laugardagur, 31. maí 2003

Við fórum út að borða á Hafið Bláa í gærkveldi, ég, Harpa, Rannveig og Helga. Ólína var því miður fjarri góður gamni en við skemmtum okkur nú engu að síður afskaplega vel, maturinn góður og lukkan yfir manni að drekka ekki: reikningurinn var helmingi lægri en ella. Útsýnið á staðnum er frábært og maturinn mjög góður. Mig langaði nú mest í saltfisk en þær sem eru mér eldri og vitrari bönnuðu neyslu salts vegna hækkaðs blóðþrýstings. Kjúklingurinn sem ég fékk var reyndar voða góður. Mikið er alltaf hægt að skeggræða og kannski hefur breyst aðeins umræðuefnið þar sem að þær sem fengið hafa "Móðir" barmmerkið geta nú orðið spjallað óhikað við mig enda vil ég fá að vita allt sem þær vita. Ólína sagði einmitt þegar ég heimsótti hana og hún tók fram albúm Dagrúnar Ingu: "Nú er hægt að tala við þig um þetta." Og það er mikið rétt. Við ákváðum svo að kíkja aðeins á Selfoss, í veikri von um að fá litið gamla blossa, en sáum engan nema Eirík á Pakkhúsinu. Þar vorum við vinsælar sem aldrei fyrr, hinir ýmsustu menn sem stigu í vænginn við okkur en allir þurftu þeir frá að hverfa. Umræðurnar á Pakkhúsinu voru með þeim skemmmtilegri í langan tíma; Karlmenn og Konur, Klám, kynlíf, feministar og fegurð. Og margt gáfulegt sagt. (Og mis gáfulegt reyndar líka!)

Ég öfundaði Helgu og Hörpu voðalega af því að geta farið heim til mannanna sinna, ég er orðin heldur óþreyjufull að fá að knúsa minn mann, enda er hann bestur og sætastur, þrátt fyrir fótboltaáhugann. Laugardagur í dag, og þess vegna bara sex dagar eftir.

Við pabbi fórum í Krónikuna í morgun, mér fannst ekki við hæfi að senda hann einan fyrst ég var vöknuð og ég hald að hann hafi verið feginn að losna við uppvaskið. Hann þurfti líka að lána mér fyrir matnum í gær, ég var ekki búin að fá útborgað og ekki loku fyrir það skotið að ég hefði fengið synjað. Reyndar bregður mér orðið ekkert í synjað málunum, ég fæ orðið synjað þegar ég legg inn í bankann og þá er nú mikið sagt.

föstudagur, 30. maí 2003

Og þá er maður aftur komin heim í föðurhús og mikið er það gott. ég var búin að segja við pabba að ég myndi hjálpa honum í Króniku en hingað til hefur hann afþakkað aðstoð mína. Það er ágætt núna, ég er hæstánægð með að fá að slappa aðeins af og reyna að ná áttum. Annars þá fann ég útskýringar á grindargliðnun á netinu og þetta sem ég finn fyrir er tvímælalaust sá kvilli. Verra er að á netinu stóð að þetta hefst á 17-18 viku og smá versnar svo að þeirri 30 þegar sársaukinn helst nokkuð stöðugur fram yfir burð! Mikið tilhlökkunarefni það. Það eina sem hjálpar mér er að fara í sund enda er ég búin að vera í bleyti í viku núna.

Núna er ég að bíða eftir að fara í sónar. Þetta er skrýtið ástand að vera óléttur. Fyrstu 12-13 vikurnar er maður ofsahrædur um að missa barnið, núna er ég sannfærð um að eitthvað sé að og að ég fái að vita það þegar ég fer í sónarinn. Merkilegt að vera ofsaglaður og ofsahræddur á sama tíma og dálítið slítandi. Vona bara af öllu hjarta að þetta sé allt í lagi.

þriðjudagur, 27. maí 2003

Mikið óskapa er nú veðrið gott. Ég gat bara ekki beðið með að sleikja sólina og var mætt í sundlaugina með gamlingjunum fyrir 7 í morgun. Jah, ég var vöknuð vegna óþæginda eftir heldur betur metnaðarfullan göngutúr í gær. Ég fór með Öddu um Óslandið sem þeir kalla og plampaði um í klukkutíma. Þegar heim var komið var mér orðið dálítið mikið illt, um mig miðja, og hríðversnaði svo þegar leið á kvöldið, þangað til að ég gat hvorki staðið né setið né legið né gengið. En sundið gerði kraftaverk og ég er a.m.k. rólfær núna. En ég hef nú samt dálitlar áhyggjur af þessu. Ég er rétt að komast á fimmta mánuð og ég er eiginlega orðin viss um að þetta sé grindargliðnun. Hvernig verð ég þá eiginlega á 7. og 8. mánuði? Mér líst alls ekki á þetta, ég sá fram á svo skemmtilega og heilbrigða meðgöngu sér í lagi af því að ég fann ekki fyrir neinni ógleði og var svo kát með þetta allt saman. Ég verð alla vega voðalega sár út í alheiminn ef staðreyndin er sú að ég sé of feit til að ganga með barn. Að ég þoli ekki aukaálagið. Pabbi virðist alla vega halda það. Vitiði, mér þætti það eiginlega bara vera óréttlátt. Að við bætist enn einn þáttur lífsins sem er erfiður einfaldlega vegna þess að maður er of feitur. Á ég í alvörunni einungis að hafa flothæfileikana sem það jákvæða við spikið? Mér er eiginlega nóg boðið. Ég veit það samt ekki. Ef ég er bara of þung ætti ég þá ekki að vera móð og þreytt og illt í hnjám og fótum? Ekki með, jah ég verð nú bara að lýsa þessu sem harðsperrum í klobbanum sem leiða út í mjaðmir. Já og svo sagði ljósmóðirin mér að ég væri komin með of háan blóðþrýsting. Ekkert hættulegt, en ég ætti að slaka aðeins á. Ég sem er svo slök! Það er hálfgerður uggur í mér.

Ég ætla að atuhuga hvort ég fái ekki launahækkun í samræmi við prófskírteini núna. Ég veit að ég á rétt á því frá og með 1. júlí en var að vona að ég gæti fengið þetta bara núna. Það hlýtur að vera hægt að fiffa það eitthvað til. Mig munar um það.

mánudagur, 26. maí 2003

Og enn er ég komin á Hornafjörð. Ég hélt að ég þyrfti að vera hér fram á föstudag en hann sá ljósið skólameistari og flutti fundinn fram á miðvikudag eins og allir voru búinir að sjá að var eina vitið. Ég get því glöð kvatt Hornafjörð. Ég var nefnilega að hugsa svona eftir á að það er hálf kjánalegt að vera fúl út í Hornafjörð þó ég sé ekki alveg sátt við vinnuna. Ég er búin svosem að ljúka öllu mínu af, láta lesa af rafmagninu, skila öllu af mér í vinnunni og á að fara að hitta ljósu núna á eftir til að spjalla í síðasta sinn. Og nú þarf ég bara að halla mér aftur og hugsa um allt sem gerst hefur í vetur. Þetta er nefnilega búið að vera dálítið merkilegt þetta árið. Eins lítið og hefur gerst þá hefur líka allt gerst. Ég lét veturinn líða í einshverskonar sjálfskipaðri einsemdar útlegð, en eignaðist engu að síður mann, varð ólétt og kláraði Háskólann. Þetta kemur einhvernveginn ekki alveg heim og saman. Hér hef ég sem sagt komið af stað öllu því sem merkilegast má telja í lífinu.

Dave bíður núna eftir dótinu okkar. Það lenti í Immingham í gær og svo er bara að sjá hvað þeir eru lengi að koma þessu áfram til Wales. Hann eyddi allri helginni í að mála þannig að það er allt nýmálað og fínt og hann orðinn spenntur að fá dótið svo hann geti flutt inn. Og byrjað svo að bíða eftir mér. Ég get varla beðið eftir að komast þangað til að byrja að koma okkur fyrir. Sumarið verður gott. Svo er það bar að fara á fullt að skoða hvað er best fyrir mig að gera í haust, hvaða nám er hentugast og skilar sem mestu kaupi sem fyrst?

Ég var að hugsa um að ég þyrfti að halda eitthvað útskriftar/kveðjupartý. En mér finnst ómögulegt að halda kveðjupartý, ég kem aftur í heimsókn í ágúst og vona að fólk komi sem mest í heimsókn til mín og að kveðja gerir þetta eitthvað svo sorglegt, sem þetta er ekki. Þetta er gaman og spennandi. Útskriftarpartý er kannski sniðugra, ég sé ekkert að því að gera mér glaðan dag í tilefni þess en finn bara hvorki dag né húsnæði í það. Ég vona bara að ég hafi tilkynnt fólki þetta nógu skilmerkilega til að það fari ekki framhjá neinum að ég sé búin með þennan áfanga. Besides, það er ekkert gaman ef ég get ekki drukkið kampavín að vild!

Svo verð ég að muna að taka mömmu og pabba til fyrirmyndar sem foreldri. Ef ég geri hálft eins vel og þau þá á mitt afkvæmi eftir að hafa það meira en gott. Og nú ætla ég til ljósu og skella mér í sund, hér skín sól í heiði og gott er að hafa brúna kroppinn.

föstudagur, 16. maí 2003

Í þónokkurn tíma núna, hef ég vaknað stundvíslega klukkan sex og ekki getað sofnað aftur. Er daman að venja mann eitthvað við?

fimmtudagur, 15. maí 2003

Mikið er nú gaman þegar að maður hættir að væla og fyllist af bjartsýni og jákvæðni. Það þýðir ekkert að vera að grenja yfir peningum og svoleiðis smáatriðum, við eigum eftir að hafa það fínt, við verðurm saman og það er allt og sumt sem skiptir máli. Ást og súrmjólk og allt það. Hmm..ætli að ég fái súrmjólk í Wales?

Mamma og pabbi koma á morgun og hjálpa mér að setja dótið mitt í gám. Þannig getur Dave tekið á móti því áður en ég kem þannig að ég fer bara beint í það að koma mér fyrir þegar ég kem út. Hvílíkt dýrðarsumar sem þetta verður, bjórlaust reyndar en það er nú bara eins og það er.

Ég er núna komin einar 17 vikur á leið. Þetta er allt að koma. Ég finn enn ekkert fyrir því að vera ólétt en vonandi fer hún að hreyfa sig eftir nokkrar vikur. Eina er að ég er dálítið að gráta, ekki sorgmædd eða döpur, ég virðist bara ekki ráða við tilfinningarnar. Ég græt yfir fréttum og auglýsingum, og grét óstöðvandi yfir heimildamynd um Elton John. Alveg svakalegt. Kristín hélt því fram að þetta væri eðlilegt þannig að ég hef engar áhyggjur, ég er nefnilega ekki döpur, ég bara græt.

miðvikudagur, 14. maí 2003

Ég var búin að koma öllum mínum fjármálum á hreint fyrir nokkru síðan, en nú virðist sem svo að ég sé að stefna því í hættu aftur. Það kostar hellingspening að flytja til Wales og þegar peningmálin eru þannig að ekkert má út af bera til að báturinn sökkvi þá er 100.000 kall hellings ágjöf. Gunna Magga reddar þessu nú fyrir mig og allt það en einhvernvegin þannig að það er óhentugt fyrir mig. Ég hef örlitlar áhyggjur af framtíðinni, minn elskulegur á þetta nú vart skilið að eignast konu sem skuldar svona ægilega þegar hann hefur komist í gegnum lífið án þess að taka eitt einasta lán. Samt, það er náttúrulega betra fyrir mig að fá hann fremur en Íslending sem væri í sömu stöðu og ég. Með þessu móti þarf ég að borga helmingi minna. Ég verð nú samt alveg fjúkandi reið þegar ég hugsa til baráttu minnar við Tryggingarstofnun til að fá mín lágmarksréttindi í gegn, og sé svo í fréttum að þessi drulluhalar sem kosnir eru á þing aftur og aftur og aftur fá launahækkun sem sést og finnst fyrir án þess að biðja sérstaklega um það. Á meðan er mér látið líða eins og þjófi og aumingja fyrir það eitt að vilja fá eðlilegt fæðingarorlof.

þriðjudagur, 13. maí 2003

Ég fann voða mikið fyrir henni í gærkveldi, ég veit ekki hvort að það var vegna þess að ég var búin að vera að setja í og draga til kassa, eða bara vegna þess að hún var að stússast eitthvað sjálf, en ég var allavega með stingi í gærkveldi. Fór reyndar dálitið óvænt á tojarann í morgun, ætli að það hafi fremur verið það? Hvur veit í þessum heimi hér? Hvað sem því líður þá virðist sem svo að þetta barn komi til með að eiga hálskólamenntaða móður. Ég fékk póst frá Guðna um að ritgerðin væri fullboðleg sem 10eininga ritgerð, ég þyrfti einungis að lagfæra uppsetningu. Ég útskrifast sumsé. Það barn hefur óneitanlega verið lengur í maganum á mér en það sem er þar núna. Ég var síðast í enskudeildinni veturinn 97-98 og hefði átt að útskrifast þá. Svo leið bara tíminn og ég kom mér aldrei að þessu þó svo að með þeim vetri meðtöldum þá hafi ég verið skráð 4 eða 5 sinnum í að gera þetta. Þannig að það er óneitanlega mikill léttir að hafa lokið þessu af. BA er náttúrulega bara orðið lágmark í dag. Og ekki spillir fyrir að þetta hjálpar í þeim starfvettvangi sem ég hef fengið svona mikinn áhuga á að undanförnu. Og ég er eiginlega líka dálítið ánægð með að hafa skrifað 10 eininga ritgerð, hún er bara nokkuð vegleg svona þegar á allt er litið. Og skrifuð á fáránlega stuttum tíma, ég eyddi örfáum dögum í að skrifa hana, heilu mánuðurnir fóru hinsvegar í að hugsa um hana.

mánudagur, 12. maí 2003

Já, og þorpið þar sem ég og Dave ætlum að búa heitir Rhosllanerchrugog og er einkonar úthverfi af Wrexham. Mjög gott nafn það en ekki jafn fínt og lengsta þorpsnafn í heimi sem er einmitt líka í Wales:"Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwll Llantysiliogogogoch" Hí hí, ekkert smáræði það.
Úpsadeisí! Leiðinlegt!
Ný kynslóð slepjulegra stuttbuxnadrengja á þingi, frjálshyggjan sem Geir H. og Friðrik Sóf. hófu og er nú búin að ná hámarki sínu með drullupésum eins og Sigurði Kára og Birgi Ármannsyni. Einstaklingshyggja heitir þetta. Sigurður Kári er lögfræðimenntaður, einhleypur og barnlaus, á sína eigin íbúð og bíl og strögglar víst ekki við að borga námlánin. Hvern er hann fulltrúi fyrir á þingi? Ekki mig svo mikið er víst. Birgi Ármannsyni hef ég haft ímugust á síðan að ég var 18 ára á djamminu fyrir utan Tunglið heitna, og hann reyndi að nauðga mér í sundinu þar sem maður gekk in í Rósenberg. Ég veinaði að ég væri kommúnisti láttu mig vera, en hann æstist allur við það og sagðist mundu sannkristna mig. Þvílíkt og annað eins. Ég slapp naumlega. Svo mikið er víst að þessir piltar, Guðlaugur, Sigurður Kári, Birgir, Bjarni Benedikts gera málflutning ungra sjálfstæðiskvenna enn lekari. Hvernig geta þær svarið sig í hóp flokks sem kemur þeim ekkert við? Staðið við það að sjálfstæðisflokkurinn sé málsvari þeirra líka? Þær eru veruleikafirrtari en ég tladi mögulegt áður. Minn hóflegi feminsismi verður eiginlega ekkert svo hóflegur þegar ég hugsa um þetta. Þessar Tíkur (þær kalla sig það sjálfar) eiga nánast skilið skítinn sem þær fá frá flokksbræðrum sínum. Ég er glöð að ég sé að fara héðan. Ísland er ekki land sem ég vil búa á á meðan þetta er svona.

Enn finn ég voða lítið fyrir því að ég sé ólétt. Ég hélt að þetta væri meira mál en þetta ég verð nú að segja það. Ég er víst heppin að sleppa við allt þetta rugl, verki og ógleði, en málið er að ég sá fyrir mér að ég myndi gubba í tvo, þrjá mánuði og grennast svo mikið. Instant megrun, en þess í stað þá fitna ég bara. Qué tipico! En óléttan er nú kannksi ekki það semég hugsa mest um núna, nei, núna er það að telja niður dagana þangað til að ég get farið út til að stofna heimili með manninum sem ég elska. Hornafjörður er að verða eins og fangelsi, ég hélt að ég muyndi ekki komast í gegnum helgina (make it through, guð minn góður og ég á að kenna barninu íslensku!). Sem betur fer gat hann hughreyst mig í gengum símann og ég lofaði að vera hraust. Enda er það þannig séð þessi vika sem ég þarf að druslast í gegnum, svo er þessu svona þannig séð lokið. Svo talaði ég aðeins við pabba sem lét mig lofa því að ég verði góð við David. Það væri svo leyðinlegt þegar konur væru alltaf að nöldra. Ég er eiginlega orðin hálfrugluð í þessu. Hvað er nöldur og hvað er ekki nöldur. Og er komin að þeirri niðurstöðu að karlmenn telja að bón um að gera eitthvað, alveg sama hvað, sé nöldur. Það má sumsé ekki biðja um að gera neitt því þá er maður farinn að nöldra. Hvernig virkar þetta þá eiginlega? Á maður bara að gera allt sjálfur og vona að hann komi og hjálpi af sjálfsdáðum eða á maður bara að sleppa því að gera allt? Þetta er flókið og ég þarf sjálfsagt að fæntjúna þetta sjálf með mínum manni. Það sem virkar hjá einum virkar kannski ekki hjá öðrum.

föstudagur, 9. maí 2003

Jæja, Dave er búinn að finna handa okkur hús, sem hljómar bara nokkuð vel. Ég var spennt að vera að fara áður en nú get ég bara ekki beðið. Ég get leikið mér í allt sumar við að koma okkur fyrir þannig að vel fari um okkur þrjú. Nesting. Er eitthvað skemmtilegra en það?

miðvikudagur, 7. maí 2003

Ég er með skringilega verki og búin að vera með í nokkurn tíma, svona eins og ég sé að breytast eitthvað. Ég var eiginlega orðin hálfáhyggjufull yfir þessu öllu saman, en las svo á meðgöngu.is eða eitthvað að þetta væri liðböndin farin að gefa eftir. Eithvað til að liðka fyrir einhverju öðru. Mér finnst þetta allt enn jafn merkilegt. Ég á að svo að mæta í sónar 2. júní klukkan hálf fjögur. Það er að ég helst það mest spennandi akkúrat núna. Verst að Dave kemst ekki með, við þurfum að fara aftur saman þegar ég er komin út. En ég get heldur ekki hugsað mér að fara ein. Mamma verður úti og kemst ekki með, pabbi var ekkert of spenntur þannig að þá er það að sjá hverjir af vinum mínum eru lausir þennan tíma.

Annars þá sagði Dave í gær að vonandi væri hann búinn að finna hús, hann fær að vita hvort það verði laust á réttum tíma núna á föstudag. Það verður nú fyndið að búa í húsi í Wales. Ég er ekkert viss um að ég sé alveg að fatta (hí hí mamma, ertu núna "alveg að fatta" hvað alveg að fatta þýðir?) hvað ég er að fara út í. Land, borg,maður, barn, hús..allt nýtt. Og nú er ég búin að ákveða hvað ég vil gera þegar ég er orðin stór og það er nýtt líka! Er þetta ekki allt skemmtilegt?

þriðjudagur, 6. maí 2003

Ég keypti mér sígarettupakka á fimmtudaginn og reykti um helgina. Fékk svo samviskubit dauðans og lagði pakkann frá mér. (Virðist samt ekki hafa tímt að henda honum). Svo áður en ég vissi af í morgun var ég búin að kveikja mér í einni yfir morgunsjónvarpinu eins og vaninn var á meðan að ég reykti. Ég er ekki byrjuð að reykja aftur, þetta er bara tímabundið setbakk, enda er jafn gróið í mig og aðra hversu slæmt það er að reykja á meðgöngu. Kona sem reykir með bumbuna út í loftið er starað á með fyrirlitnigarsvip og hún má jafnvel eiga von á að fá athugasemdir frá meðborgurum sínum. Ekki Hulduömmu þó. Ég held að henni finnist hálf kjánalegt allt umstangið í kringum barneignir í dag. Hún reykti allan tíman með sínar dætur þrjár og fór ekki til læknis fyrr en hún átti börnin. Ekkert verið að standa í þessari endalausu mæðraskoðun, gleypandi vítamín í mæðraleikfimi. Þá aftur á móti voru konur sjúklingar á meðan á barnsburði stóð. Og þurftu að dúsa heillengi á spítalanum eftir á. Núna rjúka konur heim eftir það sem er eðlilegasti hlutur í heimi. Þannig að þá var meðganga ekkert til að kippa sér upp við en fæðingin sjálf læknisefni, meðan núna er maður í smásjá í 9 mánuði en á svo að sjá sjálfur um fæðinguna. Merkilegt.

mánudagur, 5. maí 2003

Ég er alltaf að verða stressaðri og stressaðri yfir tilhugsuninni að verða mamma. Ég sat heima í grkveldi og beið eftir því að mamma mín myndi hringja í mig. Mér finnst nefnilega að hún eigi að tjékka á litlu stelpunni sinni sem er ein úti á landi svona nokkuð reglulega. Ég hugsa sjaldnast út í að hún og pabbi séu kannski upptekin, nei, þau eiga að setja mig í sæti 1, 2 og 3 og svo mega þau gera sína hluti. Ekki það að ég sé ekki þakklát fyrir allt sem mamma og pabbi gera fyrir mig, en ég veit líka að ég tek þau dálítið sem sjálfsögðum hlut. Er ég tilbúin í svona meldingar fyrir dóttur mína næstu 30 árin? Það veit guð að ég vil gefa henni allt sem mamma mín og pabbi hafa gefið mér en er ég ekki allt of sjálfselsk til þess? Þetta er allt svo flókið. Ég er stressuð yfir þessu en get samt á hinn bóginn engan vegin beðið. Það verður nefnilega líka örugglega ógeðslega gaman að komast að því hvort ég geti gert eins vel og foreldrar mínir í uppeldinu. (Ha ha, hvort var ég að hrósa þeim eða sjálfri mér?? :)

föstudagur, 2. maí 2003

Þetta var nú mikið merkilegur fundur hjá ljósmóður á miðvikudag. Ég er nú búin að vera hissa síðan. Ég fékk nefnilega að heyra hjartslátt barnsins míns. Ljósan setti eitthvert tæki á magann á mér og skyndilega heyrðist það sem gat ekki verið annað en hraður hjartsláttur, mér varð svo um að ég fór að gráta og hlæja, bæði í einu. Henni litlu minni varð þá svo um við lætin í mömmu sinn i að hún fór í feluleik og við vorum heillengi ða finna hana aftur. Hún er því annað hvort alveg svakalega feimin, eða svona spéhrædd. Ég verð nú að segja að þetta er einhver mest lífsreynsla mín hingað til. ég trúið því ekkert svona þannig séð að það væri barn þarna, en núna finn ég það svo engin vafi er á. Hún er þarna inni í mér, syndandi um, með öran hjartslátt, bíðandi eftir að verða nógu stór til að koma út. Þetta er svona smá reality tjékk. Ég og Dave erum að verða foreldrar einhvers. Sú ábyrgð sem núna liggur á okkur að vera þessu barni góðir foreldrar er einvhern vegin orðin raunveruleg. Það kemur heil mannvera til með að kalla mig mömmu það sem eftir er. Ég veit ekki hvort ég get dílað við þetta. Hvernig fer fólk að því að gera þetta svo vel sé?