sunnudagur, 6. nóvember 2011

Og þar með er ég búin með námskeiðið; ekkert stendur eftir nema að hlaupa í alvöru hlaupi 10 kílómetra. Ég er á leiðinni til London um næstu helgi til að gera fyrstu tilraun en svo er alvöru hlaupið 4. desember. Ég fór 9 kílómetra á klukkutíma í morgun. Og það var geðveikt. Ég tók því rólega til að byrja með og smá jók hraðann þegar á leið. Og átti meira að segja smávegis púður eftir til að spretta síðustu 500 metrana. Sólin skein á mig allan tímann og ég var sársaukalaus alveg til endaloka. Mér leið eins og ég væri svo hraust og í svo góðu formi. Það er ómetanleg tilfinning, að finnast líkaminn vera til gagns. Ég er þessvegna að gæla við að geta klárað 10 kílómetra á undir 70 mínútum. Það væri geggjað.

Svo er ég líka svo mikil gella núna. Labba bara inn í búðir og kaupi mér gellujakka og gellast bara hægri vinstri. Það er nú ekki leiðinlegt að vera gella. Sei, sei nei. Maður verður náttúrulega að vera fín gella í London sko. Ég get ekki mætt þangað eins og óuppdreginn sveitadurgur!

Ég bakaði svo voðalega fínt brauð í dag. Notaði í grunninn uppskrift að írsku sódabrauði, það er að segja gerlaust brauð þar sem lyftiduft er notað í stað gersins. Þetta er algild, gömul uppskrift hérna. Ég hef ekkert á móti því að nota ger en var að flýta mér og þá er náttúrulega ljómandi að nota bara lyftiduftið, þá þarf ekkert að bíða eftir að degið hefi sig. Það er voða gaman að baka sódabrauð, svona eins og maður sé að gera efnafræðitlraun, sódinn og lyftiduftið freyða þegar þau hittast. Ég bragðbætti svo með smá pestó, grænum ólívum, skreytti svo með graskers-og sólblómafræjum og svo í listamannskasti ákvað ég að búa til holu þvert eftir brauðinu og fyllti hana með parmesan osti. Voðalega smart og gott á bragðið. Nom nom!

3 bollar heilhveiti
1 tsk hunang
1 tsk lyftiduft
klípa af góðu salti
2 msk graskersfræ
2 msk sólblómafræ
2 bollar sódavatn
1 msk pestó
nokkrar ólívur í litlum bitum
70 g rifinn ferskur parmesan

Setja fyrstu 6 efnin í skál og blanda vel saman og hella svo sódavatninu út í. Hræra svo pestó og ólívum og hella svo í brauð form. Búa svo til holu þvert eftir deginu og strá ostinum þar í og loka svo fyrir með degi. Setja svo meiri fræ ofan á brauðið og svo inn í 180 gráðu ofn í 35 mínútur eða svo eða þar til brauðið er gullið og fallegt. Brauðið er þétt og þungt og fellur sérlega vel til að bjóða með sem meðlæti með súpu eða salati.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mættu bara ekki í gúmmístígvélum í höfuðborgina (nema auðvitað við séum að tala um Ilse Jacobsen eða slíkt, ekki borða á Wendy's og ekki kaupa Geirmundarplötu - það þykir víst ekki töff ;-)
Knús
H & Á

murta sagði...

Nú! Er ekki tekin sveifla í höfuðborginni? Ég er svo hissa!