laugardagur, 28. febrúar 2009

Það þýðir ekkert að gráta Björn bónda heldur safna liði og fara út á djammið! Já, í stað þess að sitja hér heima grátbólgin í kvöld í fýlu yfir að hafa ekki komist í bekkjarpartý þá ákvað ég að koma á djammkvöldi fyrir vinnufélaga mína. Pantaði borð á indverskum og svo er planið að fara á rölt um Wrexham eftir matinn. Ég gerði heilmikið úr þessu, sendi tölvupósta á þau fyrir hönd "nefndarinnar" öðru hvoru síðustu tvær vikur svona til að halda við spenningi og stuði, prentaði út matseðla, kort af Wrexham og upplýsingar um alla pöbbana, sendi stundaskrá og svona almennt djókaði með þetta. Það tókst og þau eru öll þvlíkt spennt fyrir því sem í raun er bara "curry and a piss up". En ég gerði þar með líka öllum ljóst að ég er útlendingurinn í hópnum. Þetta var allt svona eins og Feilsporið hefði gert þetta, en var mjög ó-breskt. Ég hafði hugsað mér að reyna að gera það ekki alveg svona augljóst, alla vega ekki alveg frá upphafi en ég kemst bara ekki hjá því að vera öðruvísi. Og svo lengi sem þeim finnst ég vera skemmtilega öðruvísi þá er það kannski bara allt í lagi.

Ég ætla að nota tækifærið og kreista úr þessu allt sem hægt er og er núna á leiðinni í bæinn að kaupa átfitt, eða alla vega nýjar sokkabuxur ef ég finn ekkert nýtt og á tíma í klippingu og handsnyrtingu. Ég er líka búin að bjóða Kelly og Claire að koma hingað áður en matur hefst í fordrykk. Þetta verður eflaust skemmtilegt kvöld. Og betra en að sitja heima í fýlu.

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Ég tók bílpróf í annað skiptið á ævinni og því miður gekk ekki jafn vel núna og þegar ég var sautján ára. Skrýtið. Allavega ég var alveg að skíta á mig úr stressi, þetta er allt gert á mjög stressvaldandi hátt hérna og ég verð að segja að ég var minna stressuð fyrir próf í háskóla heldur en fyrir þetta. Þrátt fyrir að geta ekki beint sett fingurinn á hvað ég var að gera vitlaust þá keyrði í allan tíman fullviss að þetta væri að fara mjög illa. Þegar þessum hryllingi lauk svo sagði prófdómarinn mér að ég væri fullfær um að keyra allt hefði gengið ljómandi vel en því miður þá hafði ég ekki fylgt gangstéttarbrúninni nákvæmlega þegar ég bakkaði fyrir horn og það er beint fall. Ég fór nú bara að gráta. Þvílík smámunarsemi! Og nú þarf ég að ganga í gegnum þetta aftur og borga £56.50 fyrir! Aftur! Allavega, ég fór í vinnuna en ákvað svo að ég þyrfti að bara bíta á jaxlinn og bóka mig aftur í próf. Dreif mig heim og bókaði á netinu. Ég fer því aftur 11. mars. Ég hef þá 2 vikur til að bakka eins og mig lystir og ætti að fara róleg í prófið. Og nú hætti ég að gráta og fer aftur í vinnu.

laugardagur, 21. febrúar 2009

Lúkas að spila tölvuleik.


Ég er alveg búin að tapa öllum trúverðugleika. Ég, er orðin gömul kona sem hlustar bara á útvarpið og veit ekkert hvað er kúl lengur. Þetta byrjaði allt með Take that. Þegar ég var unglingur þá voru Take that djöfullinn sjálfur, tilbúið drengjaband sem ekki spiluðu á hljóðfæri. Svo komu þeir saman aftur fyrir nokkru sem fullorðinr menn og ég stóð sjálfa mig að því að ekki bara syngja með "Patience" heldur dánlódaði ég því og hlusta oft á. Og fleiri lög fylgdu þar á eftir. Ég fékk svo digital útvarp í jólagjöf og ég hlusta orðið mikið á það. Og þar með tónlistina sem spiluð er í útvarpinu. Og í dag féll síðasta virkið. Ég var að stússast við að búa til mexíkósk hrísgrjón þegar Leona Lewis byrjaði að syngja Run sem fyrir nokkrum árum síðan kom út með Snow Patrol. Og ég fílaði í botn! Hér var að syngja kona sem vann x-factor (synd númer 1), er ein af milljón sætum söngkonum sem hafa núll persónuleika og eru allar eins (synd númer 2) að syngja kóver af lagi sem mér finnst æðislegt í upprunalegu útgáfunni (synd númer 3) og bætir inn í það gospelkór sem ég hata (synd númer 4) OG ÉG SYNG HÁSTÖFUM MEÐ!! Já, detta mér allar dauðar lýs úr höfði, ég er orðin gamalmenni.

föstudagur, 20. febrúar 2009

Ég vakti í gær langt fram eftir til að horfa á þátt á Discovery um Ísland og Hawaii. Já, ég hafði séð auglýstan þátt um eldfjallaeyjur og fannst ég tilneydd til að horfa á gamlar myndir sem ég hef séð milljón sinnum frá myndun Surtseyjar af því að Ísland var í sjónvarpinu í útlöndum. Að sama skapi stoppa ég alltaf og horfi á C0-0p (kaupfélagið) auglýsingu sem sýnir sekúndubrotssvipmynd frá Jökulsárlóni. Svona er ég mikill lúði.
Ég er alveg uppiskroppa með hugmyndir. Það eina sem eftir stendur er að vinna lottóið, og taka tvö ár frá í að léttast með því að hafa það að atvinnu. Ráða kokk, einkaþjálfara og sálfræðing í vinnu og bara gera ekkert annað en að æfa og léttast og ræða málin. En eins og eiginmaður minn bendir mér á á hverjum laugardegi þegar ég sit gapandi hissa yfir því að hafa ekki unnið þessa vikuna þá er einn á móti fjörtíu milljón að ég vinni lottó þannig að ég verð að láta mér eitthvað annað koma til hugar. Net samfélagið ekki að virka nógu vel fyrir mig, ammrísk síða og nánast útilokað að fylgja matseðlinum og allt í únsum og bollum. Stúmm, ég er bara alveg stúmm. Hvernig stendur eiginlega á þessu? Afhverju hef ég enga sjálfstjórn? Hver er lykillinn að þessu?

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Ég vil frekar blogga heldur en að snattast um á snjáldurskinnu. Tímaþrengd kallar á að ég verð að velja. Og ég vel bloggið anytime.

Allavega. Ég er búin að eignast nýja vinkonu. Sem ætti kannski ekki að vera merkilegt en ég verð að viðurkenna að ég geri meira af því að týna niður vinskap en að stofna til nýrra. Ég er svo ægilega heimakær og símlöt að það er bara fyrir alla hörðustu æskuvini og ættingja að nenna að púkka upp á mig. Svo vantar allt spjall í mig þannig að svona léttvæg kunningjasköp henta mér illa líka. Það er allt eða ekkert. En svo er nú komið að ég og Kelly Salisbury erum orðnar bestu vinkonur. Við erum alltaf saman í vinnunni og erum nú farnar að hittast utan vinnu. Synir okkar eru fæddir með mánaðar millibili og eru núna mestu mátar og það fyndnasta er að eiginmenn okkar vinna hjá sama fyrirtæki. Í sitthvorri deildinni en sama fyrirtæki engu að síður. Það er bara hálfskrýtið eftir 6 ára veru hérna að vera búin að eignast vinkonu. Það einhvern vegin tókst aldrei almennilega hjá mér og Söruh og Ceri og Shirley hitti ég bara til að ræða börnin. Kelly er svona voða dugleg og ég er að vona að hún dragi mig í að gera hitt og þetta sem ég vanaleg myndi ekki nenna. Eins og til dæmis að fara með henni í ræktina í vinnunni. Það væri nú sniðugt.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009


Ég keypti mér forláta vigt í dag. Það er eitt merkið um að þessi megrunartilraun komi til með að virka verr en sumar aðrar. Það er alger vitleysa að eyða í þetta peningum. Ég átti vigt en hún því miður stoppaði við 115 kíló og var þessvegna gagnslaus. Þessi nýja er svaka flott og ég má verða 180 kíló áður en hún segir stopp. Gott að vita að ég er ekki alveg á endamörkunum og svo náttúrulega fínt líka að mega þyngjast um önnur 60 kíló. Svona tveir pólar á þeim sjónarmiðum. Dave segir að þegar að ég segji svona setningar þá sé ég í raun að segja að ég sé búin að ákveða að þetta virki ekki. En það er ekki satt. Ég er að reyna einu taktíkina sem ég hef aldrei áður prófað: svartsýni, neikvæðni og almenn leiðindi. Ég ætla að vera mjög neikvæð og svartýn gagnvart þessu af því að þá kem ég sjálfri mér svo skemmtilega á óvart í janúar 2011 þegar ég verð 70 kíló. Ji, hvað ég verð hissa!

mánudagur, 9. febrúar 2009

Við fórum í bíó í gær að sjá Bolt. Disney mynd og hin ágætasta skemmtun fyrir 5 ára. Hann sat kyrr mestalla myndina, missti aðeins dampinn þegar svona 10 mínútur voru eftir og ég þurfti að hafa smá ofan af fyrir honum. Sem minnti mig á hve Wall-e er góð mynd. Ég hugsa að við eigum alltaf eftir að bera hana saman við það sem við komum til með að sjá héðan í frá. Nánast ekkert talað, langar senur þar sem Wall-e er bara eitthvað að stússast en engu að síður sátum við öll jafn dolfallin og límd við skjáinn. Og Lúkas hreyfði sig ekki alla myndina. Það verður langt þangað til að það verður jafn gaman að fara í bíó. Wall-e setti einhvern staðal sem ég bara fæ ekki séð að önnur teiknimynd geti náð. Töfrum líkust.

Ég er búin að skrá mig í svona net-megrunarklúbb. Að vera ekki í megrun virkar semsé heldur ekki fyrir mig, ég hef enga stjórn á átinu. Ég er svo veik og sjúk manneskja að ég held að það sé bara leitun að. Átið hefur núna alveg tekið yfir allt í lífinu og ég er komin á eitthvert stig sem ég kannast ekki við áður. Ég fæ panikk atakk ef það er ekki til ákveðið mikið magn af sælgæti. Og ég er að tala um alvöru panikk atakk; ég fæ hjartaflökt og svitna, á erfitt með að anda og fyllist sorg, depurð og reiði. Þetta er ný geðveiki sem hefur tekið völdin af mér. Allavega, magateygja er ekki valmöguleiki, nú einfaldlega vegna kostnaðar. Fyrir nokkrum mánuðum var það vegna þess að ég ákvað að ég gæti ráðið við þetta sjálf, nú hef ég viðurkennt að það er ekki satt, ég bara hef ekki efni á aðgerðinni. Þangað til verð ég að reyna að gera eitthvað. Verð að viðurkenna að ég er hálf vondauf með þetta, ég fæ ekki séð að megrun númer 4979 komi til með að virka eitthvað betur en hinar 4978. Ég er að reyna að tækla þetta út frá þeim sjónarhól að fitan utan á mér sé merki um velmegun og að velmegun sé núna blótsyrði og ég verði að losna við þetta til að vera í liði með bræðrum mínum og systrum sem nú berjast í bökkum. Ég er sem sé að fara í hugmyndafræðilega megrun. Á netinu.

föstudagur, 6. febrúar 2009Örlítil áminning frá Churchill.
Ég er alltaf með eitthvað plan í gangi, einhverja áætlun sem heldur mér gangandi. Þessi plön mín ganga vanalega ekki eftir, eitthvað breytist þannig að nýtt plan fer í gang. En það er allt í lagi, fyrir mér er aðalmálið ekki áfangastaður heldur ferðalagið. Þau plön sem eru í gangi núna: Að eiga fyrir og vera búin að borga 8 daga á Mæjorka fyrir apríl lok. Að koma til Íslands í haust. Að klára námið á réttum tíma, þ.e. í Janúar 2010. Að léttast um 50 kíló. Að byggja við húsið. Að komast á fast track í vinnunni og vera orðin G6 officer innan 4 ára. Að velta fyrir mér að eignast annað barn.

Þessi plön eru á mismunandi tímaskala og ekki endilega sett upp í röð eftir mikilvægi. Það væri gaman að skoða eftir 5 ár og sjá hvað ég gerði og hvað ekki. En það verður einhver annar að minna mig á þetta því plönin breytast jafn hratt og ég get upphugsað þau.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Og snjórinn (bleytan) hefur nú haft það að verkum að ég fékk ekki að fara í bílpróf í morgun. Ég fór alla leið til Oswestry í morgun en fékk þá að heyra að það væri ekki ökufært. Mér fannst þetta fyndið í gær og fínt að fá frí í vinnunni en ég verð að viðurkenna að núna er ég dálítið pirruð yfir þessum aumingjaskap. Ég var öll uppgíruð og tilbúin í þetta og svo bara, ekkert! Djöfuls bretaræflar.

mánudagur, 2. febrúar 2009Hér féll föl á gangstéttar og malbik blotnaði örlítið og í fjöldamóðursýkiskasti vegna frétta um aðeins meiri snjó fyrir sunnan var ég og allir mínir starfsmenn og vinnufélagar send heim um hálf sjö í kvöld. Og nú leggjumst við Lúkas bara á kné og biðjum um meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó. Því það er ekki slæmt að vera heima á náttfötum á fullum launum. Hver slær hendinni við því?

sunnudagur, 1. febrúar 2009Það er sunnudagsmorgun og við míni-fjölskyldan erum búin að borða morgunmatinn og erum að gera okkur klár í bátana. Í dag ætlum við til Oswestry. Tilgangur ferðalagsins er tví- eða jafnvel þríþættur. Ég ætla að taka bílpróf í Oswestry þar sem að það er ekki hægt í Wrexham og þarf að skoða aðeins aðstæður. Þetta var ein af ástæðunum fyrir því að upprunaleg dagsetning frestaðist, ég hafði ekki skoðað mig um þar. Við ætlum svo að fá okkur "sunday roast" á einhverjum sveitapöbbnum á leiðinni þangað. Þannig þarf ég ekki að elda í dag. Eins og mér finnst vanalega skemmtilegt að bardúsa í eldhúsinu þá eru líka dagar þar sem ég hef engan áhuga á eldamennsku og einn þessara daga er í dag. Svo hef ég aldrei komið til Oswestry og mér skilst að hér sé um að ræða eitt af þessum fallegu markaðsþorpum sem teygja sögu sína aftur til Eiðilráðs hins Óumbúna eða einhvers samskonar víkinga-kóngs. Vona að þið öll hafið það gott í dag og notið daginn til að gera bara skemmtilega hluti. Eða allavega uppbyggilega.