig í að hoppa enn hærra var lofthæðin í litla húsinu mínu. Mikið var þetta ánægjulegt. Hoppsasa.

þriðjudagur, 24. maí 2011

Ég man þegar ég kom fyrst inn í likamsræktarstöð. Ég var nánast lömuð af skelfingu þetta var mér svo framandi. Þar inni var fólk sem talaði nánast annað tungumál en ég, leit að sjálfsögðu allt öðruvísi út en ég og  hafði allt aðrar skoðanir á hvað væri mikilvægt í lífinu. Ég er náttúrulega svo sjálfhverf að ég fékk hland fyrir hjartað við tilhugsunina um að þetta ljósabekkjabrúna eróbikklið myndi annað hvort benda á mig og hlæja eða benda á mig með fyrirlitningu; "hlussa! út með ´ana!" En svo er bara þannig að þegar í rækt er komið eru voða fáir eitthvað að spá í hinum í kringum sig, maður er mestmegnis með hugann við sig sjálfan.

Ein af búbótunum við vinnuna mina var ræktin sem henni fylgdi. Það var svo þægilegt að hafa hana svona rétt við vinnustaðinn og svo var hún frekar ódýr. Svo þegar vinnutíminn breyttist breyttust allar mínar forsendur, ég komst ekki á morgnana og þar með datt aðeins botninn úr þessu hjá mér. Ræktin er pínkulítil og það var orðið bölvað vesen að berjast um lóðin við alla hina sem lyfta eftir vinnu. Svo um daginn kom tilkynningin að það ætti að loka. Og ég þurfti því að gera það sem ég hefði átt að gera fyrir nokkru síðan; finna mér stóra rækt með öllum græjum.

Ég fann aðeins fyrir þessu "fyrsta skipti" stressi við að fara í nýju ræktina. Hún er stór og þar eru fullt af svona mjóum stelpum sem virðast ferðast saman í flissandi hópum. Sjálfsagt allar á leið í zumba eða spinning eða eitthvað svoleiðis. En ég er alltaf ein eitthvað að dútla í þessu. Ég stika að sjálfsögðu beint að lóðunum. Þar eru bara strákar. Flestir mjóir strákar að reyna að byggja sig upp og einn og einn svona vöðvabolti. Ég uppsker eitt og eitt augntillit en að mestu leyti gera þeir bara það sama og ég; horfa á sjálfa sig í speglinum. En þetta er líka smá stressandi. Við lyftingar getur maður ekki falið síg aftast í hópnum,  það er ekkert skjól. Ég er enginn byrjandi og ég veit hvað ég þarf að gera til að ná árangri og ég er tilbúin til að stíga aðeins út úr "comfort zone" til að ná þeim árangri. Og ég stikaði mér því út stað, náði mér í lóð og byrjaði að lyfta. Og gleymi öllu í kringum mig, bara ég og vöðvar og sviti. Mér datt svo í hug þegar ég var á leiðinni heim að það að spóka mig á meðal strákanna er ekkert mál. Það er kannski kominn tími til að ég prófi að fara í zumba með mjóu stelpunum; það væri sko að fara út úr comfort zone.

mánudagur, 23. maí 2011


Alveg brjáluð!
 Ég náði að verða 86.8 kíló sem er það léttasta sem ég hef verið í fimmtán ár eða svo núna í lok apríl. Og tók svo upp frá því trekk í trekk alveg hreint frámunalega lélegar ákvarðanir. Ég ætla ekki að afsaka mig. Ég hef í raun engar afsakanir. Það eru nefnilega engar slíkar til. Annað hvort er þetta hér það sem maður gerir, eða maður er bara eitthvað að fokka úti í horni. Ég nenni þessu fokki ekki lengur. Og ég nenni ekki að reyna að skilgreina þetta heldur. Þetta er ósköp einfalt; ég borðaði of mikið og hreyfði mig ekki nóg og leyfði sjálfri mér að trúa því að einn dagur í viðbót  þar sem ég tæki lélegar ákvarðanir væri allt í lagi. Það eru núna 17 kíló í pottinum og ég hef ekki í hyggju að láta þau eitthvað veltast hér um. Ég ætla því að byrja hér með upp á nýtt. Ég get ekki verið með eftirsjá eða móral yfir því sem ég ákvað sjálf að gera. Ég nenni heldur ekki að berja höfuðinu upp við vegg. Það eina sem ég get gert er að gefa sjálfri mér get out of jail card, frítt spil og byrjað aftur á byrjunarreit. Erase and rewind. Ég var 91 kíló í morgun. Og þannig hefst dagur númer eitt.

sunnudagur, 22. maí 2011

Áttavillt hjón heima hjá JP og Ó.
Það þykir nú heldur betur lukkulegt þegar örlögin skaffa manni förunauti í lífinu. Og einhvern vegin finnst mér eins og að lukkuleg sambönd hafi innanborðs aðila sem eru að mestu leyti líkir og sammála um hvernig hlutirnir eigi að vera en að einhverju leyti séu þeir líka ólikir og þá helst til að bæta hvorn annan upp. Þannig erum við Dave sammála um helstu málefni, um hvernig maður á að haga sér sem manneskja og við höfum gaman af því að gera sömu hlutina. Við erum líka eina fólkið sem ég þekki sem eru með 70 millimetra á milli augasteina og ég get því horfst í augu við hann einan manna. Mjög hentugt. Og rómantískt. Og svo greinir okkur á um hvernig maður eyðir peningum, ég er af alíslenskum "þetta reddast" skóla á meðan hann er varkár og varfærin með fjármuni. Og þar hjálpum við hvoru öðru: hann heldur í við mig á meðan ég sannfæri hann um að suma hluti verður bara að eyða pening í til að njóta lífsins. Ég er óbilandi bjartsýnisdýr; hann sér svartnætti eitt. Þegar við leggjum það saman og deilum í tvennt komumst við oftast niður á ásættanlega útkomu. Eitt er þó vandamál sem örlagadísin fór alveg með þegar hún úthlutaði okkur hvoru öðru. Í öllum samböndum sem ég veit af er annar aðilinn það sem kallast "navigator" eða lóðsari. Annar aðilinn er með innbyggðan skilning á áttum og vegakortum og hvernig landið liggur. En við Dave erum hvorugt þannig. Við erum bæði gersamlega áttavillt.Við erum tvisvar sinnum búin að reyna að finna þorp hér rétt fyrir utan Wrexham sem heitir Tattenhall og tvisvar höfum við komið aftur heim án þess að finna staðinn. Við keyrðum einu sinni um með mömmu og pabba í baksætinu í leit að veitingastað sem ég hafði komið á áður en urðum frá að snúa vegna þess að við fundum ekki. Við höfum aldrei komist beint á flugvöllinn í Manchester. Við tökum alltaf einn aukakrók. Hafa ber í huga að það er bein leið frá Wrexham til Manchester. Það var þessvegna auðvitað bráðskemmtilegt að keyra frá Wrexham til Leicester á laugardagsmorgun þar sem háskólinn minn er. Þangað þarf maður að fara suður og svo sveigja í vestur. Maður fer framhjá Birmingham og í kringum Coventry áður en maður kemst til Leicester. Við tókum að sjálfsögðu rúnt um miðbæinn í Birmingham og skoðuðum Solihull smávegis áður en við komumst til Leicester. Sem vanalega hefði verið gaman en þegar rúntinum var bætt við prófstress var mér eiginlega nóg um. Ég tilkynnti manninum að það væri núna bara tvennt í stöðunni. Annaðhvort skiljum við og ráfum um áttavillt i sitthvoru lagi eða annað okkar tekur það á sig að verða lóðsari. Hann var fljótur til að sanna ást sína og keypti handa mér þetta líka forláta kort af vegakerfinu á Bretlandseyjum. Ég er núna búin að stika út leiðina til Tattenhall. Geri fastlega ráð fyrir að enda í Carlisle.

fimmtudagur, 19. maí 2011

Ég var heima í dag að læra fyrir próf. Byrjaði daginn klukkan 7 í morgun á 24 mínútna spretthlaupum. Svo hófst lestur og  þurfti ég því að fóðra heilann með nokkuð reglulegu millibili. Þetta er nokkuð venjulegur matardagur, eini munurinn er að ég fékk betra kaffi og gat borið fram á diskum. Í vinnunni fer ég með þetta með mér í plastdöllum.

Morgunmatur. Grískkrydduð (mynta, oregano, ólífur) hvítuommiletta og gulrótahafraka. Gott kaffi.

Millisnarl. Hrágrautur (jumbo hafrar í sojamjólk) með grískri jógurt, hind-og bláberjum og smá kókos.

Hádegismatur. Einfalt kjúklingasalat með papriku meze og hálfri grófri beyglu með fitulausum rjómaosti.

Eftirmiðdegishressing. Prótein frappucino.

Kvöldmatur. Moussaka búið til úr afgöngum.

Kvöldsnarl. Hvítupönnukaka með kanil, grískri jógúrt, ristuðum pekanhnetum, sykurlausu sýrópi og smá svindli; 1/3 lítill banani.

Ég á eftir að massa þetta próf. Það er alveg á hreinu.





miðvikudagur, 18. maí 2011

Það hefur reynst afskaplega erfitt að kenna Láka að tala íslensku. Ég hef allt frá upphafi bara talað íslensku við hann, lesið bækur og reynt að láta hann hlusta á tónlist og myndefni. En allt fyrir ekki, þó hann skilji vel flest þá verður það alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem enski orðaforðinn hans eykst og ég næ ekki að halda í við hann. Enska virðist vera tungumál sem "tekur yfir" og í ofan á lag þá finnst mér eins og það að hafa ensku að fyrsta tungumáli skemmi einhverja heyrn sem greinir hljóð eins og nn í einn og ll í drulla. Það kemur í ljós að það að hafa bara mig eina er ekki nóg til að læra tungumál. Að hafa mig eina sem málsvæði dugar ekki til. Ég hef líka þrýst dálítið á hann og hann þrjóskast við; honum finnst tungumálið erfitt og nú er þetta orðið að svona smá baráttu. Ég varð þessvegna ekkert nema glöð þegar hann bað mig í gærkvöld um að kenna sér að blóta á íslensku. Hér ríkja strangar reglur um hvað má og má ekki segja og hann er búinn að reikna út að "bad words" eru spennandi. Og datt í hug þetta líka þjóðráð til að komast í kringur reglurnar að læra bara að blóta á íslensku. Og ég gat ekki annað en kennt honum. "Hevvíddis!" "Djöööössins!" sönglaði hann hástöfum fyrir sjálfan sig. "Heeeeellvvíidddis, heelvvíiddis" og hló mikið rosalega. "I´m going to teach all the kids in my class" sagði hann svo og hló, helvíddis. "Þetta er öðruvísi á íslensku!" hvein í mér þegar eiginmaðurinn vildi fá að vita hvað mér gengi til. "Hann verður að læra þetta einhverstaðar!" Hurðarlaust helvíti, er þetta ekki hluti af þjóðararfinum, tungumálið? Móðurmálið? Það eina sem við Íslendingar eigum? Það hefði ég nú haldið!

þriðjudagur, 17. maí 2011

Ég þrýsti saman herðablöðunum, legg stöngina yfir þau, stíg skref aftur á bak og sest svo á hækjur mér og stend svo aftur upp. Allir vöðvar líkamans þandir til hins ýtrasta og um heilann flæðir vellíðan; engin hugsun, bara vellíðan. Ég hækka aðeins í i-pod og eyk hraðann þar sem ég hleyp, set aðeins í axlirnar þegar ég fer upp brekkuna hjá Maes-Y-Mynnydd og finn hjartað pumpa hraðar; engin hugsun, bara vellíðan. Líkami minn er skapaður til að hnykla vöðva. Hjartað á að pumpa. Þetta er eins og að komast á fætur eftir veikindi. Maður er búinn að liggja í rúminu í nokkra daga, svitna og kólna til skiptis, eins og veikburða kettlingur. En þegar manni fer að líða betur og fer í sturtu og svo í hrein náttföt, þykka sokka og setur nýtt á rúmið líður manni eins og nýrri manneskju. Þannig líður mér núna. Eins og ég sé að standa upp úr veikindum. Líkami minn veit hvað honum er fyrir bestu, hann vill bara fá hollan og góðan mat sem styrkir og nærir. Hann vill fá að hreyfa sig, beygja og sveigja. Ég er enn í vímu eftir ræktina i kvöld. Ég er að uppskera því sem ég hef sáð. Og ég hef í hyggju að leggja enn meira í þetta núna. Ég veit nefnilega af reynslu að því meiri alúð sem ég legg í hverja æfingu, í hvert hlaup, í hvern matmálstíma, uppsker ég enn meira af góðgætum.

Ég er með plan, og planið virkar. Djöfull sem það svínvirkar.

sunnudagur, 15. maí 2011

Alltaf skiptist þetta í skin og skúri hjá mér. Ég féll á konunglegan hátt á Júróvisjónkvöldið. Sko svo um munaði. Á svo glæsilegan hátt að bara fitubolla sem er fitubolla í hjartanu myndi skilja. Svona þegar maður borðar þangað til að maður fær verk í rifbeinin. Þegar maður heldur áfram löngu eftir að maður er hættur að finna bragð. Ég ákvað að skipta á nammidegi út af júróvisjón og baka pizzu. Og borðaði fimm stórar sneiðar. Með tómatsósu. Svo fékk ég mér þrjár lúkur af Nóa kroppi og tvær lúkur af Sambó lakkrís. Og ég þurfti að handleggsbrjóta Dave til að fá nammið enda hafði ég falið honum það verkefni að geyma það þar sem ég vissi ekki af því. Og svo þegar ég var búin að því þá fékk ég mér Ben & Jerry´s cookie dough ís. Eitthvað ruglaðist ég í kollinum þegar ég var úti í Co-opi fyrr um daginn og féll fyrir "buy 1 get 1 free". Eða var búin að ákveða að ég væri ekki í skapi til að berjast. Hvað svo sem kom til þá verður að viðurkennast að þetta er mjög tilkomumikið át. Verst að ég fæ engin verðlaun fyrir að klára matinn minn. Þetta allt gerist á sama degi og ég fann nýja rækt. Sem ég er svo spennt yfir að ég hoppaði upp og niður af spenningi fyrr um daginn. Hvernig er hægt að samræma þessa hegðun? Hopp af spenningi yfir nýjum lóðum og sjúklegt ofát? Ég varð bara smávegis rugluð í kollinum þegar ég reyndi að hugsa um þetta hegðunarferli. Og hreinlega komst ekki að neinni niðurstöðu. Svona er þetta bara; maður er á fljúgandi siglingu svo bara plúpp! og maður er dottinn um koll. Engin sérstök ástæða. Og þið kunnið predikunina sem hér kemur... bara dusta af sér og halda ótrauð áfram. Allir með þetta á hreinu? Gott.

Fór í kynningu í nýju ræktina í morgun, lyfti af gríðarlegum krafti og vann úr ofátsfráhvörfum með því að búa til skotheldan matseðil og versla inn í hann. Svo verð ég bara að takast á við þessa viku eins vel og ég get. Ég er enn í stresskasti fyrir þetta helvítis próf og líður voðalega illa inni í mér akkúrat núna. Einhvern vegin er hjartað ekki með í lífstílnum þó svo að líkaminn sé á sjálfstýringu og gerir það sem gera þarf sjálfkrafa. Ég ætla bara að treysta á þennan autopilot inni í mér á meðan heilinn undirbýr markaðsáætlanir og viðskiptalíkön. Svo held ég að það sé tími til að stoppa aðeins og skoða hvað ég tel að sé mikilvægt í lífinu. "Hvernig er það nú Svava Rán mín," ætla ég að spyrja sjálfa mig. "Ertu ekki með 85 kíló, og svo 80 og svo 75 í sigtinu? Sambó lakkrís, Ben og Jerry og að vera illt inni í sér hafa sjaldan skilað þeim árangri. Er ekki kominn tími til að stika í áttina AÐ markmiðunum, frekar en FRÁ þeim?"

laugardagur, 14. maí 2011

Jú, tvö kíló í plús og haggast ekki. Og það þrátt fyrir afar takmarkaðan matseðil þessa viku, lyftingar og hlaup. Fer bara næst, ekki ætla ég að eyða tíma í að hafa áhyggjur af þessu, hef nógar áhyggjur af öllu öðru. Ekki hafði ég reyndar áhyggjur af kvöldmat í gær, ljómandi góður matur sem þetta var og gaf mér gleði í bæði hjarta og maga. Kjötbollur í sveppa-tómatsósu með hvítlauks og parmesan blómkálspasta á spínatbeði. Þarf ég að fara að finna upp meira grípandi nöfn?

Kjötbollur eru voða einfaldar að gera, og hægt að gera einfaldari eða flóknari eftir tíma og vesenisgeni. Ég bleyti smá brauð í mjólk og mauka það svo saman við kalkúnahakk ásamt eggjahvítu, hægsteiktum lauk, ólívuolíu, oregano og salti og pipar. Mynda bollur og baka í ofni áður en ég set á pönnu með steiktum sveppum, papriku,lauk og tómatdós, kryddi og smá kartöflumjöli til þykkingar. (Eða bara Dolmío krukku). Og læt malla. Spínatbeð hljómar voðalega flókið en ég tek bara tvær lúkur af spínati og legg á disk. Ekki flóknara en það. Svo raspaði ég niður hálfan blómkálshaus, setti 2 tsk ólífuolíu á pönnu, hitaði í henni 2 maukaða hvítlauksgeira og setti svo blómkálið þar út í og steikti til í svona 5 mínútur. Matskeið af parmesan og ég komin með þetta líka fína "pasta" með kjötbollunum. Buon appetito!

föstudagur, 13. maí 2011

En skrýtið? Síðasti pistill virðist hafa bara horfið? Ekki er hægt að segja það sama um mig. Íslensku kílóin haggast enn ekki enda hafa þau núna breyst í stresskíló. Þrátt fyrir að hafa farið beint aftur í holla lífshætti virðist það ekki hafa nein áhrif núna. Þetta eru viðbrögð sem líkami minn virðist sýna við svona miklu álagi; hann rígheldur í pund, únsur og kíló. Ég er meira segja of stressuð til að hafa áhyggjur af þessu. Þá er nú mikið sagt, vanalega væri ég kjökrandi af hugarangist en ég bara get ekki bætt þessu við í áhyggjupottinn minn. Reyndar þegar ég hugsa um það þá er engin ástæða fyrir mig til að hafa áhyggjur af nýju Svövu Rán. Hún plumar sig alveg virðist vera. Vanalega myndi nú gamla Svava Rán taka yfir og segja að vegna taugastrekkings væri nú alveg upplagt að fá sér súkkulaðihúðaðar rúsínur, Sambó lakkrís og Rískubba og að vegna tímaþrengdar væri alveg útilokað að komast í rækt. Namminu var ég búin að gleyma og ég er alltaf búin að hlaupa eða lyfta áður en ég man að ég hef ekki tíma. Ég gleymdi líka að hrósa sjálfri mér fyrir þetta.  Og það gengur ekki upp. Þannig að ég ætla að taka núna fjórar mínútur í að óska sjálfri mér til hamingju með velgengnina, minna sjálfa mig á að ég er ekki vitleysingur, strjúka mjaðmabein og brosa í spegilinn. Og reyna að slaka aðeins á.

miðvikudagur, 11. maí 2011

Ég er að læra fyrir próf. (Greinilega). Er að fara í lokapróf í þessu blessaða námi mínu núna 21. maí. Ég hlakka ekki til. Ég er illa undirbúin og vitlaus. Hef lítinn tíma aflögu fyrir námið. Hef engan áhuga á náminu. Það var eiginlega vont fyrir mig að uppgötva að ég er "scanner" því nú hef ég afsökun til að vera áhugalaus á náminu. Ég er voðalega stressuð núna. Er að borða kotasælu. Datt nú samt í hug að heilinn vill fá kolvetni til að fúnkera vel. Það sést best á að samkvæmt steríótýpunni er próteinsvolgrandi vöðvatröllið vanalega grannt að viti. Við fitubollurnar erum hinsvegar gáfað fólk og gott. Getur verið að vitleysið útskýrist ekki af því að ég er "scanner" en heldur af ört lækkandi greindarvísitölu vegna próteinneyslu og skorti á kolvetnum? Örugglega.

þriðjudagur, 10. maí 2011

Mikið svakalega sem hann var þungur á mér rassinn í morgun. Ég vaknaði og hafði sem betur fer búist við því að ég yrði illskeytt og ómeðfærileg og hafði sett hlaupagallann á bókahilluna við rúmið mitt. Ég var þessvegna komin í hann áður en ég vaknaði almennilega og hafði rænu á að mótmæla af einvherju ráði. Svo leyfði ég mér ekki að fá mér morgunmat; ég hefði stoppað við heima ef ég hefði tafið fyrir mér í eina sekúndu. Minnti sjálfa mig á að ég hafði downloadað nýju lagi á i-podinn og ég myndi heyra það ef ég drifi mig út. Lagði svo af stað. Get ekki logið því að ég hafi hlaupið, þetta var meira labb og skokk en hlaup en betra en ekkert. Og þannig fór ég styttri hringinn minn, þann sem er rétt um fjórir km. Fannst ég vera hundrað og tuttugu kíló, móð og másandi og pungsveitt. Þuldi stanslaust upp fyrir sjálfa mig; "þetta er það sem ÞÚ predikar, það eina sem skiptir máli, að halda alltaf áfram. HALTU ÁFRAM! Nóa kroppið og fylltar lakkrísreimar í gærkveldi (heimþrá) hafa ekkert að segja ef þú kemst inn í góðu rútínuna þína aftur. Þú er meistarinn, þú hefur valdið."

Það er svo auðvelt að láta þetta líta úr fyrir að vera ekkert mál. Ég er alltaf svo jákvæð og bjartsýn. En mergurinn málsins er að að mestu leyti er þetta erfitt og þó þetta verði auðveldara þá forðar það því ekki að hver einasta stund sem maður er vakandi er maður að vinna. Og þessi leið sem ég hef kosið að fara hefur óhjákvæmilega í för með sér að ég þarf stundum að berjast meira en ef ég myndi kjósa algert fráhald. Ég borga margfalt fyrir bestíuhegðun þegar ég þarf að stremma mig svona af. En með smávegis áætlanagerð (hafa gallann tilbúinn, verðlaun í nýju lagi), örlitlu af hörku (drullastu af stað hlussa!) og heilmiklu af loforðum um nýjan kjól (hugsaðu um þennan bleika í stærð 14!!) er þetta hægt. Þetta er ekki auðvelt. En ég get bara ekki gefist upp núna.

mánudagur, 9. maí 2011

Láki og bestu amma og afi í heimi við Almannagjá
Mikið rosalega sem það er alltaf gott að koma heim. Ísland er eitthvað svo hressandi. Og að fá að vera þar þegar sólin skín og allir svo kátir og hressir eru hrein forréttindi. Dave hefur ekki komið þangað síðan um áramót 2007 þannig að það var yndislegt að sjá landið aðeins í gegnum hans augu og svo hafði ég voðalega gott af því að gera aðeins meira úr ferðinni en ég geri vanalega þegar ég kem heim og negli mig bara fasta í Þolló. Gullfoss og Geysir slógu náttúrulega alveg í gegn og Þingvellir eru núna með velskan gæðastimpil. Sundlaugin í Þolló er svo að mati Lúkasar Þorláks það sem næst kemst himnaríki á jörðu. Sjálf er ég að sjálfsögðu hæstánægð með aðstöðuna þar en fékk örlítinn hroll í veskið mitt við að borga £7.57 fyrir einn stakan ræktartíma. Ég lét semsé einn stakan tíma nægja. Hljóp úti einu sinni og synti 200 metra, og með túrista göngutúrum var það allt og sumt af líkamsrækt þessa viku.

Í annarri skálminni á 125 kg buxum
Það var bara svo margt annað að gera. Hitta fjölskylduna, fara í skoðunarferðir, út að borða, í sushi partý, í svartfugl og gítarpartý, miðbæjarrölt, listinn er endalaus. Svo náttúrulega að halda fyrirlesturinn minn. Mér fannst þetta takast með ágætum, tæplega sextíu konur komu að hlusta á mig tala og ég vona að flestar hafi þær haft gaman ef ekki gagn af. Ég tók þann pól í hæðina að lýsa bara ferlinu mínu frekar en að vera að prédika eitthvað mínar skoðanir og ég held að það hafi tekist ágætlega. Lokaatriðið kannski það sem mér fannst skemmtilegast, enda er svona "visual" atriði alltaf mjög áhrifarík. Sjálfri finnst mér þetta ótrúlegt að ég geti í alvörunni farið öll í eina skálmina, ég sem á svo mikið eftir.

Hvað lífstílinn varðar er ég bæði ánægð og ekki ánægð. Þegar ég kom heim síðasta sumar var ég með svakaleg plön um fráhald og líkamsrækt sem svo stóðust ekki og ég varð reið út í sjálfa mig fyrir að bregðast planinu. Í þetta sinni var ég ekkert búin að spá eða ákveða, lagði bara af stað. Keypti ekkert nammi á flugvelli, öfugt við það sem ég gerði síðast. Fattaði það ekki einu sinni sem ég var ægilega ánægð með. Datt svo aðeins í nammipoka sem var til þarna heima en ekkert í magni sem ég hafði áhyggjur af. Hreyfði mig alls ekki nógu mikið og það sem verra var drakk ekki einn dropa af vatni (hugsa með sér og ég á Íslandi!). Datt svo út úr prógrammi með uppröðun næringarefna en magn var alltaf innan skynsamlegra marka. Drakk svo ársframleiðslu Ítalíu af léttvíni. Borðaði nánast bara fisk og skelfisk allan tímann. Fékk svo reyndar líka ís með dýfu. Þannig að það voru góðir punktar og það voru slæmir.
Svaka fín mynd af Dave við Öxará.

Ég hef tekið það á mig að lifa samkvæmt meðalhófsreglunni. Það þýðir að einu sinni eða þrisvar á ári fer ég í frí sem þetta. Ég tel að það sé mun skynsamlegri ákvörðun fyrir mig að fara bara í frí, gera mitt besta til að leggjast ekki algerlega í rugl en gera líka mitt besta til að leggjast ekki í samviskubit yfir nokkrum óskynsamlegum ákvörðunum. Þetta er lífið mitt. Í fyrramálið vakna ég klukkan 6:30 fæ mér vatn og hleyp svo 5 kílómetra. Svo baka ég bananamúffur og bý til eggjahvítuommilettu og rútínan mín hefst upp á nýtt. Ég jafnvel tek annan sykurlausan mánuð til að koma öllu aftur í 100 % svíng. Og þetta er það sem ég tel að "venjulegt" fólk geri. Eins og Ólína mín segir; "maður tekur skrens öðruhvoru og svo passar maður sig bara smávegis meira í dálítinn tíma þar á eftir." Eins og talað út úr mínu.

sunnudagur, 8. maí 2011

Síðasta kvöldið á eyjunni fögru. 2 kíló í plús, ræðum það síðar.

mánudagur, 2. maí 2011

Þegar maður kemst ekki í rækt svo dögum skipti vegna konunglegs brúðkaups og verkalýðs, byrjar maður að stika um húsið og rífur í hitt og þetta lauslegt sem verður á vegi manns; eldhússtól, skrautmuni, stofuborð, krakka...allt þetta má nýta sér í að viðhalda vöðvamassa þegar maður er óbeislaður bolti svona rétt eins og ég. Láki er rétt um 35 kíló, og ég tek það í aðra nösina í hnébeygjum, þannig að ég minntist á við eiginmanninn elskulega að mig vantaði eitthvað þyngra til að taka almennilega á því. 35 kíló er barnaleikur einn.


Hann fölnaði örlítið greyið og án þess svo sem að vita hver Gyða Sól er, lýsti því yfir að hann hefði ekki áhuga á að vera giftur henni eins mikið og hann styddi mig í lífstílnum. En svo heyrði ég ekki hvað hann sagði næst, ég var of upptekin að henda honum þvert yfir garðinn, svona eins og trjádrumbi í hálandaleikunum. Djöfuls rosalegur bolti sem ég er. Best að henda einhverjum lörfum í tösku. Ísland bíður í ofvæni.

sunnudagur, 1. maí 2011

1. maí hlaup í sólskini.
Í dag er 1. Maí. (Til hamingju allir kommúnistar til sjávar og sveita.) Og ég hef þar með gert það sem ég lagði af stað með; að fara í gegnum Apríl sykurminni. Það kom í ljós að ég borða afskaplega lítinn unninn hvítan sykur svona dagsdaglega en helsta breytingin fólst í að ég hef ekki borðað ís eða nammi, eða kex eða köku þessa fjóra sunnudaga. Ég vaknaði ekki í morgun og rauk út í Co-Op til að kaupa ís og nammi. Það var engin rífandi þörf til að svala neinni sykurfíkn nú þegar ég hef aftur leyfi til að borða nammi. Ég sé eiginlega enga ástæðu til þess að vera eitthvað að fá mér ef mig langar ekkert sérstaklega í. Og ég ætla svo sannarlega að viðhalda þeirri tilfinningu eins lengi og kostur er á. En ég er líka búin að ákveða að þetta er of öfgakennt fyrir mig. Það að segja; "''Ég mun aldrei framar láta sælgæti, ís eða kökur inn fyrir mínar varir" samræmist ekki mér og mínum lífstíl. Og mér er eiginlega alveg sama ef þetta hljómar eins og "cop-out". Ég er mannleg og ég get ekki hugsað mér lífið án þess að fá mér nammi öðruhvoru og ég er það sjálfsörugg núna að ég veit  að ég ræð nokkurn vegin við dópið. Ég get dottið í það, skemmt mér konunglega og hætt daginn eftir. Ég þarf enga afréttara. Þetta er eflaust hroki og það má vera að ég breyti um skoðun einhverntíman en þetta er niðurstaðan núna.

Það er heldur ekki rétta afstaðan að skella skuldinni á sykurinn. Já, hann er ávanabindandi og það vita fáir betur en ég hver áhrifin eru. En málið er engu að síður það að sykurinn hefur engan sjálfstæðan vilja eða djöfullega áætlun um að troða sér ofan í kokið á manni. Að éta er ákvörðun sem ég tek sjálf og framkvæmi og það verður hreinlega að taka ábyrgð á því. Ég get ekki bara yppt öxlum og emjað út um fullan munninn "ég er fíkill, ég get ekki að þessu gert." Aftur smá hroki, en mér finnst að ég hafi unnið mér inn réttinn til að vera hrokafull hér; ég er búin að ganga í gegnum minn dimma dal.

Ég er 86.8 kíló núna, 100 g farin sem er ekkert meira en ég hefði búist við þær vikur sem ég borðaði ótæpilega af nammi á sunnudegi, aðeins minna ef eitthvað er. Ég bætti mér alltaf upp sparaðar kalóríur með hnetum, döðlum og meiri fitu. Líkamlega get ég ekki sagt að ég hafi fundið einhverjar ofurbreytingar, það er of margar breytur í myndinni til að ég geti sagt fyrir víst að góðu áhrifin séu sykurleysinu að þakka. En sálrænu áhrifin voru ómetanleg. Að komast að því hvað ég er fær um að gera, að ég er ekki viljalaust verkfæri í höndum djöfulsins skiptir mig öllu máli. Þetta er þekking og vitund sem á eftir að vera mér stoð í verkefninu fyrir lífstíð. Og ég hef bætt við enn einum þekkingarmolanum í safnið mitt.