fimmtudagur, 31. maí 2012

Það tók mig þangað til þessir dásamlegu sólardagar voru yfirstaðnir til að loksins elda alvöru sumarrétt. Ég get nú varla eignað mér uppskriftina, ég veigra mér meira að segja við að kalla þetta uppskrift þetta var svo einfalt. En gott engu að síður og eiginmaðurinn kallaði réttinn sumar á disk.

Ég kveikti á ofninum og stillti á 175 eða 180 gráður. Ég er með blástursofn. Svo náði ég mér í eina 15 eða 20 smátómata. Þeir voru ekki kirsuberjatómatar, til þess voru þeir of stórir, en heldur minni en venjulegir tómatar. Þá skar ég í helminga og lagði á ofnplötu með opnu hliðina upp. Svo kramdi ég hvítlauksgeira og setti út í væna slettu af ólívuoliu og penslaði svo tómatana. Svo dreifði ég dálitið af balsamic ediki yfir þá, basil, hálfri teskeið af demarara sykri, salti og pipar.


Svo náði ég í tvær kjúklingabringur, kryddaði, pakkaði inn í álpappír og stakk svo inn í ofn um leið og tómatarnir fóru inn. Svo lét ég þetta bara malla í ofninum í 45 mínútur. Sauð pasta svo það var tilbúið um leið og tómatarnir og kjúklingurinn. Þegar allt var tilbúið helltí ég vatninu af pastanu og setti svo tómatana með öllum sínum dásamlegu söfum og djúsi út í pastað og hrærði í gegn. Smá meira af pipar, balsamic og parmesan og svo kjúklingurinn með og við komin með þennan líka súper sumarsmell. Svo einfalt, svo gott.

 Og fyrst við vorum svona ítölsk var auðvitað boðið upp á Lavazza kaffi með doppio á eftir. Það má svo vera að ég hafi fengið affogato svona úr dreggjunum af kaffinu. Allt innan skynsamlegra marka að sjálfsögðu.


miðvikudagur, 30. maí 2012

Þegar ég kvartaði hvað hæst á hlaupinu á sunnudaginn bað Ásta mig að hugsa upp sjö ástæður fyrir því hversvegna ég væri að hlaupa, hvað það væri sem gerði þetta allt þess virði.

Það fyrsta sem mér datt í hug var ósköp hégómalegt. Mér finnst svo gaman að kaupa mér föt. Það er hrein unun að labba inn í verslun, sjá eitthvað fínt, máta það og það ekki bara passar heldur er fínt á mér. Það er meira en unun, það er frickin´ awesome!

Mig langaði til að segja að ég hafi síðan talið upp margar göfugar heilsufarslegar og/eða sálarfegrandi ástæður en mér datt næst í hug að ég væri svo sexý. Að ég væri uppfull af "sense of self". Ég fyndi svo mikið meira fyrir sjálfri mér og hver ég væri.

Svo fannst mér það gera þetta þess virði hvað mamma og pabbi eru ánægð með mig. Ekki hvað ég er sæt og mjó, ekki hvað ég hef staðið mig vel heldur hvað þau eru ánægð með hvað ég er ánægð. Það finnst mér góð tilfinning.

Mér datt ekki fleira í hug. Ekki án þess að þurfa að hugsa of mikið um það og þá hefði ég sjálfsagt farið að búa til eitthvað flott, hefði skrifað og endurskrifað það í huganum til að koma upp með eitthvað kúl og töff. Þannig að mér fannst best að stoppa þarna við ástæður sem eru heilar og sannar.

Mér datt í hug að hégómalegu ástæðurnar mínar séu ekki nógu góður og þéttur grundvöllur lengur til að hvetja mig áfram. Af því að það er svo grunnt þetta að vilja að vera fín í kjól að það er bara ekki hvatning fyrir mig lengur. Ég þarf eitthvað dýpra og merkingarfyllra núna til að komast á næsta stig. Svona eins og búddisti kemst áfram á næsta lífsstig.

Það virðist heldur ekki vera nægileg ástæða fyrir mig að vera hraust. Eins og það fyllir mig hamingju þá er ég samt ekki að leggja á mig vinnuna sem þarf til að verða í alvörunni hraust.

Ég hef alltaf haft þessa forgjöf að vera feit. Ég geri allt vel, þrátt fyrir að vera feit.Ég hef alltaf getað notað það sem svona afsökun. Sko, sjá hvað hún stóð sig vel, þrátt fyrir að vera feit. Og það sama er með hlaupin núna. Ég vil fá hrós fyrir að hlaupa 10km af því að ég geri það þó ég sé feit. Og það gefur mér leyfi til að gera það hægt og illa.

Og mér datt í hug að ég haldi í fituna til að missa ekki forgjöfina mína. Hvað ef ég næ að verða 70 kíló og það taki mig samt 80 mínútur að hlaupa 10km? Og það sem verra er; ef ég er bara mjó kélling að hlaupa hvernig á fólk þá að vita hvað ég er að vinna mikið þrekvirki, hversu dugleg ég er??

En ég held líka að það sé enn dýpri ástæða. Að missa forgjöfina mína er flott svona aha! sálarrannsóknarnnaflaskoðunarniðurstaða. En alvöru ástæðan er jafn grunnhyggin og ég er sjálf. Ég er enn einfaldlega löt og gráðug. Ég er logandi hrædd við að þetta sé vont og erfitt. Að ég þurfi í alvörunni að færa mig aftur út úr þægindahringnum sem ég er í núna. Að ég þurfi aftur að fara að leggja á mig, verða sveitt og skítug. Ég er logandi hrædd.


mánudagur, 28. maí 2012

 Ásta kom til Chester á laugardagskvöld og við höskuðum okkur nokkuð snarlega heim til Wrexham þar sem við elduðum fínan kveldmat og borðuðum úti á palli. Hér er búið að vera það sem heitir Mæjorkaveður í nokkra daga og virtist ekkert lát ætla að vera á um helgina. Þegar sunnudagur rann svo upp var komið að 10km hlaupi í Bangor. Við fengum okkur fínan smoothie í morgunmat og drifum okkur svo af stað.
 Ég byrjaði þó daginn á að reka tána í sjálfa mig og uppskar "blátá". Þetta var helvíti sárt og ég hafði nokkrar áhyggjur af því að ég gæti ekki hlaupið vel með þennan áverka.
 En það var ekki um annað að ræða en að reima á sig skóna og halda í hann. Leiðin til Bangor frá Wrexham er rétt um tveggja tíma keyrsla þannig að Dave minn fór með okkur og sýndi okkur stoltur landið sitt. Við fengum eitt pissustopp á leiðinni þar sem við fengum okkur gróft brauð með hnetusmjöri til að vera fullar af orku.

 Við keyrðum sem leið lá í gegnum Snowdonia sem er þjóðgarður hér í Wales þar sem er mikið farið í fjallgöngur og mikil túristaverlsun við ferðamenn sem koma þangað gagngert til að klífa fjöll, ganga og veiða silunga í vötnum.
 Við fundum svo Bangor og Race HQ og skráðum okkur og fengum númer. Bangor er háskólabær og ber þess aðeins merki, þar eru barir og pöbbar í bland við verslanir. Hún stendur við Menai strait og er þar með við sjóinn sem er náttúrlega æðislegt. Að fá þaralyktina í nasirnar með andvaranum var ekkert nema gott.
 Við rásmarkið var farið að safnast saman múgur og margmenni, og mér taldist svo til að um það bil 400 manns væru skráðir í hlaupið. Ég var bara hress og kát þarna, uppfull af eðlislægri sjálfsaðdáun og ofurtrú á hæfileikum mínum. Blátá var bara fín og þó það væri næstum 30 stiga hiti hugsaði ég með mér að með Ástu með mér gæti ég hvað sem er.
 "Thumbs up!" Ekkert mál, sjáumst eftir 80 mínútur segi ég við Dave, til að hafa vaðið neðan fyrir mig en hafði fyllilega í hyggju að bæta 70 mínútna tímann minn síðan í desember svona inni í mér.
 Ásta var ekki með neitt markmið í huga, hún ætlaði bara að vera með mér. Og var jafn hress og ég þegar lagt var í hann. Hlaupið byrjaði ágætlega, ég hélt léttum takti og við leyfðum flestum að fara fram úr okkur. Byrjunin var hægt upplíðandi og ég man að hafa hugsað með mér að þetta hlyti að vera eina brekkan því ég var alveg viss um að hafa lesið að það væri flöt leiðin. Svo hlupum við meðfram sjónum, og í hring um bryggjuna og svo aftur inn í bæinn þar sem átti að fara tvo hringi áður en maður hélt aftur inn í miðbæinn að endamarki. Þegar við komum út af bryggjunni og inn í bæinn sá ég að þar hófst mikil brekka. Þarna vorum við búnar að hlaupa í tæpan hálftíma. Og ég get ekki logið að mér brá smávegis. Allt of heitt fyrir mig og núna brekka! Hálfa leiðina upp gat ég ekki meir og þurfti að labba. Ásta var ekki komin til að ná neinum persónulegum tíma þannig að hún hélt takt við mig frekar en að þeysa af stað. Hún hefði örugglega getað farið þetta á vel innan við klukkutíma en hún hélt verkefninu að halda mér við efnið. Ég skal alveg viðurkenna að ég hagaði mér eins og smákrakki á þessum tímabili. Tveir langir hringir upp, upp, upp, upp brekku. Ég átti erfitt með að ná andanum í þessum hita og mér leið afskaplega illa. Ég kláraði mig eiginlega alveg við þetta og þegar að við lukum við hringina og við tók beinni leið aftur að markinu var ég orðin svo fúl og þreytt að ég þurfti enn að skiptast á að hlaupa og labba. Sem betur fer sagði Ásta að stelpa sem við höfðum farið fram úr þó nokkru áður var að draga á okkur og mér þótti vont að láta hana fara fram úr mér. Keppniskapið alveg í lagi.  Ég meira að segja varð ekki glöð þegar ég sá lokamarkið, hugsaði bara með mér að það væri djöfull langt i burtu. En svo byrjuðu áhorfendur að klappa og hvetja mig áfram og einhvern vegin fann ég orku til að skokka þessa síðustu metra. Ég er líka svo meðvituð um áhorfendur og hvernig hlutirnir lúkka að það kom aldrei neitt annað til greina en að spítta í og brosa.

Ásta kom í mark, án þess að svitna eða blása úr nös, alveg jafn sæt og hress og þegar hún lagði af stað.
Og svona var Svava Rán þegar hún kom í mark. Þetta er sjálfsagt munurinn á tuttugu kílóum. Ásta hafði lagt það fyrir mig þegar ég kvartaði hvað hæst að ég þurfti að hugsa upp sjö ástæður fyrir því hversvegna ég væri að hlaupa, hversvegna ég væri betur stödd núna en fyrir þremur árum. Það er gaman að horfa á myndina  og og heyra mig segja þar sem ég lá á jörðinni og taldi upp ástæðurnar mínar fyrir Ástu og Dave að hátt á listanum var "I feel sexy". Sexy indeed.
Þegar ég náði svo aftur sönsum fórum við og skoðuðum okkur um. Löbbuðum um ströndina og kældum okkur niður. Tíndum velska steina sem núna eru bollamottur hér á stofuborðinu hjá okkur.
Stoppuðum við í Snowdonia á Alpine Coffee House og fengum post-race skonsur.
Þegar heim var komið var enn sólskin í garðinum og vel við hæfi að fá sér spælegg og franskar. Svo fínt svona eftir erfiði.

Við Ásta þar með búnar að hlaupa 10 km í hjarta Wales. Ég búin að leggja inn hlaup númer fimm í 12 á 12 áskoruninni minni. Ég er dálítið teygð og toguð eftir þetta; það kom út úr þessu miklar pælingar um hversvegna ég hef verið stopp í þyngdartapi svona lengi, ýmislegt sem ég þarf að hugsa um dálítið meira. En í minningunni núna, þegar ég er búin að þvo af mér svitann og andardrátturinn kominn í eðlilegan takt var þetta bara gaman.

þriðjudagur, 22. maí 2012

Nú eru bara tvö æfingahlaup eftir í 10 km hlaupið í Bangor á sunnudaginn. Eitt í fyrramálið og eitt á föstudagsmorgun. Bæði eru styttri en æfingahlaupin undanfarið og fókusinn er á að slaka á og finna góðan ryþma. Ég hlakka voðalega til, þó ég sé ekki í alveg jafn góðu formi núna og ég var í desember þá sé ég enga ástæðu til annars en að þetta verði voðalega skemmtilegt. Mig langar þó alltaf til að gera betur og ég er mjög meðvituð núna um hvað ég get gert til að koma þjálfuninni í betra far. Ég les mér til um form og þjálfun í hinum ýmsu ritum og um daginn fékk ég senda grein sem heitir 10 Ways to be a better runner. Og hver er tillaga númer eitt? Jú, lose weight. Þannig að til að hlaupa hraðar þá, eins og mig grunaði, þarf ég að vera léttari. Það er ekki að segja að ég geti ekki hlaupið núna, og það vel, en það er bara engin spurning um að ég gæti hlaupið mun hraðar ef ég væri léttari. Næsta ráðlegging var svo að borða vel. Það er að segja að borða vel næringarfræðilega séð.

 Þetta tvennt hef ég fyllilega í hyggju að gera. Og er að gera. Hinar ráðleggingarnar eru svo líka fínar, þverþjálfa, hlaupa meira, finna hlaupafélaga, prófa nýjar leiðir, prófa hraðaskipti og brekkuhlaup. En aðallega fannst mér mest vert um ráðlegginguna að skipuleggja sig betur. Það er engin spurning að þá daga sem ég er búin að planleggja hlaup; veit klukkan hvað ég ætla að vakna, hvert ég er að fara og hvernig ég ætla að hlaupa, eru þeir dagar sem ég stend mig best. Þá morgna sem ég ætla að vakna og gera "bara eitthvað" sný ég mér oftast á hina hliðina og held áfram að hrjóta. En alvöru íþróttamenn plana sína þjálfun. Þeir eru með skipulag, með stundatöflu, með skýrt skilgreind markmið. Þeir gera ekki "bara eitthvað" og þeir snúa sér svo sannarlega ekki á hina hliðina.

Þegar ég set þjálfunina upp heilsteypta, sé  fyrir mér stóru myndina og hugsa um sjálfa mig fyrst og fremst sem íþróttamann sem þarf góða næringu og sterkan líkama þá gengur allt mun betur. Það er svoleiðis grundvallarsannfæring sem er drifkraftur í að gera vel. Þegar maður trúir einhverju og gerir það af öllum lífs og sálarkröftum þá getur manni ekki mistekist. Ég er íþróttamaður. Einfalt. Og þegar ég forgangsraða öllu í lífinu mínu þá kemur í ljós að það er mér afskaplega mikilvægt að setja þjálfunina í fyrirrúm. Hugsa stórt - gera stórt.


sunnudagur, 20. maí 2012

Þetta er búin að vera góð helgi. Ég fór á pöbbinn með vinnufélögunum eftir vinnu á föstudagskvöldið og fékk mér einn bitter. Veðrið var ljómandi gott á miðað við hvernig hefur verið að undanförnu og ég fann hvernig gamalt stuðgen sem ég hef erft úr báðum ættum tók sig skyndilega upp. Ég hefði getað setið lengi og drukkið og spjallað og hefði svo vel getað hugsað mér að enda á hverfispöbbnum að hlusta á The New Foos, Foo Fighters tribút bandið. En það er nú svo með stuðgenið í mér eins og súkkulaðigenið, ég hef litla stjórn á þvi þegar ég byrja almennilega. Þannig að það er betra fyrir mig að reyna að sleppa því bara. Ég er nefnilega smávegis eftir á í hlaupaplaninu til að vera alveg tilbúin fyrir Bangor næsta sunnudag. Og ég vissi að ég myndi ekki fara út í valhopp um Plas Bennion ef ég sæti frameftir nóttu með göróttan drukk gólandi "Learning to Fly". Ég kvaddi því fólkið og fór heim.

Hlaupaæfingin á laugardagsmorgun fór svo rosalega vel. Ég er enn rétt rúm 90 kíló og því hægari á mér en ég var þegar ég síðast hljóp 10 km, ég er líka búin að vera að einbeita mér dálítið mikið að brekkuhlaupi til að byggja upp alvöru þol. Mér tóks að hlaupa heilan kílómetra upp á við núna. Það þótti mér tilkomumikið. Það tók þó nokkurn tíma en samt, ég var hæst ánægð. Ég held ekki að mér takist að slá neitt hraðamet á sunnudaginn kemur, en ég er harðákveðin í að skemmta mér. Ég er búin að vera að skoða allskonar plön sem kenna manni hvernig maður getur náð upp tækni til að hlaupa hraðar, en ef ég skil sjálfa mig rétt þá þarf ég bara að vera léttari. Mér finnst það eiginlega bara elementary.

Ég hafði svo í hyggju að taka rólegt hlaup í morgun en hnén höfðu aðrar hugmyndir. Ég var með verk frá hæl og upp í nára sem gekk í bylgjum út frá hné. Engin hlaup á svoleiðis græju. Ég lagðist því í gólfið og tók eina Pilates æfingu. Ég er búin að vera að lesa mér til um hvernig á að gera Pilates rétt og ég er ekki frá því að ég finni heilmikinn mun. Það er meira en að segja það að finna þessa innri magavöðva sem maður virkjar í Pilatesinu.  Að líkamsrækt fráskilinni er ég búin að ströggla örlítið í dag. Langar alveg svakalega í eitthvað en veit ekki hvað og vil ekki fá mér bara eitthvað ef það er svo vitlaust eitthvað og mig heldur áfram að langa í eitthvað. Mjög erfitt.

Kannski að ég fái mér bara eitthvað. Eða sleppi því. Það er ekki gott að segja.

miðvikudagur, 16. maí 2012

Mig grunar sterklega að ég sé ekki ein í heiminum sem hefur lent í því að standa á vigtinni alveg á gati við að sjá að hún hefur ekki færst til um gramm, þrátt fyrir að ég hafi gert allt "rétt". Ekki borðað of margar, né of fáar hitaeiningar, passað að stunda bæði þol og vöðvaæfingar, passað að hvíla inn á milli, vigtað allt og kannað hitaeiningafjölda í ókunnum matvælum, ekki verið stressuð,beðið róleg, gert allt rólega, haldið bjartsýnunni, gert allt rétt. Og allt fyrir ekki.

Ég hef oft velt fyrir mér hvað sé að mér. Hversvegna líkami minn virðist streitast svona á móti tilraunum mínum til að gera hann að heilbrigða musterinu sem hann ætti að vera. Sem betur fer hafa nokkrar rannsóknir sýnt að ég er ekki að gera mér þetta upp. Líkaminn reynir að komast aftur í fituástand. Við að fara í megrun (eða lífstíl, það virtist ekki skipta máli hvort fólk léttist hægt eða hratt) byrjar líkaminn að offramleiða hormónið sem stjórnar hungurtilfinningu og bælir niður hormónið sem stjórnar seddunni. Að auki þá hægir líkaminn á brennslu. Og þrátt fyrir tilraunir til að koma brennslu aftur í sama lag og fyrir megrun (eða lífstíl) þá er það nánast ómögulegt. Þannig ætti ég skv BMR að geta neytt 2600 hitaeininga með þeirri æfingu sem ég stunda til að viðhalda núverandi þyngd. Þegar ég borða 2600 hitaeiningar á dag þyngist ég um 2 kíló á viku. Ég er búin að margprófa þetta. Ég get í mesta lagi fengið 1800 hitaeingar yfir daginn. Og það breytist ekki.

Ég er dauðfegin að komast að þessu. Hugsið ykkur þetta eins og að vera með stanslausan magaverk. Og að ganga lækna á milli sem allir segja manni að maður sé að ímynda sér þetta. Að í hvert sinn sem maður segist vera með verkinn þá sakar fólk mann um að hafa gert eitthvað sjálfur sem valdi verknum. Að maður fari smá saman að trúa því að  maður sé að gera sér þetta upp. Þangað til að einn daginn finni maður lækni sem sjúkdómsgreinir mann. Segir manni að maður sé með stombón trompón syndróm. Að það sé til nafn á ástandið. Og maður verður svo glaður við það eitt að maður hafi ekki verið að ímynda sér þetta að manni er alveg sama þegar læknirinn svo segir að þetta sé ólæknanlegt en hægt að stjórna með hreyfingu og mataræði.

Mér líður þannig núna. Eins og ég sé búin að fá að vita hvað er að og nú geti ég tekist á við það á réttan hátt. Þetta er vinna og þannig verður það. En nú get ég allavega hætt að klóra mér í hausnum þegar ég geri allt rétt samkvæmt kenningunum og ekkert virkar. Nú get ég alfarið snúið mér að þvi að treysta eigin reynslu og vitneskju.

Ég legg eindregið til að greinin sé lesin eins og hún birtist í NY TIMES. Hún er löng en alveg hrikaleg áhugaverð fyrir okkur sem erum að spekúlera í spiki.

þriðjudagur, 15. maí 2012

Ég hef alveg gleymt að fagna hversu vel mér hefur tekist upp. Í öllum æsingnum við að reyna að ná næsta áfanga
á ég það til að gleyma algerlega að ég er nú þegar komin í hóp elítunnar. Ég er í hópi þeirra þriggja prósenta fólks sem nær að skafa af sér töluverðu magni af spiki og halda því af sér lengur en í ár. Ég held að ég gleymi því hvað ég hef gert vel vegna þess að þetta er enn stanslaus vinna. Það er enginn munur á vinnunni sem ég er að leggja í að viðhalda núverandi þyngd og vinnunni sem ég lagði í að léttast um 40 kiló. Þetta er nákvæmlega jafn mikið streð.

Ég er að skilja að þrátt fyrir að hafa sagt annað þá hélt ég inni í mér að ég myndi einn daginn verða mjó og að allt myndi "lagast" við það. Og af því að ég er stanslaust að bíða eftir þessi mómenti, þessu andartaki sem ég get andað frá mér og slakað á og sagt; "ég er mjó og allt er ókei" þá gleymi ég að stoppa við til að njóta mómentsins sem er núna. En ég er smá saman að láta af þessari hugmynd. Maður getur bara dregið inn magann í visst langan tíma.

Þegar ég hugsa um þetta allt saman í þessu samhengi að þetta sé "endalaus vinna" þá læt ég þetta hljóma eins og þetta sé eintóm kvöð eða pína. Ég held að oft heyrist bara kvörtunar "ó mig auma" tónninn í mér. Það er bara ekki rétt lýsing á því hvernig mér líður. Síðastliðin þrjú ár hafa verið stórfengleg. Ég á erfitt með að lýsa hvað líf mitt hefur tekið miklum stakkaskiptum til hins betra. Ég er langt í frá að vera fullkomin og ég ströggla á hverjum einasta degi með eitthvað og það kemur mér stanslaust á óvart hvað þetta krefst mikillar natni og athygli. En þegar ég hugsa um líf mitt núna og líf mitt eins og það var áður þá er með ólíkindum hvað það er mikið betra núna.

Og það er það sem mig langar til að fagna. Hversu heppin ég er að hafa fengið tækifæri til að leggja í þessar breytingar. Hversu ríkara líf mitt er núna.

sunnudagur, 13. maí 2012

Eftir rúmt ár með gömlu löppuna mína algerlega á afturfótunum gafst hún loks alveg upp núna í vikunni og neitaði að gera nokkurn skapaðan hlut. Svona dálítið eins og ég á sunnudögum. Það var um lítið að ræða annað en að fara og kaupa sér skínandi nýja tölvu. Enda er ég orðin svo stöndug núna, deildarstjóri hjá banking grúpp. Það munar um minna.

Ég er voðalega visjúal manneskja. Ég hef alltaf "séð fyrir mér" hvernig hlutirnir eiga að vera. Þannig er ég alltaf með í huga ákveðna samsetningu á fötum, ég er með í huga "lúkkið" sem ég er að reyna að ná. Ég sé fyrir mér aðstæður og atburði og reyni svo að gera mitt besta til að stjórna hlutunum þannig að þessar fyrirfram ákveðnu myndir sem ég hef í huganum rætist. Þannig er ég loksins núna búin að finna mér minn stíl. Ég veit nákvæmlega hvernig ég vil klæða mig. Og ég er rétt á mörkunum núna þar sem ég passa í fötin sem ég vil vera í. Ég er að fara að taka við ábyrgðarstöðu og ég er ein af þeim sem trúir því að fötin skapi manninn. Ég vil vera velklæddur stjórnandi. Mér finnst það eiginlega vera lágmarkskrafa að vera smart og fín í vinnunni.
Ég er líka á leiðinni til Kaupmannahafnar í lok september. Þangað hef ég aldrei áður komið og fyrir utan að hlakka til að eyða langri helgi með yndislegum stelpum þá sé ég sjálfa mig fyrir mér í Kaupmannahöfn. Ég ætla að hlaupa með Hönnu og ég ætla að kaupa mér vetrarkápu í smart en dálítið edgy stíl sem einhver fínn Dani hefur hannað. Og vetrarkápan sem ég er búin að bíða eftir að kaupa í tvö ár krefst þess að ég sé grennri en ég er núna. Ég sé það fyrir mér.
Við ætlum í sumarfrí til Maplethorpes í júlí. Á sumarleyfisstaðnum er klifurveggur. Ég sé mig fyrir mér klífa vegginn. En ég er í huganum mun léttari en ég er núna.

Um allt þetta hugsaði ég á langa hlaupinu mínu í morgun. Og ég setti upp fyrir mig plan þar sem ég er orðin nógu mjó í lok september til að geta verið í stílnum sem ég vil vera í. Og á sama tíma og ég var að setja það upp fyrir mig var ég að hugsa um að fyrst ég væri komin með svona fínt plan þá væri ekkert að því að fá mér Chunky KitKat í dag. Fresta plani um einn dag. Helmingurinn af heilanum var að plana kalóríur sparaðar, hinn helmingurinn planaði sukk og svínarí. Á sama tíma!

Ég skil ekki alveg afhverju ég finn ekki hvatninguna sem virkar fyrir mig núna. Þetta sem þarf til að maður komi þessum litlu breytingum inn í daglega lífið. Það virðist ekkert hreyfa mig til starfa, hvorki innri hvatning né ytri. Heilsan og hreystið, útlitið og ábyrgð gagnvart þeim sem hafa trú á mér, ábyrgð gagnvart eiginmanni mínum sem þarf á því að halda að ég beri ekki í hann óhollustsu, löngun í stílinn minn, ekkert er nóg til að láta mig sleppa KitKatinu.

Mér datt í hug að nota það sem kom mér af stað í byrjun. Og það er svo basic, svo mikið grundvallaratriði að mér finnst nánast vandræðalegt að segja frá því. Mér fannst einfaldlega svo gaman að sjá tölurnar fara niður á við og prósentuna upp á við á excel skjalinu mínu. Það var svo gaman að sjá svona á blaði hvernig öll vinnan mín var að gera sig. Ég hlakkaði til að vigta mig.

Þannig að enn einu sinni ætla ég að fara gegn öllu því sem prédikað er af þeim sem vita betur núna. Og hlakka til að vigta mig.

þriðjudagur, 8. maí 2012

Ég elska haframorgunmúffurnar mínar. Þær eru ein af ástæðunum fyrir því að fer á fætur á morgnana. Þær láta hjarta mitt syngja. Ég held að ég finni seint morgunmat sem er jafn frábær og þær. Það má endalaust breyta þeim og bæta við eða taka út - gera þær sætar eða grófar, flóknar eða einfaldar og eins hollar eða óhollar og manni lystir. Chia kryddaðar haframúffur með pistasíu streusel hljóma alveg hrikalega vel. Og ég myndi eflaust kaupa þær og borða rymjandi af ánægju á fínum kaffihúsum um heim allan. Lukkan yfir mér þessvegna að ég þarf ekki að fara lengra en inn í eldhúsið heima hjá mér.
Ég sturtaði í þessar bara öllu sem ég fann í skápunum hjá mér; quinoaflögum, byggi og höfrum, rúsínur og ristaðar heslihnetur, og svo tveimur matskeiðum af chia krydd tei. Chia te er bara te með kanil og öðrum sætum kryddjurtum og er eina teið sem ég get drukkið. (Nánast áratugur í Bretlandi og ég get ekki drukkið te!) Það gefur þeim framandi en dásamlegt bragð og láta mér líða eins og heimsborgara. Ég fullkomnaði þær svo með að strá yfir þær pistasíuhnetustreusel sem ég bjó til úr hnetum, kókósolíu, höfrum og teskeið af demarara sykri. Ahhh, og heimurinn er góður staður. Er leyfilegt að smjatta aðeins?

mánudagur, 7. maí 2012

Draumurinn úti. 
Ég er tilbúin að gefa upp á bátinn þennan draum minn um að verða súkkulaði conniosseur. Ég komst yfir alveg svakaleg súkkulaði um daginn. Da creme de la creme. Súkkulaði súkkulaðanna og allt það. Willie´s Delectable Chocolate er eins háfágað og fínt og dökkt súkkulaði getur orðið, þeir framleiða það úr kakaóbaunum sem er nánast útdauðar, allt ræktað af einhverjum sjamönum í Perú og Indónesíu og er eins smart og artí og miðstéttarplebbi eins og ég gæti beðið um. Og svo vont. Svo, svo vont. Ég borgaði næstum því 4 pund fyrir 80 grömm af súkkulaði sem ég gat ekki aðskilið í bragðgæðum frá Konsúm suðusúkkulaði. Ég sver það. Ég sat hérna með grátstafinn í kverkunum á meðan ég reyndi að sjúga molann með unun og gleði en það eina sem gerðist var að ég sat eftir með óbragð í munni og ófullnægða þrá eftir snickers. Ég ætla að láta af þessum draumi og einbeita mér bara að því að smjatta með gleðilátum á snickersinu þegar ég fæ það næst. Ég er og verð plebbi.

Mér hefur að undanförnu liðið eins og ég sé ægilega vond manneskja fyrir að vilja grennast. Í alvörunni, ég eyddi rúmum þrjátíu árum í að verja það að ég væri feit og barðist vonlausri baráttu við fordómafullt samfélagið um minn rétt til að fá að vera metin að innri verðleikum en ekki útliti og svo núna loksins þegar ég er að verða fitt þá fer allt samfélagið á fúll svíng í að berjast fyrir fituréttindum og margbreytilegu útliti. Really!?? Núna? Því miður þá er ég bara of skilyrt til að þrá það eitt að vera mjó að ég er eiginlega bara fúl út í allar þessar herferðir og greinaskrif og baráttu til að fá að vera feitur í friði. Hvar voruð þið þegar ég þurfti á ykkur að halda? Svo núna allt í einu þarf ég að verja það að vilja vera grennri en ég er núna. Að ég vigti mig. Eins og það sé glæpur. Ég stend á vigtinni og lít orðið flóttalega í kringum mig til að passa að það sjái enginn til mín við þetta glæpsamlega athæfi. En ét möndlucroissant á meðal almennings eins og enginn sé morgundagurinn. Málið er að ég finn alveg gífurlegan mun á mér eins og ég er núna, 91 kíló eða eins og ég var þegar ég var 86 kíló. 5 kílóa munur þýðir að ég er hægari um rúmar 30 sekúndur á hvern kílómetra sem ég hleyp. 30 sekúndur! Það er bara alveg heilmikið og fer gífurlega í taugarnar á mér. Þannig að þetta allífsmarkmið mitt um að vera hraust veltur bara heilmikið á því að ég sé mjó líka. Og ég get ekki að því gert en að hugsa með mér með mínum besta stærðfræðiheila að ef ég hleyp þetta mikið hraðar þegar ég er 86 kíló að ég hljóti þá að þjóta um eins og vindurinn ef ég væri 71 kíló. Þannig að ég verð bara að halda áfram að vera hræðileg manneskja og segja með þjósti að ég vilji vera mjó. Er það í alvörunni svo hræðilegt að vilja prófa það? Ég hef aldrei á ævinni verið grönn, hversvegna ætti ég ekki að fá að prófa það?



sunnudagur, 6. maí 2012

Ég hljóp 7 km í gærmorgun. Ekki í frásögur færandi en hlaupið varð til þess að ég sá hluta af vandamálinu sem ég stend frammi fyrir akkúrat núna. Ég hljóp þessa 7 km á réttum 50 mínútum. Snemma morguns og enn var örlítið morgunkul í lofti en hlýnaði skart á meðan ég hljóp enda glampandi sólskin. Ég var í stuttbuxum en frekar þykkri flíspeysu að ofan. Þegar ég kom á áfangastað í Wrexham var ég aðeins sveitt en ekki andstutt og leið bara vel. Tók meira að segja síðustu hundrað metrana á spretti. Og átti enn bensín í tanknum.

Ég rölti um og fékk mér kaffibolla og las morgunblaðið á Café Nero á meðan ég beið eftir að Marks og Sparks opnaði. Og þar sem ég sat og sötraði lattebollann varð mér hugsað þrjú ár aftur í tímann. Og ég man ekki betur en að ég hafi þá lagt heilmikið á mig til að ná árangrinu sem ég er svo stolt af. Ég byrjaði að hreyfa mig. Og í hvert sinn sem ég gerði eitthvað þá lét ég það skipta máli. Ég svitnaði, ég var eins og plóma á litinn í framan, ég svitnaði, ég varð andstutt. Og í hvert sinn sem ég fann að ég svitnaði minna, eða varð bara eins og humar eða náði andanum þá jók ég ákefðina næst. Á sama tíma og ég kom hreyfingunni þannig fyrir í lífinu að það var jafn sjálfsagt að fara út að hlaupa og að bursta tennurnar þá passaði ég líka stanslaust að vera með sjálfa mig fyrir utan þægindasvæðið, ég var stanslaust að þröngva sjálfri mér út í smávegis óþægindi.

Sama var með mataræðið. Þó svo að ég hafi fundið allskonar hollan, ljúffengan mat til að borða, þó ég hafi fundið gífurlega ánægju við að hanna uppskriftir og stússast í matargerð á ókunnugum heilsusamlegum hráefnum, þá var ég líka stanslaust með sjálfa mig fyrir utan þægindasvæðið. Ég minnkaði skammtana mína um helming. Og það tók á að borða helmingi minna en ég var vön. Ég hætti að borða sælgæti, kökur og kruðerí að mestu leyti til. Og það var erfitt. Ég man eftir að hafa stikað um, kreppt hnefana og stundum þurfti ég að halda fast í eitthvert húsgagn til að ég myndi ekki standa upp og hlaupa út í Co-Op til að kaupa snickers. Ég þurfti að taka á því.

Ég á 20 kíló eftir í kjörþyngd. Ég er allavega 5 kílóum yfir þyngdinni sem leyfir mér að hreyfa mig óhindrað. Ég skil þessvegna ekki alveg hversvegna ég hélt að ég væri komin á það stig að geta leyft sjálfri mér að fá mér croissant í morgunmat. Þetta var það sem ég fattaði þegar ég hljóp. Ég var ekkert að reyna á mig. Þetta var bara næs og þægilegt. Og algerlega tilgangslaust til að ná tilgangum sem er að geta hlaupið hraðar. Og það sama gildir um mataræðið. Það er næs og þægilegt. Ég borða það sem mig langar í, ég borða stundum allt of mikið, mikið af tíma mínum fer enn í að halda mig innan réttra hitaeiningamarka. Ég eyði löngum stundum í að útskýra fyrir sjálfri mér að "svona borðar venjulegt fólk, það fær sér það sem því langar í þegar það er svangt." Þetta allt saman er fine and dandy. Þegar ég er ORÐIN 71 kíló. Þetta er ekki fine and dandy á meðan ég er enn svona langt frá markmiði. Ég er ekki venjulegt fólk. Mér gæti ekki verið meira sama um hvað við rembumst við að kalla þetta lífstíl. Að lokum þá er alltaf nauðsynlegt að vera að miklu leyti fyrir utan þægindasvæðið, maður þarf að verða sveittur og rauður í framan og sum kvöld, sum kvöld þarf maður að vera smá svangur og í fýlu af því að maður ætlar ekki að borða neitt fokkings snickers. Það er sjálfsagt að reyna að gera þetta eins skemmtilegt og mögulegt er. Að sjálfsögðu. Lífstíll eða megrun þetta eru samt breytingar. Og breytingar þýða líka oftast smávegis átök. Og ég hef ekki verið að taka á því núna í rúmt ár.

Mig langar til að segja eitthvað epískt eins og "og nú skal tekið á því!" eða "nú skal dansinn hefja!" eða "hífa!!". En ég þori því ekki. Ég er hætt að treysta sjálfri mér. Ég ætla samt að gefa mér sjéns. Og krosslegg fingur um leið og ég hnykla linann sjálfsstjórnarvöðvann. Geri ráð fyrir harðsperrum á morgun.

laugardagur, 5. maí 2012

Það virðist sem svo að ég sé búin að fullkomna þetta að "byrja bara aftur" dæmi. Ég vaknaði á miðvikudaginn eftir gubbveisluna og fór út að hlaupa, tók smá pilates, rúllaði og taldi kalóríur allan daginn. Og hef gert síðan. Ekkert mál. En eitthvað hefur gubbveislan skilið eftir sig. Ég er búin að vera hálfdofin síðan, á erfitt með að setja niður fyrir sjálfa mig hvað ég er eiginlega að spá akkúrat núna. Ég veit bara nokkrar staðreyndir fyrir víst:

1. Mér líður vel þegar ég er undir 87 kílóum. Allt þar yfir og ég verð þung á mér og á erfiðara með hreyfingu. Ég vil því reyna að halda mér þar undir.

2. 86-90 kíló er örugg þyngd fyrir mig. Þegar ég fer yfir 90 kíló fer ég á taugum og líður afskaplega illa í sálinni.

3. Ég stunda sjálfsblekkingu og lygar af miklum krafti, mest lýg ég að sjálfri mér. Ég lýg því að sjálfri mér að ég sé búin að koma mér inn í heilsusamlegan lífstíl þegar hver heilvita maður getur séð að ég er pikkföst í "binge-repent-starve" vítahringnum.

4. Eins og velska ljóðskáldið Dylan Thomas sagði; "Do not go gently into that good night.." Ég er langt í frá búin að gefast upp.

Ég er bara ekki glöð.

Mig langar ekki til að stanslaust þurfa að "byrja aftur". Ég vil aldrei hafa hætt.

þriðjudagur, 1. maí 2012

Mamma, pabbi og Láki.
Það var hrikalega gaman að fá mömmu og pabba í heimsókn. Mér finnast þau svo skemmtileg og svo eru þau svo þægilegir gestir, það þarf ekki mikið til að gera þeim til hæfis. Smá rölt og góður matur og vín og þau eru kampakát. Við röltum um Wrexham og fórum svo í dagsferð til Liverpool, skoðuðum Chester og fórum í langa göngu/hlaup um Rhos og nágrannaþorpin. Rigningin hér í Wales aðeins að vefjast fyrir okkur en það hefði líka getað verið verra. Verst finnst mér að vera ekki með nein plön um hvenær ég hitti þau næst.

Ég tók afskaplega meðvitaða ákvörðun um að sleppa fram af mér beislinu á meðan mamma og pabbi væru hér í heimsókn. Annað væri nú. Mér þótti bara við hæfi að fá mér rauðvínssopa með þeim. Og fara með þau út að borða. Við vorum jú í Liverpool að borða hjá Jamie Oliver. Það var líka ekkert að því að fá jarðaber með rjóma í eftirrétt. Mér þótti meira segja í fínu lagi að opna lakkríspokann og narta á lakkrís með þeim eitt kvöldið. Það sem var ekki í lagi var hvernig græðgin stigmagnaðist hjá mér þannig að ég var farin að bera súkkulaði og hnetur á borð kvöld eftir kvöld. Það sem var ekki í lagi var hvernig ég leyfði "geðveikinni" minni að ráða förinni. Hvernig ég byraði að plotta og ljúga og plana og ákveða næsta "skammt". Í staðinn fyrir að tala blíðlega til sjálfrar mín og minna mig á hvað ég vil fá út úr lífinu og hvað það er sem gerir mig í alvörunni hamingjusama, þrjóskaðist ég við og snéri upp á mig með þjósti. Ég á þetta nammi skilið og ENGINN getur tekið það frá mér! Ég endaði svo á borða svo mikið í gærkvöldi að ég gubbaði. Ég þandi svo á mér magann að hann gat ekki tekið við meiri mat en ég hélt samt áfram að borða. Þangað til maturinn hreinlega kom aftur til baka.

Þetta er ekki fallegt.

Og þá er nú víst lítið annað að gera en að trappa sig niður aftur. Minnka skammtinn í dag. Fara út að hlaupa. Tala blíðlega til sjálfrar mín. Ég veit hvað ég vil og svona útúrdúrar eru bara til að færa mér enn betur sanninn um hvað það er.

Ekki sé ég nokkra einustu ástæðu til að vera með samviskubit. Andskotakornið.