sunnudagur, 27. nóvember 2016

Af ofáti

Ég er búin að vera í greipum ofátkasts (binge) núna í rúma viku. Ég byrjaði að plana það með nokkurra daga fyrirvara og sanka að mér allskonar gúmmilaði. Og svo byrja ég að borða. Með stjörnur í augum og berjandi hjartslátt af spenningi byrja ég að troða í mig af jafn mikilli ákveðni og ég á sama tíma leyfi " mér er sama um allt" taka yfir hugann. 
Binge leyfir mér að setja allt annað til hliðar. Binge leyfir mér að bara taka pásu frá öllu sem er að angra mig. Áhyggjum, stressi, þreytu, spiki, leiðindum. Allt hverfur á meðan ég einbeiti mér bara að því að borða. Þetta er eins og að fá frí, eða langa pásu frá sjálfum sér. Eins og maður sé bara í einangrunarkúlu þar sem ekkert kemst að nema matur.
Ég hafði aldrei hugsað þetta svona áður. Það er ótrúlegt hvað gerist þegar maður reynir að komast að því hvað er að gerast þegar maður hagar sér svona fremur en að verða bara reið út í sjálfa sig. Ókei, ég ætla að binge-a, hversvegna? Hvaða coping mechanismi er það? Hverju er ég að reyna að ná fram með að borða svona?  Og ég kemst að því að ég er þreytt og eg er stressuð. Mig vantar pásu frá lífinu. Og það er ekkert betra til að stöðva allt, til að algerlega stíga út úr vandamálum hversdagsins en að éta sér til óbóta. 
Þetta er í raun ótrúleg hugljómun. Því nú get ég reynt að finna aðrar leiðir til að veita sjálfri mér þessa pásu frá lífinu þegar ég þarf á henni að halda. Þó það sé ekki nema að einfaldlega setjast niður og anda inn og út í fimm mínútur á dag. 
Og núna er ekki tími til að hata sjálfa mig eins mikið og mig langar til þess. Núna er einmitt tími til að sýna sjálfri mér eins mikla ástúð og umhyggju og ég mögulega get. Dugleg stelpa segi ég við sjálfa mig. Þig vantaði pásu og þú gafst sjálfri þér það sem þig vantaði. Næst manstu bara að prófa eitthvað annað en mat. Gítarinn, lyftingar, heimsókn til vina, klipping eða nudd. En vel gert að reyna þitt besta til að hugsa um sjálfa þig. 
Næst ætla ég líka að reyna að muna að finna bragð. Ef ég er að borða á annað borð allt uppáhaldið mitt þá get ég allt eins reynt að njóta þess.

sunnudagur, 6. nóvember 2016

Ristað brauð með marmelaðiÉg tók þessa mynd á fimmtudagskvöldið síðasta. Ég var á hótelherbergi í Edinborg, við að fara á verðlaunaafhendingu í vinnunni. Ég er 97 kíló á myndinni og hefur sjaldan eða aldrei þótt ég jafn sæt. Ég er búin að skoða þessa mynd síðan ég tók hana til að reyna að skilja afhverju mér líður svona vel með sjálfa mig. Við vitum öll að 97 kíló er allt of þungt fyrir konu sem er 167 centimetrar að hæð og það er ekki eins og ég sé grönn. Ég hef líka bæði verið grennri og í betri þjálfun en ég er núna en engu að síður held ég að mér hafi sjaldan liðið betur, í líkamanum. Mér finnst ég vera "powerful". Ég get ekki þýtt orðið því ég á ekki við að ég sé kraftmikil en heldur ekki valdmikil. Kannski að þróttmikil sé besta orðið? Powerful að því leytinu að ég hef kraft inni í mér, ég hef vald yfir sjálfri mér og ég er full af þrótti. 

Það eina sem mig hefur alltaf langað er vera venjuleg. Mig langaði svo til að geta bara fengið mér að borða án þess að "líða" einhvernvegin með það. Að það að borða væri bara það; matur í munn, orka í kropp, búið bing bing bing bong. En allur tíminn sem ég hef eytt í að setja orthorexiu reglur hafa kannski skilað árangri á vigtinni en venjulega markmiðið fjarlægðist stöðugt. Ég held að núna þegar ég er búin að fjarlægja allar reglur sé eins og þetta markmið sé í sjónmáli. Ég þarf stanslaust að minna mig á hvað ég er að reyna að gera. Minna mig á að athuga hvort ég sé svöng, spurja sjálfa mig hvað ég er að reyna að fylla þegar ég borða þegar ég er ekki svöng og vinnan sem fer í að fyrirgefa sjálfri mér þegar ég borða er gífurleg. En þetta er allt að koma. 

Ég ristaði brauð í morgunmat. Tvær brauðsneiðar, af því að það er pláss fyrir tvær sneiðar í vélinni og það er asnalegt að gera bara eina. Setti marmelaði og ost á sneiðarnar, hellti upp á kaffi og settist við eldhúsborðið til að borða. Borðaði hægt og róleg og naut hvers bita. Þegar ég var byrjuð á seinni sneiðinni datt mér allt í einu í hug að það að rista tvær sneiðar væri kannski bara eitthvað sem fitubollur gera. Kannski finnst mjóu fólki í lagi að hafa eitt ristiplássið autt? Hvað ef ég rista alltaf tvær og borða svo tvær bara af því að brauðið er núna fyrir framan mig? Ég byrja að þreifa fyrir mér í smá panikki til að tjékka hvort ég sé enn svöng. Jú, tvær sneiðar virðast vera rétta magnið en hvað ef ég ætti bara að gera eina sneið fyrst og svo aðra ef ég væri enn svöng? Hvað gerir mjótt fólk??? Spáir það í þessu???? Ég reyni að róa mig niður, slakaðu á segi ég við sjálfa mig. Njóttu sneiðarinnar, manst að þú er sátt, þú veist hvað þú ert að gera. 

Jú, þetta er allt að koma en samt. Það er erfitt að stanslaust þurfa að spá svona í þessu. Ég horfi á myndina af sjálfri mér og hugsa með mér að þetta allt, þessi vinna hlýtur að vera þess virði fyrir að smá saman líða betur, og að lokum vera sátt við mig eins og ég er núna.