laugardagur, 30. maí 2009

Hvaða svakalega munnræpa er þetta! Hvað um það, mig langaði bara aðeins til að reyna að lýsa stemningunni hérna í Bretaveldi í dag. Það hefur runnið upp enn einn "Cup Final day" og í dag í glampandi sólskini keppa Everton og Chelsea um titilinn. Hér myndast alveg sérstakt andrúmsloft og hefur gert frá upphafi árið 1872 þegar Wanderers FC unnu The Royal Engineers 1-0. Þetta er elsta klúbbakeppni í heimi og er dæmi um það sem mér finnst alveg sérstaklega breskt. Öll fótboltalið eru gjaldgeng, hversu lítil sem þau eru og allir eiga sama sjens á að vinna. Bretinn alveg elskar "underdog" og keppnin kyndir þær tilfinningar í þeim. Hér ilmar allt um af útigrilluðum "sausages" og út úr Bargain Booze streymir fólk með kassa af bjór. Öðruhvoru má heyra sönglað "com´n you blues". Hér eru núna menn og reyndar örfáar konur, klæddar í liti þess liðs sem haldið með, meira Everton af því að þeir eru nær og eru líklegri til að tapa. Allir pöbbar eru fullir (og mennirnir líka) og sjónvarpið er búið að vera í gangi síðan klukkan 9 í morgun að skoða leikinn og keppnina frá öllum sjónarmiðum. Keppning hefur gífurlega merkingu fyrir minni klúbba fjárhagslega, ef þú færð að keppa við t.d Man. U. og á Old Trafford þar sem litli klúbburinn fær að deila miða ágóðanum þýðir það kannski að klúbburinn lifir annað ár. Og svo er alltaf hægt að vonast eftir kraftaverkum eins og þegar Wrexham vann Arsenal, gerði jafntefli við West Ham og tapaði svo fyrir Huddersfield! Þetta er alveg sérstakur dagur fyrir Dave. Hans elstu minningar eru frá að fara til afa síns fyrir klukkan 9 þennan dag og sitja svo saman og horfa á sjónvarpið allan daginn og skeggræða boltann. Hann man fyrst 1981 þegar Spurs kepptu við Man. City og Spurs unnu 1-0. Afi drakk bjór og Dave fékk pilsner. Og svoleiðis var það alveg þangað til afi hans dó 1988. Dave minnist síðasta leiksins sem þeir horfðu á saman með angurværð, en þá var keppnin á milli Wimbledon (núna MK Dons) og Liverpool. Afi hans var mikill Liverpool aðdáandi og Dave ákvað að stríða honum og halda með Wimbledon þann daginn, enda passaði það inn í underdog fílinginn. Og Wimbledon vann. Taid (afi) var niðurbrotinn á meðan Dave fagnaði. Og svo nokkrum mánuðum síðan dó hann og þar með lauk áralangri hefð. Í dag styðjum við Everton, þeir spila meira saman sem lið, ekki sem einstaklingar og svo eru þeir underdog (er til íslensk þýðing á þeirri hugmynd?) og okkur líkar víst svo vel við David Moyes, þjálfara Everton. Okkur er nokk sama um að þeir eru frá Liverpool, við erum Wrexham aðdáendur þannig að við dæmum önnur lið ekki eftir staðsetningu. (Hversu góð eiginkona er ég?) Sjálfri er mér sama um fótboltann per se en verð að viðurkenna að ég hrífst með stemningunni, þetta er skemmtilegur dagur.
Mikið svakalega elska ég jóga mikið akkúrat núna. Ég reyni að gera jóga á laugardagsmorgnum svona til að minna mig á hversu mikilvægt það er að viðhalda lífstílnum um helgar líka. Jóga hentar mér svona líka svakalega vel, nógu erfitt til að ég svitni og ýti sjálfri mér alveg að breaking point þannig að ég veit að ég er að fá eitthvað út úr þessu. En það lætur mér líka líða vel með sjálfa mig því mínir bestu líkamlegu eiginleikar nýtast svo vel, þ.e. sveigjaleikinn. Þrátt fyrir fitugallann sem ég er í er ég og hef alltaf verið liðug og lipur. Þannig að mér líður eins og ég sé að gera líkamsæfinguna vel og rétt. Ég skil ekki hvers vegna ég hef ekki fattað þetta fyrr. Mér finnst svakalega gaman að lyfta og nota vöðvana, fæ eitthvað testesterone kikk út úr því, og mér finnst gaman í pilates og jóga. En ég HATA og ég endurtek HATA eróbikk og hopp æfingar. Brjóstin lemjast til upp á kinnar og niður á læri, hnén myljast í sundur og ég get ekki andað. En hingað til hef ég alltaf sett sama sem merki á milli þess að stunda líkamsrækt og að líða svona illa. En það þarf ekki að vera svo! Núna geri ég bara æfingar sem mér finnast skemmtilegar og er búin að halda þetta út í 3 mánuði og virðast engin lát á, þvert á móti ég æsist bara upp. Þvílík uppljómun! Jógað finnst mér einna skemmtilegast líka af því að allar pósurnar heita eitthvað; 5 point star moon, pidgeon, downward facing dog, tree, crocodile, warrior, sunflower... þetta er svo fallegt og það er svo gaman að læra hverja pósu og vita hvað maður er að gera. Allra skemmtilegust er þó pósan sem heitir corpse, eða líkið. Þið getið ímyndað ykkur afhverju.

föstudagur, 29. maí 2009



Hennar hátign átti afmæli núna í maí og af því að ég vinn hjá henni þá gaf hún mér frí í dag. Er hún ekki næs? Og ekki nóg með það heldur var dagurinn í dag sá heitasti hingað til af þessu ári. Við Láki ákváðum því að fara í bæinn að spóka okkur og kaupa grilltöng. Ég fann reyndar ekki töngina en keypti þess í stað tómata. Ekki það að tómatar séu staðgengill fyrir grilltöng en þegar ég sá þá bara stóðst ég ekki mátið. Risastórir og djúsí, sneysafullir af c vítamíni og fullkomnir á svona heitum degi í halloumi tómat salat. Mmmm... tómatar, smá salt, ferskt basil og ólívu olía og svo sneiðar af grilluðum halloumi. Summer on a plate eins og eiginmaðurinn orðaði það. Það er það sem er gott við svona veður, maður er bara ekkert spenntur fyrir að borða mikið. Það sem er vont við svona veður er að hvað það er heitt. Ég á engin sumarföt, enda ekki hrifin af að sýna of mikið flesk og líður illa í ljósum litum. Alls ekki spennt fyrir svona flaksandi, blómakjólum og er með sólarofnæmi. Í ofanálag er ég á milli stærða núna, passa ekki í neitt sem ég á, en tími ekki að kaupa neitt nýtt því ég er að vona að komast niður í eina stærð fyrir neðan en er að kafna úr hita og verð að fá eitthvað sem dugar mér í sumar. Kannski að drottningin geti lánað mér einn af kjólunum sínum. Hún er alltaf svo fín.

fimmtudagur, 28. maí 2009


Þetta bara lekur af mér! Reyndar bara 700 grömm þessa vikuna en hver er svo sem að telja? Ég er reyndar bara ánægð með árangurinn svona í ljósi þess að ég borðaði verga ársframleiðslu Cadbury verksmiðjunnar á sunnudaginn. Ég fer í megrun og hvað gera þessir djöflar? Jú, þeir finna upp og setja á markaðinn þessa súkkulaði-rúsínu-karamellu-kornflex klatta sem engin alvöru fitubolla getur staðist að prófa. Og ég ber vitni þess að þetta er á topp 10 listanum yfir besta nammi ever!



Talandi um alvöru fitubollur þá var ég að velta fyrir mér um daginn hvort að ég hætti að sulla niður á mig ef mér tekst að verða minna feit. Ég er alltaf með matseðilinn framan á mér sem er ekki bara hvimleitt og ljótt heldur hef ég líka áhyggjur af því að það sé svona einn af þeim hlutum sem lætur fólk fá þær hugmyndir um feita að við séum gráðug og skítug og löt og sveitt. Ég er alveg búin að reikna það út að það dettur alveg jafn mikið af mat af gafflinum hjá grönnum en munurinn er að hjá grönnum dettur það bara aftur niður á diskinn meðan að hjá okkur hlussunum eru brjóst og magi í vegi fyrir affallinu. Það verður allavega voða gaman að komast að því hvort þetta sé rétt hjá mér. Eða hvort að ég sé bara villimaður sem graðga matinn svo í mig að ég maka mig alla út hvort sem ég er feit eða mjó. Hver veit?

mánudagur, 25. maí 2009

Í dag er frí hjá okkur öllum svona af því að það var uppstigningadagur á fimmtudaginn. Það er voða sniðugt að færa frídaginn yfir á mánudag, það er nefnilega voðalega næs að fá svona langa helgi öðru hvoru. En ekki spyrja Breta af hverju það er frí, það er löngu gleymt og öllum saman. Þeir vita bara að það er alltaf frí fyrsta mánudaginn og næst síðasta í Maí. Og er alveg sama að það eru ástæður þar að baki. Hvað um það, menningarleysi bresku þjóðarinnar er ekki það sem ég ætlaði að tala um. Nei, vegna þess að þetta er löng helgi þá er við hæfi að spóka sig aðeins og í dag varð fyrir valinu Wepre-Park í Connah´s Queys. Þetta er þjóðgarður hér í rétt rúmlega hálftíma fjarðlægð. Við erum rosalega vel staðsett með náttúrur hér í nágrenninu, svona landsvæði á hverju horni.

Við vorum svona líka heppin með veðrið, rúmlega 20 stiga hiti og glampandi sól. Þegar að svæðinu er komið getur maður valið um nokkrar gönguleiðir en við völdum að fara framhjá rauðklettum, og meðfram fossi til að komast að Ewloe Kastala .
Kastalinn er frá 11. öld og er mjög gaman að klifra upp að honum. Hann er týpiskur fyrir velskan byggingastíl á kastala, þ.e. virkismúrarnir eru mjög veikburða, hann situr á stað þar sem ekki er hægt að sjá fyrir óvini koma að, en mjög auðvelt að sjá að honum utanfrá, það er ekki hægt að beina neinum skotvopnum frá honum og það er mjög auðvelt að loka fyrir allar innflutningsleiðir svo umsátur eru stutt og auðveld fyrir óvini. Og svo er velskir hissa að enskir tóku yfir landið! Hvað um það, þarna í rústunum er ljómandi gott að setjast niður með nesti og maula eftir gönguna upp.

Á leiðinni til baka stoppuðum við við fossinn þar sem oft sést víst til nunnu sem var drekkt þar rétt hjá eftir að hún drekkti óskilgetnu barni sínu. Við sáum hana nú reyndar ekki, enda glaða sólskin og mér skilst að draugar séu ekki hrifnir af svoleiðis veðráttu. En þegar við röltum svo aftur af stað gránaði yfir og við ákváðum að hér væri gott komið og rétt náðum aftur að bílnum áður en himnarnir opnuðust. Það er margt enn órannsakað enda eigum við eftir að fara aftur þangað.
PS. Takk fyrir allar kveðjurnar, það er bara onwards and downwards núna og stuð út í eitt. +Eg finn muninn í hnénu, það er ekki jafn ónýtt núna!

föstudagur, 22. maí 2009




115 kg. 125 kg.
Ég er búin að hlakka svo mikið til að taka þessa mynd og sjá muninn. Og þvílík vonbrigði! 10 kíló og það sér ekki högg á vatni! Fyrsta hugsunin var að þetta er allt tilgangslaust, hvar er snikkersið mitt en það var bara örsnöggt og næsta hugsun var: nú er bara að ráðast á næstu 10 og sjá hvort það breyti einhverju.

fimmtudagur, 21. maí 2009


Óstöðvandi akkúrat núna, óstöðvandi. (Vá hvað þetta er ljótt orð á prenti!) 1kg farið þessa vikuna sem þýðir örfá hundruð grömm í slétt 10 kg. Ég er svo ánægð með sjálfa mig, og lífið og allt akkúrat núna. Að hugsa með sér að eftir öll þessi ár er ég loksins búin að finna svarið. Eða öllu heldur er búin að viðurkenna hvað það er sem maður þarf að gera til að léttast og líða vel með það.

Borða mat sem maður þarf að leggja smá vinnu í, hreyfa sig aðeins og kjósa hreyfingu sem maður hefur gaman af, fylgja 90/10 reglunni og spínat. Já, ég er sannfærð um að allt spínatið sem ég borða hefur hjálpað mikið til. Það er bragðgott, yfirfullt af súper náttúrulegum vítamínum, hægt að borða á milljón mismunandi vegu og fyllir mig ótrúlegri vellíðan. Súper matur spínat. Einn fimmti að verða búinn, bara rúm 41 kg eftir. Það er skárra er það ekki? Ég ætla að leyfa mér að hugsa um lokatakmarkið 74 kíló núna í 2 mínútur og svo hætta því enda tilgangslaust að hugsa um svo stóra hluti. Hugs, hugs og svo núna að þessu vikutakmarki: Rhos-fjall á sunnudaginn, telja karólínur á sunnudaginn og 8000 karólínu tap yfir 7 daga.

þriðjudagur, 19. maí 2009

Mikið svakalega eldaði ég góðan mat í morgun. Pastalaust lasagne. Notaði kalkúnahakk til að spara fitu og kotasælu í staðinn fyrir ost og kúrbít í staðinn fyrir pasta. Alveg svakalega gott.

laugardagur, 16. maí 2009


Ég ákvað að vera alvöru Breti í dag og fór til veðmangarans og veðjaði £5 að Ísland vinni Júróvisjón í kvöld. Líkurnar eru 20/1 sem þýðir að ef Ísland vinnur þá fæ ég £105 til baka. Þetta var skemmtileg lífsreynsla, ég hafði enn ekki gert neitt í því að skoða hvernig þetta fer fram, þrátt fyrir að það er "bookies" á hverju horni hér. Enda veðja Bretar um allt og setja líkur á allt. Þarna inni voru einungis karlmenn og þeir ýmist stóðu eða sátu og fylgdust með hestum á skjá. Það var ekki góð lykt og andrúmsloftið bar allt merki um örvæntingu. (Ég er kannski að oftúlka hlutina!) Á meðan ég keypti miðann minn kom þar að maður og setti 6 20 punda seðla á borðið og allt á einn hest. (Tricky Trickster) Hann var með gleraugu sem á vantaði enn arminn og ég hugsaði með mér að það væri kannski skynsamlegra að kaupa ný gleraugu. Um allt voru auglýsingar frá samtökum fyrrverandi fjárhættuspilara. Mér fannst þetta allt ægilega spennandi. Ég hef alltaf sagt að ég sé ekki fjárhættuspilari sem Dave hlær að því ég spila í lottó á hverjum laugardegi og að hans mati er lítill munur þar á. Fyrir utan eins og hann segir þá eru mun betri líkur á að Ísland vinni Júró og ég fái peninginn tilbaka en að ég vinni lóttóið. Ég get allt eins sett pundið mitt í ruslið eins og að kaupa lottó miða. En það er nú bara stærðfræðingurinn í honum sem talar þannig. Ég veit að hann vonar jafn heitt og ég að hann hafi rangt fyrir sér, það vinnur jú alltaf einhver lottóið! En hvað sem því líður þá gerir þetta að verkum að Júró verður enn meira spennandi, áfram Ísland!!

fimmtudagur, 14. maí 2009

Og núna er í lagi með hann. Hvað krakkar eru skrýtnir!

Og enn er nýji lífstíllinn að virka; 1.1 kíló þessa vikuna. Ég er orðin stressuð núna, bíð bara eftir að ég geri eitthvað til að skemma þetta. Vona að ég fatti þegar sjálfstortímingarstímið byrjar og ég nái að stoppa mig af.

Að lokum hef ég svo verið kosin lélegasti Íslendingurinn í almennri kosningu sem fór fram hér í Plas Cerrig. Mamma sendir mér smess og biður mig um að kjósa Ísland og ég skildi ekkert hvað hún átti við. Þegar ég ætlaði að fara að sofa spyr Dave hvort ég ætli ekki að horfa á undankeppnina, hún væri í sjónvarpinu akkúrat núna. Og ég sagðist ekki nenna því. Var samt ekki viss um hvað hann var að tala. Fatta svo daginn eftir að þetta var kosning í júróvisjón! Og að 90% Íslendinga horfðu á! Og svo er lagið og stelpan bara svona ægilega falleg. Það er eins gott að ég horfi á keppnina á laugardaginn eða vegabréfið verður tekið af mér.

miðvikudagur, 13. maí 2009

Tek það allt aftur. Hann er fárveikur krakkinn. Ji, hvað ég er vond mamma!

Lúkas plataði mig í morgun og þóttist vera veikur. Og lék það svo vel að hann fékk að vera heima í dag. Eða er kannski bara eðlilegt að þurfa að fá frí stundum. Meira að segja þegar maður er bara 5 ára?

mánudagur, 11. maí 2009


Ég borða morgunmatinn minn eftir líkamsræktina þannig að núna blandast við að vera heit og sveitt að veðrið er bara orðið of gott fyrir heitan hafragraut. Ég hef því lagt honum núna svona eitthvað fram að hausti og er núna á fullu að hanna nýjan smoothie fyrir hvern vikudag. Þessi kom í morgun; 4 klakar, 1/2 banani, 2 kúfaðar matskeiðar af 0% grísku jógúrti, 1 skeið af mjólk, 2 jarðaber og 1 bolli af frosnum skógarberjum. Ji minn eini! Eins og að fá berjasjeik í morgunmat! Hver væri ekki ánægður með það. Og það besta er að um helgina er ég að hugsa um að skipta jógúrtinu út fyrir eplasafa og mjólkinni fyrir gott dash af vodka! Að hugsa með sér; úti í garði, flatmagandi í sólstól með vodka-smoothie. Það er ekki margt sem verður betra en það. Það eina sem ég get hugsað mér að bætti þetta væri ef mér tækist að eignast gas-grill. Ég er búin að vera að skimast um eftir einu slíku og fann loksins eitt sem mér leist svaka vel á. Ég kannaði framboð á netinu og vefsíðan bauð upp á að skoða hvort Wrexham útibúið seldi ákkúrat þetta grill. Jú, þeir áttu til tvö og við rukum því af stað til að ná í eitt. Þegar í búðina var komið sá ég grillið hvergi og spurði eftir því en var þá sagt að þetta grill væri ekki til lengur. Þvílík vonbrigði! Og ég með kjúklingabita tilbúna þrædda upp á tein heima! Við fórum því í hverja einustu verslun í Wrexham en hvergi var til grill sem mér fannst jafn flott og þetta á sama verði. Ég fór því heim í fýlu og bara jafnaði mig varla. Hvað um það, nú þarf ég að finna grill tilbúið fyrir næstu helgi svo ég geti skellt lettu á um leið og ég sötra á vodka-smoothienum mínum. Góðar stundir.

föstudagur, 8. maí 2009

Ég ryksugaði í morgun, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi, nema að í morgun fann ég í kjölfarið einn Legó-kubb sem Láki hafði verið að leita að. Ég setti kubbinn á eldhúsborðið og fór svo í vinnuna. Eftirfarandi er svo það sem fór á milli feðganna þegar þeir komu heim og fundu kubbinn.
Lúkas: "Mummy found my crystal!"
Dave: "Oh, yes she did, that was good of her."
Lúkas: "Yes, she is very clever. I like her very much. I think I´ll keep her."
Ég er að sjálfsögðu hæst ánægð með að hann vilji eiga mig.

fimmtudagur, 7. maí 2009

1.2 kíló í dag. Það eru 14.3% af takmarkinu. Jibbí! It´s all happenin´ baby, all the way!

miðvikudagur, 6. maí 2009


Annað kvöld lýkur 13 ára samveru minni við starfsfólk Mercy spítalans í Chicago. Já, síðasti þátturinn af ER verður sýndur hér á morgun. Ég hef í öll þessi ár fylgst með ástum og ævintýrum lækna og hjúkrunarliðs og alltaf af jafn miklum áhuga. Þó svo að í áranna rás hafi fólk komið og farið þá hef ég alltaf haldið upp á ER sem sjónvarpsefni, mér var alveg sama þegar Clooney flutti vestur um, og þó það hafi verið sorglegt þegar Dr. Green dó eða þegar Dr. Carter flutti til Afríku þá kom alltaf einhver skemmtilegur karakter í staðinn. Að undanförnu hafa mörg gamalkunnug andlit verið að koma upp aftur, og mér hefur þótt gaman að því að fá að sjá alla þá sem í gegnum árin hafa verið hluti af þáttunum. Það hefur meira að segja spurst út að á morgun komi Clooney aftur. Enda var það hlutverk hans í ER sem kom honum á kortið þannig að það er vel við hæfi að hann þakki fyrir sig og komi fram í síðasta þættinum. Þó ég vilji nú kannski ekki meina að líf mitt verði að tómri eyðimörk og að ég líti ekki framar glaðan dag, þá verð ég engu að síður að viðurkenna að ég er smávegis leið yfir að þessu sé að ljúka. Ég hlakkaði alltaf til þegar nýtt "season" byrjar og það var alltaf gaman að fylgjast með hver endaði með hverjum næst. Eins gott að ég hef Grey´s til að hugga mig.

mánudagur, 4. maí 2009

Lúkas: "Garfield really likes lasagna."
Dave: "I really like lasagna"
Lúkas: "But you are not a cat"
Dave: "No, I´m not a cat. What am I?"
Lúkas: "You are a HUMAN. And I am a HUMAN."
Dave: "And mummy, what´s mummy?"
Lúkas: "Mummy is a HULADY!"

Eitt af þessum skemmtilegu samtölum sem ég vil reyna að muna.
Allar mínar fyrri tilraunir til að léttast hafa sprottið af þeirri löngun að verða sætari. Mig langaði til að geta verið sæt og fín í hvað átfitti sem er. Í þetta sinnið er ég einungis að reyna að verða hraustari. Ég er búin að finna inni í mér íþróttamanneskju sem ég bara vissi ekki að væri þar. Mig langar til að vera sterk og lyfta lóðum, mig langar til að vera sveigjanleg og geta stundað yoga. Mig langar til að vera fitt og geta farið í kickboxing, mig langar til að hafa úthald og geta farið út að hlaupa. En mest af öllu langar mig að vera útivistarmanneskja. Þið hváið eflaust og spyrjið hver ert þú og hvað hefurðu gert við Svövu Rán, en svona breytist maður bara við að eldast og þroskast. Hvað um það. Ég hef þess vegna verið að leita mér að takmarki, einhverju svona til að stefna að og þjálfa mig upp í að geta gert. Eitthvað sem er óhugsandi að ég geti í því líkamlega ástandi sem ég er í núna. Og fann það í gær. Ég ætla að ganga Laugarveginn. Já, næsta sumar verðu við Dave orðin nógu fitt til að koma til Íslands og fara Laugarveginn á 4 dögum. Og sumarið þar á eftir tæklum við Wales og förum um Snowdonia. Og ég var að vona að ég gæti fengið hóp saman í þetta. Hvernig líst ykkur á? Ísland-Wales 2010-2011. Gangan mikla. Djí, ég bara get ekki beðið. Og nú er bara að byrja að æfa sig.
Við fórum aftur í partý til Craig og Kelly á laugardaginn. Craig var fertugur og þau buðu í grillveislu. Þetta var ægilega skemmtilegt, glampandi sól, bjór í ísfötu, kjúklingur á teini og trampólín fyrir krakkana. Ég var góðglöð og smá rykug í gær en ekkert sem ég gat ekki tekist á við.

Ég hef að undanförnu verslað alla matvöru á netinu og fengið senda heim. En ákvað í gær að mig langaði í búðina svona til að sjá hvað er til og af því að mér finnst svo gaman í matvöruverslunum. En komst að því að héðan í frá verður ekki oftar farið í svona búð. Þetta var bara hræðilegt. Ég var alveg búin að gleyma hvað allt fólkið fer í pirrurnar á mér, hvað það er erfitt að keyra kerruna, hvað þetta tekur langan tíma og hvað það er leiðinlegt að hlusta á grenjandi krakka. (Annarra manna krakka, minn grenjar ekki.) Fyrir utan hvað það er miklu betra fyrir breyttan lífstíl að versla á netinu. Ég bý til matseðil fyrir vikuna og panta svo bara af honum, en í gær var allt í einu komin ofan í innkaupakerruna Doritos Nachos, Oreo kex, hvít rúnnstykki, hollenskur 45% ostur, hamborgarar með geitaosti og kit kat með cappucino bragði. Allt þetta hefði ég getað forðast á netinu af því að ég hefði ekki séð þetta. En allt var þetta keypt og étið í gær. Þannig að héðan í frá verður allt keypt elektrónískt og einu innkaupaleiðangrarnir verða í sérverlsanir. Þar sem ég kaupi hnetur, krydd og haframjöl.

Ég er farin að takast á við lífstílinn á vísindalegan hátt. Til þess að léttast um 1 pund þarf að spara sér 3500 karólínur. Til þess að viðhalda þeirri þyngd sem ég er núna á ég að borða 2600 karólínur á dag. Ég held mér í 15-1600 frá mánudegi til föstudags. Og spara þar með 5000. Ég æfi í hálftíma á dag og eyði að meðaltali 150 karólínum. Þar eru aðrar 750. Á laugardögum geri ég yoga og leik mér á Wii fitness board fyrir aðrar 250. Um helgar reyni ég að halda mér í 2000 á dag. Allt í allt spara ég 7000 karólínur yfir vikuna. Sem þýðir að ég ætti að léttast um 1 kíló á viku. Og það virkar. Sumar vikur eru stopp en það þýðir meira tap næst. Einfalt og virkar. Þannig að þessa vikuna get ég bara búist við hálfu kílói útaf rúmlega 4000 karólínum á sunnudaginn. (Úff, ég fæ í magann við að skrifa þetta, 4000! Hvernig er þetta bara hægt?!) Alla vega ég er þvílíkt að skemmta mér við þessa útreikninga og er hér búin að finna aðferð sem virkar fyrir mig.