|
Andlitsgríma Tutankhamuns. |
Lúkas hefur lengi verið heillaður af múmíum og faraóum og egyptalandi. Þannig að þegar ég sá auglýsta sýningu um Tutankhamun í Museum of Museums í Manchester þótti okkur upplagt að skella okkur. Sýningin var meira fyrir fullorðna en við vorum búin að ákveða að það væri þess virði að prófa, ef Láka þætti þetta leiðinlegt þá myndum við bara fara aftur út. Ekki mikið mál að eyða deginum í Manchester svo sem. En við hefðum ekki þurft að vandræðast yfir þessu, hann var alveg heillaður, setti á sig heyrnartólin og fór svo í gegnum sýninguna með gapandi munninn. Sýningin var sett upp svo maður fræddist um Howard Carter sem hafði sem barn heillast af Egyptalandi og bara hætti svo ekki fyrr en hann fann gröf Tutankhamuns. Þaðan var farið með mann í að upplifa hvernig Carter og Lord Carnarvon sáu þetta allt í fyrsta sinn, allt sett upp nákvæmlega eins og var og ljós og myrkur notað til að ná fram áhrifum. Og svo að lokum allir gripirnir sýndir. Þetta var alveg frábær skemmtun og mjög fræðandi. Og Láki himinlifandi. Nú þurfum við að plana helgarferð til London á Natural History Museum til að sjá risaeðlur.
|
Láki og Lego Darth Vader |
Við fórum svo til Manchester, fengum okkur léttan hádegsimat og ég fékk svo að rölta aðeins um húsgagnaverslanir og láta mig dreyma. Láki fékk svo sinn draum uppfylltan og komst í Legó búð. Þar var allt Legó sem 7 ára gæti ímyndað sér að væri til og það sem við vissum ekki að þar er svona míni Lególand. Við höfðum ekki tíma til þess þarna en greinilega eitthvað sem þarf að gera bráðum. Hann fékk að kaupa sér Legó múmíu og þar með dagurinn fullkominn. Einn af þessum yndislegu fjölskyldudögum sem við eigum eftir að eiga góðar minningar um.
Í dag er ég svo búin að eyða morgninum í eldhúsinu. Vikumatseðillinn uppskrifaður, epli soðin í kanilmauki, múffur bakaðar, kjúklingur grillaður og hitt og þetta gert tilbúið til að gera verkefnið auðvelt á hverjum virkum degi. Það má líka vera að eins og ein súkkulaðikaka eftir uppskrift frá Nigellu Lawson hafi læðst inní ofn, en það er sunnudagur og komin tími á að dansa við djöfulinn eins og einn vals. Eða kannski tangó. Við sjáum hvað setur. Góð helgi hjá Jones og Co.
1 ummæli:
Ég las þessa færslu með ömmugleðibros á vör. Láttu mig vita þegar þið farið til Lundúna. Ég kem með gamla gaur með og hitti ykkur á safninu.
Skrifa ummæli