miðvikudagur, 30. maí 2012

Þegar ég kvartaði hvað hæst á hlaupinu á sunnudaginn bað Ásta mig að hugsa upp sjö ástæður fyrir því hversvegna ég væri að hlaupa, hvað það væri sem gerði þetta allt þess virði.

Það fyrsta sem mér datt í hug var ósköp hégómalegt. Mér finnst svo gaman að kaupa mér föt. Það er hrein unun að labba inn í verslun, sjá eitthvað fínt, máta það og það ekki bara passar heldur er fínt á mér. Það er meira en unun, það er frickin´ awesome!

Mig langaði til að segja að ég hafi síðan talið upp margar göfugar heilsufarslegar og/eða sálarfegrandi ástæður en mér datt næst í hug að ég væri svo sexý. Að ég væri uppfull af "sense of self". Ég fyndi svo mikið meira fyrir sjálfri mér og hver ég væri.

Svo fannst mér það gera þetta þess virði hvað mamma og pabbi eru ánægð með mig. Ekki hvað ég er sæt og mjó, ekki hvað ég hef staðið mig vel heldur hvað þau eru ánægð með hvað ég er ánægð. Það finnst mér góð tilfinning.

Mér datt ekki fleira í hug. Ekki án þess að þurfa að hugsa of mikið um það og þá hefði ég sjálfsagt farið að búa til eitthvað flott, hefði skrifað og endurskrifað það í huganum til að koma upp með eitthvað kúl og töff. Þannig að mér fannst best að stoppa þarna við ástæður sem eru heilar og sannar.

Mér datt í hug að hégómalegu ástæðurnar mínar séu ekki nógu góður og þéttur grundvöllur lengur til að hvetja mig áfram. Af því að það er svo grunnt þetta að vilja að vera fín í kjól að það er bara ekki hvatning fyrir mig lengur. Ég þarf eitthvað dýpra og merkingarfyllra núna til að komast á næsta stig. Svona eins og búddisti kemst áfram á næsta lífsstig.

Það virðist heldur ekki vera nægileg ástæða fyrir mig að vera hraust. Eins og það fyllir mig hamingju þá er ég samt ekki að leggja á mig vinnuna sem þarf til að verða í alvörunni hraust.

Ég hef alltaf haft þessa forgjöf að vera feit. Ég geri allt vel, þrátt fyrir að vera feit.Ég hef alltaf getað notað það sem svona afsökun. Sko, sjá hvað hún stóð sig vel, þrátt fyrir að vera feit. Og það sama er með hlaupin núna. Ég vil fá hrós fyrir að hlaupa 10km af því að ég geri það þó ég sé feit. Og það gefur mér leyfi til að gera það hægt og illa.

Og mér datt í hug að ég haldi í fituna til að missa ekki forgjöfina mína. Hvað ef ég næ að verða 70 kíló og það taki mig samt 80 mínútur að hlaupa 10km? Og það sem verra er; ef ég er bara mjó kélling að hlaupa hvernig á fólk þá að vita hvað ég er að vinna mikið þrekvirki, hversu dugleg ég er??

En ég held líka að það sé enn dýpri ástæða. Að missa forgjöfina mína er flott svona aha! sálarrannsóknarnnaflaskoðunarniðurstaða. En alvöru ástæðan er jafn grunnhyggin og ég er sjálf. Ég er enn einfaldlega löt og gráðug. Ég er logandi hrædd við að þetta sé vont og erfitt. Að ég þurfi í alvörunni að færa mig aftur út úr þægindahringnum sem ég er í núna. Að ég þurfi aftur að fara að leggja á mig, verða sveitt og skítug. Ég er logandi hrædd.


Engin ummæli: