þriðjudagur, 31. mars 2009

Nýji yfirmaðurinn minn er algjör tík. Ég held að ég hafi bara aldrei unnið hjá manneskju sem er svona illa starfi sínu vaxin. Reyndar ef ég hugsa um það þá hef ég alltaf unnið hjá eðal fólki. En þessi, hún er bara eitthvað alveg nýtt. Ég læt það reyndar ekki mikið á mig fá, hef tekið þann pólinn í hæðina að skoða hana sem rannsóknarefni fyrir námið og í næstu man management ritgerð ætla ég að tileinka henni heilan kafla um hvernig á ekki að gera hlutina. Ég hef bara aldrei séð þetta áður; hún kann svo illa að stjórna og veit svo lítið um hvernig hlutirnir virka að hún hefur tekið þann pólinn í hæðina að ef hún öskrar og æpir og lætur frá sér misvísandi upplýsingar og breytir um skoðun og æpir og kúgar þá fatti fólk ekki að hún einfaldlega hefur ekki hugmynd um hvað hún er að gera. Hún væri kómísk ef hún gerði vinnuna ekki svona erfiða. Mér finnst mjög gaman að því sem ég er að gera og skemmtilegt á allan hátt í vinnunni, nema þegar kemur að henni. Hún er að skemma aðeins fyrir mér.

Námið er svo að skemma fyrir mér nýja lífstílinn. Það er fulltæm djobb að halda úti heilsusamlegum lífstíl og ég verð að eyða tíma í það. En þá fer námið veg allrar veraldar. Ég verð að setjast niður og finna betri stundaskrá fyrir sjálfa mig, ég verð að koma þessu öllu fyrir einhvernvegin, ég er ekki tilbúin í málamiðlanir. Það er bara allt eða ekkert.

sunnudagur, 29. mars 2009

Við breyttum klukkunni hérna í nótt. Mér finnst það alltaf jafnskrýtið, klukkan var 11 og svo var hún 1. Ekkert miðnætti í gær. Og núna er hún að verða 12 á hádegi og við erum hálfrugluð í ríminu. Erum enn í náttfötunum og vitum ekki hvort við erum að borða morgunmat eða hádegismat. Mér finnast þessi skipti verri en hin þegar klukkan verður miðnætti tvisvar. Það er auðveldara að díla við það einhvernvegin. Allavega þannig að ég er núna klukkutíma á undan Íslandi.

Ég segi oft við Láka að við séum í stuði og að nú sé stuð og að spyr hvort allir séu ekki í stuði. Mér finnst nefnilega svo sorglegt að Dave viti ekki að ég sé í stuði. Hann veit að ég er "happy" og "in a party mood" og "feeling great" og "electrified" og allskonar þessháttar en hann skilur ekki að ég sé í stuði. Og ég vil að Láki skilji orðið og tilfinninguna sem er svona sér íslensk. Reyndar þá finnst mér að Íslendingar ættu að fá einhverskonar stuðverðlaun frá alþjóðasamfélaginu fyrir það eitt að hafa lafað á skerinu í þúsund ár og mestmegnis í stuði allan tímann. En það er víst ekki hægt því það erum bara við sem skiljum hvað að er að vera í stuði. Skilja Færeyingar orðið? Mér er spurn.

föstudagur, 27. mars 2009


MORGUNMATUR GUÐANNA (ef guðirnir eru frá Skotlandi)
Já, og það er ekkert djók. Mér hefur alltaf þótt erfitt að borða morgunmat. Er bara allsekkert svöng þegar ég vakna. En veit að morgunmatur er undirstaða dagsins og ef maður er fylgjandi heilsusamlegum lífstíl þá er ekki undan komist. Þannig að þegar ég er í megrun þá borða ég samviskusamlega morgunmat klukkan sjö og er svo orðin viðþolslaus af hungri um tíuleytið. Um hádegi er ég svo orðin svo svöng að ég borða allt of mikið og einhverja vitleysu. Í þetta sinnið ákvað ég að láta allar reglur um hvað maður á að gera fara lönd og leið og finna upp aðferðir sem virka fyrir mig. Og hér er það. Ég fæ mér bara vatn og kannski epli eða sneið af greip áður en ég fer með Láka í skólann. Kem svo heim og fer beint í líkamsrækt. Og svo fæ ég mér morgunmat. Klukkan svona hálfellefu. Og er núna búin að finna upp morgunmat allra morgunmata. Ég kalla hann hnetugraut og ein skál heldur mér ekki bara saddri til klukkan hálftvö heldur get ég líka látið mjög léttan hádegismat duga fram að kvöldmat. 40 g. af Jumbo Oats, ómalaðir hafrar bara beint af kúnni. Eða akrinum. 300 ml vatn og svo mallað saman í 8-10 mínútur. Svo hræra út í einni teskeið af ósykruðu organísku hnetusmjöri, strá yfir hálfri teskeið af sykri, og svo 10 g. af sneiddum möndlum. Umm umm umm jömmí! 300 karólínur en þýðir að hádegismatur getur verið 200-300 karólínur, og maður það er þvílíkt þess virði. Hafrarnir svo góðir fyrir kólesteról og hjarta, hnetusmjörið uppfullt af meinhollum fitum og andoxununarefnum og möndlurnar lengja fyllinguna og veita svo góða áferð. Mér líður eins og ég hafi fundið eitthvað sem loksins virkar fyrir mig. Og ég hlusta ekki á kjaftæði um að allir eigi að borða á sama tíma, þetta er það sem líkami minn skilur og bregst við á réttan og jákvæðan hátt. Verði ykkur að góðu.

fimmtudagur, 26. mars 2009

Mikil lukka yfir mér alltaf hreint. Eða kannski ekki lukka svona per se. Verð eiginlega að eigna sjálfri mér þennan. Ég er enn að léttast og ekki bara á líkama heldur sál líka. Er á fullu í líkamsrækt og vigta og mæli og tel allt sem fer inn fyrir mínar varir. Mikið væri gaman að geta fundið upp leið til að viðhalda þessari tilfinningu að eilífu. Þessu... hungri í að gera vel. Það er alltaf svo gaman fyrst, maður sér árangur og er að stússast í að finna leiðir til að fá sem mest út úr karólínunum sínum, og finna nýjar uppskriftir og það er bara stuð í líkamsræktinni. Svo þegar á líður fer þetta að verða erfiðara, leiðinlegt og maður finnur fyrir óréttlætinu. Afhverju má ég ekki borða einn mola af súkkulaði þegar ég sé grannt fólk skófla því í sig? Og svo tekur maður frí í einn dag og vekur upp alla djöflana sem sitja í heilanum og syngja stanslaust "meira, meira, kommon einn í viðbót gerir ekki til, þú ert búin að vera svo dugleg, svona svona, einn í viðbót..." Og áður en maður veit af er liðin mánuður af stanslausu súkkulaði og öll kílóin eru komin aftur og eitt til. Nei ég þarf að gera eitthvað til að geyma þessa tilfinningu svo ég geti grafið hana aftur upp þegar ég finn leiðindin taka yfir. Kannski að breyta einhverju, geri eitthvað nýtt í hvert sinn sem ég er komin í of mikla rútínu. Ef mér tekst þetta þá er ég búin að finna lausnina á fituvandamálinu og stofna meðferðarstofu fyrir samfitubollur.

sunnudagur, 22. mars 2009



Þá er fyrsta tönnin farin og hefur skilið eftir skarð í neðri góm. Lúkas sem er vanalega stressaður yfir smá slysum og blóði er alveg stóískur yfir tannleysinu. Ég er eiginlega alveg hissa.

Hér er svo mæðradagur í dag, og hefð fyrir að gefa kort, blóm og súkkulaði. Ég er nú lítið fyrir svona vesen en verð að viðurkenna að ég var hrærð yfir kortinu sem sonur minn bjó til og gaf mér. Hann hafði greinilega lagt alla sína ást í það og var svo stoltur af verklaginu. Við þurftum svo að fara með kort til Heather eða hún hefði aldrei talað við okkur aftur. Dave bjó kortið reyndar ekki til, en það var keypt til að þóknast smekki hennar; það var skreytt með bleikum böngsum með hjörtu og blóm og blöðrur og glimmer stafir sem stöfuðu MUM. Ég tek út fyrir að þurfa að kaupa og gefa svona óskapnað en stundum er bara nauðsynlegt að "go native".

Í öðrum fréttum er svo að hér er aftur komin áminning um hversu ljúft það er stundum að búa í útlöndum; hingað er komið vorið með tilheyrandi léttleika. Vetrarkápur komnar inn í skáp og allt orðið iðagrænt. Með vorinu kemur svo aukinn kraftur í að vera úti að stússast, og þar með enn fleiri tækifæri til kaloríubrennslu. Það er fátt jafn gott og kröftug ganga í góðu veðri.

miðvikudagur, 18. mars 2009



Eins og svo oft hefur komið fram áður þá er ég alveg svaðalega sjálfumglöð og hrokafull, sjálfhverf og sjálfselsk. Hluti af því lýsir sér í því að ég sé sjálfa mig í huganum sem háa og granna. Ég get engan vegin sætt þessar tvær myndir; mig eins og ég er í alvörunni og sést hér á mynd og Claudiu Schiffer konuna sem ég sé þegar ég hugsa um sjálfa mig. Ég fæ alltaf jafn mikið áfall þegar ég sé sjálfa mig á ljósmynd. Myndirnar sem voru teknar í vinnupartýinu um daginn voru það sem komu þessu átaki af stað. Ég hafði farið út það kvöldið haldin þeim ranghugmyndum að ég liti bara vel út. Og sjokkið þegar ég sá myndirnar á Facebook. Madre de dios! Hvað um það, nú ætla ég ekki að missa sjónar á sjálfri mér, ég er 125 kíló og það sést. (Öfugt við það sem ég held.) Og ég ætla ekki að stoppa fyrr en hugmyndin sem ég hef af sjálfri mér er orðin raunveruleikinn. End of.
Ég laumaðist á vigtina í morgun þó svo að opinber vigtunardagur sé ekki fyrr en á morgun. 122.7 kg! Það eru 2.3 kíló farin. Það er bara endalaust stuð. Ég ætlaði að drífa mig í BodyPump í dag en er með einhverja bakþanka. Hvað ef ég er of feit og þeir vilja ekki hafa mig með. Kannski að þeim finnist ég sé ekki í nógu góðu formi og leyfa mér ekki að vera með. Kannski að ég geri meira Pilates og fari í sund í smá stund áður en ég fæ að vera með mjóa fólkinu. Málið er bara að ég þrái að reyna aðeins meira á mig. Ég treysti mér ekki út að hlaupa út af hnénu þó að það sé það sem mig langar mest að fera. Mig langar svo að finna fyrir vöðvunum og vera með leiðbeinanda sem ýtir mér að endamörkunum. En er yfirkomin af einhverjum fitubollukomplexum og þori ekki.

þriðjudagur, 17. mars 2009

Ég er uppfull af þrótti, von og bjartsýni akkúrat núna. Mér líður eins og eldingar renni í æðum mér og nánast ekkert sé ómögulegt. Og hversvegna ætli að ég sé í svona miklu stuði? Ég leitaði að krafti innan úr mér og fann nóg til að hefja nýtt átak. Hluti af mér vill helst ekki minnast á þetta svona af því að ég er hrædd um að enn eitt átakið sé hvort eð er dauðadæmt. Hinn helmingurinn vill að sem flestir fylgist með til að hvetja mig áfram og vera til staðar til að minna mig á að leggja snickersið frá mér. 125 kíló. Það eru 275 pund eða 20 stone (Bretar vega í steinum af einhverjum ástæðum, það er u.þ.b. 7 kíló í steini.) Þannig að það eru 51 kíló í boði til að ná draumaþyngdinni 74 kg. Ég hef útbúið ægilega fínt excel skjal sem skrásetur þetta alltsaman og er alveg ægilega spennt í þetta sinnið. Ég er svo að skoða alla möguleika sem mér bjóðast hvað varðar líkamsrækt. Er mest spennt fyrir að fylgja "from couch to 5k" planinu sem kennir hvernig maður á að hlaupa rétt. Og svo er það BodyPump sem ég fíla alveg í botn og ég er auðvitað enn að stússast í Pilates hérna heima. Það er nóg að gera. Eina vandamálið er að ég hef engan tíma í þetta. Ég held að vera í alvöru átaki sé bara ekki fyrir fólk sem er í fullri vinnu og fullu námi. Sér í lagi ekki þegar það er ekki með bílpróf. Það er smá pirrandi að láta tíma og farartæki stoppa sig þegar stuðið er svona í algleymingi en ég reyni að láta það ekki á mig fá. Það er alltaf hægt að gera eitthvað smávegis.

Það sem aðallega er fyrir mér núna er námið. Ég á að vera að skrifa ritgerð og bara get það ekki. Og svo bíður mastersritgerðin eftir mér líka. Ég er svona aðeins farin að hallast að því að ég hafi tekið aðeins of mikið að mér núna. Ég ætlaði að klára þetta á tilskyldum 2 árum en er farin að halda að það sé til of mikils ætlast. Ég vil samt ekki biðja um fresti því ég er alveg viss um að ef ég geri það þá dankist þetta bara niður alveg. Ég verð bara að gera magaæfingar á meðan ég skrifa!

miðvikudagur, 11. mars 2009

Engu að síður þá tókst mér í dag dálítið sem ég er að vona að sé merkilegra "breikþrú" en að ná bílprófi. Ég var í miklu uppnámi góðan hluta dagsins, og var ein heima. Og þrátt fyrir það þá náði ég að stoppa mig í að borða. Ég ósjálfrátt hljóp út í Co-op og keypti kexpakka til að drekkja sorgum mínum en ég náði að stoppa mig af áður en ég borðaði hann. Næst næ ég kannski að þekkja "triggerið" og stöðva mig áður en ég kaupi kexið og afstýri þannig hættunni alveg. En þetta var mikilvægt skref í dag. Og ég er alveg svakalega stolt af sjálfri mér.
Jæja, aftur komin á ról eftir veikindin og fór beint í bílpróf í morgun. Og kolféll í þetta sinnið. Nú er ég ekki bara ófær um að bakka fyrir horn (og ég sem æfði mig svo mikið), ég er ófær um að keyra yfir höfuð. Ég gerði allt vitlaust sem hægt var að gera vitlaust. Ég er núna búin að búa mér til einhverskonar sálar-tálma og þegar prófdómarinn sest við hliðina á mér þá gleymi ég öllu sem ég hef lært. Nú bara veit ég ekki hvað ég geri næst. Ég er búin að fjárfesta of mikið í þessu til að hætta við núna, en á sama tíma þá bara get ég ekki hugsað mér að þurfa að ganga í gegnum þetta aftur. Ég er með þvílíkan niðurlút.

laugardagur, 7. mars 2009



Ég er búin að vera svona síðan á þriðjudaginn. Í dag er laugardagur. Ég er orðin mighty þreytt á þessu ástandi. Ég verð alveg rosalega oft veik. Allavega tvisvar á ári. Og það er síðan að ég flutti í þetta pestarbæli sem Bretland er. Ég þoli bara allsekki bakteríurnar sem hér þrífast. Ég á að vera úti núna að æfa mig í að bakka fyrir horn en bara á erfitt með að fókusa, hvað þá að standa upp og gera eitthvað. Þetta er ekki fallegt.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Mrs. Price hringdi í mig í gær rétt áður en ég fór í vinnu til að láta mig koma að ná í Lúkas. Hann var með ægilegan niðurgang greyið, búinn að missa allt niður um sig. Sat fölur og hálfgrátandi út í horni og beið eftir mér. Ég fór því ekki í vinnu í gær sat bara með hann hérna og huggaði. Hann byrjaði svo að gubba í nótt og í morgun. Ég er með einhverja samúðarverki og er alls ekki hress sjálf. Er búin að ákveða að við verðum heima í dag. Blöörghh.