þriðjudagur, 13. maí 2003

Ég fann voða mikið fyrir henni í gærkveldi, ég veit ekki hvort að það var vegna þess að ég var búin að vera að setja í og draga til kassa, eða bara vegna þess að hún var að stússast eitthvað sjálf, en ég var allavega með stingi í gærkveldi. Fór reyndar dálitið óvænt á tojarann í morgun, ætli að það hafi fremur verið það? Hvur veit í þessum heimi hér? Hvað sem því líður þá virðist sem svo að þetta barn komi til með að eiga hálskólamenntaða móður. Ég fékk póst frá Guðna um að ritgerðin væri fullboðleg sem 10eininga ritgerð, ég þyrfti einungis að lagfæra uppsetningu. Ég útskrifast sumsé. Það barn hefur óneitanlega verið lengur í maganum á mér en það sem er þar núna. Ég var síðast í enskudeildinni veturinn 97-98 og hefði átt að útskrifast þá. Svo leið bara tíminn og ég kom mér aldrei að þessu þó svo að með þeim vetri meðtöldum þá hafi ég verið skráð 4 eða 5 sinnum í að gera þetta. Þannig að það er óneitanlega mikill léttir að hafa lokið þessu af. BA er náttúrulega bara orðið lágmark í dag. Og ekki spillir fyrir að þetta hjálpar í þeim starfvettvangi sem ég hef fengið svona mikinn áhuga á að undanförnu. Og ég er eiginlega líka dálítið ánægð með að hafa skrifað 10 eininga ritgerð, hún er bara nokkuð vegleg svona þegar á allt er litið. Og skrifuð á fáránlega stuttum tíma, ég eyddi örfáum dögum í að skrifa hana, heilu mánuðurnir fóru hinsvegar í að hugsa um hana.

Engin ummæli: