miðvikudagur, 30. janúar 2013

Ég fékk mér KitKat í dag. Tvo fingur, dökkt súkkulaði. 106 hitaeiningar. Ég var í vinnunni til rétt yfir sex og þetta var svona hálfvegis í hugsunarleysi, hálfvegis í einhverri "á ´etta skilið fyrir að vinna svona mikið, fæ kvöldmat svo seint" hugsunarleysi. Ég er svo búin að eiga smávegis erfitt í kjölfarið í kvöld. Stakk upp í mig nokkrum döðlum á meðan ég hitaði upp afganga frá í gær í kvöldmat. Og er svo búin að fá mér fjórar fíkjukúlur. Þetta er ekkert stórslys, enginn 350 gramma poki af M&M skolað niður með stauk af Pringles og líter af Ben & Jerry, en samt. Þetta var heldur ekki á plani. Samkvæmt mínum útreikningum um það bil 400 hitaeiningar, sem tekur mig dálítið yfir dagskammtinn. Það sem ég er mest að spá í er hvort kom á undan - löngunin í kitkatið eða það sem ég kalla stjórnleysið. Vakti kitkatið stjórnleysið upp eða fékk ég mér kitkatið af því að stjórnleysið var að byrja? Ef mér tekst að muna þetta næst þegar ég teygi mig í Kitkat í "hugsunarleysi" get ég þá náð að þekkja byrjunareinkenni á stjórnleysinu og forðast það eða kemur stjórnleysið hvort eð er og ég get bara reynt að gera mitt besta eins og í kvöld og stjórnað því með nokkrum döðlum sem hljóta að vera skárri hitaeiningar en ýmislegt annað sem ég hefði getað valið? Mér dettur í hug að hér hafi ég dottið niður á milljón dollara spurninguna.

mánudagur, 28. janúar 2013

Og ég stóð við það sem ég sagði; ég eyddi deginum í eldjúsinu við að prófa hitt og þetta. Eldaði ljómandi góðar svínakótilettur með hollri lauksósu í hádegismat. En aðalstússið var við hafragulrótaköku, kasjúhneturjóma, fíkjupróteinkúlur og kasjútahinidressingu.

Espresso, gulrótarkaka með kasjúrjóma og ein fíkjukúla. 
Gulrótarkakan er að uppistöðu sú hin sama og ég hef alltaf gert, en með nokkrum breytingum. Og breytingarnar þess virði, ég get náttúrulega ekki alveg svarið fyrir það vegna eftirleguhordropa en ég er samt nokk viss um að hér sé gullkorn á ferð.

200 g grófir hafrar (alvöru jumbo steelcut mean business hafrar)
50 g fínir hafrar (bara eins og duft nánast)
50 g gróft hveiti
50 g kókós
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
smá salt
tvær lúkur af rúsínum
1 mtsk kanill
blandað saman til að fá hveitilag á rúsínurnar.
2 mtsk kókósolía í hörðu formi er svo mulin út í hafrablönduna. Með fingrum þannig að olían blandist í hafrana vel og vandlega. Maður brýtur hana niður inn í hafrana (og sleikir svo puttana).
1 egg
300 ml möndlumjólk (eða hvaða mjólk sem er)
1 stór gulrót röspuð
4 mtks hlynsýróp
1 1/2 tsk góðir vanilludropar
Allt hrært saman og svo blandað við hafrana og sett í sílíkónmót og inn í 180 gráðu heitan ofn í svona 45 mínútur. Eða svo. Sú allra besta hingað til. Og hefur örugglega eitthvað að gera með að mylja olíuna út í hafrana. Eða kannski hafði það eitthvað að gera með að ég setti slettu af kasjúhneturjóma á hana. Ég hef náttúrulega séð þetta í svona vegan uppskriftarsíðum en aldrei haft ástæðu til að gera vegna þess að ég borða bara venjulegan rjóma með bestu lyst og góðri samvisku. En af því að ég hafði í hyggju að prófa að nota kasjúhnetur í salatdressingu ákvað ég að leggja aðeins fleiri en ég þurfti í bleyti  og prófa að gera rjóma líka. Og mamma mía! Ég bjó til svona delúx útgáfu, bætti út í útvatnaðar hneturnar möndlumjólk, vanilludropum og  dropa af hlynsýrópi og þetta var svo gott. Svona life affirming gott.

Ekki var dressingin af verri endanum heldur; maukaði saman útvötnuðum hnetum, tahini, hvítlauk, edik, hunangi og vatni þartil ég var komin með kremaða dressingu alveg fullkomna á salatið í hádeginu, hvort heldur sem er með kjúklingi, túnfiski, eggi eða rækjum. Súper eðal.

Fíkjupróteinkúlurnar er svo eiginlega of góðar; blanda af þurrkuðum fíkjum, möndlum, kókóshnetusmjöri (OMG!), kakó, kókósflögum, höfrum og súkkulaðipróteindufti. Ég myndi ekki einus sinni byrja að leggja í að  leggja saman kalóríurnar í einni kúlu, tek því bara sem gefnu að ég borði bara eina í einu, og að hollustan í þeim vegi upp á móti hitaeingunum. Uppskrift er ófáanleg, ég henti bara drasli í skál þar til ég gat rúllað í kúlur og velt upp úr kakó og kókós. Deeeeelish!

Er eitthvað skemmtilegra en dagur í eldjúsinu, ég bara spyr?

sunnudagur, 27. janúar 2013

Eftir nánast heila viku af stífluðum nefgöngum, hori og almennum kverkaskít byrjaði aðeins að rofa til í þefskyni rétt um kvöldmatarleytið í gær. Ég hoppaði nánast hæð mína af hamingju; sko lífið er bara ekki þess virði að lifa því ef ég finn ekki lykt og bragð af mat. Það verður bara endalaus eyðimörk af vansæld og tilbreytingarlausri eymd. Eymd og volæði. Já, ég sé bara ekki tilgang með þessu öllu saman ef ég finn ekki bragð af neinu. En þegar ég skyndilega fann vott af sápuilmi við uppvaskið tók ég strax  hamingju mína aftur og byrjaði að plotta eldamennsku helgarinnar. Byrjaði á kvöldmatnum og heilsuvæddi semi austurlenskan kjúklingarétt. Eins einfalt og auðvelt og mögulegt er en svona líka ljómandi gott. Ég setti tvær bitaðar kjúklingabringur á pönnu og hellti yfir einum bolla af vatni. Lét það malla á meðan ég skar niður einn rauðlauk, einn lauk og eina gulrót í strimla. Setti það út í pönnuna og lok yfir og lét vera í 35 mínútur. Skar svo niður eina rauða papriku og setti út á pönnuna með 1/4 bolla sojasósu og teskeið af sykri og lét malla óvarið í 15 mínútur. Ég hafði fyrr um daginn sett perlubygg í bleyti. Á meðan kjúllinn mallaði sauð ég byggið svona eins og maður sýður grjón. Og bauð upp á með réttinum í stað grjóna. Þetta var voðalega gott, og meinhollt líka.
Svo gott að það var allt búið þegar myndin náðist. 


Á meðan ég borðaði kjúllann plottaði ég verkefni sunnudagsins. Gulrótamorgunverðarkaka með kasjúhnetukremi, fíkjupróteinkúlur og hnetu-og tahini salatdressingu. Og svo á meðan ég skoðaði í skápana til að passa að ég ætti hitt og þetta og hripaði niður uppskriftir spáði ég í þessu öllu saman. Mér datt í hug eitthvað sem ég las í grein eftir Michael Pollan (af Eat food. Not too much. Mostly plants frægð) sem sagði að það er meira falið í því að borða mat en að annað hvort skemma eða bæta heilsuna. Matur snýst líka um njóta hans, um samveru og hefðir. Og mér gengur svo miklu betur þegar ég leyfi sjálfri mér að njóta matar, frá upphafi til enda.


Það virðist litlu máli skipta hvar maður treður niður fæti núna, maður er hvergi óhultur fyrir "súperfæði". Andoxunarefni, hollar fitusýrur og annað leiðinlegra efni er hvert sem maður lítur. Sjálfri leiðist mér þetta, mér hefur alltaf þótt þetta vera misskilningur og bera vott af hysterísku kaupæði. Acai og goji ber og annað slíkt er rándýr vara sem hefur engar vísindalegar staðreyndar rannsóknir að baki sér sem sanna að það beri með sér einhverskonar heilsusamlega yfirburði. Hefur einhver heyrt talað um lifur sem súperfæðu? Nei, örugglega ekki. En samt er lifur svo súperholl að annað eins hefur sjaldan sést. Hún er bara ekki sérlega sexí eða kúl.

Súperfæði er diskur sem er fullur af mismundandi grænmeti, hreinu óunnu kjöti og ferskum fiski og óunnu kornmeti fullu af trefjum. Heill og sannur matur sem finnst hvar sem er og þarf ekki að kosta hvítuna úr auganu. Súperfæði er matur sem maður eldar af gleði og býður með sér af rausn og nýtur í samveru við annað fólk.

Ég nenni allavega ekki að spá í því lengur hvað stendur í pressunni þann og hinn daginn um nýjasta súperæðið. Ég ætla að borða góðan mat í réttu magni, helst með góðu fólki. Mestmegnis hef ég þó í hyggju að njóta, og það þá hvort sem um súperfæði sé að ræða eða ekki.

Mér sýnist fílósófían í blandi við talnaleikinn minn vera að gera sig, hálft kíló frá í þessari viku. Við bara getum ekki beðið um meira.


sunnudagur, 20. janúar 2013

Fyrir nokkru síðan fékk ég tölvupóst frá háskólanum sem ég stunda MBA námið við sem tiltók að það liði nú að því að ég hafi verið að í fimm ár og þessvegna tíminn sem ég hef að verða uppurinn. Ég gerði það sem allt venjulegt fólk myndi gera, las póstinn og setti bakvið eyrað að drífa það af að senda inn tillögu að lokaritgerð. Svo leið tími og svo leið aðeins meiri tími og allt í einu var ég nánast runnin út á tíma. Ég er þessvegna sérlega ánægð með frammistöðu mína í þessari viku. Ég er búin að vera algerlega að farast á taugum við að reyna að koma saman ritgerðartillögu, safna heimildum og tala við prófessorinn minn til að geta skilað inn fyrir janúarlok, en á sama tíma hef ég verið algerlega í jafnvægi hvað matarval varðar. Ég verð alltaf ofboðslega ánægð með sjálfa mig þegar ég sýni svona þroska. Og þrátt fyrir að léttast ekki þessa viku (en ekki þyngjast heldur) þá er mér alveg sama. Það er svona eins og það eitt að valið rétt og staðið á mínu séu verðlaun í sjálfu sér, ég þarf ekki að fá neina viðurkenningu frá vigtinni.


miðvikudagur, 16. janúar 2013

Fiskur umvafinn ástúðlega af beikoni og borinn fram með hunangs- og sinnepsgljáðum grilluðum rauðbeðum og næpum. Voðalega gott. 


þriðjudagur, 15. janúar 2013

Ég klappa sjálfri mér oft og mörgum sinnum á bakið fyrir að hafa verið svona sniðug að hafa gifst manninum mínum. Og enn og aftur sannaði hann nytsemina með því að sortera fyrir mig Tvö Kíló. Hann er náttúrulega stærðfræðingur og var fljótur að finna út úr þessu fyrir mig.

Hann sá þetta frá hinum endanum fyrir mig. Ég er búin að setja upp lokamarkmiðið, það er enn alltaf það sama, 71 kíló. Það er svo dregið frá upphafsþyngdinni hvern mánuð. Þannig var ég 97 í byrjun janúar. Mínus 71 kíló og við fá út 26. Ef við svo deilum 26 á 12 mánuði fáum við 2.16. Markmiðið er því að léttast um 2.16 í janúar. Ef ég geri það nákvæmlega hvern mánuð nú þá breytist mánaðarmarkmiðið ekki neitt. Hinsvegar ef ég léttist meira (eða minna) en áætlað var þá breytist mánaðarmarkmiðið. Setjum okkur upp að ég léttist um 1 kíló í viðbót við þessi 2.5 sem nú þegar eru farin í janúar. Þá væri ég 93.5 í febrúarbyrjun. Þá segir stærðfræðin að ég taki 93.5 frá 71 sem gefur 22.5, deilum því í 11 mánuði núna því það eru bara 11 mánuðir eftir og nýja mánaðarmarkmiðið yrði því 2.04. Er ekki skemmtilegt af fá að reikna svona aðeins? 

Þannig er þetta alltaf nýtt og skemmtilegt og ég held mér við prinsippið sem segir "bara tvö kíló í einu". Næsti mánuður er bara næsti mánður og ég þarf ekkert að spá frekar í hann. 

Stærðfræðin alveg að gera sig. 

sunnudagur, 13. janúar 2013

Tveggja kílóa planið mitt virðist ætla að byrja vel. Tveggja kílóa planið miðar við kenningar sem segja manni að hafa markmiðin smá og sýnileg. Markmiðið er núna að losa mig við 25 kíló af óþarfa spiki. En málið er að ég er búin að vera að reyna að losa mig við á bilinu 17-25 kíló fram og tilbaka núna í tvö ár. Upp og niður um næstum 10 kíló renni ég mér eins og ekkert sé og alltaf á sama staðnum aftur og aftur. En ég neita algerlega að láta þetta ná til mín og ætla að halda áfram að búa til ný plön og nýjar áætlanir þangað til þetta kemur hjá mér. Bjartsýnisröndin höfð að leiðarljósi. Og bjartsýnisröndin segir mér að 25 kíló séu of mikið að kljást við í einu. Ég veit það af reynslu. Þessvegna verðum við að prófa nýja taktík.

Tveggja kílóa planið stefnir á að léttast um tvö kíló. Það er allt og sumt. Ég þarf bara að léttast um tvö kíló. Það er ekkert mál að léttast um tvö kíló, það geta allir. Og tvö kíló eru svo miklu auðveldari að díla við en tuttuguogfimm, tvö kíló eru viðráðanleg. Eiginlega bara skemmtileg.

En maður verður nú víst líka að setja tímamarkmið á þetta og mér þykir mánuður vera góður viðmiðunartími. Markmiðið verður þessvegna tvö kíló á mánuði. Í janúar hef ég í hyggju að léttast um tvö kíló. Mælanlegt, geranlegt, ekkert mál.

(Trixið er svo núna að minnast ekki á að í febrúar, mars, apríl og þar áfram hef ég í hyggju að gera slíkt hið sama. Við segjum ekkert frá því núna til að skemma ekki neitt fyrir litla heilabúinu mínu.)

Ég verð að viðurkenna niðurlút og skömmustuleg að ég náði að verða 97 kíló eftir ofátið um jólin. Það er þessvegna byrjunarpunkturinn núna. En ég get líka glöð skráð 94.5 kíló vigtina í morgun og eins og ég segi þá er tveggja kílóa planið alveg að gera sig. Nú get ég kosið að viðhalda þessu út janúar enda markmiðinu náð. Jah, svo lengi sem ég er undir 95 1. febrúar sko. Nú þarf ég bara að ákveða hvort ég taki nýja byrjunarvigt í hverjum mánuði eða hvort ég geti safnað í sarpinn. Þannig væri ég búin að léttast um hálft af febrúar kílóunum nú þegar (svo lengi sem ég er enn 94.5 1. febrúar). Eða hvort ég tel bara frá hverjum mánaðarmótum.

Ooooooh hvað ég elska að stússast í að búa til nýtt plan.

laugardagur, 12. janúar 2013

Það var búið að taka mig heillangan tíma að safna í raun kjarki til að henda mér út í umferðina til að nota hjólið sem fararskjóta í vinnuna. En svo kom loks að því á fimmtudaginn að ég lét slag standa. Ég svaf lengur en vanalega, enda þýða hjólreiðarnar að ég þarf ekki að leggja í hann fyrr en hálf átta þegar vanalega þarf ég að fara út rétt fyrir sjö. Plús númer eitt. Ég fór í hlífðargallann og þetta var ekkert mál. Eldsnögg að skjótast sem leið liggur á lestarstöð, lestin á réttum tíma og ég hoppa um borð með hjólið og er svo komin til Chester á innan við tuttugu mínútum. Munurinn hér að vanalega tek ég tvo strætisvagna og það tekur rétt um einn og hálfan tíma að komast þetta. Hingað til hefur það ekki haft neitt upp á sig að taka strætó til Wrexham og lestina þaðan af því að tímarnir pössuðu illa saman og það var of dýrt að kaupa bæði strætó- og lestarkort. En núna kemst ég á eigin tíma á lestarstöðina og spara strætómiðann.

Ég var svo hamingjusöm. Þrammaði inn á skrifstofuna með rósrauðar kinnar og örlítinn hjálmbrag á hárgreiðslunni en að öðru leyti alveg 100% sátt. Það var svo gott að hreyfa sig aðeins í köldu morgunloftinu og það er líka bara svo gaman að hjóla. Ég ákvað að fara út í hádeginu og taka einn lítinn hring um Chester. Var komin eins langt frá skrifstofunni og ég þorði þegar ég tók eftir að afturdekkið var eitthvað lint. Og á innan við mínútu var það alveg komið í götuna. Ekki loftmólekúl eftir í allri slöngunni. Ég trúi þessu ekki! Fyrsti dagurinn og það springur hjá mér.

Ég hafði ekki um neitt að velja en að teyma hjólið í vinnuna og teyma svo aftur um borð í lest og svo kom tengdó og náði í mig á stöðina. Ég var jafn niðurlút og dekkið. Kannski voru örlögin að segja mér að sleppa því að hjóla, það var svartaþoka þegar hér var komið sögu og ég hefði kannski ekki verið sýnileg öðrum í umferðinni. Hvað sem því líður var ég ósköp döpur yfir þessu og aðallega yfir eigin vanmætti til að laga dekkið.

Það var því um lítið að velja á laugardagsmorgun en að henda hjólinu í bíl og fara á verkstæði. Þar var mér kennt að skipta um slöngu, laga slöngu og ýmsilegt annað ásamt því að ég keypti flotta pumpu og slöngubætur. Mér ætti ekki að vera neitt til ama núna.

Þegar hjólið var aftur komið í lag ákvað ég að fara í góðan hring í vetrarsólinni. Það er svo skrýtið með hjólreiðarnar, kálfarnir og lærin brenna og ég er kófsveitt þegar ég legg aðeins á mig en samt líður mér aldrei eins og að ég sé að "líkamsræktast". Ég er bara að skemmta mér.Ég byrjaði á rúmum 7 kílómetrum til Wrexham og hringsólaði þar aðeins um áður en ég ákvað að stoppa og fá mér einn góðan latte. Sat á Neró og sötraði bollann og las blaðið og skoðaði fólkið.

Ákvað svo að fara nýja leið heim. Kanna aðeins umhverfið í kringum mig. Í staðinn fyrir að fara í gegnum Rhostyllen og Johnstown beygði ég til Bersham og fór sveitavegina heim.


 Það var áður náma í Bersham og nú er þar hægt að fara og skoða sig um og sjá hvernig þetta fór allt saman fram. Mér þykir námugröftur óhuggulegasta starf sem ég get ímyndað mér og ég er ósköp fegin að minn maður þurfti ekki að fylgja forfeðrum sínum í pyttina. Í Bersham sá ég lika voðalega mörg falleg hús sem greinilega var búið að gera upp.

Þaðan lá svo leiðin í gegnum Legacy þar sem ég var alveg forundra við að sjá eitthvað sem heitir Legacy Tower. Ég veit ekkert hvað þetta er en flott var það. Ég þarf að fletta þessu upp.


Í Legacy fann ég líka þetta fína hús sem ég sá að var til sölu. Mig vantar einmitt nýtt hús og fletti upp á netinu en það kostar hálfa milljón punda og mig vantar þau líka. Þannig að við bíðum aðeins með að flytja til Legacy.

Þaðan hjólaði ég svo sveitavegina heim og kom til Rhos sveitt og sátt, himinlifandi með túrinn og allt sem ég sá á leiðinni. Ótrúlega skemmtilegt að finna svona nýtt hérna rétt hjá manni.

föstudagur, 11. janúar 2013

Það sem þarf að gerast. Í þessari röð.

Ritgerð
2 kíló
Tré/Garður
2 kíló
Ísland
2 kíló
Spánn
2 kíló
Þak
2 kíló
Fataskápur/henda drasli
4 kíló
Peningar
2 kíló
Eldhús eða nýtt hús.
2 kíló.

Lítið mál að rumpa þessu af á 12 mánuðum eða svo.þriðjudagur, 8. janúar 2013

Ljómandi kvöldverður þegar það er rigning. Eða rok. Jafnvel í þoku. Veit ekki með sólskin.

(4 skammtar á uþb 360 kal hver skammtur)
4 sætar kartöflur, flysjaðar og skornar í þunnar sneiðar (á þykkt við tíkall)
1 msk góð olía
200 ml 10% sýrður rjómi
100 g fitusnauður rjómaostur
100 - 200 ml léttmjólk (gæti hafa verið minna eða meira, tilgangurinn er að hræra út sýrða og ostinn þar til þykktin er eins og á rjóma)
1/4 tsk chili
3 litlir hvítlauksgeirar, maukaðir
salt og pipar

Hræra saman allt nema kartöflur þartil minnir á rjóma. Setja kartöflurnar út í skálina og þekja vel. Leggja helminginn í léttsmurt eldfast mót.

1 msk hnetusmjör, ósætt
Sletta af olíu
1 tsk sítrónusafi

Allt hrært saman þartil "runny" og svo slett yfir kartöflurnar. Hinn helmingurinn af þeim svo settur í mótið og svo inn í 190 gráðu heitan ofn með álpappír. Baka þannig í 20 mínútur og svo taka af álpappírinn og baka óvarið í 40 mínútur.

Borið fram með grillaðri kjúklingabringu og gufusoðnu brokkólí. Sérlega ánægjulegt. Og fyllandi þegar maður er að venja mallakút við minni skammt eftir gósentíð í desember.föstudagur, 4. janúar 2013

Ég er búin að vera að æfa mig í að hjóla að undanförnu. Ég ætlaði að rjúka í að hjóla í vinnuna strax á gamlársdag en fann að ég var aðeins smeyk í umferðinni og hugsaði með mér að það væri ekkert að því að venjast þessu aðeins áður en ég helli mér út í traffíkina svona bara villevæk. Á meðan að ég hef verið að æfa mig er ég líka búin að vera hugsa mikið um markmiðasetningu.

 "Að geta hjólað í vinnuna" samræmist fyllilega hugmyndum mínum um tilganginn með þessu öllu. Sjáið til mér þykir nefninlega alveg ferlegt þegar líkamsrækt er stundum með fitutap eitt í huga. Ég hef meiri áhuga á að hugsa eins og íþróttamaður með lengra markmið í huga. Markmiðið "að geta hjólað í vinnuna" er þannig frábært allífs markmið. Að vera "í formi" þýðir ekki að vera grönn með magavöðva. Þessir magavöðvar verða að vera nýtanlegir. Það þýðir að geta gert það sem þarf í daglega lífinu án þess að standa á öndinni. Hlaupið upp stigann í vinnunni, borið bókakassana þegar maður flytur í stærra hús, hlaupið á eftir strætó, sloppið við hjartaáfall og sykursýki. Ég get samt ekki að því gert en að langa til að finna mér einvhern viðburð til að taka þátt í. Ég er svo vön að vera að æfa hlaup fyrir eitthvert ákveðið kapphlaup að það er erfitt að hafa ekki einhvern einn ákveðinn atburð í huga. Hver einasti mánudagur til föstudags er bara ekki "viðburður" í sjálfu sér. Markmiðasetning er líka betri ef maður getur brotið stóra markmiðið (að geta hjólað í vinnuna) niður í smærri einingar. Ég þarf þessvegna að setja niður nokkra áfanga, hvort sem það eru vegalengdir eða áfangastaðir.

Það er ekkert að markmiðinu "geta hjólað í vinnuna" en ég verð í að setja niður fyrir mig hvernig ég ætla að verða nógu fitt til þess. Í lausu lofti markmið eru tilgangslaus. Ég gerði því það sem mér er eðlislægt og leitaði að plani sem stefnir á markvissan hátt að bættu líkamsástandi með því að hjóla. Ég fann plan sem er svipað og hlaupaæfingarnar mínar og miðar að einum mjög löngum túr og tveimur styttri en snarpari ásamt einni til tveimur brekkuæfingum á viku. Geranlegt og fínt að blanda við tvær ketilbjöllu æfingar á viku. Og þar með er ég komin með hvernigið. Svo er það bara að finna einn kappakstur eða svo. Ég var orðin húkkt á að fá medalíur sko. Maður fær víst ekki medalíu fyrir að mæta á réttum tíma í vinnuna.

þriðjudagur, 1. janúar 2013

1. janúar 2013
 2013 tók mér fagnandi. Eftir linnulausa rigningu síðustu fjórar vikurnar vaknaði ég í morgun loksins við glampandi vetrarsól. Ég rauk til, setti upp hjálminn og fór út í túr. Prófaði að fara Pen-Y-Cae/Ruabon hringinn og það var svona ægilega skemmtilegt. Það eru þónokkrar brekkur, flestar upp í mót, og ég þakklát manninum að hafa keypt hjól með almennilegum gírum. Ég þarf aðeins að venjast hjólinu, bæði sem hluta af umferðinni og svo sem þætti í heilsusamlegri lífstíl, ég finn það t.d að ég er örlítið smeyk við bílaumferðina hér en ég er líka alveg viss um að ég venjist fljótt. Í huganum er ég farin að skipuleggja túra hingað og þangað, Llangollen kemur helst upp í hugann. Það væri gaman að sjá hvort ég gæti hjólað meðfram skipaskurðinum þangað. Ég er allavega spennt og kát með þetta allt saman.

Ég leit aðeins tilbaka og sá að ég byrjaði 2012 á nánast sama hátt; ég fór í 5 km hlaupatúr um þorpið á Nýjársdag það árið. Og þessvegna ætla ég að segja að ég kveðji 2012 með gleði og þakklæti; ég er enn að.


Ég hlakka svakalega til að kanna landið með þessum fararskjóta. Nú þarf ég bara að stilla Garminn góða af hlaupum og á hjól.