miðvikudagur, 7. maí 2014

Mér þykir alltaf jafn skrýtið þegar talað er um að það þurfi bara að gera smávægilegar breytingar til að ná varanlegum árangri í heilsusamlegu líferni. Skipta út einhverju óhollu fyrir eitthvað hollt, hreyfa sig smávegis, halda sig við heilsusamlegri kostinn 95% tímans.

Ef maður spáir aðeins í því þá er það bara heilmikið átak að vera heilsusamlegur 95% tímans. Við getum til dæmis sett þetta upp í einfalt reiknisdæmi. Gefum okkur að í vikunni séu sjö dagar og að ég borði 3 máltíðir á dag. Það gefur mér 21 máltíð ef ég man þrisvar sinnum töfluna rétt. 95% af 21 er 19.95. Sem þýðir að til að vera heilsusamleg 95% tímans yfir vikuna þá get ég tekið verri ákvörðun hvað mat varðar 1.05 sinnum yfir þá viku. Það er ein máltíð. Ein máltíð. Það er allt og sumt. Allar hinar máltíðarnar þurfa að halda sig innan marka sem eru annaðhvort minna magn en mig langar í eða eru ekki djúpsteik pizza.

Fyrir fólk sem er vant að taka betir ákvörðun 70% tímans, er semsagt meira heilsusamlegt en ekki, þá er breytingin einar 6 máltíðir. Ef maður er heilsusamlegur 70% tímans getur maður semsagt borðað rugl 6 sinnum. Að breyta frá 70% til 95% er semsagt breyting á einum 5 máltíðum. Þannig að við erum ekki einu sinni að tala um að fara frá 0% til 95% og það er samt heilmikið mál.

Á nákvæmlega sama hátt og mér finnast það vera lygar þegar það er sagt við fólk að það þurfi bara að gera smávægilegar breytingar á hreyfingu til að ná fram árangri. Það er bara ekki rétt. Það þarf að gera gífurlegar breytingar á öllu hugarfari til að ná árangri og til að viðhalda honum. Með smávægilegum breytingum nær maður einungis tímabundum árangri og svo fer allt í sama farið aftur. Ef ég hef í hyggju að vera hraust og halda spikin af mér þá þarf ég að breyta mér í íþróttamann, manneskju sem hreyfir sig á hverjum degi, Og það er gífurleg breyting á öllu hugarfari, allri hegðun sem þarf til að ná svoleiðis fram.

Það er ekki nema von að það eru bara einhver 3% útvaldra sem ná að halda af sér spikinu í einhvern tíma.

Þetta er sko meira en að segja það.

Maður þarf að nota stærðfræði og allt.