þriðjudagur, 29. nóvember 2011

Og ég vaknaði á mánudagsmorgun, hljóp sex kílómetra, pakkaði niður útmældan og útpældan hádegismatinn og pældi ekki meira í sunnudeginum og ofátinu sem honum fylgdi. (Note to self; setningarmyndun sýnir fjarlægð frá ábyrgð á ófáti. Verð að skoða) Ég veit nefnilega hvernig það hugsanaferli virkar. Einn slæmur dagur er bara einn slæmur dagur, ég get alveg haldið áfram að borða í einn eða tvo daga. Eða, þetta er bara eitt súkkulaðistykki, ég get alveg fengið mér annað. Eða, þetta er bara ein æfing sem ég er að sleppa, ég get alveg sleppt annarri og annarri. Og annarri. Og einni eftir það. 


Ég hef gert það svo oft núna að ég veit að til þess að viðhalda velgengni í leit minni að heilsu og hamingju get ég bara leyft eina slæma ákvörðun í einu. Og svo verð ég að skrifa hana á lífsreynslu, brosa og halda áfram. 


Ég trúi af algerri festu á meðalhóf og að hlusta á mína innri rödd. Að hún viti hvað mér er fyrir bestu. En ég veit líka að röddin sem biður um spínat og líkamsrækt er ósköp mjóróma og það er oft erfitt að heyra í henni í gegnum öskrin í hinni röddinni sem heimtar annað Snickers. Það er enn eins og það sé smávegis fórn að gefa Snickersið upp á bátinn en ég er að vinna að því.


Tvö æfingahlaup í viðbót og svo alvöru kapphlaup á sunnudaginn. Spennandi!

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Ég skil ekkert í því hvað ég er róleg akkúrat núna. Venjulega væri ég komin í angistarkast og að mestu leyti búin að gefast upp. Búin að segja sjálfri mér að hætta bara að rembast við heilsuna, þetta komi aldrei til með að virka. Nú er nefnilega komin heljar langur tími þar sem ég er að léttast á jarðflekahraða. Eða bara ekki að léttast neitt. Meðalhófið er bara að gera sig hjá mér í andlegu hliðinni. En hvað þá líkamlegu varðar er annað upp á teningnum. Upp og niður, upp og niður, sömu þrjú kílóin. Ég er búin að vera mjög ánægð með vinnuna sem hefur farið hér fram undir nokkuð luktum hurðum, ég er búin að vera að lagfæra svakalega margt í heilanum og hef ekki fundið neina þörf til að setja það allt saman niður á blað.

Allt of langur texti án þess að hafa mynd.
En því miður þá finn ég samt að það er ansi oft sem ég er á brúninni. Það er allt of oft sem ég þarf að segja við sjálfa mig "jæja, þá er það að byrja upp á nýtt" þegar mér þykir mikilvægara að geta sagt "jæja nú held ég bara áfram."  En þegar ég stend á brúninni hvað geri ég til að toga mig tilbaka? Ég er orðin það sjóuð núna að ég þarf einhvern vegin ekki að gera það núna. Ég þarf aldrei að tala sjálfa mig til í að fara út að hlaupa. Ég þarf aldrei að halda langar rökræður við sjálfa mig um hvort ég ætti að fá mér hollari kostinn. Ég geri það bara. En ég þarf stanslaust að passa magnið. Ég get enn borðað endalaust.

Og svo koma dagar eins og dagurinn í dag. Þar sem ég vakna með blús í sálinni. Og alveg sama hvað tækni ég nota (klappa viðbein, sýna sjálfri mér ást og hörku á sama tíma, skoða myndir, máta minnstu fötin mín, spjalla við stelpurnar í hlaupagrúppunni, setja "þú finnur það ekki hér það sem þú leitar að" merkið á ísskápinn) þá held ég samt áfram að troða í mig og það langt fram yfir seddu og velsæmismörk. Og ég sé fyrir mér að innan þriggja mánaða væri ég búin að sóa næstum þremur árum af vinnu.

Ég hef svona per se ekki áhyggjur af því að ég geti ekki stoppað. Það er ekki vandamálið. En ég sé líka ekki tilganginn í þessum dögum hjá mér. Þeir gera afskaplega lítið fyrir mig. Fullnægja ekki neinni sykur-eða átþörf því undantekningarlítið er ég ekki að borða það sem mig langar í. Ég er bara að ryksuga upp hvað sem á vegi mínum verður - þegar ég ætti bara að sleppa því og fara út í búð og kaupa Ben & Jerry og snickers og njóta þess. Nei, þessir dagar gera ekkert nema að auka á blúsinn, gera mig eilítið grama og fresta því að ég nái markmiðum mínum.

Það eru nefnilega enn markmið sem ég hef í sigtinu. Mig vantar enn að losna við 20 kíló. Mest megnis til að auðvelda hlaupin. Að hluta til vegna þess að mig vantar minna álag á hnén. Smávegis af hégóma. Mig langar bara svo til að sjá hvernig ég er alveg mjó. En hvað er ég er að gera í að ná þessum markmiðum? Og hvernig á ég að fá þau til að samræmast meðalhófinu?

Ég næ alltaf að stoppa sjálfa mig í niðurrifi - ég þekki orðið einkennin og ég kem núna alltaf fram við sjálfa mig af ástúð og væntumþykju. Það virkar miklu betur en hitt. Ég lifi líka í sannfæringunni um að það sé í lagi með mig. Að mér sé viðbjargandi og að ég sé þess virði að leggja þessa vinnu í mig. Og það er grundvöllurinn.

Hitt er svo framkvæmdin.

Ég ætla að byrja að vigta mig aftur. Ég er viss um að ég sé núna orðin nógu sterk til að geta höndlað tölurnar á vigtinni þannig að upp á við tala rústi ekki fyrir mér deginum eða vikunni. Að ég geti séð tölu upp á við og frekar skilgreint hvað ég gæti þá verið að gera betur.

Ég ætla að borða minna. Ég er að borða hollan og góðan mat; ég borða einfaldlega of mikið af honum.

Ég ætla að vera markvissari í annarri líkamsrækt en hlaupunum. Mig vantar að byggja upp miklu betra "core".

Ég ætla að byrja aftur að gera tilraunir og stunda rannsóknavinnu. Og þar ber hæst módelið sem ég er að byggja fyrir breyttan lífstíl. Ég verð að lifa eftir prédikunum mínum.

Hljómar vel? Mér líður alltaf best þegar ég er með plan.

miðvikudagur, 23. nóvember 2011

Það kemur nú aldeilis fyrir að maður leiti langt yfir skammt. Þannig er ég núna búin að leita logandi ljósi að edamame baunum síðan ég fór á Wagamama með Ástu í Lundúnum. En finn hvergi hér í sveitinni. Á leið heim úr vinnu í dag kom ég við í Marks & Spencer. Þar er hægt að fá allskonar fínerí, aðeins of dýrt svona til að versla dagligdags, en ef manni vantar óvenjulegt krydd eða sósu í krukku eða gott kex þá er allt í lagi að fara þangað svona spari. (Mig vantaði reyndar bara klósettpappír í dag og notaði það sem afsökun til að fara inn og skoða jóladótið.) Og fann þar poka af sugarsnap peas. Ekki veit ég hvað þær heita á íslensku, þetta eru bara ferskar, grænar baunir í belg. Þetta eru nú bara ofurvenjulegar baunir, sem er hægt að fá hvar og hvenær sem er. Greip með til að hafa með kvöldmatnum, grillað butternutsquash og sausage. Og ég er hæstánægð með þær sem staðgengil fyrir edamame. Gufusauð og saltaði og þær voru bara ljómandi alveg hreint. Og þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.

Í þessari sömu ferð fann ég svo líka míní makkarónur. Og ég sem hélt maður þyrfti að vera í Brussel eða New York eða París fyrir svoleiðis fínerí. Ekki aldeilis.  Bauð upp á þær sem eftirrétt í kvöld með latte. Reyndar þá voru þær ekki jafn geðveikislega góðar og þessar sem ég fékk hjá Paul´s en samt, nógu góðar. Ég held að mér finnist mest varið í hvað þær eru fallegar, það hefur meiri og betri áhrif en bragðið. Og hver þeirra er einn munnbiti og samræmast hugmyndum mínum um meðalhóf fullkomlega.

Ég er nefnilega orðin helvíti lunkin við meðalhófið. Ekki alveg fullkomin en það er sko allt í áttina. Ég er alls ekki búin að ákveða mig með hvort þetta sé málið fyrir mig, þetta frelsi, en það er að virka sem stendur. Við sjáum svo til í framtíðinni.

sunnudagur, 20. nóvember 2011

Ég þarf oft að passa í mér pirringinn. Það kemur mér nefnilega ekkert við hvað annað fólk gerir og hvað því hentar best til að ná af sér einhverjum aukakílóum. Hvað veit ég svosem? Það er hálfkjánalegt að láta hluti fara í pirrurnar á sér og samræmist engan veginn minni lífsýn og heimspeki. Engu að síður þá verð ég alltaf ægilega pirruð þegar matur og ákveðnir matarkúrar komast í tísku. Ég bara skil ekki afhverju fólk sér ekki að þetta snýst um að "borða mat. Ekki of mikið af honum. Helst grænmeti." Þetta er svo einfalt. Að eltast við eitthvað sem er "fram að jólum" eða " í nóvember" eða "engin kolvetni" eða "bara grænn matur" eða það sem ég verð allra, allra pirruðust á "sjeik í hádeginu". Mér ber engu að síður skylda til að kanna allt saman. Ég get náttúrulega ekki verið með sleggjudóma byggða á mínum fordómum ef ég hef ekki rannsakað málið og það nýjasta sem ég hef verið að skoða er frummannamataræði, eða Paleo diet.

Hér er kenningin sú að forfeður okkar og mæður hafi borðað þann mat sem best hentar mannslíkamanum. Það er að segja kjöt, fisk og egg ásamt hnetum, grænmeti og ávöxtum. Ekkert kornmeti og enga mjólkurvöru. Nú hef ég ekki rannsakað þetta nóg til að geta sagt af eða á, ég veit bara út frá eigin reynslu að mataræði sem bannar mér að borða ákeðna fæðutegund er algert nó nó fyrir mig. Ég er ekki tilbúin til að gefa upp á bátinn haframjöl og gríska jógúrt. No way, no how.

Það forðar því ekki að þegar ég horfi á daglegan matardiskinn minn þá á ég alltaf í mesta basli við að fá rétt hlutföll á prótein og kolvetni. Ég er kolvetnakelling mikil. Eins og algengt er með fitubollur. Mér þótti þessvegna ekkert að þvi að skoða Paleo með það í huga að fá hugmyndir að kolvetnaminni uppskriftum.

Granola er í algeru uppáhaldi hjá mér. En ég hafði um daginn séð hugmynd (ég finn ekki greinina þar sem ég sá þetta og gerði uppskriftina bara eftir besta minni) að granola sem notaði bara hnetur og fræ, sleppti alveg haframjölinu svona í anda frummanna og datt í hug að það gæti verið gaman að prófa. Þetta tókst alveg ljómandi vel, svo vel að ég efast um að ég borði mikið af þessu í morgunmat, hér er frekar um að ræða eftirrétt eða millimálasnarl.


1/2 bolli döðlur, gróft skornar
1/2 bolli vatn
1/2 tsk kanill
1/2 tsk vanilludropar

Allt sett í pott og mallað þar til hægt er að mauka döðlurnar með gaffli. Sett til hliðar til að kólna aðeins.

Hita ofn í 160 gráður.

2 bollar möndlur í hýði
1/2 bolli aðrar hnetur (mér finnst voðalega gott að nota heslihnetur og pistasíur, ekki jafn hrifin af valhnetum)
1 bolli fræ (ég nota blöndu af sólblóma, grasker, sesam og furuhnetum)

1/2 bolli kókós

Hneturnar gróft skornar og allt nema kókós blandað saman í skál, döðlumaukið blandað við þar til allt er þakið í því. Sett á bökunarpappír á plötu inn í ofn í hálftíma. Fylgjast vel með því þetta getur auðveldlega brunnið. Taka út og blanda kókós strax við. Nota svo út á jógúrt eða sem snakk til að maula á. Ég gerði þetta ægileg fínt í morgun, setti lag af granola og svo lag af jógúrti og jarðaberjum nokkrum sinnum. Jógúrtið lak svo aðeins til áður en ég náði að taka fína mynd. Engu að síður, þá var þetta nú varla morgunmatur, eiginlega ætti þetta að vera eftirréttur.

Það rosalega margt gott að segja um að léttast. Heilsan og líðan líkamlega er öll önnur. Til lengri tíma litið er það afskaplega mikilvægt. En það eru líka atriði sem eru kannski ekki jafn göfug eða háleit sem engu að síður eru svakalega skemmtileg. Ég er að tala um að vera loksins orðin gella. Ég hef alltaf passað mig að vera snyrtileg. Æfði mig árum saman í að stíga létt til jarðar, bera mig teinrétt og bera af mér góðan þokka. (Kannski að ég hefði átt að eyða tímanum sem ég eyddi í að æfa göngulag í að fara út að hlaupa!) En að lokum var alltaf komið að því að það var bara svo mikið sem ég gat falið og hulið og 130 kíló sitja ekki fallega á neinum líkama alveg sama hversu fislétt göngulagið er. Þannig að núna, þó ég sé enn í stærð UK16 finnst mér ég vera eins sexý og sæt og Claudia Schiffer. Kannski að ég ætti bara að halda mér hér, ég veit um konur sem eru í stærð 8-12 og eru samt alls ekki ánægðar með sjálfar sig, Craazyy!

Ég er vön því að vera alveg takmörkuð við hvað er í boði til að fara í. En nú þegar það takmark minnkar og úrvalið magnast er ég jöfnum höndum skríkjandi af gleði og lömuð af valkvíða. Ég veit orðið nokkurn vegin hvað ég vil og hvaða stíl ég er hrifnust af og get núna loksins passað í  föt. Ég á það samt enn til að kaupa bara eitthvað rugl til að prófa hvort mér líki. Ég er voðalega mikil kjólakerling, er eiginlega alltaf í kjól og líður vel í þeim. 

Bankagrúppan mín er núna búin að bjóða í allsherjarjólapartý í desember. Matur, diskó og ókeypis vín allt kvöldið. Og mig langar til að fara í einhverju alveg spes. Mig langar ekki í LBD eins og ég veit að allar hinar corporate druslurnar sem ég er að vinna með ætla í. Nei, mig langar til að nota þetta nýfundna frelsi mitt til hins ýtrasta og fara bara í rokkgalla. Og er núna búin að vera aðleika mér við að púsla honum saman. Hvít blússa og glimmer veski úr Zara, gervileður skinny buxur úr Next, killer háir hælar og svo skreytt með risastóru gullarmbandi. 

Bara þetta að geta farið búð og búð og púslað saman svona búningi er eitthvað sem fær mig til að taka andköf af ánægju. Og það er líka eitthvað sem gerir mig þakkláta fyrir að hafa verið feit. Ef ég hefði aldrei verið feit þá myndi ég líka ekki skilja hvað þetta eru mikil forréttindi. Að hafa tækifæri til að velja að vera rokkpía á bankaballi. Ótrúlegt. 

laugardagur, 19. nóvember 2011

Ein af stelpunum á tíu kílómetra námskeiðinu var viku á eftir áætlun og átti eftir að hlaupa sitt lokahlaup. Hún fann hvergi skipulagt hlaup og var ekki jafn heppin og ég að hafa vinkonu til að hlaupa með sér og hvetja sig áfram. Ég og tvær aðrar á námskeiðinu buðumst þessvegna til að hlaupa með henni í anda. Hún býr í Ástralíu þannig að tímamismunurinn var of mikil til að gera það alveg nákvæmt en engu að síður þá vaknaði ég í morgun klukkan sex og rauk út með það í huga að bara hafa gaman að þvi að hlaupa. Ég var ekki með neina áætlun í huga, ekki með neitt tímamarkmið, ég meira að segja sá ekkert sérstaklega fyrir mér að hlaupa alla tíu kílómetrana, ég ætlaði bara að vera úti að hlaupa til að styðja vinkonu.

Ég horfði á sólina koma upp sem er alveg spes fyrir mig af því að ég er vanalega hlaupin og farin áður en hún kemur upp. Ég hlustaði á fuglana syngja og greip eina dömu sem var "doing the walk of shame", glimmerkjóll og maskari út á kinn. Ég fór örlítið nýja leið, heilmikið hæðótta en sá líka ref. Svo áður en ég vissi af pípti tækið til að láta mig vita að ég hafði hlaupið í klukkutíma. Ég leit á það og sá að ég hafði farið 8.6 km og því engin ástæða til að hætta. Ég ákvað meira að segja að haska mér aðeins til að athuga hvort ég gæti ekki náð þessu á undir 70 mínútum. Og jú, það tókst; 69:28. Frábært! Núna ætla ég að láta þessi lengri hlaup í friði fram að kapphlaupinu og einbeita mér bara að valhoppinu og þeim æfingum.

Ég er smávegis þreytt í hnjánum. Ég finn að ég er að leggja dálítið á þau núna. Er þessvegna líka voða fegin að ég er (hægt og rólega) að skafa af mér spik aftur núna.

Þegar ég fór í sokkubuxurnar eftir sturtu í morgun fann ég ægilega til í einni tánöglinni. Ægileg eymsli og þrýstingur. Getur verið að ég sé að fá svona hlauparaneglur sem verða svartar og detta svo af? Það væri nú aldeilis spennandi! Ég myndi rífa mig úr og sýna við hvaða tækifæri og ótækifæri sem er.

Þetta er samt allt að verða eðlilegra. Ég þarf ekki jafn svakalega mikið á viðurkenningunni og aðdáuninni að halda núna og fyrst þegar ég byrjaði. Það er eiginlega það skrýtnasta við þetta. Tilfinningin um að þetta var mér svo framandi og svo ótrúlegt að ég þurfti að fá klapp og hrós við hvert skref er farin. Núna nýt ég þess bara að hreyfa mig og þó ég sé stolt af vegalengdunum þá er það líka að verða eðlilegt. Hver hefði trúað því að það að setja einn fót fram fyrir hinn og endurtaka það svo færði manni svona mikið?

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Ég er afskaplega stolt af hlaupinu mínu á sunnudaginn. Og það skrýtna er að ég er stoltust af því hvað það var ófullkomið. Það er nefnilega heilmikill munur á því hvernig maður sér fyrir sér og ímyndar sér velgengi og hvernig velgengi lítur út í alvörunni. Velgengi þýðir að maður skoðar mismunandi möguleika og prófar sig áfram, rekur sig á þegar maður gerir mistök og maður lærir af mistökunum. Og fyrir mér hefur það allra mikilvægasta verið að ég hef alltaf fléttað markmiðin mín við lífið eins og það er. Markmiðið var að hlaupa 10 kílómetra, en það markmið er líka bara eitt lítið skref í allsherjar prógramminu; hreysti fyrir lífstíð. Eitt 10 kílómetra hlaup er bara einn þáttur í stóru myndinni. Og stóra myndin inniheldur nefnilega líka vináttu og salsadans og romm og rölt og pizzu og lyftingar og allt hitt sem gerir lífið þess virði að taka þátt í því. Ég veit ekki hvað ég á að segja það oft en þetta er ekki tímatakmarkað verkefni. Þetta er lífið.

Og eins stolt og ég var af hlaupinu mínu á sunnudaginn var ég ennþá stoltari af því að á þriðjudagsmorgun, nákvæmlega eins og ég hef gert í marga mánuði núna, vaknaði ég klukkan fimm, reimdi á mig hlaupaskóna og fór úr að hlaupa eins og ekkert hefði í skorist. Og það er það sem þetta snýst um.

mánudagur, 14. nóvember 2011

Ferðin til London var epísk eins og ég hafði spáð fyrir. Ég lagði af stað beint úr vinnu á föstudag og fór beint frá Chester í gegnum Crewe og Milton Keynes til Euston. Þar tókst mér þrátt fyrir að vera sveitalubbi að þræða mig í gegnum tvær Underground stöðvar þar sem ég svo hitti Ástu í Kensington og hún byrjaði á að fara með mig í Whole Foods. Orgasmískur áfangastaður fyrir matarperra eins og mig, ég rölti um rekkana með skoltana gapandi. Ég gat ekki staðist freistinguna og keypti Lúcuma duft og hrátt kakósmjör sem ég ætla að gera smá tilraunir með. 

Þaðan var svo farið með mig á Wagamama. Þar lærði ég að borða núðlur með prjónum eins og sést á einbeitningunni og  fékk að smakka saltaðar edamame baunir. Ég hugsa að líf mitt verði aldrei samt aftur. Ég á núna eftir að eyða öllum mínum  frítíma í að finna ferskar edamame hérna í ómenningunni. Og ekki voru núðlurnar af verri endanum. 

London sést best úr strætó. Og við Ásta vorum svo lukkulegar að fá alltaf sæti fremst uppi, þannig að öll helstu kennileyti blöstu við á ferðum okkar um hin ýmsu hverfi borgarinnar. Það er náttúrulega svo ofboðslega gaman að heimsækja borg með "innfæddan" leiðsögumann, maður sér svo miklu, miklu meira en það sem túristastaðirnir bjóða upp á. 

Á laugardagsmorgun var túban nýtt til að komast í Queens Park þar sem Soca tíminn fór fram. Ég var ægilega hress í joggaranum á meðan Lundúnarbúarnir grúfðu sig afundnir í morgunblöðin. 

Soca er erfiðasta líkamsrækt sem ég hef nokkurn tíman farið í. Nútíma kalypsó tónlist á fullum styrk og svo hoppandi stuð á meðan maður sveiflaði járnum, hoppaði upp og niður, sveiflaði mjöðmum, gerði magaæfingar frá djöflinum sjálfum og æpti og gólaði með hinum í tímanum. Þetta var geðveikt. Stemningin ótrúleg og allir með. Upp úr miðjum tíma var ég farin að skjálfa á beinum og ég rann orðið til í svitanum sem draup á gólfið. Þetta var svakalegt og ég er núna harðákveðin í að vera duglegri að gera líkamsþyngdaræfingarnar mínar; ég get greinilega bætt þolið heilmikið. Við héldum svo á kaffihús og fengum okkur verðksuldaðan kaffibolla og samloku. 

Á rölti um London fann ég svo asics hlaupabúðina og skoðaði allt fína dótið sem maður gerur fengið til að hjálpa manni  til að hlaupa betur. Eða þá að maður getur bara keypt sér dótið frá í fyrra á hálfvirði og lagt meira í að fara bara út og gera sitt besta. 

Soho að degi til er áhugaverð en verður áhugaverðari eftir því sem  líður á nóttina. 

Laugardagskvöld er svo tilvalið til að fara til Camden og fá sér  karibískan mat. Ásta og kærastinn hennar fóru með  mig á Cotton sem er svakalega skemmtilegur veitingastaður sem sérhæfir sig í karabískum mat og rommi. Rommpúns, rommskot, saltfiskbollur, rommskot, lamb og sæt kartöflumús og plantain, rauðvín og romm. Plantain er svipað banana útlits en er steikt og borið fram sem meðlæti með mat. Alveg hrikalega gott og ég á eftir að gera tilraunir með það hér heima. Þaðan héldum við svo í miðbæinn og á Bar Salsa þar sem tequilað var tekið til smökkunar og salsinn dunaði. Ég hafði ekki undan að dansa við hvern herramanninn á fætur öðrum, mér var boðið upp aftur og aftur og ég skal viðurkenna fúslega að fitubollan inni í mér sem aldrei var boðið upp var ægilega glöð. Það er ekki leiðinlegt að vera talin álitlegt fljóð. 

Það var svo nauðsynlegt að taka einn hring um dónahverfið og skoða það sem í boði var.  

Sunnudagsmorgun rann svo upp aðeins fyrr en ég vildi. Hálfþunn og með svakalegar harðsperrur eftir Soca tímann og hnéð hálf laskað eftir salsa var lagt af stað í Brockwell Park í Brixton til að hlaupa mitt fyrsta 10 kílómetra hlaup. Ég var ekki eins vel stemmd og best var á kosið en ég var komin til að hlaupa og ætlaði ekki að gefast upp. Sólin skein í heiði og andavarinn var hressandi. Fullkomið til hlaupa. Eftir aðeins 600 metra var ég við að gefast upp. Ég fann ekki taktinn og kom engri stjórn á andardráttinn. Ég reyndi að hægja á mér en allt fyrir ekki. Við annan kílómetra var ég farin að segja við Ástu að ég gæti þetta ekki. Hún sagðist ekki hlusta á svona vitleysu og áfram héldum við. Við fjórða kílómetra var ég farin að fá angistarkast, ég gat enn ekki stjórnað andardrættinum og þetta var svo erfitt. Eftir fimm km vorum við búnar að fara einn hring um garðinn og vorum byrjaðar á seinni hringnum. Þegar aftur kom að brekku varð ég að hægja alveg á mér og að lokum þurfti ég að labba aðeins. Ásta hvatti  mig stanslaust áfram, minnti mig á hvað ég hafði gert til að komast hingað, hvað ég hef náð langt og hvað ég ætti eftir að gera meira. Á tímabili þurfti hún beinlínis að toga mig áfram. Þegar við svo fórum út úr garðinum var bara einn og hálfur kílómetri eftir og ég sá að ég myndi geta þetta. Ég hljóp ofurhægt og þetta var ennþá hræðilega erfitt en ég var farin að finna taktinn og ég var farin að finna gleðina. Á níunda kilómetra tókst mér svo meira að segja að hraða aðeins á mér þó það hafi verið of seint, ég var búin að sóa of miklum tíma í labb til að ná tímanum sem ég hafði sett mér. Við kláruðum svo 10 km á 75 mínútum. Og ég grenjaði eins og smábarn. Þetta var svona eins og myndlíking fyrir allt sem ég hef verið að gera. Ég hef ekki farið auðveldustu leiðina, ég hef ekki alltaf farið beinustu leiðina, ég geri stanslaust mistök en ég kemst að lokum á leiðarenda. Og ég hefði að sjálfsögðu ekki getað þetta  án Ástu, hún minnti mig á hvað þetta snýst allt saman um og hún hvatti mig áfram allan tíman. Er eitthvað dýrmætara en góður vinur?

Gleðin og léttirinn nánast áþreifanlegur. 

Þrekrauninni lokið og ég er búin að gera mér grein fyrir því að þetta er líka bara byrjunin. 

Eftir sturtu og smá teygjur var svo haldið á Ritzy, sögufrægt kaffihús í Brixton. Ég gæti sjálfsagt lifað lífinu bara farandi á milli kaffihúsa, ég held ég viti fátt skemmtilegra. 

Sveitadurgurinn svo búin að ná tökum á túbunni að ég  fékk módelmynd með hana í bakgrunni. Ekkert mál!

Við fórum svo á Paul´s sem er franskt bakarí sem hefur verið í London síðan 1889. Þar fékk ég loksins að prófa macaroon,  eitthvað sem ég er búin að bíða eftir að smakka síðan ég fór að lesa matarblogg af áfergju. Og ekki var ég svikin, þær voru æðislegar. 

Þeir eru við að setja upp jólin í Covent Garden, og ég ekki frá því að ég hafi komist í smá jólaskap.

Legs of London. 

Við enduðum svo sunnudagskvöldið á ekta ítalskri pizzu, post-hlaup kolvetnin  alveg að gera sig. Nett rauðvínsglas með til að skála fyrir afrekum helgarinnar. 

Svo var ekkert að gera en að halda heim á leið eftir skemmtilegustu og eftirminnilegustu helgi  sem ég hef upplifað. Það var margt skrafað og ráðgert og ég upplifði einn af merkilegri atburðum lífs míns. Þetta var awesome! London baby indeed. 

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum í vinnunni í gær. Öll vinnan sem ég hef lagt á mig svona aukreitis er til einskis og ég hef ekki uppskorið eins og ég hef sáð. En það er ekki þar með sagt að maður leggist þá bara í snickers og snakk, því við vitum öll að það hjálpar ekki neitt. Þess í stað tók ég vonbrigðin og særindin og reiðina og bætti metrametið mitt á 40 mínútum í morgun. Það er ekki eins og að maður leggist bara niður og drepist, það verður bara að halda áfram. Svona er lífið bara. Skítsamloka.

En ekki er öll nótt úti enn, og gvuði sé lof og dýrð; húsmæðraorlof í höfuðborg Englendinga framundan með ljúfustu ljúfunni henni Ástu. Gæti ekki hafa komið á betri tíma. Ég geri ráð fyrir miklu stuði og stáelsi með hápunktinum 10 kílómetra löngu hlaupi á sunnudaginn. Ég er eins vel undirbúin og hægt er og hlakka orðið til að sjá "baseline" tímann minn. Þetta á eftir að vera episkt.

sunnudagur, 6. nóvember 2011

Og þar með er ég búin með námskeiðið; ekkert stendur eftir nema að hlaupa í alvöru hlaupi 10 kílómetra. Ég er á leiðinni til London um næstu helgi til að gera fyrstu tilraun en svo er alvöru hlaupið 4. desember. Ég fór 9 kílómetra á klukkutíma í morgun. Og það var geðveikt. Ég tók því rólega til að byrja með og smá jók hraðann þegar á leið. Og átti meira að segja smávegis púður eftir til að spretta síðustu 500 metrana. Sólin skein á mig allan tímann og ég var sársaukalaus alveg til endaloka. Mér leið eins og ég væri svo hraust og í svo góðu formi. Það er ómetanleg tilfinning, að finnast líkaminn vera til gagns. Ég er þessvegna að gæla við að geta klárað 10 kílómetra á undir 70 mínútum. Það væri geggjað.

Svo er ég líka svo mikil gella núna. Labba bara inn í búðir og kaupi mér gellujakka og gellast bara hægri vinstri. Það er nú ekki leiðinlegt að vera gella. Sei, sei nei. Maður verður náttúrulega að vera fín gella í London sko. Ég get ekki mætt þangað eins og óuppdreginn sveitadurgur!

Ég bakaði svo voðalega fínt brauð í dag. Notaði í grunninn uppskrift að írsku sódabrauði, það er að segja gerlaust brauð þar sem lyftiduft er notað í stað gersins. Þetta er algild, gömul uppskrift hérna. Ég hef ekkert á móti því að nota ger en var að flýta mér og þá er náttúrulega ljómandi að nota bara lyftiduftið, þá þarf ekkert að bíða eftir að degið hefi sig. Það er voða gaman að baka sódabrauð, svona eins og maður sé að gera efnafræðitlraun, sódinn og lyftiduftið freyða þegar þau hittast. Ég bragðbætti svo með smá pestó, grænum ólívum, skreytti svo með graskers-og sólblómafræjum og svo í listamannskasti ákvað ég að búa til holu þvert eftir brauðinu og fyllti hana með parmesan osti. Voðalega smart og gott á bragðið. Nom nom!

3 bollar heilhveiti
1 tsk hunang
1 tsk lyftiduft
klípa af góðu salti
2 msk graskersfræ
2 msk sólblómafræ
2 bollar sódavatn
1 msk pestó
nokkrar ólívur í litlum bitum
70 g rifinn ferskur parmesan

Setja fyrstu 6 efnin í skál og blanda vel saman og hella svo sódavatninu út í. Hræra svo pestó og ólívum og hella svo í brauð form. Búa svo til holu þvert eftir deginu og strá ostinum þar í og loka svo fyrir með degi. Setja svo meiri fræ ofan á brauðið og svo inn í 180 gráðu ofn í 35 mínútur eða svo eða þar til brauðið er gullið og fallegt. Brauðið er þétt og þungt og fellur sérlega vel til að bjóða með sem meðlæti með súpu eða salati.

laugardagur, 5. nóvember 2011

Það er bara ein æfing eftir af þessu átta vikna 10 kílómetra hlaupanámskeiði sem ég hef verið á. Ég tók það saman og síðan í byrjun júní þegar ég byrjaði að hlaupa af alvöru hef ég hlaupið allavega þrisvar sinnum í viku án undantekninga. Ég hljóp þegar ég var í fríi, þegar ég var slösuð, þegar það var rigning og þegar ég þurfti að vakna klukkan tíu mínútur í fimm. Ég er afskaplega stolt af þessu. Mér finnst smávegis eins og þessi staðfesta sé það sem best lýsir því sem ég hef verið að gera hérna. Og er eiginlega heimspekin mín í verki gerð.

Hitt er svo setningin sem ég sá einhverstaðar fyrir nokkru. "Borðaðu mat. Ekki of mikið. Mestmegnis grænmeti."  Allt þetta sem fólk er að velta sér upp úr nútitldags, þessar pælingar allar um spelt og agave, um B-vítamín og kolvetni, um sjeika og frummannamataræði, um hráfæði og lífrænt ræktað. Það eina sem gerist er að venjulegt fólk ruglast bara í ríminu, veit ekki hvað er í tísku og hvað er sannleikur og hvað er rugl. Í alvörunni, það eina sem maður þarf að vita er að það á að borða mat, ekki of mikið af honum og að maður á að reyna að borða sem mest grænmeti. Allt hitt er bara hjal sölumanna. Það eru alltaf allir að reyna að selja eitthvað.

Ég er semsagt að leggja lokahönd á undirbúning fyrir 10 kílómetra kapphlaup. Ég hleyp orðið átta kílómetra svona nokkuð þægilega en það hefur reynst erfiðara að bæta við þessum síðust tveimur. Ég ætla að gera það um næstu helgi í London með Ástu. Meira um það síðar.

Mamma hjálpaði heilmikið til við þjálfunina þegar hún sendi mér hausljós svo ég sjái betur til við hlaupin. Það er kolniðamyrkur á nokkrum köflum og það er miklu betra ekki bara að ég sjái hvað ég er að gera heldur líka að þessir örfáu bilar sem eru á ferli á þessum tíma sjái mig. Ég er nefnilega eins og ninja - í svörtum galla og ekki nokkur leið að sjá mig. Dave var ægilega glaður þegar ég setti á mig ljósið, ekki bara af öryggisástæðum heldur aðallega vegna þess að ég er eins og velskur námamaður þegar ég set það upp. "Down the pits!" æpir hann þegar hann sér mig og fyllist þjóðernisstolti.

Ég tók mér frí í dag. Lúkas á átta ára afmæli á morgun og við buðum hingað heim örfáum vinum hans í snakk og köku. Ég vakti til þrjú í gærnótt við að baka handa honum kökuna sem hann bað um. Hún átti að vera Dalek, sem er karakter úr Dr Who. Ég byrjaði með þvílíkar tilætlanir um að gera hana í þrívídd en eftir mikinn grát og gnístran tanna og tvær kökur í ruslinu gafst ég upp og gerði hana flata. Lúkas var himinlifandi og heiður minn sem móðir og húsmóðir beið enga hnekki.

Partýið var frábært og Lúkas svo ánægður með daginn. Og bíður núna spenntur eftir alvöru afmælisdeginum og pakkanum frá mömmu og pabba. (Lego StarWars Ewok battle -proper geek!) Við Dave erum furðu lostin yfir því hversu vel úr garði hann er gerður. Við erum afskaplega lélegir foreldrar, löt og hugsunarlaus og fylgjum lítið reglum. En hann er þrátt fyrir það kurteis og skemmtilegur, ástríkur og hugulsamur. Við skiljum ekkert í þessu. En erum ægilega þakklát.

fimmtudagur, 3. nóvember 2011

Ég rétt missti af strætó í gærmorgun. Ég og samferðalangur minn hlupum eins og fætur toguðu á eftir helvítinu en allt kom fyrir ekki og að lokum urðum við að gefast upp. "Ah, well," segir hún og snýr sér að mér. "At least we´ve had our excersise today!" Og ég þurfti að taka á öllu mínu til að svara ekki "No, no, I´ve already put in 6K this morning." Það er nefnilega ekki nokkur leið að segja það án þess að hljóma eins og yfirlætisfull tík. En það var samt sannleikurinn.