mánudagur, 31. janúar 2011

Hasselback sæt kartafla og lax
Það var allskonar tilraunastarfsemi í gangi í eldhúsinu í kvöld. Ég var sorgmædd og döpur allan daginn í vinnunni og fannst upplagt að hressa mig við með því að stússast í matargerð. Ég átti til örlítið laxasporð í frysti hafði hug á að prófa marineringu sem ég hafði lesið um enda innihélt hún tvö af mínum uppáhaldsefnum; hnetusmjöri og chili. Afganginn af upprunalegu uppkriftinni átti ég ekki til og subbaði bara einhverju saman sem ég fann. Matskeið af hnetusmjöri, sletta af chilitómatsósu, dropar af cidervinegar, dropar af sítrónusafa, dropi af runny honey, salt og pipar og blanda saman. Maka á laxinn, vefja inn í álpappír og baka eins lengi og manni finnst þurfa til. Þetta var voðalega gott. Ég hafði svo líka séð sætar kartöflur skornar í hasselback stíl (þverskornar nánast niður, en halda forminu) og datt í hug að Dave gæti fengið svoleiðis með. Sjálf borða ég ekki kolvetni á kvöldin en fæ að fara með afganginn út á kjúklinginn minn í hádegismatinn á morgun.  Ég hafði haft venjulegar hasselback kartöflur með roast beef á sunnudaginn og þær slógu svo í gegn að ég ákvað að prófa á sætu kartöflunni. Þvo og nudda sæta kartöflu og skera svo þvert á hana alla nánast alla leið en halda í forminu. Nudda svo í smá ólívuolíu þannig að olían leki aðeins inn í rifurnar og strá örlitlu af sjávarsalti yfir. Baka svo í ofni í 40 - 50 mínútur eftir stærð. Það er örugglega ógeðslega gott að setja geitaost eða feta ofan á líka eins og upprunalega uppkriftin leggur til. Ég prófa það tvímælalaust næst. Skurðurinn gerir eitthvað extra krispí og djúsí fílíng og miðjan helst samt mjúk og sæt. Mikið sem matur veitir mér mikla gleði.

sunnudagur, 30. janúar 2011

Ég las um konu um daginn sem borðar allt sem hana langar í, og hana langar oft í alls konar "vitleysu", en samt er hún í fínu formi. Hún æfir heilmikið en aðalatriðið er að hún hættir að borða rétt áður en hún verður södd. Hún segist bara ekki líða vel ef hún er södd. Og þannig getur hún borðað hafragraut, eða egg og beikon, steikarsamloku eða salat, súkkulaði og ostaköku, snakk og snickers og allt án þess að fitna. Hún borðar ekki bara óhollan mat, reyndar borðar hún bara gæðafæðu, en neitar sér ekki um neitt. Hættir bara þegar hún er orðin södd. Hún segir að aðalatriðið fyrir sig var uppgötvunin að allur maturinn yrði til á morgun líka. Það væri alveg nóg að fá sér bara smávegis í dag því hún gæti fengið sér þetta aftur á morgun ef hana langaði til. Og náði þannig jafnvægi. Þegar ég les svona byrjar að iskra í mér af öfund, reiði og von. Ég myndi gefa hægri handlegginn fyrir að geta hugsað svona og komið svona fram við mat. Og þegar ég hugsa um "endalegu útkomuna" þá væri þessi hegðun draumastaðan fyrir mig. Það er samt frekar ólíklegt að ég geti nokkurn tíma haft svona stjórn á mér. Ekkert frekar en krakkhóra getur látið hálfan skammt duga á degi hverjum. En svo hugsa ég líka að þetta væri ekki draumastaðan fyrir mig, draumastaðan væri að komast á eitthvert stig þar sem mér er bara alveg sama um mat. Borða bara til að fá næringu og læt það duga. En við þá tilhugsun verð ég döpur og leið. Líf án þess að njóta matar? Nei andskotinn ég tek frekar baráttuna og fæ þá að njóta öðruhvoru. Draumastaðan væri að njóta bara holla matarins og vera skítsama um allt draslið. Aftur, svona frekar ólíklegt að það gerist einhverntíman. Draumaútkoman væri einhverskonar blanda af þessu öllu. Geta hætt að borða þegar ég er orðin södd eftir að hafa notið djúsí og holls matars sem nærir mig fullkomlega. Ahh, já það má víst láta sig dreyma. Mér hefur af einhverjum ástæðum verið mikið hugsað til endalokanna að undanförnu. Hvað gerist þegar ég verð 70 og eitthvað kíló? Ég veit að þetta er kannski helst til snemmt að velta þessu fyrir sér núna en engu að síður þá get ég ekki að því gert þegar ég dáist að nýfengnum kinnbeinum, að ímynda mér hvernig ég verð þegar þessu er öllu lokið. Og ég þarf alltaf að staldra við þetta hugtak. Endalok. Þegar ég er búin. Þegar þessu lýkur. Og ég verð að stoppa sjálfa mig af þar. Ég veit nefnilega vel að þessu lýkur aldrei. Ég er fíkill og ég á eftir að díla við fíknina það sem eftir er. Svona alveg eins og mig langar alltaf smávegis í sígarettu. En ég er búin að vera að velta fyrir mér þar sem þessu kemur aldrei til með að ljúka en ég verð samt 70 og eitthvað kíló hvaða hvatningaraðferðir maður á þá að nota til að standa í stað. Það er ekki eins og það sé eitthvað spennandi verkefni. Vigta sig samviskusamlega á laugardögum og þakka guði að maður er ennþá 70 og eitthvað kíló? Fyrst datt mér í hug að það væri náttúrulega frábært tækifæri til að éta eins og geðsjúklingur eina vikuna og vera svo í kappi við sjálfan sig um að losa sig við það aftur vikuna á eftir. Þannig gæti ég alltaf séð áfram árangur á vigtinni. En það var örugglega bara fíkillinn sem hugsaði þannig. Þessvegna fannst mér svo mikilvægt að ég gæti verið búin að koma mér upp einhverskonar jafnvægi í hegðun minni gagnvart mat áður en ég næ að verða eins og ég vil verða útlits og með tilliti til líkamsburða í fitnessinu. Það væri nefnilega voðalega gaman að þurfa ekki að berjast alltaf stanslaust alltaf endalaust út í eitt alltaf hreint og endalaust. Að vera komin í andlegt jafnvægi er þessvegna lokamarkmiðið mitt.

föstudagur, 28. janúar 2011

Í dag var tuskudagur. Tuskudagar eru þegar ég fer í rækt og er bara eins og tuska. Þyngdir sem fyrr í vikunni voru verðugir andstæðingar sem ég sigraðist á eru í dag nægar til að fá mig til að krjúpa kjökrandi á gólfinu og biðja um miskunn. Og þetta gerist án þess að ég finni neina sérstaka útskýringu á því. Þetta hefur eitthvað með dagsform að gera. Að hugsa með sér, ef maður væri atvinnuíþróttamaður og akkúrat daginn sem maður keppir á Ólýmpíuleikunum svíkur dagsformið mann. Það væri alveg ferlegt. Og svo er líka dálítið fyndið að ég sé að spá í dagsformi. Gerir það mig að íþróttamanni?

miðvikudagur, 26. janúar 2011

Það er mikil mildi að það uppgötvaðist að hnetur eru svona súperfæða fyrir þá sem eru að spá í heilsunni. Uppfullar af hollri fitu sem lækkar kólestról og hættu á hjartasjúkdómum, vítamínum og trefjum sem halda manni söddum lengur ásamt því að vera ljúffengar. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem er í megrun og fær sér hnetur er líklegra til að viðhalda megruninni lengur vegna þess að sálræn áhrif hnetuáts er að gefa þá tilfinningu að maður sé ekki í megrun og þar með endist maður lengur í megrun! Það má engu að síður ekki gleyma að hnetur eru líka uppfullar af hitaeiningum og það þarf að gera ráð fyrir því áður en maður leggst í át. Og það má heldur ekki telja Snickers sem hnetur. Ég er búin að reyna. Ég er búin að gera hnetur, og þá sérstaklega möndlur að mínu aðal "go to snack" alveg frá upphafi. Og eins mikið og ég elska hnetur þá er það ekkert á miðað við hvað ég elska hnetusmjör mikið. Og þar sameinast ást mín á amerískri matargerðarlist og hnetum. Það er ekkert jafn gott og amerískt hnetusmjör. Og öfugt við það sem maður myndi halda að Kanarnir pumpi hentusmjörið sitt fullt af sykri, rotvarnarefnum, kornsýrópi og kókaíni þá eru þau flest fáanleg alveg náttúruleg. Og best af öllu er hnetusmjörið frá Peanutbutter & Co í New York . Og best af öllu góða hnetusmjörinu þeirra er, yes you guessed it, Súkkulaðihnetusmjörið þeirra. Var það ekki alveg eftir mér að fara allan hringinn og finna súkkulaðiblandaða eintakið!

mánudagur, 24. janúar 2011

Í þessum nýja hugsunarhætti mínum sem felst aðallega í að slaka á og skoða þetta ferli allt saman á heilrænan hátt felst heilmikil vinna. Ég þarf oft á dag að stoppa sjálfa mig af í hugsanaferli sem felur í sér; ef bara og svo og þá og þá ef og þá gerist ef bara... og draga mig aftur inn í núið og neyða mig til að njóta dagsins í dag. Á einhverju netflakki mínu rakst ég á gamlan pistil eftir Diet Girl þar sem hún fagnar því að hafa lést um 80 kíló. Hún er hetjan mín af því að hún tók rúm 5 ár í að léttast um þetta og hún er enn að. Út frá þeim lestri fór ég að skoða ferilinn minn. Á þessum 114 vikum sem ég er búin að vera að stússast þetta er ég búin að léttast um 33 kíló. Það eru 300 grömm á viku að meðaltali. Það er ekki spennandi þegar maður heyrir það. Það eru örugglega ekki margir sem myndu borga mér fyrir að vera megrunarþjálfinn þeirra með þessu gimmikki að "HÆGT ER AÐ LÉTTAST UPP UNDIR 300 GRÖMM Á VIKU!" Flestar svona auglýsingar lofa auðveldum drykk, sjeik og pillu og miklu fleiri kilóum skafið af á skemmri tíma. En hvað ef ég sný þessu við? Hvað ef ég segi að áður en ég byrjaði að spekúlera var ég að þyngjast um meira en 300 grömm á viku? Og ef ég hefði ekkert gert í mínum málum  þá væri ég 159 kíló í dag. Hvað ef ég lofa viðskiptavinum mínum að þeir verði ekki 159 kíló eftir 2 ár? Virkar það sem gimmikk? Þetta var mér góð áminningi um hvað ég er að gera vel. Það er ekkert trendí eða smart við matinn sem ég borða eða æfingarnar sem ég geri. Og ég tek 300 grömmum á viku með auðmýkt og þakklæti þegar ég ímynda mér 159 kílóa konuna sem ég gæti verið.

sunnudagur, 23. janúar 2011

Andlitsgríma Tutankhamuns.
Lúkas hefur lengi verið heillaður af múmíum og faraóum og egyptalandi. Þannig að þegar ég sá auglýsta sýningu um Tutankhamun í Museum of Museums í Manchester þótti okkur upplagt að skella okkur. Sýningin var meira fyrir fullorðna en við vorum búin að ákveða að það væri þess virði að prófa, ef Láka þætti þetta leiðinlegt þá myndum við bara fara aftur út. Ekki mikið mál að eyða deginum í Manchester svo sem. En við hefðum ekki þurft að vandræðast yfir þessu, hann var alveg heillaður, setti á sig heyrnartólin og fór svo í gegnum sýninguna með gapandi munninn. Sýningin var sett upp svo maður fræddist um Howard Carter sem hafði sem barn heillast af Egyptalandi og bara hætti svo ekki fyrr en hann fann gröf Tutankhamuns. Þaðan var farið með mann í að upplifa hvernig Carter og Lord Carnarvon sáu þetta allt í fyrsta sinn, allt sett upp nákvæmlega eins og var og ljós og myrkur notað til að ná fram áhrifum. Og svo að lokum allir gripirnir sýndir. Þetta var alveg frábær skemmtun og mjög fræðandi. Og Láki himinlifandi. Nú þurfum við að plana helgarferð til London á Natural History Museum til að sjá risaeðlur.

Láki og Lego Darth Vader
Við fórum svo til Manchester, fengum okkur léttan hádegsimat og ég fékk svo að rölta aðeins um húsgagnaverslanir og láta mig dreyma. Láki fékk svo sinn draum uppfylltan og komst í Legó búð. Þar var allt Legó sem 7 ára gæti ímyndað sér að væri til og það sem við vissum ekki að þar er svona míni Lególand. Við höfðum ekki tíma til þess þarna en greinilega eitthvað sem þarf að gera bráðum. Hann fékk að kaupa sér Legó múmíu og þar með dagurinn fullkominn. Einn af þessum yndislegu fjölskyldudögum sem við eigum eftir að eiga góðar minningar um.

Í dag er ég svo búin að eyða morgninum í eldhúsinu. Vikumatseðillinn uppskrifaður, epli soðin í kanilmauki, múffur bakaðar, kjúklingur grillaður og hitt og þetta gert tilbúið til að gera verkefnið auðvelt á hverjum virkum degi. Það má líka vera að eins og ein súkkulaðikaka eftir uppskrift frá Nigellu Lawson hafi læðst inní ofn, en það er sunnudagur og komin tími á að dansa við djöfulinn eins og einn vals. Eða kannski tangó. Við sjáum hvað setur. Góð helgi hjá Jones og Co.

föstudagur, 21. janúar 2011

Og þar kom það. Ástæðan fyrir því að ég léttist ekki. Undir spikinu hnyklast núna níðþungir vöðvar sem tröll af Vestfjörðum væri ánægt með. Nú þarf bara að fá aðeins meiri lögun á þetta og ég verð góð. LYFTA!

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Ég hljóp þriðja góða hlaupið mitt á viku núna. Í stað þess að hlaupa eins lengi og ég get á jöfnum hraða eins og ég gerði áður er ég núna að einbeita mér að jöfnum hvíldum inn á milli svaka spretta. Ég fer enn 5 kílómetra en stundum er ég að labba og stundum þeysist ég áfram eins og djöfullinn sé á hælum mér. Þegar ég byrjaði fyrst að hlaupa á bretti var "þægilegi" hraðinn minn, þ.e.a.s. sá hraði sem ég get hlaupið lengi í góðum ryþma, 7.2 kílómetrar. Svo var ég farin að vera mest á 8.5 og alltaf á 1.5 halla. Í morgun komst ég svo að því eftir sprettina að 9 kílómetrar er þægilegi hraðinn minn. Hnéð er, jah kannski ekki alveg fullkomið en að minnsta kosti er ég ekki grátandi af sársauka eins og var þegar ég hætti að hlaupa fyrir nokkru. Hlaupin eru voðalega flókin fyrir mig. Þá daga sem ég fer í lyftingar vakna ég bara, fer í gallann og skunda í rækt. Ekkert mál. En þá daga sem brennsla er plönuð ýti ég alltaf á snooze einu sinni, rífst svo við sjálfa mig í smástund og neyði svo sjálfa mig til að truntast af stað. Og alveg þangað til ég er komin af stað, jafnvel 3 til 4 mínútur inn í hlaupið er ég enn með kvíðahnút í maganum yfir komandi átökum. En svo gerist eitthvað, ég get hlaupið lengur, eða hraðar en ég gerði ráð fyrir og svo byrja ég að keppa við sjálfa mig. "Næst þarftu að taka sprettinn á 12 kílómetrum, ein mínúta í viðbót á þessum hraða, kommon hlussa þú hlýtur að geta klárað kílómetra, hækkaðu hallann í 5 og prófaðu svo að hlaupa!" Og ég fell fyrir áskoruninni í hvert sinn og áður en ég veit af eru liðnar 40 mínútur og ég þarf að drífa mig í sturtu og kæla mig niður svo ég sé bara ljósrauð í framan en ekki djúpfjólublá þegar ég mæti í vinnu. Og tilfinningin er ólýsanleg, stolt og óbeisluð gleði, adrenalín og endórfín streymandi um æðarnar. Þessvegna er svo skrýtið að ég muni ekki þá tilfinningu þegar ég vakna og fer af stað næst. En kannski er þetta bara betra svona, ég fæ að vera geislandi stolt af því að hafa ýtt sjálfri mér út fyrir "comfort zone" allavega þrisvar í viku.

miðvikudagur, 19. janúar 2011

"Þá er loksins ný sería af Bráðavaktinni hafin með tilheyrandi barkaþræðingum á gestum og gangandi, sjúkum og heilum, læknum og sjúklingum og virðast allir hafa gott af. Kannski að ég drífi bara í að láta barkaþræða mig og þá kannski grennist ég og fatta upp á hvað ég ætla að gera í framtíðinni."  Þetta skrifaði ég í janúar 2005. Núna er engin Bráðavakt en Grey´s Anatomy tekið við. Sá læknaskari framkvæmir ekki eina einustu barkaþræðingu en eru heilmikið fyrir að skera í heilann á sjúklingum. Guði sé lof að ég náði að sortera mig út sjálf áður en ég fór að óska ekki eftir heilauppskurði.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

Eiginmaður minn elskulegur sá til mín um daginn þar sem ég stóð með bolognese sósudós í hendi og var að lesa næringarinnihaldið af miklum áhuga. "Það er ekkert að marka þetta" segir hann og brosir. Og þegar ég innti hann eftir hvaðan hann hefði þær upplýsingar þá kemur í ljós að hann mælir og rannsakar næringarinnihald matvöru í vinnunni. Ég vissi að hann passaði upp á salmonellu og e-coli en ég hafði ekki gert mér grein fyrir þvi að hann skoðaði þetta svona nákvæmt. En jú, svo er og hann sagði mér meira. Það eru svo rúmir staðlarnir að þegar á matvöru stendur "aðeins 3% fita" er bara heppni ef svo er. 3% eru 3% ef það er innan 10% ramma. Kolvetni eru reiknuð eftir á og er mjög ónákvæm vísindi og verra eftir því sem fleiri matartegundir eru í einni dós. Þannig er blönduð sósa eins og þessi bolognese dós sem er tómatar og olía og grænmeti og krydd og hitt og þetta nánast útilokað að mæla nákvæmlega. Þetta er allt bara slump. Það eina sem er hægt að stóla á eru hreinar matvörur, eins og t.d. kjúklingur eða hreint jógúrt eða gúrka. Nú vona ég að standardinn sé bara svona lélegur hér í Bretlandi og að annarstaðar sé þetta nákvæmari vísindi. En ég er tvímælalaust komin með enn eina áminninguna hvað það er mikilvægt að elda sjálfur og úr sem náttúrulegustu hráefnum. Og ég sem var komin með doktorsgráðu í að lesa á miðann!

mánudagur, 17. janúar 2011

Monster æfing í morgun; 60 kíló í hnébeygjum. Síðasta settið var kannski ekki alveg í fullkomnu formi og tempóið svona hingað og þangað, en engu að síður, ekki slæmt. 60 kíló eru ekki svo langt frá 100 kílóa markmiðinu! Monster æfing.

sunnudagur, 16. janúar 2011

Hvort kom fyrst eggið eða hænan? Það er það sem mér dettur helst í hug þegar ég reyni að skilgreina þennan pirring minn út í það sem ég sé sem "failure" hjá sjálfri mér. Þegar mér líður vel í heilanum þá langar mig ekkert í sætindi og á sama tíma virðist vigtin  heldur ekkert pirra mig. Þó ég standi í stað. Svo lengi sem skepnan sefur get ég haldið áfram ótrauð og fagnað af heilum hug og hjarta öllum hinum sigrunum; 5 km hlaup, úr 26 í 16 í buxum, 57.5 kg í hnébeygjum, 3 skálastærðir niður á við ásamt almennri líkamlegri vellíðan. En þegar skepnan rís og beljar á sætindi þá leita ég logandi ljósi að afsökunum. Hverju sem er til að láta allt þetta stórkostlega skipta engu máli bara svo ég hafi gilda afsökun til að troða í andlitið á mér. Og besta, allra, allra besta afsökunin er að ég léttist ekki (skítt með að ég hafi minnkað um buxnastærð, vigtin segir að ég léttist ekki). Og þá hugsa ég um leið, þetta virkar ekki, ekkert virkar, ég ætla að gefast upp, ég verð hvort eð er alltaf feit, ég ræð ekkert við þetta GUÐI SÉ LOF OG DÝRÐ NÚ MÁ ÉG ÉTA! Ég er semsagt ekki svekkt yfir því að léttast ekki, ég er svekkt af því að þetta er svo léleg afsökun og ég fæ ekki nammi út á hana. Það eru nefnilega engar gildar afsakanir - ekki ein einasta.

Að hluta til ætla ég líka að skella skuldinni á keppnisskapið í mér. Það er bara ekkert gaman að tilkynna engar breytingar opinberlega viku eftir viku.

Ég er búin að prófa alla megrunarkúrana. Alla. Allt sem kemst í tísku um stund. Ég get meira að segja farið svo langt aftur í tímann að ég hef prófað Scarsdale kúrinn. Ég er búin að prófa þetta allt. Og þegar við skoðum þetta með vísindagleraugunum er augljóst að þrátt fyrir allt vælið í mér, og það er það sem þetta er, bara væl til að fá athygli eins og krakki í dótabúð, þá er þetta sem ég er búin að vera að gera síðustu næstum tvö árin það eina sem hefur virkað fyrir mig. Og það er enn að virka. Ég er búin að léttast um 33 kíló. Ég er búin að halda þeim af mér í allan þennan tíma. Ég bæti mig stanslaust í ræktinni. Ég er sætari og ánægðari en ég hef nokkurn tíman verið með sjálfa mig. Yfir hverju er ég eiginlega að kvarta?

Ég er búin að prófa alla þessa megrunarkúra. Og ég óska þeim sem fara í megrun alls hins besta og ég óska af öllu hjarta að kúrinn virki. Og ég vil líka fá að heyra í þeim eftir tvö ár, eftir fjögur ár til að fá að vita að kúrinn virki enn. Sjálf er ég sannfærð um að eftir tvö ár verði ég enn að rolla um á 80 kílóa bilinu. En það verða líka 80 kíló af nothæfum ofurköggla vöðvum . Eftir tvö ár verð ég ekki 150 kíló eins og hingað til hefur verið árangurinn af því að fara í megrun.

Heilinn er ótrúlegt tæki. Ég er alveg viss um að heilinn gefst upp langt á undan líkamanum. Ef ég gæti slökkt á heilanum á meðan ég hleyp kæmist ég örugglega miklu lengra. Fæturnir eru ekki búnir þegar heilinn segist vera búinn að fá nóg. Sama með lóðin, vöðvarnir myndu sjálfsagt leyfa eitt rep í viðbót eftir að heilinn segir stopp. Ég er ekki að kljást við neitt annað en heilann í mér. Hann er forritaður til að leita að afsökunum til að fá sætindi. Ef vigtin getur verið gerð að blóraböggli þá finnst honum það hið besta mál. En ég er búin núna að gera það sem hefur verið mitt allra öflugast vopn í þessari baráttu, í þessu ferli ,og það er að ég er búin að stoppa, hugsa og breyta. Nú þegar ég veit hvaðan sneytin, frekjulætin og bestíuhátturinn stafar verður miklu auðveldara að tækla það. Ég er ekki að segja að ég geti bara hætt að óska þess að verða 70 og eitthvað kíló, til þess er þetta of rótgróin hugsun ennþá. En ég sko heilu skrefi nær að lagfæra þann hugsunarhátt. Og ég held ótrauð áfram að gera það sem ég er búin að gera í næstum tvö ár. Afhverju að breyta því? Mér finnst það bæði gott og gaman og ég á jú eftir að halda áfram að gera það í sextíu ár í viðbót. Og ég hlakka bara til.

fimmtudagur, 13. janúar 2011

Ástæðan fyrir óyndinu í gærkveldi stafaði af of mikilli naflaskoðun. Ég á það mikið til að velta mér upp úr hlutunum þangað til ég er búin að hugsa þá í spað og raunveruleikinn er allt annar en það sem ég er búin að ímynda mér. Ég hafði fyrir nokkru horft á voðalega skemmtilegan sjónvarpsþátt sem leitaðist við að afsanna með empirískum rannsóknum ýmsar algengar mýtur um megrun og fitutap. Margt skemmtilegt kom þarna fram en það sem fékk mig til að kinka kolli og segja við Dave; "þetta hef ég alltaf sagt" var þetta með brennslukerfi (metabolism). Ég hef mjög oft heyrt feitt fólk halda því fram að það sé með hægara brennslukerfi en annað fólk og að það borði mjög lítið og mjög hollt. Ég hef alltaf pú púað á þetta, ég er sannfærð um að eina ástæðan fyrir offitu er ofát. Simples. Og kemur ekki í ljós að ég hef rétt fyrir mér. Þegar það er rannsakað þá kemur í ljós að fólk gleymir 60% af því sem það borðar yfir daginn, meira að segja þegar það er látið halda dagbók eða vídeóbók yfir átið. Grannt fólk heldur svo að það borði meira en það gerir. Það eru stjarnfræðilegir möguleikar á að þú sért einn af þeim örfáu sem eru með þetta margfræga hæga brennslukerfi. Stjarnfræðilegir. Ég sat svo hér í gær og hugsaði með mér að ég get ekki gleymt neinu því ég geri þetta öfugt, ég skrifa fyrst og borða svo. Ég er skrifa niður á sunnudegi hvað ég ætla að borða á mánudegi og ég útbý það líka á sunnudegi. Allt vigtað, flokkað og tilbúið til neyslu. Ég sting ekki upp í mig molum yfir daginn og ég vafra ekkert út af plani. Og ég stunda líkamsrækt af nokkru kappi. Ég er tvímælalaust að borða hreint fæði að því leytinu til að ég bý eiginlega allt til frá upphafi hér heima. Og samt léttist ég eiginlega ekki neitt. Ég veit ekki um neinn sem vinnur jafn hörðum höndum að þessu og ég og fær jafn lítið uppskorið. Hvað er eiginlega að hjá mér? Afhverju er ég að vinna og vinna og ekkert gerist á vigtinni? Og ég fór að hugsa að ég hlyti bara að vera með svona hæga brennslu. Og varð svo um að ég væri fallin í þessa gryfju sem ég er búin að hlæja að öllum hinum fitubollunum fyrir að falla í að ég hugsaði með mér að það væri best að ég æti einn pakka af Oreo kexi. Og gat svo ekki hægt að hugsa um helvítis kexið. Löngunin líður hjá, maður þarf bara að vera smá agaður í nokkrar mínútur og svo tekur skynsemin aftur við. Skynsemin segir mér líka að ég hafi uppskorið heilmikið, og flest af því merkilegra og mikilvægari lexíur en það að sjá tölur á vigtinni. Eins merkilegt og það er nú.

miðvikudagur, 12. janúar 2011

Númer 1. Borða morgunmat sem inniheldur prótein og góð kolvetni
Númer 2. Telja kalóríur og skrifa niður það sem ég borða. Það er alltaf miklu meira en maður heldur.
Númer 3. Prótein. Auka prótein og minnka kolvetni.
Númer 4. Mjólkurvörur - kalk bindur sig við aðra fitu sem við neytum og myndar einskonar sápu sem við kúkum bara. Einfalt og gott
Númer 5. Líkamsrækt. Þó svo að brenndar kalóríur séu kannnski ekki svo miklar þá eru áhrif reglulegrar æfingar mun mikilvægari en kalóríurnar sem er brennt.
Númer 6. Fyrirgefa sjálfri mér fyrir að vera ekki fullkomin.

Þetta eru reglurnar. Einfalt ekki satt? Nema þá daga sem þetta er flókið. Eins og núna. Ég rígheld í tölvuna og bíð eftir að klukkan verði 11 svo sjoppan loki og ég verð seif. Mér tekst það. Ég er alveg viss um það. Þetta er nefnilega svo einfalt.

mánudagur, 10. janúar 2011

Hópur verkfræðinga vinnur að lausninni.
Nú geri ég mér fyllillega grein fyrir því að fegurðin skapar ekki hamingjuna. Ég hika sko all svaðalega mikið við að setja samasemmerki á milli þess að vera mjór og þess að vera fallegur og það þarf ekkert að ræða það neitt frekar. Hinsvegar get ég auðveldlega sett samansemmerki á milli þess að vera grannur og að það sé auðveldara að taka þátt í daglegu lífi. Þannig er til dæmis með nærföt. Það eru nú þónokkur ár síðan ég gaf upp alla von um falleg nærföt og tók nauðsyn framyfir kynþokka. Stelpurnar einfaldlega þurftu á styrkari hjálp að halda. Það gefur líka auga leið að brjóstahaldarar sem eru verkfræðileg stórvirki með burðarþol reiknað út upp á millimetra gefa ekki mikið rúm fyrir blúndur og silki. Ég sætti mig svosem alveg við þetta, svona er lífið bara ef maður fellur ekki alveg inn í formið. En það var ekki auðvelt. Verkfræðileg undur og stórmerki eru ekkert til í öllum búðum, nei þau þarf að kaupa í rándýrum sérverslunum. Það var þessvegna eðlilegt að ég yrði aðeins hamingjusamari þegar ég sá að í réttu samhengi við minnkandi mikilvægi burðarþols þá eykur í blúndustuðullinn. Og blúndustuðulinn þýðir líka aukið úrval. Það má vera grunnhyggið en það að fara í blúndunærur í stíl við blúndubrjóstahaldara eftir rækt í morgun veitti mér ekki bara hamingju og gleði yfir kvenleika mínum, heldur minnti mig það líka á að ég er núna þáttakandi í öllu draslinu. Allar þessar litlu hindranir í vegi mínum að taka þátt í lífinu eru að falla ein af annarri.

laugardagur, 8. janúar 2011

Ekki get ég svosem kvartað yfir jólagleðinni minni. Ég vó 92 kíló í morgun og samkvæmt opinberum mælingum hef ég staðið í stað á öllum svæðum nema rassi sem eykur í um 2 sentimetra. En það er nú örugglega bara svo það sé þægilegra að sitja á honum. 1 kíló í opinbert plúss er ekkert til að væla yfir og ekkert sem ég get ekki skafið af mér auðveldlega. Það sem ég helst hef tekið frá þessu tímabili eftir mikla íhugun en að ég þarf að læra að slaka aðeins á. Ég er einarður aðdáandi þeirra fílósófíu að maður eigi að fá sér "eitthvað gott" (lesist óhollt) öðru hvoru. Það er ekki hægt að gera það ekki, nema að maður sé alveg spes manneskja sem finnst smjör og rjómabragð vont og fær ekki spennuhroll við tilhugsunina þegar það er til kex eða súkkulaði upp í skáp. En svoleiðis fólk er nú örugglega bara one in a million. Ég er að sjálfsögðu ein af þeim sem finnst sjálfsagt mál að fá sér súkkulaði í morgunmat og get borðað 4 skálar af Lucky Charms í einu og trúi því af ástríðu að allt bragðist betur ef það er rjómi í uppskriftinni. Þannig að fyrir mig er málið að fá mér smávegis, pakka því svo aftur saman og snúa mér aftur að spínatinu. (Ég elska reyndar líka spínat en það er annarskonar ást.) Málið er bara að í hvert sinn sem ég fæ mér eitthvað gott fæ ég líka nett taugahret. Og samviskubit og vott af sjálfshatri. Allt það sem ég myndi segja öðrum að er alveg bannað að fá. En hugsið þetta; síðan ég var 11 ára er ég opinberlega búin að berjast við spikið, sjálfa mig og allt mitt umhverfi. Það er miklu lengri tími í niðurbrot, vonbrigði og sjálfshatur en þetta tímabil sem ég hef verið sigurvegarinn. Í hvert skipti sem ég fæ mér eitthvað gott hugsa ég með mér að nú sé þessu lokið. Nú sé ég búin að tapa. Þetta sé skiptið sem ég get ekki þurrkað súkkulaðið af kinnunum og farið aftur í ræktina. Það er mér svo miklu eðlilegra ástand að takast ekki að viðhalda lífstílnum en það að standa mig vel. Er nokkur furða að ég hafi smá áhyggjur? En í hvert skipti sem ég legg kexpakkann frá mér færist ég nær því að trúa að nú sé þetta allt að koma, að ég sé að verða seif, og að þetta sé í alvörunni að gerast hjá mér. Að ég sé í alvörunni sterkari en ég hefði nokkur tíman trúað sjálf.

föstudagur, 7. janúar 2011


Súper trooper!
Það var fyrir alls ekki svo löngu síðan að ég stóð grenjandi af hamingju í mátunarklefa í Next þar sem ég hafði tekið niður af rekka, farið í og rennt upp gallabuxum í stærð 18 sem á var letrað "skinny". Ég eignaðist þar með skinny jeans. Að mínu mati álíka mikill árangur og Tunglgangan. Orðið skinny varð upp frá því eitt af því sem hélt mér við efnið. Í hvert sinn sem ég fór í buxurnar og sá orðið saumað í strenginn í rauðum tvinna hríslaðist um mig hamingjuhrollur. Það er samt með það eins og annað að eftir því sem sentimetrarnir hafa horfið þá hafa buxurnar hætt að vera svo mikið skinny og eru eiginlega meira svona baggy. Með rassinn hangandi um hné. Á þriðjudaginn var síðasti frídagurinn minn eftir jól og áramót. Við Láki ákváðum þvi að fara á rölt um Wrexham og kíkja jafnvel í eina búð og fá okkur svo skinny latte á Starbucks. Ekki veit ég hvað kom til að ég fór inn í Next, þar er búin að vera útsala í nokkra daga og ekki sjéns að finna neitt þar lengur, fyrir utan að ég er ekkert hrifin af útsölum. Ég vil bara fá nýtt og fínt, ekkert last season kjafæði. Hvað sem því líður sá ég í rekka svartar gallabuxur, sérlega lekkerar og á þær var saumað í strenginn í rauðum stöfum; super skinny. SUPER skinny. Ég tók í þær og efnið var mjúkt, þykkt og fallegt og þegar ég sá að þær voru númer 16 sló hjartað aðeins hraðar. Gæti það verið? Hvað með allt ógeðið sem ég er búin að borða um jólin? Það getur ekki verið að ég passi í þær. Lyfti þeim upp og ætlaði að setja aftur tilbaka því þær voru svo greinilega pínkulitlar. Datt svo í hug að ég gæti notað þær sem hvatningarbuxur. Fór með þær inn i mátunarklefa til að sjá hvað mikið vantaði upp á að ég gæti hneppt og viti menn! Þær passa! Super skinny. Það er ég! Ef einhvern vantar hvatningu eða innspírasjón þá mæli ég með að skoða þessa mynd og bera saman við 125 kíló myndina. Er það ekki öll hvatningin sem þarf? Og ég er ekki einu sinni neitt sérlega flink í þessu lífstílsbreytingum öllum. Hugsa sér ef ég væri flínk við þetta, ég væri þá superdúper skinny! Það held ég nú.

miðvikudagur, 5. janúar 2011

Hormónið i líkamanum sem heimtar fitu-og kalóríuháan mat heitir grehlin. Grélín. Hljómar það ekki eins og eitthvað skrýmsli?
Uppskriftir. Ég er ferlega léleg í svoleiðis. Ég er slumpari, sé uppskrift einhverstaðar, man bara helminginn af henni og á svo ekki til hitt sem ég man og skálda bara og slumpa þangað til ég er komin með eitthvað sem ég myndi borða. Það er afar sjaldan sem ég get gert sama hlutinn tvisvar. En samt, ég skal reyna.

Sætar kartöflur með blaðlauk og osti.
2 stórar sætar kartöflur eru þvegnar og þurrkaðar, stungnar með gaffli, nuddaðar með smávegis ólífuolíu og sjávarsalti og svo settar inn í ofn í svona 40 mínútur. Þangað til þær eru svona nokkuð mjúkar. Skera niður einn blaðlauk og hæg steikja á pönnu í smá olíu. Krukka svo saman við hann matskeið eða svo af  fitulitlum rjómaosti með skemmtilegu bragði (ég notaði lauk og svartan pipar) eða fitulitlum venjulegum osti, eða parmesan eða gorgonzóla eða bara það sem er gott á bragðið eða til eða vekur ánægju. Taka svo kartöflurnar út úr ofninu, skera í tvennt og maka lauk-ostinum ofan á og svo aftur inn í ofn í nokkrar mínútur. Þetta má svo bera fram með hverju sem er, kjúlla, svíni eða fiski. Eða bara eitt og sér svona sem léttur réttur. Ég borðaði mínar kaldar í hádeginu með köldum kjúlla og fannst ljómandi alveg hreint.

Eggjamúffur.
Þessar eru algerlega háðar skapgerð (eða brestum) hvers og eins. Mér finnast eggjahvítur góðar og þar af leiðandi eru múffurnar tilvaldar fyrir mig, en sumum þætti þetta kannski bragðlaust. Ég held ég hafi hellt í skál 10 hvítum og 2 rauðum. Hrærði vel og setti svo út i það, 2 matskeiðar kotasæla, fín skorna sveppi sem voru þurrsteiktir á pönnu, oregano, svartan pipar og salt og teskeið af lyftidufti. Hrærði aftur vel og hellti svo í 6 sílikón muffin form. Bakaði í kannski 20 mínútur. Ég man það ekki alveg. Mér dettur í hug að næst setji ég sólþurrkaða tómata. Eða blaðlauk. Eða pónkupons af skinku. Eða grænar baunir. Eða það sem er í ísskápnum. Þetta er sko svoleiðis uppskrift. Ég borða tvær múffur í morgunmat, afgangurinn geymist vel í ísskáp, jafnvel í nokkra daga. Mér finnast eggjamúffurnar sem eru með spelti og osti og möndlumjöli betri en akkúrat núna passa þær ekki inni í prógrammið.

Kúskúskökuna þarf ég að fínpússa aðeins en hún lofar góðu. Sjáum hvað gerist á morgun.

þriðjudagur, 4. janúar 2011

Get ekki beðið eftir að vakna í fyrramálið og fá svona í morgunmat; eggjamúffur og haframúffur. Og svo í alvöru járn. Mmmmm... járnin. Fór líka í dag á útsölu og keypti mér fínar leggings og lyftingabol. Ég verð smart í ræktinni!
Parmesan kúrbítur.
Úr myrkustu djúpunum fæðist alltaf bjartasta vonin. Ég gerði það sem ég geri best í dag, stússaðist í eldhúsinu til að prófa mig áfram með spennandi uppskriftir sem passa inn i prógrammið. Ég fékk mér grænmetis-og kjúklingasúpu í gærkveldi og þar sem að einföld kolvetni eru ekki part av programmet á kvöldin þá vantaði mig brauð staðgengil með súpunni. Ég klauf í tvennt einn kúrbít, saltaði og pipraði, drippaði smá ólivuoliu yfir hann og stráði svo þar ofan á smávegis parmesan osti. Bakaði svo inni í ofni í hálftíma. Rosalega gott og mér alveg sama um brauðleysið. Í dag fæddust svo sætar kartöflur með gljáðum blaðlauk og rjómaosti, kúskúskaka, morgunverðar eggjamúffur, engifer-og soja bakað kál og grillaðir bananar með sykurlausu karamellusýrópi. Hver þarf að vera í fýlu yfir að fá ekki snickers þegar þetta er allt saman á boðstólum? Honestly!

mánudagur, 3. janúar 2011

Ég er ekkert ef ekki öfgarnir. Með tilhlökkun og gleði yfir því að takast á við verkefni ársins byrjaði ég gærdaginn glöð og jákvæð. Hvað gerðist svo? Jú, ég sagði sjálfri mér að verkefnið væri of stórt fyrir mig til að takast á við. Ég sagði sjálfri mér að fyrst ég "væri með fitnessið á þurru landi" þá gæti ég alveg fengið mér Pringles í hádegismat. Og tvö daim í eftirrétt. Hvítlauksbrauð í kvöldmat og lionbar í kvöldsnarl. Tvö lion bar. Þýðir þetta að ég geti ekki gert bæði, leitað mér að vinnu og stundað heilbrigt líferni? Nei, þegar ég leita að svörum í hjarta mér þá kemur í ljós að ég leitaði að afsökun til að fá að borða ógeðið. Og sagði sjálfri mér og Dave að ég væri ekki tilbúin að berjast í dag, ég þyrfti einn dag í sukki til að geta tekist á við verkefnin á morgun. Og ég var svo glöð inn í mér þegar ég fattaði að ég gæti logið þessu að mér og að honum. Svo glöð. Skrýtið því ég var ekki glöð á meðan ég var að borða. Alls ekkert glöð. Því ég vissi að ég myndi borga fyrir það í dag. Enn 3 kíló í plús og fráhvarfseinkenni frá helvíti. Ef þetta væri ekki svona hræðilegt þá væri ég ánægð með þetta út frá vísindasjónarhorninu. Guð og góðar vættir veiti mér styrk í dag. Vík frá mér Satan.

sunnudagur, 2. janúar 2011

Þau eru mér afskaplega mikilvæg þessi tímamót sem nýja árið ber með sér. Mér þykir það merkilegt að kveðja gamla árið, líta yfir farinn veg og þakka fyrir það sem vel hefur farið og leggja mat á það sem ekki tókst jafn vel og vinna úr því. Mér þykir líka afskaplega mikilvægt að reyna að líta fram á veginn og reyna að gera sér áætlun, hafa plan til að gera sitt besta til að hafa áhrif á það sem koma skal. Sumu stjórnar maður algerlega sjálfur (ég mæti í ræktina og ég vel hvað ég borða) annað getur maður bara gert sitt besta til að hafa áhrif á útkomuna (leggja vinnu í námið, leggja sig fram við að finna alvöru vinnu, gera raunhæfa fjárhagsáætlun). Þegar ég vaknaði í morgun var ég búin að kveðja 2010. Það var að mörgu leyti slæmt ár...en gott líka... Slæmt vegna þess að ég missti vinnuna. Og þrátt fyrir að hafa einfaldlega verið í hópi tugþúsunda annarra opinberra starfsmanna þá get ég enn ekki hætt að hugsa þetta sem persónulegt áfall. Mér varð mjög um og svo það hafa ekki fundið alvöru vinnu síðan hefur haft hræðileg áhrif á sjálfstraustið og sjálfsálitið. Árið var svo gott að því leytinu til að ég kom líkamsrækt og nýjum lífstíl algerlega fyrir í lífinu. Ég léttist lítið en boj ó boj það sem ég lærði mikið. Ég ætlaði svo að byrja 2011 eins og svo mörg önnur; nú þarf að taka sig á, borða minna, æfa meira...en svo fattaði ég að það er ekki það sem þarf. Það er annað sem ég þarf að einbeita mér að núna, ég er nefnilega með allt fitnessið á þurru landi. Það má vera að ég léttist lítið og það má vera að ég hrasi og falli alltaf öðru hverju en ég sagði í upphafi að þetta væri lífstíðarverkefni. Ég er ekki í kappi við tímann að verða einhver x kíló. Þetta er svo miklu, miklu stærra mál en einhver x kíló. Ég er búin að taka allt líf mitt eins og ég þekkti það frá 11 ára aldri og breyta öllu. Hvernig ég hugsa, hvernig ég elda, hvernig ég bregst við aðstæðum, hvernig ég hreyfi mig, öllu! Og ég þarf ekkert að hafa áhyggjur af því. Ég fell og ég læri af því. Ég fell og svo fylgi ég prógramminu. Ég fylgi prógramminu oftar en ég fylgi þvi ekki. Svo lengi sem ég held áfram að gera það sem ég er að gera þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því. Hitt er svo annað mál að ég þarf að leggja miklu meiri rækt við námið. Ég er ekki stolt af frammistöðunni 2010. Og ég hef í fyllstu hyggju að lagfæra það og útskrifast í sumar. Ég er ekki ánægð með vinnuna sem ég er í og ég þarf að laga það. Ég ætla að leggja vinnu í að finna vinnu. Ég eyði líka ennþá peningum eins og þegar ég var í vinnu sem borgaði alvöru laun og það þarf að laga. Ég þarf að gera fjárhagsáætlun. Bara það að segja þetta gerir mig hamingjusama. Lukkan yfir mér alltaf hreint! Ekki eitt plan heldur þrjú! Frábært. Það er ekkert sem gerir mig ánægðari en gott plan. Þetta á eftir að vera gott ár. Gleðilegt 2011.