sunnudagur, 1. júní 2014

 Ég eyddi síðustu helgi í London við dans, drykk og daður. Það fannst mér nú heldur skemmtilegt. Og ekki skemmdi fyrir að hitta þar og eyða helginni með góðum vinkonum sem ég hitti allt of sjaldan.

Í London keypti ég mér lítið plaststykki sem hefur heldur betur fengið mig til að hugsa. Þetta er ósköp einföld lítil plasthilla sem maður hengir á hleðslutækið og svo getur síminn legið á hillunni í snyrtilegu ró og næði á meðan hann hleðst. Svo einfalt. Svo áhrifaríkt.

Svona nokkurn vegin eins og heilbrigð rútína ætti að vera. Einföld og áhrifarík.  Í rúman mánuð núna er ég búin að mæta í ræktina, best 3 sinnum í viku, verst einu sinni en ég hjóla á hverjum degi. Að mæta í ræktina er bæði einfalt og áhrifaríkt en af einhverjum ástæðum get ég ekki sett það á litla snyrtilega plasthillu í heilanum og komið ræktarferðum algerlega fyrir í daglegu rektsri lífsins. Sama með matinn, kolvetni og prótein, prótein og kolvetni, prótein og fita. Einfalt og áhrifaríkt og virkar fínt fimm daga vikunnar. Um helgar breytist ég svo í eitthvað brenglað nagdýr og allt sem ég hafði áorkað yfir vikuna fýkur út um gluggann.

Ég tók þessvegna aðeins til í heilanum í dag og setti það sem þarf á snyrtilega plasthillu. Það sem þarf til er að búa til hugsanaakkeri, eitthvað sem festir vana og hegðun svo það gerist á hverjum degi. Setning eða orð sem ég nota og segi upphátt þegar ég finn upp afsökun til að fara ekki í ræktina. Ég þarf líka að hugsa um minningu sem færir mig aftur að tilfinningunni sem hreysti færði mér og á sama tíma slæ ég með fingrunum á viðbeinin. Allt þetta er akkeri, festing við vana.

Smáatriði eins og að kaupa nokkra nýja boli og nýjar buxur, skrifa niður nýja lyftingarútinu og gera vikumatseðil eru svo lokaþættirnir sem festa rútínuna í sessi.

Og já eitt í viðbót.

Just do it.