miðvikudagur, 28. september 2011

Vúhú!
Í stað þess að virða fyrir sér það sem ég hef gert hingað til og flokka það í "góð tímabil" og "slæm tímabil" er mjög mikilvægt að skilja að ég sé þetta alls ekki þannig. Ég sé þetta allt sem þróun. Þetta er allt ferli þar sem allt það sem hefur gerst á einhvern rétt á sér.

Ég ætla núna að halda því fram blákalt að megrunarkúrar eru nánast eina ástæðan fyrir offituvandamáli nútímans. Síðan megrunarkúrar komu til sögunar höfum við gert lítið eitt nema að fitna. Við erum gerð þannig að líkaminn ver sig gegn hungursneyð og um leið og "viljastyrkurinn" dvín eftir nokkra daga á hvítkáli og sjeik hrópar líkaminn á næringu og flestir byrja að troða í sig sem enginn væri morgundagurinn. Og sitja svo eftir með sárt ennið og kenna sjálfum sér um. Að viljastyrkinn hafi ekki verið nægilegur. En það er ekki manneskjan sem bregst, það er kúrinn. Eftir allt þá töldu nasistar í Auswich-Birkenau að 900 kalóríur á dag væru undir hungurmörkum. Samt eru enn til megrunarkúrar sem mæla með 800-1200 kalóríum á dag! Nei, það er ekkert að viljastyrknum hjá fólki þegar það gefst upp á kúrnum.

Það er ólíklegt að öll séum við tilfinningahræætur. Um leið og ég er sannfærð um að mikil hluti offitusjúklinga (og þá í stórum hluta konur) séu að borða af einmanaleika, depurð, leiðindum eða stressi, þá getur bara ekki verið að allar nútímafitubollur búi yfir einhverju lamandi andlegu áfalli sem veldur ofáti. Sum okkar eru bara löt og gráðug og þá þarf að díla við vandann út frá því.

Þegar ég byrjaði á þessu öllu saman þá byrjaði ég í megrunarkúr, ég kallaði það lífstíl og kúrinn var mín eigin uppfinning en engu að síður þá var ég að fylgja settum reglum. Síðan þá hefur þetta allt saman þróast og breyst hjá mér. Og akkúrat núna er ég komin á einhvern stað þar sem ég er eins hamingjusöm og sátt og ég held að ég bara geti orðið. Það er eins og að ég sé búin að ná markmiðinu. Mér líður satt best að segja þannig. Nú snúast markmiðin mín um eitthvað miklu mikilvægara en tölu á vigt.

Ég er sannfærð um að það sé ekki hægt að komast á þennan punkt sem ég er á núna án þess að ganga í gegnum þetta ferli.. Ég veit hvað það er sem gerir það að verkum að ég hef getað haldið spikinu af mér í allan þennan tíma. Og ég get líka sagt ykkur hvað það er. En ég er líka alveg viss um að með þá vitneskju að vopni þurfið þið samt líka að ganga í gegnum ykkar ferli og fatta það sem ég get sagt ykkur núna sjálf. Þessi djúpstæða breyting sem hefur átt sér stað á viðhorfi mínu gagnvart sjálfri mér, gagnvart mat og hreyfingu er lykillinn að þessu öllu saman. En sú breyting hefur átt sér stað í kjölfarið á gífurlegri vinnu. Ég get prédikað þangað til að ég verð fjólublá í framan að megrunarkúrar séu verkfæri djöfulsins en ég held samt að flest ykkar sem lesi séuð á einhverjum kúr. Sem er fine and dandy. Svo lengi sem þið lofið mér að þegar að kúrnum lýkur, þegar líkaminn gefst upp, að þið haldið áfram að vinna vinnuna og komist á næsta stig. Þar sem þar hefur orðið varanleg breyting á viðhorfum til þess hvers sem maður borðar og hvernig maður borðar. Það er frábært að vera hérna. Sól og sangría.

þriðjudagur, 27. september 2011

-Ef þú gerir það sem þú hefur alltaf gert, færðu það sem þú hefur alltaf fengið. 
                                                                                                                Ókunnur

mánudagur, 26. september 2011

Í allan dag er ég búin að stara út um skrifstofugluggann. Veðrið var alltaf að verða betra og betra, það sem byrjaði sem frekar grámóskulegur haustmorgun var óðum að breytast í sólríkan sumardag. Ég hafði planað að hlaupa í fyrramálið en eftir því sem leið á daginn varð löngunin til að komast út meiri og meiri. Fyrsta æfingi í þessari viku er ein af þessum sem er yfirfull af valhoppi og hraðabreytingum og allskonar fram og tilbaka æfingum og ég sá fyrir mér að ég þyrfti að hafa dagsbirtu til að sjá til hvað ég væri að gera. Hér er orðið svartamyrkur klukkan 5 á morgnana þegar ég er að hlaupa. Lausnin lá þessvegna í augum úti; drífa mig út í hlaup þegar ég kæmi heim úr vinnu.

Það var ekki eftir neinu að bíða og um leið og ég kom heim dreif ég mig í gallann og út. Hitaði upp með því að hlaupa rólega í 20 mínútur og svo hófust nokkuð stífar hoppæfingar. Þegar upp var staðið hafði ég hreyft mig í 58 mínútur og farið yfir 7.66 km. Og brennt 640 kalóríum. Ekki að ég sé að telja þær svo sem. Það sem ég tel er tilfinningin eftir 10 mínútna hlaup á meðan ég er enn að finna taktinn og rétta andadráttinn. Þangað til ég finn það er ég uppfull af neikvæðum tilfinningum um að ég geti þetta ekki. En svo smellur eitthvað og ég finn rétta taktinn og ég get bara notið þess að hlaupa. Í dag fór ég alveg nýja leið, hljóp í kringum rúgbý völlinn og um skógarslóða. Sólin skein, fuglar sungu og ég fann í hverri einustu frumu líkamans hvað ég er lukkuleg manneskja.  Að ég hafi getað sleppt öllum afsökununum og bara byrjað að gera og haldið því svo áfram er í raun og veru alveg ótrúlegt. Just do it. Þetta er ekkert flóknara en það. Just do it.

sunnudagur, 25. september 2011

Sunnudagstilraunaeldhúsið fór bara beint á Pressuna, setti það ekki inn sem pistil hér. Er líka búin að búa til linsubauna og hvítlaukssalat til að fara með í vinnuna á morgun og þessar rósmarín múffur henta svakalega vel með sem meðlæti. Hlakka strax orðið til að fá hádegismat á morgun! Best að fara í heimanám stúss með Láka núna, maður verður víst að gera lexíurnar sínar ef maður ætlar að verða geimfari.

föstudagur, 23. september 2011

Ég fór aðeins í Tesco eftir vinnu í dag. Föstudagur og sólin í glampandi stuði og mig vantaði svona eitt og annað fyrir helgina. Ég gerði hræðileg mistök um síðustu helgi við tilraunir til að búa til gnocchi úr gulrótum (pjökh!) og um þessa helgi hef ég í hyggju að gera engar tilraunir, bara halda mig við gamalt og gott. (Kannski að ég prófi eina hugmynd sem felur í sér blómkál, egg, skinku og grana padano, sjáum til). Það er fátt sem mér þykir skemmtilegra en að fara í létt matvöruinnkaup. Bara ég og karfa og fimm hlutir á listanum og nógur tími til að skoða allskonar sultur og hveiti og korn og sósur og osta. Og þar sem ég rölti um búðina kom ég að pólsku deildinni. Og ég týndi mér alveg innan um allskonar pylsur, osta, kæfu og prins póló. (Ó já mæ frend, Prins Póló!). Sá svo glitta í glerkrukku með einhverju fjólubláu og kunnuglegu. Jú, rauðkál. Danskt rauðkál. Sem ég er að láta fólk bera með sér frá Íslandi. Og það fæst bara á undir pundi fyrir krukkuna í Tesco. Ég skoðaði hilluna betur og fann þar líka súpujurtir og steiktan lauk og saltlakkrís. Þannig að héðan í frá er harðfiskur það eina sem ég þarf sent að heiman. Jah, nema að Tesco setji upp Nígeríu deild og ég fái bara skreið beint í æð.

fimmtudagur, 22. september 2011

thumbs up!
Í 30 ár er ég búin að vera að bíða eftir töfradeginum. Deginum sem ég verð mjó. Það sem kemur til með að gerast daginn sem ég verð mjó hefur breyst með árunum. Allt frá að finna ástina og verða rokkstjarna upp í að fá óaðfinnanlegt tískuvit, þurfa aldrei framar að raka lappirnar, fá glansandi hár og allt út í að finna frábæra vinnu. Allt þetta gerist daginn sem ég verð mjó. Og dagurinn sem ég lét af þessum draumi er besti dagur lífs míns hingað til. Þegar ég gerði mér grein fyrir þvi að ég hef stjórn á öllu þessu sjálf, og það hvort heldur sem ég er mjó eða feit, breyttist allt. Ég er hætt að bíða og ég geri. Ég er ekki að segja að ég sé búin að fatta þetta allt saman og ég upplifi svo sannarlega slæma daga. (Sjá fyrradag) En ég er að gera allt á mínum eigin forsendum og ég hlusta á innri röddina mína sem vill mér bara vel. Og hún verður sterkari með hverjum deginum. Ég fæ auðvitað enn taugaveiklunarköst yfir því að vera ekki á plani. En málið er að það er kominn heill mánuður núna og ég hef ekki fitnað. Ég hef ekki tapað mér í ofáti. Ég hef ekki misst sjónar á neinum af markmiðum mínum. Ég hef treyst sjálfri mér í heilan mánuð. Og ég þarf ekki lengur að bíða eftir töfradeginum. Allir mínir dagar eru núna töfradagar.

þriðjudagur, 20. september 2011

Þetta hefur alltaf snúist um að finna jafnvægi hjá mér. Þegar ég skilgreini jafnvægi í lífi mínu eins og það lýtur að mat þá myndi ég segja að jafnvægi væri náð ef ég borða þegar ég er svöng og þar til ég er mett, þegar ég borða hreinan mat 98% tímans og nýt svo hinna tveggja prósentanna alveg niður í rassgat samviskubitslaust. Þetta ætlar að vera erfiðara í alvörunni en þetta virkar svona á blaði. Ég hef núna ekki vigtað mig í langan tíma. Og samkvæmt fötum og myndum hef ég ekki fitnað neitt. En ég hef líka greinilega ekkert lést. Og nú er ég farin að spá í því hvort það sé eitthvað til í því að til að ná jafnvægi á einum stað í lífinu þarf kannski einhver annar hluti þess að halla á eina hlið. Mig langar ekkert meira en að lifa planlaust. Ég á nefnilega ofboðslega erfitt með að fylgja plani og byrja ekki að hugsa um planið sem megrun. En planlaust er ég taugveikluð og stressuð un að allar ákvarðanir sem ég tek séu kolvitlausar. Ég sé þessvegna að til að ná þessu jafnvægi þarf ég að búa til þá hugmynd að planið sem ég fylgi sé ekki megrun. Ég er að vinna í því. Mér dettur helst í hug að setja á planið stöku kitkat, eða franskbrauðsneið. Og þá á þriðjudegi ekki um helgi. Svona planað spontaneity. Ég þarf að tækla helgarnar hjá mér. Ég er örlítið slösuð núna, hef í nokkrar vikur verið að meiða achilles tendon (sinina aftan á ökklanum). Ætlaði bara að hlaupa mig í gegnum sársaukann en hef núna verið skipað að slaka á í nokkra daga. Og panikkaði um leið. Ég hef nefnilega verið að nota hlaupin sem afsökun fyrir ofáti. Og nú þegar ég er ekki að hlaupa verð ég að hætta að éta. Það er ekki jafnvægi. Nú er ég algerlega sannfærð um að ég sé komin á þann stað í þessu ferli mínu sem segir að mér er skítsama hvort ég sé 100 kíló eða 60. Það eina sem skiptir máli er að ég sé nógu hraust til að stunda þá líkamsrækt sem ég hef gaman að í það og það sinnið. Akkúrat núna eru það hlaup. Og ég finn það að til að hlaupa eins og ég vil hlaupa þá þarf ég að vera léttari en ég er núna. Ég þarf þessvegna að fara að spá í hvernig ég hef í hyggju að gera þetta. Og hvað ég er eiginlega að gera.

Ég fæ oft bréf og kveðjur frá hinum og þessum þar sem ég fæ að heyra að ég sé fyrirmynd og annað fallegt. Ég er afskaplega stolt og ánægð þegar ég heyri svoleiðis. En þetta er líka tvíeggja sverð. Þetta þýðir líka að í hvert sinn sem ég tek lélega ákvörðun finnst mér eins og ég sé ekki bara að svíkja sjálfa mig heldur líka allt þetta fólk sem hefur trú á mér. Hverslags  fyrirmynd er það eiginlega sem stendur bara í stað og léttist ekki svo mánuðum skipti? Ég spyr sjálfa mig líka hvert ég sé að fara með þetta allt saman. Hvað ég sé fyrir sjálfa mig í framtíðinni  og oftast er svarið samofið því að ég þurfi að léttast um 10 kíló í viðbót.

Mig langar ekkert meira en að gefa sjálfri mér tíma til að halda áfram að kanna þetta ferli sem ég er í núna, að treysta líkama mínum til að segja mér hvaða næringarefni ég þarf. En ég þarf líka að taka á þeim hluta af sjálfri mér sem hlustar ekki á líkamann og treður í sig súkkulaðiköku. Ég er ekki í jafnvægi akkúrat núna.

Mestmegnis held ég að ég þurfi að láta af dramatíkinni og hætta að hugsa svona mikið. Kannski að ég þurfi bara að anda aðeins. Inn um nefið, út um munninn.

sunnudagur, 18. september 2011


Ég bý í Wales. Og í Wales rignir. En það skiptir litlu máli þegar maður er með hlaupabólu og á peysu sem blotnar að utan en er þurr að innan. Hverslags vísindi eru það eiginlega? Ég held meira að þetta séu galdrar. Hlaupapeysa hönnuð af galdraköllum. 7 km á 47 mínútum í morgun. Ég er alltaf að spítta í. Og þegar ég hleyp verður allt í lagi með allt hitt draslið. Ég get sett það allt i samhengi og ég sé stóru myndina. Með hausinn í andartakinu. Hvílík gleði. Lífsins tóník og elexír.

laugardagur, 17. september 2011

Það allra, allra besta sem ég man eftir sem lítil stelpa var það sem hét næskvöld heima hjá mér. Nice evening at home. Þá fórum við pabbi út í sjoppu, keyptum einn appolló lakkrís poka og 100 gramma Nóa Síríus súkkulaði plötu með hnetum og rúsínum. Einstaka sinnum keypti pabbi líka það sem hann kallaði eitursnakk, salt og pipar kryddað snakk frá Maruud. Svo var nammið sett í skál og við fjölskyldan horfðum saman á sjónvarpið, örugglega Crosby fjölskylduna, og höfðum það næs. Að mestu leyti er þetta góð minning, ég hef alltaf notið stunda með foreldrum mínum og bróður og mér finnst við vera góð eining. En ég man líka hversu mikilvægt það var fyrir mig að fá það hlutverk að setja nammið í skál og koma með það upp því þá hafði ég tækifæri til að éta upp úr skálinni nokkrum molum meira en þau hin. Og þessi æsingur í að fá sem mest af góðgætinu er það sem ég er enn að berjast við. Hrein og bein græðgi. Og svo það sem ég spyr sjálfa mig stanslaust að hvaðan þessi æsingur kemur. Var það af því að meira segja á þessum aldri var ég búin að gera mér grein fyrir náttúrulögmálinu sem segir að fyrir hverja megrun er óhjákvæmilegt ofát? Að það að gera sætindi að forboðna ávextinum bjagaðist viðhorf mitt svona svakalega? Allavega, þetta er núna stóra verkefnið mitt. Að taka forboðna stimpilinn af sætindum til að sannfæra sjálfa mig um að ég þurfi ekki að oféta þau þegar ég fæ, að nammið verði alltaf til og að ég geti fengið mér hvenær sem ég vil. Ég eigi bara að fá mér þangað til ég er södd. Þetta hefur gengið illa. Það er ekkert smávegis verkefni að breyta 30 ára gömlum hugsunarhætti. En ég ætla ekki að gefast upp.

Svo var það hitt. Ég fékk Appolló lakkríspoka og Nóa súkkulaði sent frá Íslandi um daginn. Og pokinn er agnarsmár. Það eru tvær lúkur í honum, ef það. Súkkulaðið hafði reyndar þyngst um 50 grömm, er orðið 150 gramma stykki. Deildu þessu á 4 og þetta er ekkert mikið nammi. Ég skil ekki alveg afhverju ég var með samviskubit yfir þessu í gamla daga. Ef maður vissi þá sem maður veit núna og allt það...

fimmtudagur, 15. september 2011

Afmælis-og eða jólagjafalistinn. Voðalega sem mig langar alltaf í allskonar dót.

Garmin 305 Eftir miklar pælingar þá er ég komin á að þessi gerð henti mér og minum þörfum best. Ég sá það hjá Ólínu og Hörpu þegar við hlupum um Chester og það er mun nettara en ég hafði haldið. Og þó Nike+ græjan mín geri alveg sömu hlutina þá er það ekki jafn nákvæmt mælitæki. Mig vantar líka púlsmælinn. Fyrir verð er Garmin 305 það besta fyrir mig. Ég fæ svona herping í magann mig langar svo í það.

Nú þegar fer að kólna úti og færðin ekki sú hin sama og var í sumar vantar mig vetrarhlaupaskó. Adidas Kanadia  uppfylla mínar kröfur um verð og gæði og svo eru þeir lika geðveikt flottir.

Hvað get ég sagt? Mig langar bara í  Nike úlpa.

Ég hefði ekki trúað því sjálf að  Sokkar skiptu máli við hlaup en þeir gera það. Ég á tvenn pör af alvöru hlaupasokkum og vantar fleiri.

Ég stal húfu frá Lúkasi í fyrra en langar í mína eigin í ár. Húfa og vettlingar er náttúrulega lífsnauðsynleg til að halda heilsu þegar útivist er stunduð.

Foam roller er svona líka ljómandi sniðug aðferð til að ná úr vöðvum allri þreytu og hnútum. Ég hef líka lesið að foam rolling geti hjálpað svona hnéveiklingum eins og mér.

Og hitt er það svo að það eru kenningar sem segja að það sé betra fyrir hné að hlaupa berfætt. Ég er nú kannski ekki alveg komin á það að vilja spranga um með naktar tær en mig langar engu að síður voðalega til að prófa svona meira minimal hlaup. Svo eru þeir líka bara svo rosalega flottir. Og það er svo gaman eiga flott dót.
þriðjudagur, 13. september 2011

Ég eignaðist um daginn tvær nýjar hlaupapeysur. Báðar eru langerma til að geta hlaupið án þess að verða of kalt  nú þegar það er byrjað að kólna aðeins. Önnur er þunn og ætti að vera fín nú í september og október, hin er þykkari og úr einhverju töfraefni sem heldur manni heitum en er samt létt og þunn. Báðar eru þær með rennilás upp í hálsinn. Það er kannski ekkert merkilegt að eiga peysu með rennilás. En það sem er sérstakt við peysurnar er að á báðum er svona smávegis efnisflipi sem hylur rennilásinn. Og þegar ég sá það gat ég ekki annað en brosað af hamingju. Alvöru hlaupapeysur fyrir alvöruhlaupara. Þetta eru ekki bara peysur með rennilás. Þetta eru peysur sem hafa farið í gegnum þróunarferli hjá hönnuðum, hjá loftaflsfræðingumn, hjá reynslumiklum hlaupurum, hjá vísindamönnum. Allt til að passa það að litli rennilásinn nuddist ekki í hálsinn þegar maður hleypur. Og þegar rennilásinn er ekki fyrir manni þá getur maður bara hlaupið. Og hlaupið og hlaupið. Eða það var allavega það sem ég gerði í morgun. Og andvarpaði af hamingju þegar ég hugsaði um fínu peysurnar mínar sem voru samanbrotnar inni í skáp heima. Ég tími bara alls ekki að svitna í svona fínar flíkur.

mánudagur, 12. september 2011

Það má vera að ég hreinlega gubbi af spenningi akkúrat núna. Ég er búin að skrá mig í og borga þáttökugjald í 10 km kapphlaupi. Og þegar ég segi kapphlaupi þá meina ég kapphlaupi. Ég er nefnilega núna komin í framhaldshópinn í Up & Running og það er aðeins meiri alvara í 10 km þjálfuninni. Aftur þurfum við að taka þátt í hlaupi þegar námskeiðinu lýkur til að marka hversu langt við höfum náð. Og í þetta sinnið samþykkir þjálfarinn ekki svona virtual hlaup eins og ég gerði fyrir 5km lokaverkefnið. Við verðum að finna alvöru hlaup. Helst helgina 5-6. nóv, en hvenær sem er þar í kring er í lagi. Og að sjálfsögðu er ekkert um þessi skemmtilegu Hallóween skemmtihlaup hér í grenndinni á þessum tíma. Ég bý í alvörunni í Rassgati og Bala. Eina skipulagða hlaupið nálægt mér er alvöru kapphlaup. Með takmarkaðri þáttöku 300 manns, peningaverðlaunum og medalíum.  Hér í Wrexham tökum við þetta af alvöru og festu. Í fyrra kom fyrsti maður í mark á rúmum 30 mínútum. (!!!). Fyrsta kona á tæpum 37. (!!!!!) Sá allra síðasti kom í mark á 76 mínútum og meðalhraði var uþb 62 mínútur. Ég er sannfærð um að ég geti gert þetta. Ég verð kannski síðust í mark en ég er harðákveðin í að ég geti þetta. Eina vandamálið er að hlaupið er ekki fyrr en 4. desember. Mig vantar enn að fatta upp á hvað ég geri til að geta skráð 10 km hlaup í nóvember. Það er víst engum ofsögum sagt að ég sé spennt. Hún hafði rétt fyrir sér þjálfarinn; það fókusar alla þjálfunina að hafa kapphlaup að stefna að.

sunnudagur, 11. september 2011

Ég reyni eftir fremsta megni að borða hreint. Og til að borða hreint er best að útbúa matinn sinn sjálfur. Þar sem morgunmatur er mikilvægasta máltíð dagsins er sérlega mikilvægt að leggja alúð við hann. Ég trúi ekki öðru en að þessar múffur eigi eftir að vera frábært eldsneyti fyrir daginn, bæði fyrir sál og líkama. Grunnhugmyndin er haframúffurnar mínar en eru hér eiginlega í öðru veldi. Haframúffur fyrir fullorðna. Og með bolla af flóaðri sojamjólk og þéttu kaffi frá Súmötru hreinlega táraðist ég af hamingju yfir því að hafa lært nógu mikið til að geta greint að þetta er svo miklu, miklu betra en Lucky Charms.


1 1/2 bolli grófir hafrar
1/2 bolli heilhveiti
2 msk flax (malað) Þessu má sleppa, mér finnst gott að hafa það með fyrir góða fitu og almenna hollustu
1/4 bolli sólblómafræ (eða graskersfræ eða hvað sem er)
1/4 bolli ristaðar pekanhnetur, gróft hakkaðar (eða hvaða hnetur eða möndlur sem er, vil bara benda á að rista þær er milljón sinnum betra)
1/4 bolli þurrkaðir ávextir (ég notaði blöndu af rúsínum, apríkósum og kirsuberjum)
1/4 bolli cacao nibs (þeim má sleppa eða nota öggulítið af sykurlausu súkkulaði)
1/2 tsk gott salt
1 tsk kanill
1 tsk lyftiduft
Allt í skál og blandað saman.

1 egg
11/2 bolli sojamjólk (eða mjólk sem til er, soja er bara svo góð af því að það er svona "feitt" bragð af henni. En það er nú kannski bara ég.)
rúm tsk vanilludropar
1 væn msk kókósolía
1/4 bolli pálmasykur (eða 2 msk hunang)
Allt blandað saman og svo blandað nett við hafrablönduna. Sett í sílíkon muffins form og bakað í 30 mín við 190 gráður. 8 múffur allt í allt. Blandan virkar þunn og blaut en treystið mér, þær eru æði.

laugardagur, 10. september 2011

Lúkas byrjaði aftur í sundtímum í morgun. Sundkennsla er ekki hluti af skólastarfinu og við foreldrarnir sjáum um að finna sundtíma og koma honum þangað. Honum finnst þetta sem betur fer voðalega gaman þannig að ferð til Wrexham á laugardagsmorgni er bara eitthvað til að hlakka til. Við notum oftast tækifærið og gerum eitthvað í bænum og endum svo oftast á kaffihúsi. Það er svo gott að fá góðan kaffibolla. Í dag fórum við á Starbucks. Ég hafði haft í hyggju að fara á Caroline´s, nýtt, sjálfstætt rekið kaffihús sem ég hafði tekið eftir fyrir nokkru. Það leit voða vel og svona "lífrænt" og "local" út og virtist líka vera bakarí með fjarskafallegt brauð til sölu. En þegar við skoðuðum nánar þá var að eins og mér finnst svo oft vera með veitingastaði hér í Bretlandi, það leit allt vel út á yfirborðinu en svo ekkert í það varið þegar á hólminn er komið. Þannig var auglýst "Expresso" til sölu. Nú má kalla mig snobbaða að vilja hafa þetta rétt en espresso er stafað með essi, ekki exi. Þegar ég spurðist eftir súrdeigsbrauði þá vissi bakarinn ekki um hvað ég var að tala og þegar ég spurði svo eftir grófu og eða kornóttu brauði þá var heilhveitibrauð það besta sem boðið var upp á. (Það er í alvörunni kominn tími á að ég fari að opna mína eigin matvöru-veitingasölu.) Allt brauðið var bara hvítt brauð í hringlaga dulargerfi og ég varð enn einu sinni fyrir vonbrigðum. Við röltum því á Starbucks þar sem ég veit allavega hvað það er sem ég fæ. Þar var svo auglýstur nýr kaffidrykkur fyrir haustið; Roasted caramel macchiato. Nammi namm hugsað ég með mér um leið, kaffi, karamella, feit mjólk. Æðislegt. En sem betur fer hafði ég smá umhugsunarfrest í röðinni. Ég hef að undanförnu bara fengið mér soy latte. Er alveg hætt í þessu sæta drykkja sulli. Það var nefnilega svo komið að ég pantaði mér grande skinny caramel latte macchiato og fannst bara ekki gott. Hann var of sætur. Og ég hugsaði með mér að heilinn í mér hefur ekki náð að fylgja eftir líkamanum. Bragðlaukarnir mínir hafa breyst svo mikið undanfarna mánuði að ég er bara ekki hrifin af sætu lengur. En heilinn hugsar enn að mig langi í sætindin. Þannig ætla ég að hætta á landráð og lýsa því yfir að mér finnst Nóa súkkulaði eiginlega bara orðið vont. Það er alltof ljóst og það er í alvörunni hægt að bryðja sykurinn í því. Nei, látið mig miklu frekar fá einn eða tvo mola af Green & Black´s dökku espresso súkkulaði en heilt kíló af Nóa. En heilinn minn er ekki búinn að fatta þetta þó líkaminn sé með þetta á hreinu. Þannig langar mig rosalega mikið í súkkulaðið sem er uppi í skáp núna þrátt fyrir að vera búin að gera mér grein fyrir því að mér finnst það ekki gott. Hvaða geðveiki er það eiginlega?

Líkami minn veit nefnilega miklu betur en heilinn minn. Síðustu nokkrar vikur er ég búin að vera að gera tilraunir að lifa lífinu planlaust. Það er að segja ég borða þegar ég er svöng, og ég borða það sem mig langar í   og ég hætti að borða þegar ég er södd. Þetta er öfugt við að borða fyrirfram ákveðinn skammt af ákveðnum fæðutegundum á vissum tíma dagsins. Ég er enn skelfingu lostin yfir þessu, ég á enn rosalega erfitt með að finna fyrir hungri, og enn erfiðara með að skynja þegar ég er orðin södd. En ég er líka harðákveðin í að halda þessu áfram. Ég hef ekki lést neitt á þessum vikum  en ég hef heldur ekki þyngst eins og ég hélt að myndi gerast. Ég ætlaði ekki að treysta sjálfri mér að lifa svona planlaust. Eins og ég væri krakki eða stjórnlaus hálfviti. En það er bara svo mikilvægt að treysta sjálfum sér. Auðvitað veit ég hvað er mér fyrir bestu og það er bara af hinu góða að segja við sjálfa mig að ég sé nógu góð manneskja, nógu vel gerð til að velja það sem er best fyrir mig. Það sem hefur helst gerst er að þegar ég er svöng þá langar mig í mat. Mig langar í grófa hafra og grænmeti og gott kjöt og gæða mjólkurvöru. Þegar ég er svöng þá langar mig ekki í nammi. Og þar hef ég lokaverkefnið mitt. Ég borða þegar ég er svöng og ég borða góðan mat þegar ég er svöng og ég borða hann þangað til ég er södd. Samkvæmt þessu er ekki pláss fyrir nammi af því að mig langar ekki í það þegar ég er svöng og ég er að reyna að borða ekki þegar ég er ekki svöng. Það, eins og allt þetta hjá mér, gengur upp og ofan. Ég er t.d enn skilyrt til að hugsa að það sé laugardagskvöld og X-Factor í sjónvarpinu; þá fær maður smá súkkulaði og snakk. Og langa rosalega í það þó ég sé ekki svöng. Og fá mér það þvert betri vitund. En ég tek að minnsta kosti meðvitaðar ákvarðanir um það sem ég geri og skelli skuldinni ekki á hömluleysi eða skapgerðarbresti. Og þetta er í alvörunni allt að koma hjá mér. Eins lengi og það tekur.

miðvikudagur, 7. september 2011

Þegar ég vaknaði í morgun eygði ég vigtina mína með fjandsamlegum svip. Þrátt fyrir að hafa bara borðað eins og flest eðlilegt fólk alla helgina þá drakk ég tvímælalaust meira áfengi en eðlilegt fólk (eða meira áfengi en eðlilegt fólk ætti að drekka) og eins og alþjóð veit er fátt hitaeiningaríkara en áfengi. Mér hafði nú svosem líka áskotnast örlítið af lakkrís og át góðan hluta hans á mánudagskvöld. Allt svona til þess fallið til að tryggja "nei hvur andskotinn!" viðbrögð á vigtinni. Ég hugðist þvi bara sleppa því að stíga á hana. En svo varð forvitnin fjandanum yfirsterkari og ég sté á tækið. Og fattaði að mér hefur tekist að breyta sambandi mínu við vigtina mína. Í fyrstu var ég háð vigtinni til að sjá kílóin fjúka. Mig vantaði að fá að sjá töluna breytast til að fá staðfestingu á að ég væri að gera rétt. Það er erfitt að nota fatnað til að mæla mun á tveggja eða þriggja kílóa tapi þegar maður er 130 kíló. Það sér ekki högg á vatni. En svo fór vigtin að vera mér fjötur um fót, hún fór að stjórna þessu öllu hjá mér; ég var brjáluð ef ég léttist ekki, ofurkát ef eitthvað fór. Og ég lét hana segja mér til um hvort dagurinn yrði góður dagur eða slæmur. Ég prófaði þá í þó nokkuð langan tíma að sleppa vigtinni og notaði aðrar aðferðir til að mæla árangur. Og sá tími var góður að því leytinu til að mér tókst að setja ákveðinn forvara við það sem vigtin sagði. En svo fannst mér aftur vera tími á að vigta mig. Ég saknaði rútínunnar og ég saknaði kunnugleikans. Og aftur fór ég að láta hana segja mér hvort ég væri glöð eða reið og pirruð. En að undanförnu hef ég tekið eftir að ég er hætt pirringnum. Ég vigta mig á hverjum degi, en ég er hætt að spá í töluna sjálfa. Ég nota vigtina meira til að skilja líkama minn, hvernig hann bregst við salti, við vatnsdrykkju, við svefni, við líkamsrækt og ýmsum fleirum þáttum. Í stað þess að einblína skelfingu lostin á TÖLUNA er ég farin að sjá dagleg flóð og fjöru líkamans og ég get betur stjórnað sjálf hvað ég geri. Þegar maður sér að það er hægt að þyngjast og léttast um fjögur kíló yfir daginn (já ég sagði fjögur kíló) þá skilur maður skyndilega betur hvað lokatalan, lokatakmarkið er hjákátleg. Og þá er ekkert mál að gera almennt hreysti og vellíðan að lokatakmarkinu.

þriðjudagur, 6. september 2011

Ég fékk mér fyrsta heita hafragraut haustsins í morgun. Eftir sólríka helgi í Chester þar sem drukkið var og étið út í eitt, var við hæfi að taka smá detox í dag. Og veðrið bauð upp á graut í dag. Ég hljóp 4 kílómetra á 32 mínútum og ætla að kenna svakalegu roki og lemjandi rigningu um hægaganginn. Já, það er ekki annað að sjá en að haustið sé komið til Wales. Og það var eitthvað svo traustvekjandi að setja hafra og vatn í pott, bæta kókósolíu út í og skreyta svo með flax og kókóskurli. Svona eins og þegar ég fyrst byrjaði að breyta lífsháttum mínum. Ég var eiginlega búin að gleyma hvað það er gott að fá heitan graut í kroppinn, hvað hann fyllir vel og veitir mikla vellíðan. Ég djúphreinsaði svo kofann, náði í skólabækurnar og setti niður drög að tillögu að mastersverkefni. Mér hefur alltaf þótt haustið góður tími til athafna og ég hef í hyggju að standa í stórræðum núna fram á næsta vor. Já, það er komið að heimsyfirráðum. Eða dauða.

föstudagur, 2. september 2011

Það er nú ekki margt í heimi hér í sem er betra en góðir vinir. Og ég er  svo lukkuleg að eiga að einn glæsta vinahóp sem sést hefur norðan Alpafjalla. Þollararnir mínir sem ég er búin að eiga að síðan ég man eftir mér, vináttan hófst á leikskóla. Og fyrr. Og við höfum alltaf gert eitthvað úr þvi þegar við hittumst sem hópur nú síðustu árin þegar forsendur vinskaps hafa breyst með tilkomu eiginmanna, barna, húsbréfa og annars óáran.  Það er semsagt komið að Þollaradegi. Í ár verður hann haldinn hátíðlegur í Chester og eiginmenn fá að taka þátt. Ég er búin að panta borð á nokkrum veitingastöðum, plotta út svaðalegt pöbbarölt, plana fótboltaferð á Wrexham v Kidderminster fyrir strákana, menningarlega söguskoðun um rómverskar minjar og smá athugun á Cromwell ásamt búðarölti og endalausum stoppum á kaffihúsum, pöbbum, börum, krám og knæpum. Ég geri ráð fyrir miklum hlátri, spjalli og stuði. (Og nú þegar við höfum mennina með er kannski hægt að ná mynd af okkur öllum saman í einu!)

Ég er búin að pakka, búin að senda barnið í pössun og er tilbúin. Nú skal dansinn hefja.