föstudagur, 29. október 2004

Jól 2004 á Íslandi. Júhú! 22.-28. des verðum við litla fjöslkyldan á Íslandinu góða. Hlakka ég til jólanna, ójá, ójá.

miðvikudagur, 27. október 2004

Við erum að fara með Lúkas til Liverpool í dag til að hitta ofnæmissérfræðing. Ég er því í fríi í dag og það er nú alltaf dálítið gott. Það verður nú líka örugglega gaman að kíkja á Lifrarpoll, ég hef enn ekki komið þangað og þó við höfum ekki mikinn tíma til að líta í kringum okkur þá getum við örugglega skoðað eitthvað smá. Annars þá hef ég svo í hyggju að taka lestina þangað einn daginn í svona dagsbæjarferð. Best að bíða þar til að mútter mamma kemur í heimsókn og við getum skoðað Bítlaslóðir.

Ég er búin að ákveða að verða ekki hálfsdagskelling, það hentaði ekki nógu vel. Verlsunarstjórinn vildi fá einhver loforð um sveigjanleika sem ég get ekki lofað með lítið barn. Ég meina hver getur sagt að hann geti komið í aukavinnu hvenær sem er þegar lítið barn er á heimilinu? Mér fannst hálfósanngjarnt að krefjast þessa af mér. Auðvitað myndi ég reyna að koma ef hún þyrfti á mér að halda svona óvænt en henni fannst ég ekki vera með nógu örugga barnapíu. Þetta er ekki alveg sanngjarnt vegna þess að hinar kellingarnar vinna ekki yfirvinnu og engin þeirra á ung börn. Þær bara neita að mæta og það er bara þannig. Þannig að ég get ekki alveg séð afhverju ég þurfti að lofa einhverjum ófyrirséðum aukatímum en svona er það nú. Ég sagðist því bara halda fullu vinnunni og sjá svo til síðar. Ég nota bara þann litla tíma sem ég hef með Láka mjög vel.

Hvernig er það á Íslandi núna, eru unglingarnir reykjandi og blótandi og almennt að haga sér illa? Mér líst nefnilega ekkert á unglingana hérna. Stelpurnar eru druslulegar og eignast fyrsta barn svona um og upp úr fjórtán ára. Strákarnir drekka og reykja hass og slást um helgar svona bara að gamni sínu. Þau sitja í strætó og blóta sig blá í framan og þykjast vera stórkallar. Verst finnst mér hvað þau eru ofbeldisfull. Hér eru stanslausar fréttir um slagsmál hingað og þangað og allt virðist eitthvað svo tilgangslaust. Mér varð um og ó um daginn egar ég var að bíða eftir strætó og hópur unglinga réðst inn og byrjaði að reyna að brjóta rúður og rífa niður ruslatunnur. enginn aðhafðist neitt til að stöðva þau enda allir dauðhræddir við þau. Ég vil ekki að Lúkas minn verði svona. get ég stöðvað það með því að ala hann vel upp eða er jafningjaþrýstingurinn of mikill. Á ég bara að flytja með hann heim í öryggið á Íslandi, eða er þetta eins þar?

miðvikudagur, 20. október 2004

Ég er að skoða það í nokkurri alvöru að verða hálfsdagskelling. Það kemur nefnilega í ljós að ég spara mismuninn með því að senda þá Láka ekki í pössun. Kemur nokkurn veginn út á eitt. Það væri nú aldeilis næs maður, vinna bara þrjá daga í viku og geta stússast með beibímús hina dagana. Og njóta lífsins aðeins. Er ég ekki alltaf svo lukkuleg?

Og nú gerist loks eitthvað í húsakaupum, við erum að fara á föstudag að skoða yfir samninginn þannig að nú ætti að fara að glitta í dagsetningu. Þannig að ég er aftur farin að hugsa um gardínur og annað þessháttar.

sunnudagur, 17. október 2004

Mér skilst að pabbi sé búinn að panta prest og kirkju 9. júlí næstkomandi og ekkert sé eftir nema að plana eitt stykki brúðkaup. Við Dave vorum að skoða allt dæmið í gær og erum í smá vafa um að okkur takist að gera þetta allt saman og eiga fyrir þessu en erum samt ákveðin í að reyna okkar besta. Eins og ég sé þetta fyrir mér þá á þetta að vera skemmtilegt partý. Verst er að eins og allt er núna þá náum við í mesta lagi að eiga inni u.þ.b. tveggja vikna frí. Sem þýðir að ég get ekki bæði gift mig og mætt í brúðkaup Rannveigar vinkonu minnar. Synd.

Ætti ég núna að vígja pönnukökupönnuna mína fínu?

mánudagur, 11. október 2004

Mikið langt síðan ég skrifaði síðast. Það er eitthvað að hamla mér þetta daglega líf mitt sjáiði til. Merkilegt alveg hreint, maður lifir bara lífinu og einhvern vegin þá gerist ekki neitt svosem en samt eru allir dagir uppfullir af allskonar ævintýrum og veseni: barnauppeldi og litlum atvikum í vinnunni, pælingum og ákvörðunum um hitt og þetta. En einhvernvegin þá er ég hætt að pæla svo mikið í hlutunum, þeir gerast bara núna án þess að ég þurfi að velta öllu fyrir mér svo mikið. Og með því fylgir að ég nenni ekki að skrifa. Og svo hef ég heldur ekki tíma. Lúkas er farinn að skríða út um allt og það er ekki hægt að líta af honum í eina sekúndu. Hann vill bara leika sér í rafmagnstækjum og öðru sem er ekki hollt fyrir ungabörn.

Ævintýraleg för þollarana hingað til Wrexham lengdist aðeins vegna botnlangakasts og spítaladavalar Helgu. Við skemmtum okkur samt mjög vel, borðuðum, drukkum, töluðum og versluðum, alveg eins og planað var. Eyddum bara spjalltímanum á spítalanum. eftir situr þó heimþráin hjá mér. Það er alltaf voða erfitt þegar fólk fer aftur him, hér verður allt voða tómlegt og skrýtið um stund. Ég jafna mig svo og allt fer aftur í sinn vanagang. En þessi síðasta vika er búin að vera voða erfið, bæði fyrir mig og fyrir Dave sem fær samviskubit yfir þv´ðiað vera að halda mér hérna. Mig langar voðalega til að koma heim en get ekki fengið frí í vinnunni eins og er.